23.2.2007 | 10:44
Má bjóða kúluskít og blóðbergsdrykk?
Mikið fannst mér þessi frétt vera áhugaverð. Þarna eru nemar í Listaháskóla Íslands í samstarfi við íslenska bændur um vöruþróun, og eru að leita sameiginlega að leiðum til að auka verðmæti framleiðslu bændanna.
Geita- og blóðbergsdrykkirnir hljómuðu mjög spennandi, og hver myndi ekki vilja smakka á skyrkonfektinu?
Ég hef lengi haft mikinn áhuga á hinni svokölluðu "heimavinnslu" bænda. Því miður er þetta einstaklega óhentugt orð þar sem margir virðast halda að þarna sé verið að fjalla fyrst og fremst um heimaslátrun. En svo er ekki!
Ýmis verkefni hafa verið í gangi til að hvetja til þess að hérlendis spretti fram heimavinnsla og sala afurða beint frá býli, með svipuðum hætti og þekkist í nágrannalöndunum. Má nefna Beint frá býli, Matur er minning, og einnig hefur Lifandi landbúnaður (grasrótarhreyfing kvenna í íslenskum landbúnaði) sýnt þessu mikinn áhuga.
Í verkefninu Beint frá býli var markmiðið að fá bændur til að hefja heimavinnslu og sölu afurða beint frá býli. Í verkefninu Matur er minning er heimavinnsla og bein sala afurða tengd við matarferðaþjónustu (culinary tourism). Í matarferðaþjónustu er reynt að bjóða sem mest upp á matvæli sem eru framleidd á viðkomandi svæði en það hefur bara verið gert í mjög litlu mæli hingað til. Sem dæmi má nefna að á Kirkjubæjarklausturssvæðinu eru 4 mjög öflugir og stórir ferðaþjónustubændur en nánast öll matvæli sem eru í boði eru aðflutt. Svipaða sögu má segja frá Mývatnssveit og víðar og í verkefni Listaháskólans er einmitt verið að útbúa mat sem tengist Mývatni, hverabrauð sem mótað var eins og kúluskítur. Klausturbleikja hefur verið mjög vinsæl á Kirkjubæjarklaustri, - en ég er sannfærð um að miklu, miklu meira er hægt að gera.
Og hver myndi segja nei við lostæti eins og kúluskít og blóðbergsdrykk, með skyrkonfekt í eftirrétt?
Namm!
Skyrkonfekt og lostavekjandi geitamjólkurdrykkur afrakstur matarhönnuða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já, mikið væri gott að komast í sveitina núna og gleyma vandræðum Britney-spírunnar um stund. Bjartur í Sumarhúsum syngur "Don't try to fool me" í bæjardyrunum og stýfir svarfdælskan döndul úr hnefa. Döndlarnir voru búnir til úr ristlunum. Þeir voru ristir, skafnir upp og þvegnir. Síðan var þetta vafið upp, saumað utan um þindarnar, reykt og notað sem álegg á brauð. Bjartur hefði hins vegar gefið skít í kúluskítinn en tímarnir breytast og mennirnir með.
Steini Briem (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 13:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.