18.2.2007 | 13:56
Stoppum bankaokrið
Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur á undanförnu vakið athygli á hversu gífurlega vaxtatekjur og þjónustugjöld bankanna hafa aukist frá því þeir voru einkavæddir. Á fjórum árum, frá 2002-2006 hækkuðu vaxtatekjurnar úr rúmum 24 milljörðum upp í tæpa 131, eða um 435% og þjónustutekjurnar um 594% eða úr rúmum þrettán milljörðum króna upp í rúma 92.
Bankarnir hafa enn á ný brugðist við þessum tölum með því að kenna Seðlabankanum um. Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, sagði í viðtali við FBL: Bankarnir stjórna því ekki hverjir vextirnir eru í hagkerfinu. En stjórna þeir ekki hver vaxtamunurinn er á milli stýrivaxta Seðlabankans og bankanna? Stjórna þeir ekki líka hversu mikið þeir rukka í þjónustugjöld?
Allavega telur Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, að miðað við hagnað bankanna eigi þeir að geta boðið fólki miklu betri kjör. Hann segir:...stýrivextir Seðlabankans segja nákvæmlega ekki neitt um upphæð þeirra þjónustugjalda sem bankarnir eru að taka og það er vandamálið, það er vaxtamunurinn og þjónustugjöldin. Þótt talsmenn bankanna telji sig lítið hafa um vaxtamuninn að segja, þá hefur almenningur og stjórnvöld heilmikið um að segja hvort hvatt sé til aukinnar samkeppni í fjármálageiranum.
Því vil ég hvetja Jón Sigurðsson til aðgerða gegn fákeppni á bankamarkaði með því að auðvelda nýjum bönkum að koma til landsins og fólki að flytja sig á milli banka s.s. með því að fella niður opinbera gjaldtöku á lánum. Viðskipta- og iðnaðrráðuneytið hefur sýnt og sannað að það er fullfært um að laða erlend stórfyrirtæki til landsins og ég er sannfærð um að SE banken eða Danske bank hefðu bara gaman af því að keppa við Kaupþing og Glitni á heimavelli.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæl, Eygló !
Var þetta ekki fyrirséð, með einkavæðingu ríkisbankanna ? Átti þetta að koma fólki á óvart ?
Það er með eindæmum, þegar heiðvirðasta fólk, eins og þú; skuli bera blak af uppivöðslusemi nýfrjálshyggju- og einkavæðingar bolsévismans, stjórnarflokkarnir kyngja hverjum óhroða gjörða sinna, með alls lags óekta yfirbótasöng, s.s. Valgerður Sverrisdóttir og Jón Sigurðsson kyrja þessa dagana, í fjölmiðlum. !
Eygló ! Þú ættir að inna þessar vonarkindur þínar, áðurnefnda Valgerði, og svo hinn útúrsnúningameistarann, Jón Sigurðssson eftir;; RAUNVERULEGU HLUTVERKI SAMKEPPNISSTOFNUNAR OG FJÁRMÁLAEFTIRLITS og, hvenær fáum við, sem borguðum upp lán eldri kynslóðanna, eftir verðbólgutímabilið 1974 - 1990, okkar bætur greiddar úr Ríkissjóði, vegna gamalla sem nýrra afborgunarokurgreiðslna lána, í ríkisbönkunum ? Gætir þú grennslazt fyrir um þetta, fyrir okkur, sem fædd erum á árunum 1950 - 1970, og vildum gjarnan fá skýr svör, við þessum ójöfnuði verðbótanna á lán, á sama tíma afnumdar á laun landsmanna ?
Manndómsbragur væri að, þá svör fengjust við ofannefndu, að öðrum kosti skal ómark taka, að framboði ykkar Bjarna Harðarsonar, hér í héraðinu, tekur varla að nefna Guðna Ágústsson, hefir jafnan verið stórmeistari útúrsnúninganna og galgopaskaparins, hér á Suðurlandi og víðar. !
Með kveðju, úr Efra- Ölfusi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 16:32
Komdu fagnandi.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 18.2.2007 kl. 16:33
Fer þetta ekki töluvert eftir framboði og eftirspurn?
Íslendingar eru enn óðir í að taka lán fyrir allskyns bruðli þó að þjónustugjöld bankanna séu svona há. Fáum virðist enn detta í hug að spara peninginn til betri tíma.
Ágúst Dalkvist, 18.2.2007 kl. 18:22
Hvers vegna ekki að stofna nýjan banka eða sparisjóð sjálf, í staðinn fyrir að biðja erlenda banka um að stofna útibú hér? Það eru um 75 þúsund fjölskyldur í landinu og ef hver þeirra leggur eina milljón í púkkið, 250 þúsund krónur á mann, eru komnir 75 milljarðar í stofnfé. Ef við lánum fólki peninga á lægri vöxtum en aðrir bankar og sparisjóðir værum við ekki í vandræðum með útlánin en hvað með innlánsvextina? Þeir þyrftu að vera jafnháir eða hærri en innlánsvextir hjá öðrum til að fólk og fyrirtæki leggi inn hjá okkur. Vaxtamunurinn yrði því minni hjá okkur en við þurfum að nota hann til að reka bankann okkar, greiða til dæmis laun, skatta og húsnæðiskostnað. Ef þið haldið að þetta geti gengið skal ég leggja í púkkið.
Fólk tapaði milljörðum hér áður fyrr á því að eiga pening í banka og fáir voru svo vitlausir að gera það, aðrir en börn og gamalmenni. Græddur er geymdur eyrir, sagði gamla fólkið, en það var nú aldeilis ekki raunin. Fólk verður að læra að leggja fyrir til að eignast eitthvað, sérstaklega ungt fólk, í staðinn fyrir að kaupa til dæmis nýjan bíl 17 ára gamalt og borga hann upp á 7 árum fyrir verð tveggja nýrra bíla. Þegar bankarnir hér byrjuðu að bjóða 90% og upp í 100% húsnæðislán rauk fjöldi fólks til og keypti sér nýtt eða stærra húsnæði. Og með stóraukinni eftirspurn rauk verð á húsnæði upp úr öllu valdi. En var fólk skyldugt til að kaupa sér stærra húsnæði og taka lán fyrir því? Hvað með að leggja fyrir, fyrst innlánsvextirnir eru svona háir? Hversu mikið hefur verið byggt á Ísafirði og Akureyri síðastliðna þrjá áratugi og hversu mikið hefur Ísfirðingum og Akureyringum fjölgað á þessum tíma? Hversu mörg hús voru fyrir utan Glerá fyrir 30 árum og hversu marga fermetra þarf hver og einn undir rassinn á sér? Enda þótt Seðlabankinn hækki stýrivextina upp úr öllu valdi tekur fólk samt endalaus neyslulán og margir eru með milljón króna yfirdrátt, sem kostar yfir 200 þúsund krónur á ári, til að fjármagna til dæmis utanlandsferðir, sem er nú varla skynsamlegt. Betra að leggja fyrir og þegar innlánsvextirnir eru háir tekur skemmri tíma að eiga nógan pening fyrir nýja bílnum og utanlandsferðinni.
Eiríkur Kjögx, bankastjóri BF (Banka fólksins) (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.