7.2.2007 | 16:53
Drepa konur?
Blaðafulltrúar NASA hafa örugglega óskað þess að þeir hefðu getað verið veikir heima í gær og í dag. Hvernig ósköpunum svarar maður spurningum heimspressunnar um handtöku starfsmanns? Ekki bara hvaða starfsmanns sem er, heldur geimfara sem keyrði alla leiðina frá Houston til Orlando í bleyju, vopnuð loftbyssu og piparspreyi og í dulargervi til að reyna að ræna og myrða konu sem hún áleit vera samkeppni sína um ástir annars geimfara.
Við sem héldum að geimfararnir í Armageddon væru bilaðir!
Já, - stundum þurfa menn að vinna fyrir launum sínum en greinilegt er að sumir hafa ákveðið að líta á bjartari hliðina á þessu máli. Menn eru allavega farnir að hringja í NASA eins og er og ræða um geimferðir og geimfara. Nútímageimfarar þykja nefnilega ekki lengur neitt spennandi. Á meðan fyrstu geimfararnir voru stórstjörnur og keyrðu um á Corvettum, er víst líklegra að maður rekist á geimfara dagsins í dag á Dodge Caravan á leiðinni í Wal-Mart.
Það sem vakti athygli mína var setning í einni fréttinni um að það væri mjög óvenjulegt að konur reyni að fremja þessa tegund af glæpum. Hvað þá? Að reyna að myrða samkeppnisaðilann? Eða almennt fyrir konur að reyna að drepa? Ekki þarf að fletta mjög mikið á vefsíðunni Crime Library til að komast að því að konur drepa, eins og karlmenn.
Þar er vitnað í Patricia Pearson í bókinni sinni, When She Was Bad: How and Why Women Get Away With Murder. Þar bendir hún á að þrátt fyrir að fólk líti almennt á konur sem lítið ofbeldisfullar fremja konur "...the majority of child homicides in the United States, a greater share of physical child abuse, an equal rate of sibling violence and assaults on the elderly, about a quarter of child sexual abuse, an overwhelming share of the killing of newborns, and a fair preponderance of spousal assaults." En alla jafna drepa þær víst frekar þann sem stendur þeim næst: Börnin, makann, elskhugann, en ekki samkeppnina.
Þetta er víst jafnrétti í reynd þegar konur fara meira að segja fremja glæpi eins og karlar, - eða hvað?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:54 | Facebook
Athugasemdir
Það er mjög óvenjulegt að konur fremji morð, Eygló, þér er óhætt að trúa því.
Samkvæmt tölum frá bandarískum stjórnvöldum voru karlmenn gerendur í 87,8% morða þar í landi 2004. Í 65,2% tilvika var fórnarlambið karl en 22,6% tilvika kona. Konur báru svo ábyrgð á 12,2% morða, í 9,7% tilvika var fórnarlambið karl, en í 2,4% tilvika kona.
Ótrúlegt er að í öllum þeim 2,4% tilvika hafi kona verið að myrða keppinaut sinn og því óhætt að segja að slíkt sjaldgæft. Meira að segja sárasjaldgæft.
Þó vissulega sé það skarplega athugað hjá þér að konur drepi eins og karlmenn, eru þær fráleitt eins duglegar við það og miðað við það að árið 2004 frömdu konur færri morð vestan hafs en dæmi voru um á síðustu þrjátíu árum þar á undan þá er langt í það að "jafnrétti í reynd" náist. Sem betur fer.
Árni Matthíasson , 8.2.2007 kl. 00:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.