6.2.2007 | 20:12
Sigurjón og öndin
Ég ætla að hrósa Sigurjóni Þórðarsyni. Þetta er setning sem mér hefði ekki dottið í hug að ég ætti eftir að skrifa, en í dag átti Sigurjón hrós skilið.
Eins og allir góðir varaþingmenn var ég með Alþingisrásina í gangi í dag á meðan ég hóstaði og snýtti mér í janúar/febrúar flensunni og hlustaði á umræður á þinginu. Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, (sem hefur staðið sig að mínu mati mjög vel síðan hann tók við ráðuneytinu, meira segja í jafn hræðilega erfiðu máli og Byrginu) var að flytja frumvarp til laga um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum. Skv. frumvarpinu er markmið laganna að vernda rétt starfsmanna evrópskra samvinnufélaga til aðildar að málum og ákvörðunum sem varða starfsemi evrópska samvinnufélagsins sem þeir vinna hjá og tryggja að gildandi reglur hvorki hverfi né minnki að vægi við stofnun þess.
Jepp, - einmitt! Ég beið spennt eftir að heyra í ræðu ráðherrans af hverju það væri svona mikilvægt fyrir Ísland að setja þessi lög. Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, náð greinilega ágætis sambandi við hugsanir mínar (enda hitinn kominn í 39°C) og kom upp í ræðustól til að spyrja hver væri tilgangurinn með þessu frumvarpi og hvaða áhrif þau myndu hafa á íslensk fyrirtæki.
Við, - þar að segja, ég og Sigurjón biðum með öndina í hálsinum og snýtiklútinn í höndinn eftir svari frá hæstvirtum ráðherra. Svar ráðherrans míns var stutt og laggott: a) Frumvarpið kæmi frá Evrópusambandinu, b) væri hluti af EES-samningnum, og c) hann hefði í raun ekki hugmynd hvaða áhrif lögin myndu hafa á íslenskt samfélag. Það yrði bara að koma í ljós.
Við getum allavega huggað okkur við hina klassísku setningu frá Fjármálaráðuneytinu um að "[e]kki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð."
Ég verð síðan bara að vona að þessi samkennd mín með áðurnefndum Sigurjóni hverfi um leið og hitinn lækkar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.