6.2.2007 | 13:28
Hafnarfjarðarbrandari eða Blaðabrandari!
Elín Albertsdóttir, ritstjórnarfulltrúi Blaðsins fer mikið í leiðara Blaðsins sl. laugardag. Í leiðaranum fjallar hún um skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra: Auknum fellibyljum, þurrkum, flóðum, hitabylgjum og hækkandi sjávarborð. Síðan úrskurðar hún um hvern eigi að draga til ábyrgðar. "Jú, okkur sjálf og þá iðnaðar- og stóriðjustefnu sem viðhöfð hefur verið sl. áratugi." Sem sagt íslenskur almenningur og stjórnvöld bera ábyrgð á loftslagsbreytingunum í heiminum skv. úrskurði ritstjórnarfulltrúans.
Hver er ástæðan fyrir undanþágunni í Kyoto-bókuninni? Hver er ástæðan fyrir því að samtökin Climate Group á 11. aðildarríkjaþingi Loftslagssamningsins í Montreal veittu Íslandi viðurkenningu? Ástæðan er einföld. Ísland nýtur þeirrar sérstöðu í heiminum að nær öll (99%) orkuframleiðsla nýtir endurnýjanlegar orkulindir, vatnsorku og jarðvarma. Þetta er draumsýn flestra annarra ríkja, eða eins og kemur fram á vefsíðu WWF, sem eru að berjast fyrir því að hætta að framleiða rafmagn með kolum.
Þar með er ekki sagt að við getum ekki gert mun betur, - en svona óábyrgur málflutningur í blaði sem vill láta taka sig alvarlega hjálpar engum. Af hverju er ekki bent á aðgerðir til að draga úr losun í sjávarútvegi og samgöngum? Af hverju er ekki talað um að gera kröfur til Alcan og Alcoa um að binda kolefni með landgræðslu og skógrækt til að vega upp á móti losun þeirra? Annar möguleiki er að koma á kolefnissjóði sem fyrirtæki gætu fjárfest í, í samræmi við hugmyndir EU um útblástursviðskiptasjóð (Emission Trading System).
Nei, eina lausnin er að hrekja álfyrirtækin úr landi eða hvað?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Svona málflutningur virðist ganga furðu vel í fólk. Skiptir engu þótt að það sé ljóst að það er erfitt að framleiða ál á vistvænni hátt annarsstaðar. Og það er líka alveg ljóst að ál verður framleitt áfram af fullum krafti hvort sem við tökum þátt í því eða ekki.
Kveðja Tryggvi L. Skjaldarson
Starfsmaður Alcan
Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 16:17
Álver, raflínur, stórvirkjanir og vegir á hálendinu valda alls konar mengun, til dæmis loftmengun og sjónmengun. Auk þess er hér næg atvinna og hægt að skapa atvinnu í framtíðinni sem veldur mun minni mengun en álver gera og allt sem þeim fylgir.
Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 18:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.