Peningastefna og evra

Ítrekað heyrist frá stuðningsmönnum aðildar Evrópusambandsins að eina leiðin til að ná tökum á peningamálum landsins sé upptaka evru, og þar með aðild að Evrópusambandinu. Það sé einnig eina leiðin til að afnema verðtryggingu, lækka fjármagnskostnað og ná stöðugleika í íslensku efnahagslífi

Reynsla hinna ýmsu ESB landa sannar að lykilatriðið er ekki hvaða mynt er notuð í hverju ríki, heldur hvernig einstök lönd stjórna sínum efnahagsmálum. Dæmi um þetta eru Svíþjóð og Írland. Svíar hafa haldið sig við sænsku krónuna með góðum árangri. Hagvöxtur er mikill, verðbólga lág og skuldir ríkisins lágar. Írland tók upp evru og nýtur nú aðstoðar AGS eftir að írska fjármálakerfið fór í gegnum mikla erfiðleika.

Myntin endurspeglar efnahagsstjórnun, - hún mótar hana ekki. Verðbólga mælir óstöðuga efnahagsstjórnun, - hún skapar hana ekki. Hár fjármagnskostnaður endurspeglar skort á fjármagni, - en skapar hann ekki.

Ábyrgð á peningastefnu er ekki bara Seðlabankans. Ábyrg peningastefna er sambland ábyrgrar stefnu í fjármálum ríkisins, ábyrgrar stefnu í rekstri fjármálafyrirtækja og ábyrgrar stefnu í fjármálum heimila og fyrirtækja. Allt hagkerfið þarf að spila saman og allir bera ábyrgð á efnahagsstjórninni. Ekki bara stjórnvöld og Seðlabankinn.

Samhliða hefðbundnum stýritækjum Seðlabankans þarf að tengja vexti og afborganir á húsnæðislánum við almenna markaðsvexti og það gera þeir ekki með núverandi fyrirkomulagi verðtryggingar. Tryggja þarf að fjármálafyrirtæki geti ekki stækkað efnahagsreikninga sína óstjórnlega og aðskilja verður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Hvetja þarf almenning til að spara fyrir útgjöldum og greiða niður skuldir. Aukinn sparnaður mun auka framboð á fjármagni og lækka vexti. Koma þarf í veg fyrir myndun eignabóla og jafnvægi verður að nást í fjármálum ríkisins.

Allt þetta þarf að gera óháð því hvort við göngum inn í ESB og tökum upp evru eða ekki. Með upptöku evru er ábyrg stjórnun efnahagsmála jafnvel enn brýnni. Reynsla annarra landa sýnir að þá er hætta á auknu innflæði fjármagns, aukinni skuldsetningu heimila og fyrirtækja, eignabólum og aðlögun að þrengri kosti er erfiðari með evru og fastgengi.

Því er orðið tímabært að gera sér grein fyrir því að prinsar á hvítum hestum frá Brussel munu ekki bjarga okkur.

Ábyrgðin er okkar og hana verðum við öll að axla.

(Birtist fyrst í FBL 4. mars 2011)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill-  Italir voru mjög ósáttir við Evru eftir að hún var tekinn upp þar- skapaði öngþveiti í verðlagi- atvinnuleysi ofl.

  Það er bara spurning er ekki hægt að taka upp annan og traustann gjaldmiðil eins og Kanadadollar ?  og án kvaða ' Kanada er ekki langt frá okkur og þar virðist allt ganga upp þótt ekki seu önnur Ríki með nefið í þeirra málum .

  Kv.

Erla Magna (IP-tala skráð) 5.3.2011 kl. 14:12

2 Smámynd: Kristinn Pétursson

Ég er enginn sérstakur talsmaður ESB aðildar -  og hef heldur ekkert á móti ESB... en ég held að tími krónunnar sé liðinn - við þolum ekki svona háa vexti með þessari verðtryggingu... við verðum að fá lægri vexti - strax.....

Svo - ef ekki er hægt að hafa lága vexti og afnema verðtryggingu með ísl Kr... (strax) þá erum við tilneydd til að fara í myntsamstarf með erlendum seðlabanka - mín  vegna mætti það vera Dönsk króna - Evra eða.. US Dollar.... viðkomandi Seðlabanki þar bara að vera jákvæður fyrir þessu - og eini Seðlabankinn sem er það svo vitað sé - er Seðlabanki USA.

Mér finnst samt rétt að  gefa ESB 30 daga til að samþykkja að við gerumst aðilar að Myntsamstarfi ESB - gegn um EES samning - það  rúmast innan  þess samnings.....

en ég held að krónan með verðtryggingu þoli ekki allar þessar hækkanir á olíu og örðum hrávörum... það keyrir verðbólguna hér í gang - og þá hækkar "vísitölukrónan".. og það gengur ekki meir... því miður.... sjá www.kristinnp.blog.is  

Kristinn Pétursson, 5.3.2011 kl. 14:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband