6.12.2010 | 21:00
Saga SA trygginga ehf.
Fyrirtækið Sjóvá Almennar tryggingar hf. sætti sérstöku eftirliti Fjármálaeftirlitsins á árunum 2008 og 2009 samkvæmt 90. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, þar sem félagið uppfyllti ekki skilyrði lágmarksgjaldþols. Samkvæmt drögum að efnahagsreikningi frá 28. febrúar 2009 var eigið fé félagsins neikvætt um 13,5 ma.kr. en þurfti að lágmarki að vera jákvætt um 2 ma.kr. Var því ljóst að leggja þyrfti félaginu til nýtt eigið fé að fjárhæð 15,5 ma.kr. til að uppfylla grunnskilyrði um vátryggingarekstur.
Að öðrum kosti yrði félagið gjaldþrota.
Í minnisblaði Fjármálaeftirlitsins frá 29. júní 2009 kom fram að vátryggingarekstur félagsins hefði verið með ágætum en fjárfestingarstarfsemi og tilteknar aðrar ráðstafanir fyrrum eigenda, stjórnar og lykilstarfsmanna hefðu komið félaginu í þrot. Bent var á að íslenska ríkinu bæri ekki lagaleg skylda til að bjarga félaginu frá gjaldþroti. Einnig var bent á að hér á landi væri ekki ábyrgðakerfi vegna gjaldþrots vátryggingafélaga.
Í nefndu minnisblaði kom hins vegar fram að gjaldþrot félagsins hefði alvarlegar afleiðingar. Tekið var fram að m.a. myndu viðskiptamenn félagsins líklega tapa hluta af kröfum sínum og traust til vátryggingastarfsemi hér á landi myndi minnka til muna. Áhrifin á endurtryggingasamninga annarra vátryggingafélaga yrðu neikvæð sem gæti leitt af sér hærri iðgjöld.
Fjármálaeftirlitið lýsti stuðningi við aðgerðir Glitnis hf., Íslandsbanka hf. og fjármálaráðuneytisins til að forða félaginu frá gjaldþroti. Ákveðið var að stofna sérstakt félag utan um vátryggingastarfsemina og var stofnsamningur undirritaður 20. júní 2009.
Heiti félagsins er SA tryggingar hf. (Sjóvá) og voru stofnendur Glitnir Banki hf (17,67%), Íslandsbanki hf. (9,30%) og SAT Eignarhaldsfélag (ríkið, 73,03%).
Hinn 8. júlí 2009 tilkynnti fjármálaráðherra að ákveðið hefði verið í samráði við ríkisstjórnina að ríkið tæki þátt í endurskipulagningu vátryggingafélagsins Sjóvár. Sama dag var undirritaður samningur þar sem ríkissjóður seldi SAT eignarhaldsfélagi hf. eftirtaldar eignir:
- Kröfu á hendur Askar Capital hf. sem metin var á um 6 ma.kr. Lánið var
tryggt með 3. veðrétti í öllum almennum kröfum samkvæmt vörureikningum sem Avant hf. á eða fær í rekstri sínum. Avant er dótturfélag Askar Capital. Samhliða þessum lánssamningi hvílir einnig á 3. veðrétti í ofangreindri eign eigið skuldabréf útgefið af Avant að fjárhæð rúmlega 2,8 ma.kr. með eins mánaðar Reibor‐vöxtum að viðbættu 3,75% álagi. Með veði í verðtryggðum skuldabréfum útgefnum af Landsvirkjun að
fjárhæð um 4,7 ma.kr. - Verðtryggt skuldabréf að nafnvirði 4,2 ma.kr. útgefið af Landsvirkjun 21. mars
2005 með 3,5% föstum vöxtum og gjalddaga árið 2020. Skuldabréfið er skráð í
Kauphöll Íslands og er með einfaldri ábyrgð ríkissjóðs.
Verðmæti skuldabréfanna sem ríkissjóður seldi vegna Sjóvár var samtals 11,6 ma.kr.
Samkvæmt samkomulaginu á SAT eignarhaldsfélag að greiða kaupverðið innan 18 mánaða eða við sölu Sjóvár. Krafan var óverðtryggð og vaxtalaus en tryggð með 73% eignahlut SAT eignarhaldsfélags í SA tryggingum. Þó er eignarhaldsfélaginu óheimilt að selja hlutina fyrir lægra verð en kaupverð án samþykkis fjármálaráðuneytisins. SAT eignarhaldsfélag keypti hinn 16. september 2009 hlut Glitnis í nýja félaginu og á því nú 90,7% hlut í SA tryggingum.
Fjármálaeftirlitið heimilaði yfirfærslu á vátryggingastofni Sjóvár Almennra trygginga til SA trygginga með bréfi dagsettu 22. september 2009.
Hinn 22. september 2010 hóf Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) formlega rannsókn á 11,6 ma.kr. eiginfjárframlagi ríkisins til endurreisnar Sjóvár. Í tilkynningu frá ESA er talað um formlega rannsókn á veitingu ríkisstyrks til félagsins. Fram kemur að það sé frummat ESA að með þessum viðskiptum hafi íslenska ríkið leitt björgunaraðgerðir í þágu ógjaldfærs tryggingafélags. Vafi leiki á því að einkaaðilar á markaði hefðu farið út í slíka fjárfestingu. Einnig er fundið að því að þetta hafi verið gert án þess að tilkynna það sérstaklega til ESA og að eignarhaldsfélagið hafi fengið 18 mánaða vaxtalausan greiðslufrest. ESA mun óska eftir frekari skýringum frá íslenskum stjórnvöldum og
öðrum aðilum sem eiga hagsmuna að gæta.
Þessi viðskipti voru ekki færð í bókhaldi ríkisins þegar þau fóru fram og telur Ríkisendurskoðun það ámælisvert. Fjársýslan gaf þá skýringu að þar sem viðskipti vegna Sjóvár hafi flust til Eignarhaldsfélags Seðlabanka Íslands í árslok 2009 hafi þau ekki verið bókuð hjá ríkissjóði.
Ríkisendurskoðun óskaði eftir því við fjármálaráðuneytið að það gerði grein fyrir þeirri lagaheimild sem byggt var á við ákvörðun um eiginfjárframlag ríkisins til SAT eignarhaldsfélags.
Ráðuneytið hefur ekki upplýst um þetta.
Ríkisendurskoðun telur því óljóst á hvaða lagaheimild ákvörðunin byggði. Eins og fram hefur komið bar íslenska ríkinu ekki lagaleg skylda til að bjarga félaginu.
(Tekið úr skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings árið 2009, 6.12.2010)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:05 | Facebook
Athugasemdir
Er ekki ríkið að sukka með sukkendum útrásarinnar? Get ekki betur séð. Sjóvá átti allan tímann að mæta örlögum sínum, þeim sem stjórnendur fyrirtækisins gerðu sínu fyrirtæki.
Aðkoma ríkissjóðs að þessu einkafyrirtæki er ekkert annað en framlenging á sukkinu og til háborinnar skammar fyrir ríkisvaldið. Norræn velferðarstjórn? Hvernig á hún að virka?
Svo skákar fallistinn í skjóli ríkisins og undirbýður allt og alla á tryggingamarkaðnum, rétt eins og sá sem valdið hefur! Ríkið borgar!
Aumt er nú réttlæti sumra, en öllu verra er þeirra augljósa ranglæti!
Auðvelt hefði verið fyrir ríkið að ábyrgjast kröfur þess fólks, sem sannanlega ætti kröfur á bótasjóð hins gjörsamlega fallna félags.
Nei, heimskan sett í fyrirrúm og útrásarhugsuninni glötuðu hampað?
Hverjir stjórna landinu í dag?
Eitthvert afdala auðvald eða úrvalssveit bjálfa í landinu?
Ég veit svarið.
Björn Birgisson, 6.12.2010 kl. 23:02
Þetta er allt á sömu bókina lært. Handhöfum ríkisvaldsins er fyrirmunað að fara eftir lögunum í landinu. Dólgarnir í Ráðuneytunum setja leikreglur hins Villta Vesturs ?
Einar Guðjónsson, 6.12.2010 kl. 23:32
Mætti ég gerast svo djarfur að benda að auki á VBS verðbréf sem fékk að mig minnir 25 milljarða í "lán" með 2,5% vöxtum án verðtryggingar, gjaldþrota féag í dag. Saga fjárfestingabanki fékk 19 milljarða "lán" með 2,5% vöxtum án verðtrygginga sem svo tekjufærði stóran hluta lánsins í bókhaldi sínu með barbabrellum miklum. Forstjóri þess félags hefur nú stöðu grunaðs manns. Allt þetta á sama tíma, undir styrkri stjórn SJS. (HÓST)
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 7.12.2010 kl. 00:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.