16.8.2010 | 19:22
Jóhanna stendur með litla manninum...
Gylfi Magnússon er búinn að biðjast afsökunar, nokkurn veginn. Hann er einnig greinilega búinn að íhuga stöðu sína, velt fyrir sér hvort að hann ætti að hætta eða ekki og komist að þeirri niðurstöðu að hann mun hætta.
Bara ekki núna.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra telur að ómaklega hafi verið vegið að viðskiptaráðherra og virðist finna mikið til með aumingja manninum.
Ég myndi eflaust geta fundið til einhverjar samúðar við ráðherranum ef ég væri ekki svona þurrausin.
Öll mín samúð og vorkunnsemi hefur nefnilega farið til fólksins sem staðið hefur í stríði við fjármálafyrirtækin undanfarin tvö ár. Allt fólkið sem hefur misst heimilin sín, bílana sína, vinnuna sína, fyrirtækin sín, fjölskylduna sína, föðurlandið sitt og í einstaka tilfellum líf sitt vegna gengistryggðu lánanna.
Í raun er það aðalatriði málsins.
Ekki hvort ráðherrann hafi óviljandi eða viljandi sagt Alþingi rangt frá. Ekki hvort lögfræðiálitin voru eitt eða tvö eða þrjú. Heldur sú staðreynd að stjórnvöld höfðu rökstuddan grun um ólögmætt athæfi fjármálafyrirtækjanna og völdu að gera ekki neitt.
Á meðan þjáðustu þúsundir Íslendinga og gera enn.
Svona stendur víst Jóhanna með litla manninum árið 2010...
Gylfi situr áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er alveg dæmalaust skemmtilegt að fylgjast með stjórnmálamönnum að reyna að gera sér mat úr máli sem ekkert er og slá sig til riddara án nokkurrar innistæðu. Það er alveg rétt og vekur áhyggjur að fólk á í vandræðum og þingmenn Framsóknarflokksins liggja örugglega allir á bæn. Vandinn er bara sá að í þessu máli hafa stjórnvöld ekki getað gert nokkurn skapaðan hlut. Því miður fór þessi lánavitleysa af stað á meðan Framsókarflokkur og Sjálfstæðisflokkur sátu við völd og hún hélt áfram undir stjórn seðlabankastjóra Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, Davíðs Oddssonar. Ef Seðlabanki hefði komið með lögfræðilegt minnisblað á meðan enn var verið að veita þessi lán þá hefði verið hægt að stöðva þau. En það var hætt að veita þessi lán þegar þessi álit voru skrifuð og því var ekki neinar lánveitingar að stöðva. Og þessi deila verður aðeins leyst fyrir dómi, þar getur hvorki ríki né Seðlabanki skipt sér af -- enda ekki aðiljar að málinu. En stjórnmálamenn, sem hafa ekkert þarfara að gera en að reyna að gera sér mat úr óhamingju annarra, án þess að hafa nokkrar lausnir, halda auðvitað áfram að láta ljós sín skína. Það er víst eðli þessa leiks.
Sigurður Gunnarsson (IP-tala skráð) 16.8.2010 kl. 19:53
Sigurður,það að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafi verið við völd þegar þessi lán fóru í gang, fríar ekki núverandi stjórnvöld frá því að aðhafast í málinu, þegar svona hamfarir ganga yfir.
Það situr eftir sem staðreynd að Jóhanna, Steingrímur og þeirra fólk, laug að okkur fullum fetum, að slegið yrði upp skjaldborg um borgarana og þeirra hagur skyldi varinn með kjafti og klóm.
Það er því með öllu óverjandi að þegar til kemur, skuli téð skjaldborg sleginn um fjármagnfyritækinn barist fyrir hag þeirra með kjafti,klóm,lygum og hverju sem til þarf !
Þannig er þetta og það er staðreynd !
Baldur Borgþórsson, 16.8.2010 kl. 21:45
Innilega er þér sammála þér Eygló. En þennan Sigurð er ég ekki að skilja þegar hann er að segja að það sé verið að gera sér mat úr máli sem ekkert sé. Að finnast það allt í lagi að stór hluti þjóðarinnar missi allt sitt vegna þessa finnst mér ekki í lagi...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 16.8.2010 kl. 22:22
Samála og okkur er skylt að gera eitthvað í málunum því tel ég að önnur bylting sé óumfríaleg nú í haust til að koma þessari landráðastjórn frá!
Sigurður Haraldsson, 16.8.2010 kl. 23:04
Tek undi rmeð þér, Eygló, það er til skammar hvernig Jóhanna slær alltaf skjaldborg utan um þá brotlegu. Af hverju er það í lagi að níðast á almenningi, almennum lántökum, öryrkjum og eldri borgurum til að bjarga lögbrjótum? Mér er þetta gjörsamlega óskiljanlegt.
Mér er bara alveg sama þó Gylfi hafi ekki ætlað að afvegaleiða þingið og þjóðina. Hann gerði það og það er alveg jafn alvarlegt að hann hafi gert það óviljandi, þar sem það þýðir skort á þekkingu, eins og hann hafi gert það viljandi. Ég sé ekki muninn.
Verst í þessu öllu er þó að hylmt hafi verið yfir með lögbrjótum.
Marinó G. Njálsson, 17.8.2010 kl. 10:49
Gamla Ísland á fullu blússi... menn taka ekki ábyrgð á neinu...
Til hamingju gamla Ísland.. þú lifir góðu lífi í dag
doctore (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 11:34
Las fyrirsögnina og hún greip mig,forvitin um hvaða litli maður þetta væri.Las svo allt saman og er svo mikið sammála þér.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 11:53
Þetta er ósköp eðlilegt allt saman. Ef ein lygi verður viðurkennd þá fellur fyrsti dómínókubburinn og spilaborg heimilanna með. Lygarnar eru fleiri og stærri. Það er eina hugsanlega skýringin á viðbrögðum ráðherra.
Hrannar Baldursson, 17.8.2010 kl. 15:43
Jamm - Eygló, stjórnvöldum láðist eftirfarandi:
Getur verið, að samanlagt, sé klúðrið vegna sölu bankanna, nálægt því eins stórt og Icesave klúðrirð?
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 17.8.2010 kl. 19:09
Bara svo ég árétti það, þótt ég viti að það skipti engu máli því að á bloggi hlusta menn bara á það sem þeir vilja heyra (sem sagt, fyrst og fremst sig sjálfa) þá dettur mér ekki í hug að fría núverandi stjórnvöld frá einu eða neinu. En það er bara dálítið nöturlegt að sjá þingmann stjórnmálaflokks sem raunverulega kom okkur í þann vanda sem við erum í að vera gagnrýna ráðherra sem því miður hefur engin tæki til að koma okkur úr honum. Ég hef nefnilega ekki heyrt nokkurn mann nefna nokkuð af viti sem Gylfi eða nokkur stjórnmálamaður getur gert -- Eygló Harðardóttir þar með talin -- við þessi myntkörfulán nú, löngu eftir að þau voru veitt. Staðreyndin er sú að hér takast á sjónarmið sem verða ekki sætt, og sem stjórnvöld geta ekki sætt -- eða límt einhvers konar plástur á sárin sem vandinn hefur skilið eftir sig. Annars vegar eru bankar sem vilja innheimta hverja krónu gengistryggða, enda eru þeir með uppáskrifuð bréf þar sem lánþegar lofa því að greiða lánin með þeim kjörum, og hins vegar lánþegar sem vilja greiða íslenskar krónur með erlendum vöxtum í íslenskri verðbólgu því að lánin hafa vaxið þeim yfir höfuð. Engin millileið er á milli þessara sjónarmiða, sem sást best af viðbrögðum manna við dómi héraðsdóms nýverið. Hér verða dómstólar að skera úr, og hafa gert það að hluta til. Löggjafinn eða framkvæmdavaldið hafa aftur á móti engin tæki til að skipta sér af þessu, þótt þau verði örugglega að takast á við vandann sem á eftir að hljótast af niðurstöðu dómsstólanna -- hvort sem það verður tæknilegt gjaldþrot banka eða gjaldþrot heimila. Þetta hafa Gylfi, Steingrímur og Jóhanna margendurtekið, en engin hlustar. Skuldarar vilja að þau grípi fyrir hendur dómstólum og skipi bönkunum að gefa allt eftir, á meða bankarnir vilja fá sem mest greitt af sínum lánum. Þessi ríkisstjórn hefði örugglega getað gert hundrað hluti betur, en í þessu máli á hún einfaldlega ekki næsta leik, heldur Hæstiréttur.
Sigurður Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 20:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.