11.7.2010 | 12:16
Sofandi stjórnvöld
Hæstiréttur Íslands felldi tvo dóma þann 16. júní þess efnis að gengistrygging lána væri ólögleg. Málunum hafði verið áfrýjað eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur komist að misvísandi niðurstöðu um lögmæti þessara lána.
Viðbrögð stjórnvalda eftir dóm Hæstaréttar bentu til þess að þau hefðu verið gripin í bólinu. Eftir nokkra fundarsetu og óskir um tillögur frá m.a. Samtökum fjármálafyrirtækja, talsmanni neytenda og Hagsmunasamtökum heimilanna sendi ríkisstjórnin Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið fram á sviðið með tilmæli til fjármálafyrirtækjanna. Tilmælin voru þess efnis að víkja ætti samningsvöxtum lánanna til hliðar og notast ætti við óverðtryggða vexti Seðlabankans á meðan dómstólar kæmust að niðurstöðu um vexti samninganna.
Ábúðarfullir embættismenn útskýrðu að tilmælin væru ekki skuldbindandi, hvorki fyrir fyrirtækin né lántakendur, en byggðust á túlkun þeirra á lögum um vexti og verðtryggingu. Stuttu síðar lögðu svo fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra blessun sína yfir þessi tilmæli og sögðu að þetta væri eitthvað sem allir ættu að geta lifað við.
Ýmsir voru því ósammála.
Engin heildaryfirsýn
Því óskuðu undirrituð eftir sameiginlegum fundi efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar til að fá rökstuðningi Seðlabankans, FME og efnahags- og viðskiptaráðuneytis fyrir þessum tilmælum.
Jafnframt kröfðumst við skýringa á því hvernig þessar stofnanir höfðu undirbúið sig fyrir niðurstöðu Hæstaréttar og fórum m.a. fram á útreikninga á áhrifum dómsins út frá mismunandi forsendum sem og lögfræðiálit á lögmæti gengistryggðra lána. Þá fórum við fram á upplýsingar um hver bæri ábyrgð á aðgerðum og aðgerðaleysi innan þessara stofnana.
Eftir fundinn var ljóst að ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið höfðu ekki heildaryfirsýn yfir áhrif dóms Hæstaréttar. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins hefur staðfest að það hefur tekið stofnunina um hálft ár að útvega upplýsingar sem gefa heildarmynd af þeim hluta eignarsafns fjármálafyrirtækjanna sem felst í gengistryggðum lánum. Eftir að dómurinn féll var erlenda ráðgjafarfyrirtækið Oliver Wyman fengið til verksins og er áætlað að heildarmyndin verði orðin skýr í lok þessarar viku.
Það er einfaldlega sláandi hvað lítið virðist hafa breyst frá hruni. Undirbúningur fyrir útgáfu tilmælanna var óvandaður og ófullnægjandi. Yfirlýsingar viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra, Seðlabanka og FME um áhrif dóms Hæstaréttar á fjármálastöðugleika virðast ekki hafa byggst á neinum haldbærum gögnum. Áhrifin á fjármálastöðugleika og efnahagslífið hafa ekki enn þá verið kortlögð og takmörkuð lögfræðiálit virðast hafa legið fyrir.
Menn slumpa bara og giska út í loftið.
Hvað viljum við?
Við höfum óskað eftir að útreikningar um áhrif dómsins og minnisblöð þeirra lögmanna sem tilmæli Seðlabankans og FME byggjast á verði lögð fram. Strax í febrúar var lagt fram frumvarp á vegum Framsóknarmanna með stuðningi þingmanna úr öllum þingflokkum um flýtimeðferð fyrir dómstólum og frestun nauðungarsölu á grundvelli þessara lánasamninga. Það mál hefur legið í allsherjarnefnd síðan þá. Þá var einnig lagt fram frumvarp Vinstri Grænna um hópmálsókn, sem hefur einnig legið í dvala hjá allsherjarnefnd. Þá lá líka fyrir mat sérfræðinga á því að líklega þyrfti að dæma í fimm til sex prófmálum áður en öllum vafa yrði eytt í kjölfar dóms Hæstaréttar.
Þótt niðurstaða fáist í nýju máli sem Lýsing hefur höfðað um vextina á enn eftir að skýra margt. Má þar nefna fordæmisgildi gagnvart öðrum lánasamningum sem bundnir eru gengisviðmiðum, hvenær lán eru íslensk og hvenær þau eru erlend, bótaskyldu, forsendubrest og svo mætti lengi telja. Því skiptir miklu að tryggja flýtimeðferð þessara mála og fækka þeim fjölda mála sem þarf að höfða með lögum um hópmálsókn.
Efasemdir eru um réttmæti þess að opinberar stofnanir leggi til bráðabirgðalausn sem mætti túlka sem skilaboð til dómstóla um það sem fjármálakerfið ræður við. Mun nærtækara hefði verið að samningsvextir hefðu verið látnir standa. Einnig er lántaka og lánveitanda frjálst að semja um annars konar greiðslufyrirkomulag, líkt og t.d. talsmaður neytenda, Frjálsi fjárfestingarbankinn og Spron hafa lagt til um að innheimta tiltekna krónutölu miðað við hverja milljón króna af upphaflegum höfuðstól lána ef vafi leikur á lögmæti þeirra. Endanleg niðurstaða fengist svo fyrir dómstólum. Þegar er skýrt að dómurinn á við gengistryggð bílalán og því er ekki hægt að hvetja lántakendur til að fara eftir tilmælum Seðlabankans og FME hvað fjármögnunarfyrirtækin varðar.
Fjármálaráðherra telur að málin muni skýrast með haustinu, en hvorki heimilin né fyrirtækin í landinu þola marga mánaða óvissu um þetta gríðarstóra mál.
Birkir Jón Jónsson
Eygló Harðardóttir
Þingmenn og fulltrúar Framsóknarflokksins í efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd Alþingis.
(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þarna er nú áberandi skortur á einum mikilvægum faktor.
Namely, að þið krefðust skýringa af sjálfum ykkur (Frömmurum) afhverju þið hefðuð ekkert sagt allan þennan tíma. Því það voruð jú þið sem sömduð þessi lög og fluttuð fram á allan hátt og því hefði ykkur átt að vera fullkunnugt um ,,ólöglegheitin"
Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.7.2010 kl. 15:24
Það er einn hlutur sem mér finnst fara lítið fyrir. Það féllu 3 dómar um gengistryggð lán í Hæstarétti þann 16. Tveir voru um gengistryggð bílalán og einn um svokölluð kúlulán. Í dómnum um kúlulánið, þá segir í Hæstaréttardómnum að gengistryggingin sé ólögleg en aðrir þættir samningsins standi. Ég geri ráð fyrir því að það sé fordæmisgildandi fyrir svipuð mál í framtíðinni og þess vegna skil ég engann veginn hvað Seðlabankinn, FME og ríkisstjórnin eru að spá í sambandi við vexti Seðlabankans.
Sigurður Gíslason (IP-tala skráð) 11.7.2010 kl. 17:39
Þú ert að standa þig vel Eygló.
Vonandi treystið þið félagar ykkur til þess að láta fleira til ykkar taka, jafnvel þótt aðrir hafi bent á það?
Ekki er vanþörf á að þrífa skúmaskotin á Íslandi.
Þórdís Bachmann, 11.7.2010 kl. 18:10
Eygló, það yrðu margir glaðir ef þið eða þú kæmuð með frumvarp.
Frjálsar handfæraveiðar, Eygló, það er glæpur gagnvart þjóðinni
að horfa upp á 15.000 manns án vinnu án þess að gera ekki neitt.
Aðalsteinn Agnarsson, 11.7.2010 kl. 19:24
Höldum líka á lofti lögum um neytendalán sem banna að innheimtur sé meiri lántökukostnaður en tilgreindur er við upphaf samnings nema umsamið vaxtaviðmið eða lögmæt verðtrygging breytist.
14. gr. laganna segir að: "Séu ekki veittar upplýsingar um lántökukostnað sem greinir í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. skal neytandi greiða höfuðstól og ársvexti af honum sem samsvara vöxtum af almennum skuldabréfum samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands.
Ef lántökukostnaður er tilgreindur í samræmi við 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. er lánveitanda eigi heimilt að krefjast frekari lántökukostnaðar. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sem um getur í 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð getur lánveitandi ekki krafist hærri lántökukostnaðar."
Fjármögnunarfyrirtækjum eða bönkum ber nefnilega skylda til að upplýsa heildarlántökukostnað við samningsgerð. Það er gert með greiðsluáætlun. Við gerð hennar er notað vaxtaviðmið við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Það vaxtaviðmið á að gilda við innheimtu samningsins framvegis.
Mér sýnist FME og SÍ vera að spila á það að sbr. 4.gr. vaxtalaga eigi að notast við jafnháa vexti og Seðlabanki Íslands gefur út sem lægstu vexti á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum. Það bara gleymist að 4.gr. hefst á tilvísun sem segir að ef hundraðshluti vaxta eða vaxtaviðmið sé ekki tiltekið eigi að notast við framangreint vaxtaviðmið SÍ. Allir lántakar, sem fengu greiðsluáætlun í upphafi samnings fengu þar með vaxtaviðmið sem notast var við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Hafi einhver neytandi ekki fengið slíka áætlun fór viðkomandi fjármálafyrirtæki ekki að lögum um neytendalán!
Erlingur Alfreð Jónsson, 11.7.2010 kl. 22:09
Efast um að ákvæði neytendalána og esb tilskipun eftir atvikum eigi við í þessu tilfelli. Vaxtakostnaður með viðmiðun í gegni var tilgreint.
Varðandi 4.grein vaxtalaga og með hliðsjón af tilvísun 18.greinar í hana - þá er nú einmitt málið að 18.grein vísar almennt í vaxtahluta þeirrar greinar.
Þ.e. hvernig orð falla í byrjun greinarinnar eru auðvitað ekkert relevant - enda væri þá tilgangslítið að vísa í 4.grein!
Annars geta Frammarar svarað þessu betur - enda sömdu þeir lögin pg föttuðu eigi í eg veit ekki hvað mörg ár að umrædd gengisviðmiðun væri ,,ólögleg"!
Svo koma þeir núna og heimta alsherjar viðbragðsáætlun og áfallahjálp við afleiðingum valdasetu þeirra og lagagjörninga!
þetta er bara súrreal.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.7.2010 kl. 22:52
Góð grein hjá þér Eygló og gott framtak. Þú ert greinilega að vinna þína vinnu.
Nú þegar sér loks fyrir endann á leiðréttingu hjá þeim sem eru með lán bundin erlendum gjaldmiðlum, er næsta skref að leiðrétta höfuðstól verðtryggðra lána og í framhaldi af því svo að afnema verðtrygginguna. Í það minnsta að setja þak á hana.
Gunnar Heiðarsson, 11.7.2010 kl. 23:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.