31.5.2010 | 14:47
Vissi ekkert um gengislán!
Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um lögmæti gengistryggðra lána. Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað bent á að þessi lán kunni að vera ólögleg og talsmaður neytenda skrifaði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra bréf þann 23. október þar sem hann spurði m.a. út í það hvort ráðuneytið hefði aflað lögfræðiálits um lögmæti gengistryggðra lána og hvort fyrirvari hafi verið gerður um það við endurreisn bankanna.
Ég sendi því inn fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra um hvort aflað hefði verið lögfræðiálits um lögmæti gengistryggðra lána. Fyrirspurnin var svohljóðandi:
- Hefur ráðuneytið aflað lögfræðiálits (eins eða fleiri) um lögmæti gengistryggðra lána?
Svör ráðherrans: Nei, ráðuneytið hefur ekki aflað utanaðkomandi lögfræðiálits um lögmæti gengistryggðra lána. - Ef svo er ekki, af hverju hefur ráðuneytið ekki aflað slíks álits?
Svör ráðherrans: Þar sem þessi málefni eru nú til meðferðar fyrir dómstólum telur ráðuneytið ekki ástæðu til að afla álits af þessu tagi. - Ef svo er:
a. Hver er niðurstaða álitsins um lögmæti gengistryggðra lána og rökstuðningur fyrir þeirri niðurstöðu?
b. Var tekið tillit til álitsins við uppgjör ríkisins og kröfuhafa föllnu bankanna um verðmæti lánasafna bankanna?
Svör ráðherrans: Eins og áður segir hefur ekki verið aflað utanaðkomandi lögfræðiálits um lögmæti gengistryggðra lána.
Það er ótrúlegt að ráðherrann sem fer með efnahags- og viðskiptamál skuli ekki hafa fengið utanaðkomandi lögfræðiálit. Ráðherra hefur áður afsakað sig með því að það sé ekki hlutverk ráðherra að leita lögfræðiálita eða fá skýringar á því hvort það sé verið að gera hlutina á þann máta sem löggjafinn ætlast til þegar hann setti lögin.
Ég veit ekki betur en að það hafi komið fyrir í þó nokkuð mörgum málum að ríkisstjórnin hafi leitað til lögfræðinga og fengið lögfræðileg álit á þeim málum og lögfræðingar komið og talað með eða á móti málum sem ríkisstjórnin hefur verið að leggja til. Þetta virðist einnig gefa sterklega til kynna að erlendum kröfuhöfum hafi ekki verið kynnt sú lagalega óvíssa sem er uppi um gengistryggð lán þegar verið var að semja um uppgjörið á milli nýju og gömlu bankanna.
Hyggst ég næst leita svara hjá fjármálaráðherra sem fór með samningana við kröfuhafa um uppgjörið á milli nýju og gömlu bankanna.
Vonandi verður kofinn ekki jafn tómur þar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:53 | Facebook
Athugasemdir
Smá upphlaup innan flokksins - en mín upplifun er sú að ábendingin til forystunnar, sé einfaldlega sú, að nú verði flokkurinn, að gera betur.
--------------------------------
Egló - þú ert réttsýn hugsjónamanneskja, og ég byð þig að koma fram fyrir hönd flokksins, og lækna sárin.
Menn eru eitthvað, að ofúlka hluti - ummæli; sem mjög vel eru túlkanleg með mun vægari hætti.
Það er ekkert unnið, og mjög mikið hægt að tapa á, að það skapist einhvers konar stríð innan flokksins.
-------------------------
Sjá hugmyndir mínar um hvað flokkurinn getur gert í þessari færslu:
Þetta lagast ekki af sjálfu sér - átak er nauðsyn!
Pólitískur jarðskjálfti er staðreynd. Stjórnmálaflokkarnir, verða að bregðast við þessum rassskelli kjósenda, annars liggur beint við að Besti Flokkurinn mun endurtaka leik sinn í Reykjavík á landsvísu!
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 1.6.2010 kl. 10:51
Eygló mín! þú ert alltof góð fyrir spillta Framsóknarflokkinn.
Það er mín skoðun á þér.
Gangi þér sem best, en veldu þér réttlátan og raunhæfan vettvang til að berjast fyrir réttlæti landans mín kæra! M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 1.6.2010 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.