Engar hugsjónir?

Niðurstöðurnar í sveitastjórnarkosningunum er sláandi.  Skilaboðin eru skýr:  Kjósendur eru reiðir og ósáttir við starfandi stjórnmálaflokka.  Stór hluti kjósenda er að safna saman stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum undir einn hatt sem heitir Fjórflokkurinn.

Þetta má m.a. sjá í pistli sem Hrannar Baldursson skirfar á vef sínum.  Ég hef almennt mjög gaman af því að lesa sem Don Hrannar skrifar og finnst hann hafa oft skemmtilega innsýn inn í íslensk stjórnmál.  En ég er ekki fullkomlega sátt við lokaorðin í síðasta pistli hans þar sem hann skrifar um að allir flokksmenn og þar með ég séum ekki í stjórnmálum af hugsjónum. 

Ég er í stjórnmálum af hugsjónum, sem ég hef tjáð bæði í ræðu og riti, og byggja á samvinnuhugsjóninni.  Að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar.  Að eina leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu er að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar.  Að vinna að því að hvetja til reksturs samvinnufélaga og annara sameignarfélaga sem hafa hagsmuni félaga að leiðarljósi fremur en það eitt að hámarka hagnað.  Menn segja svo við mig að þessar hugsjónir geti ekki átt við Framsóknarflokkinn, enda hafa þær brenglast á margan máta í gegnum tíðina - en þetta er hugsjónirnar sem flokkurinn byggði á í upphafi og hugsjónir sem ég trúi á.

Ég er að verða æ sannfærðari að það ekki nóg að skipta um fólk, líkt og búið er að gera bæði innan Framsóknarflokksins og í síðustu tveimur kosningum.  Við verðum að breyta vinnubrögðunum, viðhorfunum, skerpa á stefnunni og byggja þannig aftur upp traust. Leiðin til að byggja upp traust er að gera það sem maður segir, og segja það sem maður gerir.

Ekki einfalt, - en það hlýtur að vera þess virði ef við viljum byggja upp réttlátt og sanngjarnt samfélag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Hva.. Voruð þið ekki að vinna rífandi varnarsigur eins og stóri bróðir ?

hilmar jónsson, 30.5.2010 kl. 19:28

3 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Hlutverk stjórnmálamanna er að vinna fyrir almenning í landinu, kjósendur sína. Þeirra hagsmuni eiga alþingismenn og stjórnvöld í heild sinni að hafa í fyrirrúmi, hvort sem hugsjónir, skynsemi, löngun til að þjóna þjóðinni eða athyglissýki er það sem dregur fólk út í stjórnmálin. En nú finnst mörgum kjósendum skiljanlega þegar litið er til baka og á ástandið í dag sem margir stjórnmálamenn átti sig ekki á þessu og séu í pólitík af einhverjum öðrum ástæðum. Þetta veldur auðvitað hastarlegum viðbrögðum. Kjósendur vita alveg til hvers þeir eru að kjósa, en stjórnmálamennirnir virðast ekki allir vita það.

Jón Pétur Líndal, 31.5.2010 kl. 22:57

4 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Ég er sammála þér Eygló með að þetta verður að ganga lengra en bara endurnýjun á fólki, sem er búið. Þegar ég heyrði Guðmund Steingríms tala um öðruvísi vinnubrögð en þessa hörðu ádeilupólitík þá var ég hjartanlega sammála. Ég heyrði ekki allt viðtalið og hef eflaust misst af einhverju sem hann sagði en mér finnst það vera fréttamenn sem eru að blása þetta upp eins og meiri háttar gagnrýni á Sigmund. Sjálfum fannst mér hann vera að segja að við framsóknarmenn þurfum að stíga skrefið til fulls og þó hann væri að gagnrýna forystuna í og með þá fannst mér það ekki vera á persónulegu nótunum. Þú leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál en mér finnst fréttamenn vera að búa til storm í vatnsglasi með að það séu einhver átök. Nema náttúrlega upphrópanir ungliða á Norðurlandi vestra, sem mér finnst vera af því að þeir séu að misskilja Guðmund.

Við framsóknarmenn þurfum að ná því að vekja tiltrú kjósenda. Í stóra þéttbýlinu erum við ekki að gera það. Vandamálið er að hluta til að það sem almenningur heyrir frá framsókn, eins og í viðtölum forystumanna í fjölmiðlum, hljómar eins og einhver tugga sem allir eru búnir að heyra frá framsókn alveg frá því nýja forystan tók við. Og vandamálið einskorðast ekkert við framsókn. Kjósendum finnst vanta að þeir sem eru að stjórna landinu hafi skörungsskap til að gera hlutina almennilega.

Ef við berum saman við Bretland í stríðinu þá voru þeir búnir að vera með Chamberlain sem hélt að það yrði ekkert stríð og þyrfti ekkert að passa sig á Hitler. Svo skipta þeir um og fá Churchill. Hann var svona alvöruleiðtogi sem vissi hvað hann var að gera og hvað þurfti að gera. Hann var búinn að vera umdeildur áður og ég veit ekki hvort margir höfðu trú á honum í byrjun, en hann sameinaði þjóðina að baki sér.

Núna eru Íslendingar í svona tómarúmi eins og eftir Chamberlain - nema þeir sjá engan Churchill í staðinn. Engan sem er að stjórna landinu af skörungsskap og stjórnvisku. Ekki ríkisstjórnina. Og svo þegar þeir líta á stjórnarandstöðuna þá spyrja þeir sig hvort leiðtogar framsóknar eða íhalds viti eitthvað betur. Það er enginn búinn að ná því að fá kjósendur til að trúa því að hann viti hvernig á að stjórna landinu. Nema kannski ef Eva Joly væri sett í stjórnmálin!

Ég er ekki að gefa Sigmundi eða ykkur í forystunni falleinkunn. Ég er bara að segja hlutina eins og þeir horfa við mér sem kjósanda. Við framsóknarmenn þurfum að vinna upp meiri tiltrú ef okkur á að takast að hasla okkur völl áfram í landsmálunum. Og ég er ekki að segja að við eigum að reyna að draga einhvern Churchill upp úr einhverjum töfrahatti en við getum breytt okkar pólitík og sett okkur í betri tengingu við almenning í landinu.

Einar Sigurbergur Arason, 1.6.2010 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband