Gullkorn vikunnar

Ég var mjög hugsi yfir viðtalinu við Pál Skúlason í tímariti ASÍ og hvet alla til að lesa það.

Hér eru nokkur gullkorn:

"Við vorum undir erlendu valdi um aldir og höfum eins og margar nýlenduþjóðir fyrirfram neikvæða afstöðu til ríkisins.  Við viljum vera laus undan öllum boðum og bönnum og haga okkur eins og okkur sjálfum sýnist.  Það verður til þess að við vanrækjum að hugsa og ræða af skynsemi um almannaheill."

" Þjóðin hefur alla andlega burði til að skapa hér manneskjulegt samfélag en það getur hún ekki fyrr en hún gefur siðferðilegum gildum forgang og lætur ekki stjórnast af efnahagslegum gæðum eingöngu.  Heilbrigð eða réttlát stjórnmál munu aldrei dafna á landinu nema við tökum til rækilegrar endurskoðunar það stjórnarfar og þá stjórnsiði sem hér hafa tíðkast.  Hér verður heldur aldrei heilbrigt eða réttlátt efnahagslíf nema það sé sátt um það í samfélaginu hvernig við öflum okkur tekna og hvernig hinum efnahagslegum gæðum er skipt meðal landsmanna."

"...samfélagið er samandlegur og sammannlegur veruleiki sem við eigum öll þátt í að móta með hegðun okkar og hugsunum...Það verða árekstrar og erfiðleikar í öllum samfélögum og samskiptum manna vegna þess að við erum flóknar hugsandi verur með alls kyns þarfir, hvatir og langanir sem við þurfum sífellt að takast á við bæði hjá sjálfum okkur og öðrum.  Þess vegna er það bókstaflega endalaust verkefni að leitast við að byggja upp heilbrigt og réttlátt samfélag. Ef við sinnum því ekki stöðugt og af kostgæfni þá getum við verið viss um að samfélagið verði óheilbrigt og ranglátt.  Og ef við höldum að við séum þegar búin að skapa heilbrigt og réttlátt samfélag, þá erum við að blekkja sjálf okkur vegna þess að fullkomið heilbrigði og fullkomið réttlæti eru ekki af þessum heimi."

Og að lokum:

"Áfallið sem við höfum orðið fyrir á að vekja okkur til vitundar um það sem mestu skiptir í tilverunni: Þroski okkar sjálfra, barna okkar og komandi kynslóða," sagði Páll Skúlason heimspekingur og fyrrum háskólarektor.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband