15.1.2007 | 12:43
Fæðist næsta Marel í Nýheimum?
Árið 1977 voru tveir verkfræðingar við Háskóla Íslands farnir að velta fyrir sér hvernig hanna mætti vogir sem hægt væri að nota við erfiðar aðstæður um borð í vinnsluskipum. Þeir eyddu næstu árum við að þróa hugmyndir sínar og tókst með harðfylgi og sannfæringarkrafti að fá fjárfesta og samstarfsaðila til liðs við sig. Lausnir þessa verkfræðinga voru snjallar og eftirspurnin jókst og sex árum síðar var fyrirtækið Marel stofnað í Reykjavík. Markaðsvirði fyrirtækisins er nú tæpir 20 milljarðar króna og það er á góðri leið með að verða markaðsráðandi á sviði vinnslulína fyrir matvælaframleiðslu.
Einn snjallan mann
Marel er gott dæmi um hvernig nýsköpun á að virka. Hugviti, þekkingu og reynslu er beitt til að leysa raunverulegt vandamál og þolinmótt fjármagn styður við þróunina uns framleiðslan fer að skila arði. En nýsköpun af þessu tagi verður ekki bara til í háskólum og stofnunum í höfuðborginni. Það skemmtilega við nýsköpunina er að oft þarf ekki nema einn snjallan mann til að greina vandamál og koma fram með lausn. Hvort hann er á Höfn eða Klaustri, Mýrdalnum eða Öræfum á ekki að skipta máli, svo framarlega sem hann hefur stuðning til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Og þar á ríkið að koma til aðstoðar.
Með öflugum stuðningi við nýsköpun og þróun á landsbyggðinni getum við snúið við þeim atgervisflótta sem á sér stað allt of víða. Með því að efla og fjölga frumkvöðlasetrum, rannsóknastofnunum og háskólasetrum á Suðurlandi er hægt að skapa störf fyrir allt unga fólkið okkar, sem sækir sér menntun í háskóla víða um heim, en finnur svo ekki störf við hæfi nema á SV-horninu.
Spennandi ný störf
Gott dæmi um þetta er Frumkvöðlasetur Austurlands á Hornafirði, en undirbúningur að stofnun þess hófst árið 1995. Þar hefur mikið starf verið unnið undir styrkri stjórn Ara Þorsteinssonar, en hann hefur verið duglegur við að koma á samstarfi við hinar ýmsu rannsóknastofnanir og háskóla sem skilað hefur spennandi verkefnum á borð við Humarhótel og Hornfirska álafélagið, auk þess sem háskólanemar nýta aðstöðu Frumkvöðlasetursins í auknum mæli við vinnu rannsóknaverkefna.
Þá hefur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sem nú nefnist Matís, sett á stofn útibú á Höfn. Til þess hefur verið ráðinn Guðmundur H. Gunnarsson, lífefnafræðingur, sem brátt lýkur doktorsprófi frá Háskóla Íslands. Hann er gott dæmi um hvernig uppbygging rannsókna og þróunar á landsbyggðinni getur laðað mannauðinn burt frá höfuðborgarsvæðinu og heim í hérað.
Tryggja þarf fjármagn
Til að hrinda öllum þeim góðu hugmyndum í framkvæmd sem við vitum að búa í okkur þurfum við fjármagn. Því tel ég afar brýnt að setja nýjan kraft í Nýsköpunarsjóð svo hann geti staðið myndarlega við bakið á nýsköpun um allt land. Þá er mikilvægt að þeir fjármunir sem ríkið tekur til sín, t.d. í formi veiðigjalds, skili sér aftur í þær byggðir sem það borga. Og fjármunirnir eiga að skila sér í nýsköpun og frumkvöðlastarf. Þar er vaxtarbroddurinn.
Greinin birtist í nýjasta tölublaði Eystrahorns.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.