13.2.2010 | 14:12
Bréf Gunnars Tómassonar til þingmanna
Ég leyfi mér hér með að birta bréf sem Gunnar Tómasson sendi þann 12. september 2009 um gengistryggð lán til allra þingmanna og sendi aftur í dag í tilefni niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í gær um lögmæti gengistryggingar lána. Þá þegar hafði hann lýst yfir áhyggjum sínum af lögmæti gengistryggðra lána í Kastljósviðtali.
Persónuleg reynsla mín af Gunnari Tómassyni er að hann er einstaklega orðvar og vandaður maður í öllum sínum málflutningi. Þannig að þegar hann kallar eitthvað "glapræði" þá getur maður verið nokkuð viss um að ýmsir aðrir myndu nota töluvert kröftugri orð til að lýsa því sem hér hefur gengið á.
"Ágætu alþingismenn.
Í Kastljósviðtali sl. þriðjudag 8. september vék ég m.a. að því broti lánastofnana á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem felst í bindingu skuldbindinga í íslenzkum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.
Í viðtali á Bylgjunni sl. fimmtudag 10. september sagði viðskiptaráðherra í upphafi máls að það hafi verið gengið út frá því til þessa að þessi erlendu lán hafi verið lögleg. Ef einhverjir teldu að svo væri ekki, bætti hann við, þá væri það hlutverk dómstóla að skera úr um málið.
Hér er ekki um erlend lán að ræða. Öll krónulán bankanna eru fjármögnuð af tiltækum krónueignum þeirra að meðtöldum innistæðum í Seðlabanka Íslands sem verða til við sölu bankanna til seðlabanka á erlendum gjaldeyri sem þeir hafa keypt af viðskiptavinum eða tekið að láni erlendis.
Erlend lántaka felur í sér gengisáhættu, sem bankarnir hafa kosið að láta lántakendur axla með bindingu höfuðstóls krónulána við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Lög nr. 38/2001 banna slíka yfirfærslu gengisáhættu, sbr. athugasemd við frumvarp til laga nr. 38/2001: Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi."
Í uppgjörssamningum skilanefnda og kröfuhafa gömlu bankanna er gengið út frá því að yfirfærsla gengisáhættu hafi verið lögleg. Samningarnir taka því ekki mið af skaðabótaskyldu bankanna gagnvart lántakendum gengisbundinna lána skv. 18. gr. laga nr. 38/2001. Niðurfærsla höfuðstóls slíkra lána til jafns við fyrri uppfærslu vegna gengisbindingar myndi nema hundruðum milljarða króna. Útfærsla uppgjörssamninganna án dómsúrskurðar um lögmæti gengisbindingar og hugsanlega skaðabótaskyldu væri glapræði.
Virðingarfyllst, Gunnar Tómasson, hagfræðingur"
Sú staðreynd að ekki hafi verið tekið tillit til hugsanlegrar skaðabótaskyldu bankanna gagnvart lántakendum gengisbundinna lána við uppgjör á milli gömlu og nýju bankanna er eitthvað sem ég hef undrast lengi.
Viðskiptaráðherra hefur aftur og aftur hunsað þetta mál, sem og ríkisstjórnin öll. Þau hafa hunsað tillögur frá talsmanni neytenda um úrlausn, tillögur Hagsmunasamtakan heimilanna og annarra sem bent hafa á lagalegu óvissuna og hrikalega stöðu þeirra sem tóku þessi lán oft samkvæmt ráðleggingum starfsmanna fjármálastofnana.
Skyldi nú loksins verða eitthvað réttlæti hér á landi?
Vill fund um gengislánin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.