13.2.2010 | 14:06
Tímamótadómur v/ gengistryggðra lána
Í gær féll tímamótadómur vegna gengistryggðra lána í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ég hvet alla til að kynna sér hann og lesa þótt ég taki hér út sérstaklega lokaorð rökstuðnings Áslaugar Björginvsdóttur dómara fyrir dómnum:
"Samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 13/1995, náði verðtrygging einnig til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Núgildandi vaxtalögum var ekki ætlað að þrengja það hugtak og auka heimildir til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Lögunum var þvert á móti ætlað að útiloka að skuldbindingar í íslenskum krónum væru tengdar erlendum gjaldmiðlum.
Tenging skuldbindinga við gengi erlendra gjaldmiðla telst því verðtrygging í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Enda þótt lögin kveði ekki beinlínis á um bann við því að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlenda gjaldmiðla þá þykir samkvæmt framanrituðu sýnt að með þeim hafi verið felld úr gildi heimild til að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við erlenda gjaldmiðla. Óhjákvæmilegt er að líta til vilja löggjafans við túlkun laganna. Grundvöllur verðtryggingar samkvæmt samningi aðila, þ.e. ákvæði 4. og 7. gr. samningsins um gengistryggingu, er því í andstöðu við VI. kafla laga 38/2001 og því ógild.
Skiptir þá hvorki máli hvort eftirlitsaðilar, eins og Seðlabanki og Fjármálaeftirlit, hafi vitað af samningunum og ekki gert athugasemdir né lögbundin úrræði eða samkomulag stjórnvalda við fjármálafyrirtæki til létta greiðslubyrði fólks í svipaðri stöðu og stefndi, eins og stefnandi byggir á. Samningurinn er á hinn bóginn ekki ógildur í heild sinni eins og stefndi heldur fram. "
Dómsorðin:
"Stefndu, Jóhann Rafn Heiðarsson og Trausti Snær Friðriksson, eru sýkn af kröfum stefnanda, Lýsingar hf. í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda, Jóhanni Rafni Heiðarssyni, 270.000 krónur í málskostnað. "
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.