Niðurskurður frekar en skattahækkanir

Fréttablaðið fjallar um mjög áhugaverða samanburðarrannsókn sem hagfræðingarnir Alesina og Ardagna gerðu á viðbrögðum 21 landa við miklum og snörpum hallarekstri. Rannsóknin nær yfir 37 ára tímabil, frá 1970 til 2007.

Þar segir: "Heppilegra er að skera niður útgjöld hins opinbera til að efla hagvöxt til langframa og bæta skuldastöðu ríkisins en hækka skatta. Þá eru skattaívilnanir líklegri til að koma hagkerfinu á réttan kjöl og draga úr hallarekstri hins opinbera en aðrar aðgerðir sem eiga að hvetja til einkaneyslu."

Í umfjöllunin er bent á að niðurstöður þessara rannsókna eru þvert á skýrslu fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum næstu fjögur ár. "Í skýrslu ráðherra segir meðal annars að fræðilegar kenningar og athuganir með þjóðhagslíkani bendi til að lækkun útgjalda hafi neikvæðari áhrif á framleiðslustig og dragi úr hagvexti en hækkun skatta, að minnsta kosti til skemmri tíma litið."

Illugi Gunnarsson fjallaði um þessa rannsókn á vefsíðunni í framhaldi af grein sem hagfræðingurinn Mankiew skrifaði um þessar sömu rannsóknir í New York Times. 

Þetta er mikið áhyggjuefni. 

Ef niðurstöður hagfræðinganna reynast gilda fyrir Ísland líka, þá eru væntanlega nær allar þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin er að taka til að rétta við efnahagslífið rangar. 

Byggja einfaldlega á röngum forsendum.

 

 

 


Að baka tóm vandræði

Spunameistarar Samfylkingarinnar finna sífellt ný orð til að slengja fram úr fjóshaugnum sínum. Þau nýjustu eru "kvenfyrirlitning" og "drengjaremba", sem óspart er atað á Framsóknarmenn. Ástæðan er gagnrýni okkar á vinnubrögð og þekkingarskort Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og margra stjórnarliða í Icesave-málinu.

Í stað þess að beita þekkingu og rökum eru vopnin helst hroki, yfirlæti og smjörklípur. Þar sem ég vil forðast að falla niður á sama plan og flestir stuðningsmenn Icesave vil ég benda á nokkur dæmi máli okkar til stuðnings.

Í fyrsta lagi hefur þingflokksformaður VG staðfest að ríkisstjórnin hafi nánast öll verið tilbúin til að samþykkja Icesave-samningana án þess að hafa lesið þá. Lestur samninganna er forsenda skilnings á þeim, nema stjórnarliðar séu farnir að nýta vinnuaðferðir miðla eða einhliða túlkun íslenskra embættismanna á flóknum alþjóðlegum samningum.

Í öðru lagi spurði ég forsætisráðherra um fullyrðingar hennar, fjármálaráðherra og fleiri um að hægt væri að hefja greiðslur úr þrotabúi Landsbankans inn á Icesave-lánið, um leið og búið væri að samþykkja samningana. Benti ég á að slitastjórn gamla Landsbankans hefði ekki í hyggju að greiða neitt úr þrotabúinu fyrr en komin væri niðurstaða í lagaleg ágreiningsmál. Sú niðurstaða mun liggja fyrir eftir 1-2 ár. Forsætisráðherra kom af fjöllum og sýndi þannig skýrt skilningsleysi sitt á málinu öllu.

Í þriðja lagi virðast þingmenn Samfylkingarinnar missa málið á Alþingi þegar reynt er að fá þá til að útskýra hvernig þjóðin á að standa undir erlendum skuldum þjóðarbúsins og hvaðan á að fá gjaldeyrinn. Viðskiptajöfnuður er óáhugaverður að þeirra mati og fullyrti einn þingmaður Samfylkingarinnar að hún hefði lítinn áhuga á að ræða krónur í þessu sambandi.

Ríkisstjórnin, undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur, hefur fátt annað gert frá því að hún tók við völdum en baka þjóðinni vandræði með vanþekkingu sinni og úreltum vinnubrögðum.

Því verður að breyta!


Með og á móti

Ég hef  verið að velta fyrir mér hver séu meginrök þeirra sem vilja samþykkja Icesave, og hver séu meginrök þeirra sem vilja ekki samþykkja Icesave.

Við ræddum þetta aðeins á Alþingi í gærkvöldi, - og þar sem stjórnarliðar hafa lítið talað í málinu eru þetta fyrst og fremst vangaveltur okkar miðað við það sem við heyrum í fjölmiðlum og í einkasamtölum.

Kjarninn virðist vera sá að við sem eru á móti málinu trúum að við verðum látin greiða þetta og þeir sem eru með málinu trúa því EKKI að við verðum látin borga þetta.

Hvar fær fólk þessa reginfirru að þetta sé fyrst og fremst pólitískt en ekki peningalegt? Ef það er fyrst og fremst pólitískt, þá væri ágætt að fá að vita af hverju þessar þjóðir hafa sótt ríkisábyrgðina svona hart, og voru jafnvel með ákvæði um að þær gætu sótt á eignir ríkisins ef við gætum ekki borgað?

Ef stjórnarandstaðan hefur rétt fyrir sér og við munum þurfa að borga þetta, þá myndi ég gjarnan vilja fá að vita hvar við eigum að fá gjaldeyrinn til að greiða allar þessar skuldir.


Ekki bara Icesave

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir skrifar áhugaverðan pistil á vef sínum, þar sem hún leggur til að Icesave verði tekið út úr þinginu, málinu frestað og farið verði heildstætt yfir stöðu Íslands.

Þetta er mjög áhugaverð tillaga. Ég tel að það sé fyllilega hægt að samræma þetta tillögu stjórnarandstöðunnar um að fresta málinu, leita ásjónar alþjóðlegrar stofnunar og fela ríkisstjórninni að skoða málin heildstætt.

Við verðum að vera tilbúin að hugsa málin upp á nýtt, koma okkur upp úr hjólförunum og leita nýrra leiða. 

Hugsa út fyrir kassann.

Ég hef verið slegin yfir þeim upplýsingum sem komið hafa fram í dag og í gær.  Skuldastaðan virðist versna sífellt, við vitum ekki hvernig við eigum að geta staðið við þær greiðslur sem eru framundan á næstu árum, hvað þá eftir 7 ár þegar kemur að því að greiða Icesave.

AGS klórar sér í kollinum yfir ótrúlegum fjármálavafningum íslenskra útrásarvíkinga, þannig að það er ekki skrítið að við hin erum orðin nánast dofin og reiknar og reiknar til að láta þetta nú allt stemma í módelið, alveg sama hversu slæmar fréttirnar eru.

Það verður að gera nágrönnum okkar grein fyrir stöðunni, að þetta snýst ekki um að við viljum ekki borga eða teljum okkur eiga að fá allt fyrir ekkert.  Þetta snýst um að við vitum raunverulega hvernig staðan er og að við reynum að leysa vanda okkar heildstætt.  Ekki bara bút hér og bút þar.

En ég er mjög hrædd um að við séum einfaldlega ekki fær um það, of stór orð hafi verið látin falla og menn geti ekki bakkað þar sem undir er (að þeirra mati) pólitísk framtíð þeirra.

Og gleyma að það sem er raunverulega að veði er framtíð barnanna okkar, framtíð Íslands.


Lýðskrum Steingríms

Þorsteinn Pálsson skrifar fínan pistil í Fréttablaðinu í gær.  Þar gagnrýnir hann vinnubrögð og ummæli forystumanna ríkisstjórnarflokkanna við skattkerfisbreytingarnar sem þau eru búin að boða.

Þorsteinn skrifar:

"Fjármálaráðherra hefur sagt að bylta þurfi skattkerfinu fyrir þá sök að gamla kerfið sé reist á flötum tekjuskatti frjálshyggjuhagfræðinnar. Fjölmiðlar hafa endurvarpað þessari fullyrðingu athugasemdalaust án þess að leita svara við því hvort hún hafi við einhver rök að styðjast. Það sem meira er: Engir stjórnmálamenn hafa andmælt henni.

Hvernig víkur þessu við í raun og veru? Svarið er skýrt: Það er einfaldlega rangt að núverandi kerfi byggist á því sem kallað er flöt skattlagning. Með því að persónuafslátturinn er föst krónutala felst í kerfinu stighækkandi álagning eftir tekjum upp að ákveðnu marki. Segja má að kerfið feli í sér sérstakt skattþrep fyrir hvern skattgreiðanda.

Fullyrðing fjármálaráðherra um þetta efni er þar af leiðandi ósönn. Jafnframt liggur fyrir að óþarft er að kollvarpa kerfinu og eyðileggja einfaldleika þess til að ná fram stighækkandi skatti eftir tekjum.

Hvað þá með frjálshyggjuhagfræðina? Svarið er þetta: Sú pólitíska leiðsögn sem embættismenn fjármálaráðuneytisins höfðu 1986 til 1987 var samkomulag þáverandi ríkisstjórnar við Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið. Einn helsti hugsuðurinn var þáverandi hagfræðingur Alþýðusambandsins. Pólitíska leiðsögnin byggðist á víðtækri málamiðlun og sátt.

Staðhæfing fjármálaráðherra um frjálshyggjuhagfræði er lýðskrum af versta tagi og óvirðing í garð þeirra fulltrúa Alþýðusambandsins sem tóku þátt í stefnumótuninni á sínum tíma af heiðarleika og trúmennsku gagnvart hagsmunum umbjóðenda sinna.

Fjármálaráðherra verður hins vegar að njóta sannmælis. Hann var að því leyti víðsýnni árið 1987 en nú að þá stóð hann og flokkur hans með kerfisbreytingunni. Fyrsta ákvörðunin um að láta persónuafslátt og barnabætur ekki fylgja lánskjaravísitölu eins og um var samið við verkalýðshreyfinguna í byrjun var svo tekin af ríkisstjórn sem bæði núverandi fjármálaráðherra og forsætisráðherra sátu í. Þá var ekki minnst á frjálshyggju." (Birtist í Fréttablaðinu 21. nóv 2009)

Ég hef mjög gagnrýnt vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar.  Þau endurspeglast enn á ný í hvernig þau hafa unnið skattatillögur sínar.  Enginn veit hverjir það eru sem eru að vinna þær, hugmyndum er sífellt kastað á loft og svo dregið í land eða hrein u-beygja tekin.  Ekkert samráð er haft við aðila vinnumarkaðarins né stjórnarandstöðuna og allt kemur á síðustu stundu inn í þingið.

Nú stígur hver sérfræðingurinn fram á fætur öðrum og bendir á að með hugmyndum ríkisstjórnarinnar sé verið að kollsteypa staðgreiðslukerfinu sem hefur reynst vel, verið einfalt í framkvæmd og almennt lítið til umræðu í samfélaginu.

Breytingarnar sem þau leggja til munu auka flækjustigið, minnka gagnsæið og draga úr jafnrétti kynjanna í samfélaginu.

Enn á ný er þessi ríkisstjórn að verða sér til skammar og skaða þjóðina.


Ummæli vikunnar

Í umræðum um Icesave-skuldbindingarnar á Alþingi í gær sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefði fyrr um daginn neitað því að svara fyrirspurn frá sér þar sem hún sá hann ekki í þingsalnum. Kvartaði hann og aðrir þingmenn flokksins yfir því hversu fáir stjórnarþingmenn væru í þingsalnum nú þegar önnur umræða um ríkisábyrgð vegna Icesave stæði yfir.

„Það er þannig með ungabörn, að þegar eitthvað hverfur sjónum þeirra þá telja þau að það sé ekki lengur til. Þetta virðist hafa hent forsætisráðherra fyrr í dag og þess vegna er það mikið áhyggjuefni að forsætisráðherra skuli ekki vera hér í kvöld. Hann gerir þá væntanlega ráð fyrir því að þingið sé ekki til," sagði Sigmundur Davíð.

Svör Árna Þórs Sigurðssonar, varaforseta Alþingis voru þessi: „Forseti er fullviss um að forsætisráðherra hæstvirtur er ennþá til og það verða gerðar ráðstafanir til að kanna hvort hún geti komið í þinghúsið".

 


Fyndið Fréttablað

Ég hef skemmt mér stórvel yfir baksíðunni á Fréttablaðinu á undanförnu.  Fyrir nokkrum dögum þá var skrifað um "stórhuga" Framsóknarmenn, þar sem ekki væri bara samkeppni um 1. sætið í Reykjavík, heldur 2. og 3. sætið líka.  Heilir sjö einstaklingar væru þarna að keppa um þrjú sæti...

Ég sá alveg fyrir mér umræðuna á ritstjórn Fréttablaðsins þar sem þeir veltu fyrir sér hvort Framsóknarmenn gerðu sér ekki lengur grein fyrir stöðu sinni?  Að þeir ættu nú bara að vera þakklátir fyrir einn borgarafulltrúa, en ekki að vera keppa að nokkrum í viðbót?

Svo jöfnuðu menn sig aðeins á ritstjórninni, og skelltu fram skýringunni á þessu í dag:  "Að öðru leyti var eftirspurnin lítil. Því sátu forsvarsmenn við símann og reyndu að sjarmera hina og þessa í framboð með misjöfnum árangri allt þar til listinn var lagður fram í gær."

Árangurinn = 21 mjög frambærilegir einstaklingar að keppa um 12 sæti.

Ég vona að blaðamenn á Fréttablaðinu haldi nú áfram að skemmta okkur með svona "Fréttum af fólki".


Höfuðstólslækkun nauðsynleg

Alþingi samþykkti nýlega lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Þessi lög marka að vissu leyti tímamót, því í fyrsta sinn hefur ríkisstjórnin viðurkennt að vandi heimilanna í landinu verði ekki leystur nema með almennum aðgerðum. Þetta höfum við framsóknarmenn ásamt fjölmörgum einstaklingum og félagasamtökum bent á mánuðum saman og endurfluttum við á dögunum þingsályktunartillögu okkar frá fyrra þingi um almennar afskriftir höfuðstóls lána.

Ljóst er að þessar aðgerðir hljóta að vera aðeins fyrsta skrefið í aðgerðum til bjargar skuldsettum heimilum. Ekki er nóg að taka á greiðslubyrði lánanna. Með því er aðeins verið að festa í lög það gríðarlega óréttlæti sem alger forsendubrestur hefur haft í för með sér. Taka þarf á skuldabyrðinni sjálfri með niðurfærslu höfuðstóls. Það er í hæsta máta óeðlilegt að almenningur, sem tók lán í samræmi við gildandi lög og reglur, eftir ráðgjöf meintra sérfræðinga, skuli einn bera allt það tjón sem hlotist hefur af misvitri löggjöf, fjársveltum eftirlitsstofnunum, andvaraleysi ráðamanna og ekki síst háskaleik óreiðumanna, sem margir hverjir hvöttu þennan sama almenning til skuldsetningarinnar.

Þá er ekki að fullu ljóst hver áhrif þessarar lagasetningar verða. Óvissan er í raun svo mikil að fallist var á breytingatillögu þar sem gert er ráð fyrir að starfshópur verði skipaður sem hafa skuli eftirlit með framgangi laganna og grípa inní, m.a. með tillögur að lagabreytingum gerist þess þörf.
Þrátt fyrir að við höfum, ásamt fjölmörgum öðrum, bent á nauðsyn þess að bregðast hratt og örugglega við greiðsluvanda heimilanna, líta þessi lög fyrst nú dagsins ljós, rúmu ári eftir hrun. Ekki er hægt að kenna um breytingum í stjórnarráðinu, því Samfylkingin hefur setið í félagsmálaráðuneytinu allan þann tíma. Því sætir furðu að ekki aðeins hafi tekið heilt ár að vinna að undirbúningi almennra aðgerða, heldur ekki síður að þegar þær koma fram skuli þær ganga jafn skammt og raun ber vitni auk þess að bera þess öll merki að vera lítt ígrundaðar og unnar á handahlaupum. Stofnun um fjármálalæsi, Hagsmunasamtök heimilanna og fleiri hafa þegar gert alvarlegar athugasemdir við hin nýju lög.

Vonandi er sú staðreynd að félagsmálaráðherra hefur snúist hugur varðandi almennar aðgerðir til að lækka greiðslubyrði heimilanna merki um að ríkisstjórnin sé loks farin að hlusta. Mikilvægt og sanngjarnt er að áfram verði unnið að almennum aðgerðum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur viðurkennt að greiðslujöfnun dugar ekki til og áætlað að afskrifa þurfi um 600 milljarða króna af lánum heimilanna. Sérfræðingar í íbúðalánum hafa útskýrt hvernig Íbúðalánasjóður gæti leikið lykilhlutverk í nauðsynlegum leiðréttingum á íbúðalánum, en þær hugmyndir hafa verið kynntar félags- og tryggingarráðherra án árangurs. Stjórnvöld verða að fara að hlusta á þessa sjálfsögðu kröfu, og hætta að hunsa tilmæli opinberra aðila eins og talsmanns neytenda og kröfu almennings um réttlæti og sanngirni.

Nauðsynlegt er að stíga strax næstu skref og félagsmálaráðherra á nú þegar að kalla til samráðs baráttuhóp þeirra opinberu aðila og samtaka sem áherslu hafa lagt á almenna leiðréttingu höfuðstóls lána. Samráð við þessa aðila verður ekki hunsað lengur því betur má ef duga skal.

Eygló Harðardóttir

Gunnar Bragi Sveinsson 

(Birtist fyrst í Fréttablaðinu 12.nóvember 2009)


Vigtun á sjávarafla

Lítið hefur farið fyrir þessari frétt frá sjávarútvegsráðuneytinu, sem undir eðlilegum kringumstæðum ætti að vera stórfrétt. Sjávarútvegsráðuneytið hyggst breyta reglugerð um vigtun á sjávarafla.  Ef reglugerðin verður samþykkt mun ekki lengur vera leyfilegt að flytja út óvigtaðan afla frá landinu.

Í drögunum segir:

1.gr. Reglugerð þessi gildir um vigtun og skráningu alls afla sem landað er hér á landi án tillits til þess hvar hann er veiddur.

2.gr. Öllum afla, sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða að öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn, enda hafi ráðherra ekki heimilað annað með reglugerð...

Ég tel að þetta sé skref í rétta átt hjá hæstvirtum ráðherra Jóni Bjarnasyni.  Vonandi mun þetta þýða aukin umsvif hjá innlendum fiskmörkuðum og fleiri störf í landi.


Til skammar!

Framkoma mótmælenda gagnvart Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, er einfaldlega til skammar.  Hún er embættismaður, situr sem ráðherra utanþings og fylgir eftir stefnu ríkisstjórnarinnar og hefur lagt sig fram um að vinna þau störf af mikilli vandvirkni. 

Ef mótmælendur eru ósáttir við hennar störf og ákvarðanir sem byggjast á lögum og reglum þá ættu þeir að koma því á framfæri við kjörna fulltrúa og þá sem bera ábyrgð á verkum hennar í ríkisstjórn.

 

 


mbl.is Gerðu hróp að ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband