Gylfa er slétt sama!

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra virðist ætla áfram að krossleggja puttana og vona að Hæstiréttur reddi nú málunum fyrir hann.

Enginn vilji virðist vera til að taka á þessu stóra vandamáli á heildstæðan máta. 

Talsmaður neytenda lagði fram tillögur á sínum tíma um að skipaður yrði gerðadómur til að leita ásættanlegrar niðurstöðu fyrir bæði lánveitendur og lántakendur. 

Það getur verið að einhverjum finnist áhugavert að hlusta á svör viðskiptaráðherra við nokkrum spurningum sem ég bar upp við ráðherrann eftir að Guðmundur Andri Skúlason, talsmaður samtaka lánþega hafði ítrekað reynt að fá svör frá ráðherranum en án árangurs.

En heldur voru þau rýr, líkt og nú þegar ráðherrann bendir á að lánin séu svo margvísleg.  Þýðir það að hann ætlar áfram að benda fólki á að leita réttar síns fyrir dómstólum? 

Á sama tíma og ráðherrar varpa frá sér allri ábyrgð og segja beinlínis að hver og einn þurfi nú að stefna bönkum og eignaleigufyrirtækjum ætli þeir sér að fá leiðréttingu sinna mála, hafa stjórnvöld unnið markvisst að því að draga úr möguleikum almennings á að gera einmitt það. Stjórnvöld hafa hækkað kostnað við málsóknir og ekkert gert til að auka möguleika fólks á gjafsókn.

Enn á ný kemur í ljós að skjaldborg ríkisstjórnarinnar er vissulega til staðar. En hún er byggð utan um banka og fjármálastofnanir, útrásarvíkinga og fjárglæframenn, en almenningur er utangarðs og verður að berjast upp á eigin spýtur.

 


mbl.is Hæstiréttur þarf að skera úr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréf Gunnars Tómassonar til þingmanna

Ég leyfi mér hér með að birta bréf sem Gunnar Tómasson sendi þann 12. september 2009 um gengistryggð lán til allra þingmanna og sendi aftur í dag í tilefni niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í gær um lögmæti gengistryggingar lána.  Þá þegar hafði hann lýst yfir áhyggjum sínum af lögmæti gengistryggðra lána í Kastljósviðtali.

Persónuleg reynsla mín af Gunnari Tómassyni er að hann er einstaklega orðvar og vandaður maður í öllum sínum málflutningi.  Þannig að þegar hann kallar eitthvað "glapræði" þá getur maður verið nokkuð viss um að ýmsir aðrir myndu nota töluvert kröftugri orð til að lýsa því sem hér hefur gengið á.

"Ágætu alþingismenn. 

Í Kastljósviðtali sl. þriðjudag 8. september vék ég m.a. að því broti lánastofnana á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem felst í bindingu skuldbindinga í íslenzkum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. 

Í viðtali á Bylgjunni sl. fimmtudag 10. september sagði viðskiptaráðherra í upphafi máls að “það hafi verið gengið út frá því til þessa að þessi erlendu lán hafi verið lögleg.”  Ef einhverjir teldu að svo væri ekki, bætti hann við, þá væri það hlutverk dómstóla að skera úr um málið. 

Hér er ekki um “erlend lán” að ræða. Öll krónulán bankanna eru fjármögnuð af tiltækum krónueignum þeirra að meðtöldum innistæðum í Seðlabanka Íslands sem verða til við sölu bankanna til seðlabanka á erlendum gjaldeyri sem þeir hafa keypt af viðskiptavinum eða tekið að láni erlendis.   

Erlend lántaka felur í sér gengisáhættu, sem bankarnir hafa kosið að láta lántakendur axla með bindingu höfuðstóls krónulána við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Lög nr. 38/2001 banna slíka yfirfærslu gengisáhættu, sbr. athugasemd við frumvarp til laga nr. 38/2001: “Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi." 

Í uppgjörssamningum skilanefnda og kröfuhafa gömlu bankanna er gengið út frá því að yfirfærsla gengisáhættu hafi verið lögleg.  Samningarnir taka því ekki mið af skaðabótaskyldu bankanna gagnvart lántakendum gengisbundinna lána skv. 18. gr. laga nr. 38/2001. Niðurfærsla höfuðstóls slíkra lána til jafns við fyrri uppfærslu vegna gengisbindingar myndi nema hundruðum milljarða króna.  Útfærsla uppgjörssamninganna án dómsúrskurðar um lögmæti gengisbindingar og hugsanlega skaðabótaskyldu væri glapræði. 

Virðingarfyllst, Gunnar Tómasson, hagfræðingur"

Sú staðreynd að ekki hafi verið tekið tillit til hugsanlegrar skaðabótaskyldu bankanna gagnvart lántakendum gengisbundinna lána við uppgjör á milli gömlu og nýju bankanna er eitthvað sem ég hef undrast lengi. 

Viðskiptaráðherra hefur aftur og aftur hunsað þetta mál, sem og ríkisstjórnin öll.  Þau hafa hunsað tillögur frá talsmanni neytenda um úrlausn, tillögur Hagsmunasamtakan heimilanna og annarra sem bent hafa á lagalegu óvissuna og hrikalega stöðu þeirra sem tóku þessi lán oft samkvæmt ráðleggingum starfsmanna fjármálastofnana.

Skyldi nú loksins verða eitthvað réttlæti hér á landi?

 


mbl.is Vill fund um gengislánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamótadómur v/ gengistryggðra lána

Í gær féll tímamótadómur vegna gengistryggðra lána í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ég hvet alla til að kynna sér hann og lesa þótt ég taki hér út sérstaklega lokaorð rökstuðnings Áslaugar Björginvsdóttur dómara fyrir dómnum:

"Samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 13/1995, náði „verðtrygging“ einnig til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Núgildandi vaxtalögum var ekki ætlað að þrengja það hugtak og auka heimildir til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Lögunum var þvert á móti ætlað að útiloka að skuldbindingar í íslenskum krónum væru tengdar erlendum gjaldmiðlum.

Tenging skuldbindinga við gengi erlendra gjaldmiðla telst því verðtrygging í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Enda þótt lögin kveði ekki beinlínis á um bann við því að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlenda gjaldmiðla þá þykir samkvæmt framanrituðu sýnt að með þeim hafi verið felld úr gildi heimild til að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við erlenda gjaldmiðla. Óhjákvæmilegt er að líta til vilja löggjafans við túlkun laganna. Grundvöllur verðtryggingar samkvæmt samningi aðila, þ.e. ákvæði 4. og 7. gr. samningsins um gengistryggingu, er því í andstöðu við VI. kafla laga 38/2001 og því ógild.

Skiptir þá hvorki máli hvort eftirlitsaðilar, eins og Seðlabanki og Fjármálaeftirlit, hafi vitað af samningunum og ekki gert athugasemdir né lögbundin úrræði eða samkomulag stjórnvalda við fjármálafyrirtæki til létta greiðslubyrði fólks í svipaðri stöðu og stefndi, eins og stefnandi byggir á. Samningurinn er á hinn bóginn ekki ógildur í heild sinni eins og stefndi heldur fram. "

Dómsorðin:

"Stefndu, Jóhann Rafn Heiðarsson og Trausti Snær Friðriksson, eru sýkn af kröfum stefnanda, Lýsingar hf. í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda, Jóhanni Rafni Heiðarssyni, 270.000 krónur í málskostnað. "

 


Skammsýni stjórnvalda?

Eitt af því sem stundum  heyrist frá stjórnarliðum er að vandi Íslands sé tímabundinn: "Við þurfum aðeins að skera niður í ríkisútgjöldum og hækka skatta í 2-3 ár og eftir það verður allt gott aftur." segja þeir og virðast trúa því að 2007 komi fljótt aftur...

Því er engin framtíðarsýn og engin stefnumörkun um hvernig við ætlum að byggja upp atvinnulífið og þá sérstaklega útflutningsgreinarnar, hvernig við ætlum að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum,- hinu nýja skuldsetta Íslandi.

Því er ekki undarlegt að ákvarðanir yfirmanna ríkisstofnana og -fyrirtækja endurspegli þetta.

Hjálmtýr Heiðadal, formaður félags kvikmyndagerðarmanna, skrifar mjög athyglisverða grein um stöðu og framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar í framhaldi af niðurskurði á Kvikmyndasjóði og ákvörðun RÚV um að hætta að kaupa innlendar kvikmyndir og draga stórlega úr kaupum á innlendum þáttum og heimildamyndum.

Þar segir hann:

"Það mun líða nokkur tími áður en Íslenskir áhorfendur munu sjá afleiðingar þess að kvikmyndagerð á Íslandi er leidd á höggstokkinn árið 2010. Ferlið verður með þeim hætti að þær myndir sem eru í framleiðslu klárast en nánast ómögulegt verður að hefjast handa við ný kvikmyndaverk. Kvikmyndasjóður hefur, eftir niðurskurðinn, 450 milljónir til úthlutunar. En eftir að RÚV hættir að kaupa verk þá getur nánast enginn kvikmyndaframleiðandi fjármagnað verk án uppáskriftar frá RÚV og því munu peningar kvikmyndasjóðs ekki nýtast til framleiðslu kvikmyndaverka.

Eftir 2 -3 ár verður framboð á íslenskum kvikmyndaverkum fátæklegt...

Fyrir hverja krónu sem ríkið hefur fjárfest í kvikmyndagerð hafa 3 - 4 krónur ratað í ríkiskassann og kvikmyndagerð dregur að töluverðan erlendan gjaldeyri. Vegna aðgerðanna gegn kvikmyndaiðnaðinum mun fjöldi kvikmyndagerðarfólks bætast á atvinnuleysiskrá, ríkið verður af skatttekjum og þarf að einnig greiða atvinnuleysisbætur...

Þjóðir sem verða fyrir áföllum verða að grípa til allra tiltækra ráða til að endurreisa samfélagið. Gildir það jafnt um áföll af völdum náttúrunnar eða aðgerða mannanna líkt og Hrunið sem Íslendingar þekkja nú af eigin raun. Endurreisn íslenska samfélagsins er og verður erfið og ekki án átaka. Það mun svíða undan ýmsum aðgerðum sem verður að ráðast í og það munu heyrast raddir sem andmæla mörgu sem er byrjað á og ýmsu sem er framundan.

En þegar ráðamenn grípa til slíkra heimskuráða og hér sýna sig þá dregur úr trú almennings á framsýni þeirra og þekkingu."

Svo mörg voru þau orð.

 


Svar frá Páli Magnússyni

Ég sendi bréf til Páls Magnússonar útvarpsstjóra sem var nánast samhljóða pistlinum "RÚV á rangri leið".  Páll hefur gefið góðfúslegt leyfi til að birta svar hans við spurningum mínum. 

Menntamálanefnd stefnir jafnframt að því að funda fljótlega um málið.

--------------------------- 

Svar Páls:

"Aðalatriði málsins sem lýtur að erindi þínu er þó þetta:

Kostnaður við innkaup á erlendu sjónvarpsefni er afar lítill hluti af heildarútgjöldum við dagskrárframboð Sjónvarpsins, - þótt það sé umtalsverður hluti af útsendingartíma þess. Skerðing á því kemur því alltaf fram sem bein stytting á útsendingartíma því ekkert ódýrara efni er til sem kæmi í staðinn. Þó minnkuðum við innkaup á erlendu efni talsvert í síðasta niðurskurði fyrir rúmu ári og styttum frumflutta kvölddagskrá Sjónvarps sem því nam.

Með einföldun mætti segja að margfeldisstuðullinn í samanburði á kostnaði við erlent og innlent efni sé nálægt því að vera 10. Fyrir hvern klukkutíma sem við spöruðum í erlendu efni fengjum við þannig gróflega  6 mínútur af innlendu efni.

Meginþunginn af dagskrárkostnaði Sjónvarpsins liggur sem sé í innlendu efni og enginn umtalsverður árangur næst í sparnaði nema að hann kom þar niður.

Það má líka setja þessi stærðarhlutföll í annað samhengi: kaup á erlendu dagskrárefni fyrir Sjónvarpið nema rúmlega 300 milljón króna á ári. Skerðing stjórnvalda á tekjum RÚV nemur 420 milljónum. Þótt við skærum niður ÖLL  kaup á erlendu efni – og styttum þannig sjónvarpsdagskrána niður í 2-3 klukkutíma á dag – þá vantaði okkur enn 120 milljónir til að mæta tekjuskerðingunni!!

Vona að þetta skýri málið eitthvað en er sem sé reiðubúinn að fara nánar yfir þetta á hvaða vettvangi sem er. Líka í þingflokki framsóknarmanna ef þú vilt!"

Páll Magnússon

----------------------------------


RÚV á rangri leið?

Ég sit í menntamálanefnd Alþingis og hef verið að fylgjast með aðgerðum RÚV til að ná tökum á rekstri félagsins.

Í frétt á RÚV.is kemur eftirfarandi fram: „Dagskrárþjónusta í útvarpi og sjónvarpi verður skert.  Umfang Kastljóssins minnkar, Fréttaukinn og Viðtalið í sjónvarpi verða tekin af dagskrá, hætt verður að kaupa íslenskar bíómyndir til sýninga og dregið verður stórlega úr sýningum á efni frá sjálfstæðum innlendum framleiðendum. Beinum útsendingum frá stórum viðburðum eins og Grímunni og íslensku tónlistarverðlaununum verður hætt og minna verður um beinar ínnlendar íþróttaútsendingar.  Útsend dagskrá í sjónvarpi og útvarpi styttist þó ekki, en meira verður um endursýningar og endurtekið efni.“

Sérstök áhersla virðist vera á að draga saman í innlendri dagskrárgerð.  Hætt verði að kaupa íslenskar bíómyndir til sýninga og dregið verði stórlega úr sýningum á efni frá sjálfstæðum framleiðendum.  Einnig að minna verði um beinar útsendingar af innlendum vettvangi auk þess sem draga á úr þjónustu við landsbyggðina enn frekar.

Innlend kvikmyndagerð og gerð á innlendu sjónvarpsefni hefur blómstrað á undanförnu.  Þetta er oft vinsælasta sjónvarpsefnið og er einnig mjög þjóðhagslega hagkvæmt. Það getur sparað gjaldeyri og leitt til aukinna gjaldeyristekna ef hægt er að selja efnið erlendis.  Það höfum við séð með Wallander þættina frá Svíþjóð og Örnen frá Danmörku. 

Þessar aðgerðir virðast heldur ekki vera í samræmi við 3.gr. laga um RÚV.  Er ætlunin að draga saman á sambærilegan máta úr kaupum á erlendum kvikmyndum og öðru sjónvarpsefni?  Er ætlunin að draga úr beinum útsendingum erlendis frá eða kaupum á efni frá erlendum fréttariturum??

Ef það væri gert, væri þá hægt að fækka uppsögnum starfsmanna og styðja við innlenda atvinnusköpun á sviði kvikmyndagerðar og annars  dagskrárefnis?

 


Samvinna um lausn

Ég fagna því að fundurinn skyldi vera góður í kvöld.

Það er kallað eftir samvinnu og samstöðu innan þingsins, og í þessu máli verða allir Íslendingar að taka höndum saman og verja þjóðarhag. 

Ég verð að viðurkenna að mér varð órótt þegar ég las frétt í Fréttablaðinu að nú ætti enn á ný að fara tönglast á því að stjórnarandstaðan yrði að koma með ákveðin samningsmarkmið og ríkisstjórnin biði eftir stjórnarandstöðunni.  Við Framsóknarmenn höfum ítrekað að þetta mál snýst ekki um ríkisstjórnina, en þá verður ríkisstjórnin líka að axla ábyrgð og hafa forystu í málinu. 

Framsóknarmenn lögðu fram ákveðnar tillögur fyrir lokaatkvæðagreiðsluna.  SA lagði fram svipaðar hugmyndir í grein í Fréttablaðinu og skv. nýjustu fréttum virðist ríkisstjórnin vera að hlusta og móta sínar eigin tillögur út frá þeim ráðum.

Við erum alltaf sterkari þegar við vinnum saman en þegar við þrjóskumst ein við út í horni.

Nú þarf samvinnu um lausn.


mbl.is Segja um góðan fund að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðþrota ríkisstjórn?

Samkvæmt Fréttablaðinu þá vill ríkisstjórnin að stjórnarandstaðan leggi upp samningsmarkmiðin í viðræðum við Breta og Hollendinga. 

Ráðherrarnir vilja samt ekki viðurkenna að núverandi samningar eru ekki nógu góðir og eru að reyna að spinna þetta þannig að boltinn sé hjá stjórnarandstöðunni.

Þýðir það að ríkisstjórnin er búin að gefast upp? Er hún að viðurkenna að hún ræður ekki við að semja hvorki innanlands eða erlendis?  Að hún hafi engan trúverðugleika?

Ég vil að tíminn fram að þjóðaratkvæðagreiðslu verði nýttur til að skapa samstöðu innanlands um nýja samninga og opna á viðræður við Breta og Hollendinga.

Kannski er stjórnin einfaldlega ráðþrota?


Þverpólitísk samninganefnd

Formenn SA, Viðskiptaráðs og Samtaka Iðnaðarins skrifa mjög góða grein í Fréttablaðinu í morgun. Þar segir: "Við leggjum því til að Alþingi skipi nýja samninganefnd án tafar sem skipuð væri fulltrúum allra þingflokka. Vel færi á því að utanríkisráðherra færi fyrir nefndinni og að hún fengi sér til fulltingis færustu sérfræðinga, innlenda og erlenda, sem hefðu til að bera víðtæka reynslu og þekkingu. Þá væri mikilvægt að fá til liðs við nefndina erlendan fyrrverandi stjórnmálaleiðtoga sem þekktur væri og virtur á alþjóðlegum vettvangi fyrir störf sín í alþjóðastjórnmálum og hefði jafnframt þekkingu á aðstæðum Íslendinga. Slíkur einstaklingur gæti gegnt hlutverki sáttasemjara og gæfi okkur aukinn styrk í glímunni við erfiða mótaðila frá Englandi og Hollandi.

Verkefni nefndarinnar væri að komast að niðurstöðu við viðsemjendur okkar sem bæði næði að mæta þeim skuldbindingum sem Íslendingar þurfa að axla og að ljúka málinu hratt og örugglega með réttlátum hætti þannig að bærileg sátt næðist á Íslandi. Með því gæfist loks ráðrúm til að snúa sér að uppbyggilegum viðfangsefnum."

Lilja Mósesdóttir lagði til að Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands yrði fenginn sem sáttasemjari.  Ögmundur Jónasson nefnir að við þurfum ekki endilega þekkt nafn heldur einhvern sem kann til verka, til að vinna að sáttagjörð. Við í Framsóknarflokknum höfum nefnt fulltrúa frá ESB eða Kanada.  Norðurlöndin spila einnig stórt hlutverk, þar sem þrýstingur á okkur byggist á því að enn á ný muni sami leikur byrja þar sem AGS bendir á Norðurlöndin og Norðurlöndin benda á AGS við útgreiðslu lána og endurskoðun efnahagsáætlunarinnar.

Þessi hugmynd forystumanna atvinnulífsins er algjörlega í samræmi við hugmyndir Framsóknarmanna og lögðum við fram þessa tillögu formlega á formannafundi fyrir lokaatkvæðagreiðsluna á Icesave viðaukasamingunum. 

Því miður fékk hún ekki hljómgrunn þá hjá stjórnarflokkunum.

En nú er ný staða komin upp við synjun forseta Íslands.

Tökum höndum saman og vinnum að lausn málsins þannig að þjóðin hafi skýra valkosti við þjóðaratkvæðagreiðsluna! 

 


Gleðileg jól!

"Have yourself a merry little Christmas" í útvarpinu, Nigella er elda eitthvað dýrleg í sjónvarpinu, búin að kveikja á kertum og nær allt að verða tilbúið fyrir jólin :)

Ég óska öllum nær og fjær gleðilegra jóla og yndislegra stunda með fjölskyldu og vinum um jólin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband