10.5.2010 | 13:25
Yfirheyrsla yfir verðtryggingunni
Í morgun var haldinn opinn fundur hjá viðskiptanefnd um verðtrygginguna og leiðir til að afnema hana.
Fundurinn var haldinn að frumkvæði Framsóknarmanna, í framhaldi af því við lögðum fram lagafrumvarp um leiðir til að afnema verðtrygginguna. Gestir fundarins voru Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, Friðrik Friðriksson og Marinó Njálsson, stjórnarmenn í Hagsmunasamtökum heimilanna.
Hvet fólk eindregið til að horfa á fundinn um leið og hann kemur á vef viðskiptanefndar, - og velta þessu stóra neytendamáli fyrir sér.
8.5.2010 | 10:26
Siðbót eða störf?
Það er auðvelt að tala um siðbót í íslenskum stjórnmálum og viðskiptalífi. Það er auðvelt að segjast styðja breytt vinnubrögð og enga spillingu í stjórnmálum.
Raunveruleikinn vill vera flóknari, ákvarðanirnar erfiðari og svörin hvorki rétt né röng.
Í gær stóð ég frammi fyrir ákvörðun um hvort ég ætti að styðja fjárfestingarsamning við Vern Holding. Í greinargerð með frumvarpinu stóð að gagnaverið gæti tryggt allt að 100 manns vinnu til framtíðar á Suðurnesjum, störfin væru svokölluð græn störf og í mínu kjördæmi.
Verkefnið væri tryggt ef aðeins við samþykktum $5 milljón dollara skattaívilnun til fyrirtækisins.
Ég vil gagnaver, ég styð álversuppbygginguna, ég styð Keili/Ásbrú, ég vil sjá ECA koma til landsins, ég vil sjá Varnarmálastofnun sameinast Landhelgisgæslunni og vera áfram á svæðinu, ég vona að hægt verði að halda áfram virkjanaframkvæmdum á Suðurnesjum og ég vona svo sannarlega að ferðaþjónustan haldi áfram á blómstra.
Græni takkinn?
Nei, - því aðalfjárfestirinn á bakvið Vern Holding er einstaklingur sem var einn aðaleigandi Landsbankans. Ákvarðanir og aðgerðir stjórnenda Landsbankans leiddu til þess að íslenska ríkið þarf hugsanlega að taka á sig 1000 milljarða króna ábyrgð og skuldsetja íslensku þjóðina í hæstu hæðir. Afleiðingarnar fyrir íslenskan almenning eru síversnandi lífskjör, mikið atvinnuleysi, hærri skattar og mikill niðurskurður í velferðarkerfinu.
Fyrir nokkrum árum síðan stóðu forverar mínir í starfi frammi fyrir sambærilegu siðferðilegu mati við sölu á ríkisbönkunum. Efasemdir voru uppi um hæfni, mannorð og getu viðkomandi fjárfesta. Ekki var hlustað á þær efasemdir og því fór sem fór.
Það hlýtur að vera forsenda fyrir öllum þeim verkefnum sem ég nefndi að ofan að þeim komi einstaklingar með hreint mannorð.
Rauði takkinn?
Á Suðurnesjum er hæsta atvinnuleysið á Íslandi, og er atvinnuástandið sérstaklega slæmt hjá iðnaðarmönnum. Ég veit hvað það er að vera atvinnulaus, sækja stöðugt um vinnu og vera hafnað, horfa upp á reikningana hrúgast upp og enda svo með því að þurfa að flytja frá fjölskyldu minni og sveitarfélagi til að geta sótt vinnu.
Því ákvað ég að styðja tillögu Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, um að vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar til að leita eftir nýjum fjárfestum að verkefninu, og sitja að öðru kosti hjá þar sem ég hefði viljað vinna þetta öðruvísi.
Rétt eða röng, - þá var þetta allavega niðurstaðan sem samviskan mín leyfði.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.5.2010 | 07:35
Siðbót í stjórnmálum
Í leiðara sínum í morgun skrifar Ólafur Stephensen um mikilvægi þess að siðvæða íslensk stjórnmál og skrifar:
"...flokkarnir, allir í sameiningu, ráðist í siðvæðingarátak í íslenzkri pólitík. Grunnur hefur þegar verið lagður að gegnsæi í fjármálum flokkanna. Nú er eftir að taka til endurskoðunar vinnubrögðin í pólitíkinni og stjórnkerfinu í heild sinni. Flokkarnir þurfa að verða sammála um að fækka ráðuneytum og ráðherrum, efla fagmennsku í ráðuneytunum og afnema pólitískar ráðningar. Þeir þurfa að breyta vinnubrögðunum og umræðuvenjunum á Alþingi og styrkja stöðu þess gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þeir eiga sömuleiðis að styrkja stöðu og sjálfstæði dómstólanna."
Ég vona svo sannarlega að þetta sé eitthvað sem við getum öll, í sameiningu, ráðist í, - ekki bara stjórnmálaflokkarnir heldur einnig fjölmiðlar og almenningur allur með því að styðja og hvetja til breyttra vinnubragða.
2.5.2010 | 21:29
Vofur og zombies Egils
Í nýlegum pistli á vef Egils Helgasonar kallar hann fólk í stjórnmálaflokkum vofur og zombies sem hlýði skipunum flokka sem vita varla sitt rjúkandi ráð. Í lok pistilsins kallar hann svo eftir að sæmilega skikkanlegt fólk taki sig saman og bjóði fram á landsvísu, því þær þúsundir einstaklinga, flokksbundnir jafnt sem óflokksbundnir, sem þegar hafa boðið sig fram undir merkjum flokka, bæjarmálafélaga og samtaka uppfylla víst ekki þau skilyrði að hans mati.
Undir þessu get ég ekki setið þegjandi og hljóðalaust. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er fjallað sérstaklega um lýðræðislega umræðu í íslenskum stjórnmálum. Þar segir: Markmið rökræðu er að lýsa upp málefni: því verður hún að byggjast á upplýsingum um staðreyndir mála og sá sem stundar rökræðu af heilindum leitast við að hafa það sem sannara reynist Íslensk stjórnmál hafa ekki náð að þroskast í samræmi við þessa hugsjón lýðræðisins. Þau hafa þvert á móti oft einkennst af kappræðu og átökum þar sem markmiðið er að sigra andstæðinginn og sannfæra áheyrendur. Ólafur Harðarson, stjórnmálafræðingur, hefur líkt umræðunni við Morfís-keppni þar sem stóryrði og aulabrandarar eru látnir fjúka frekar en skoðanaskiptum.
Hvort sem Egill Helgason vill viðurkenna það eða ekki, þá er hann, blogg hans og þáttur hans, Silfur Egils, stór áhrifavaldur á íslenska stjórnmálaumræðu. Egill hefur átt stóran þátt í árangri einstakra framboða á borð við R-listann og Borgarahreyfinguna auk þess að vera stökkpallur fjölmargra stjórnmálamanna. Meðal þeirra eru Bjarni Harðarson, Sóley Tómasdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir, Árni Páll Árnason, Björn Ingi Hrafnsson, Guðmundur Steingrímsson, Dagur B. Eggertsson og Kristrún Heimisdóttir. Umræðan í pallborðinu hjá honum hefur þó oft einkennst fremur af þeim kappræðum og átökum sem varað er við í rannsóknarskýrslunni, þar sem markmiðið hefur verið að tala hæst og mest og helst leggja andstæðinginn á ipponi. Þegar Egill tekur sig til og lýsir þeim einstaklingum sem starfa með íslensku stjórnmálaflokkunum sem zombies er það mikill áfellisdómur, en ekki síður yfir honum sjálfum.
Íslenskir stjórnmálaflokkar eru í mikilli naflaskoðun þessa dagana. Við erum að tala saman þvert á flokka og leita leiða til að bregðast við þeim áfellisdómi sem hrunið og skýrslan er um íslenskt stjórnkerfi og stjórnmál. Sumum finnst eflaust að við eigum einfaldlega að leggja niður stjórnmálaflokka og safna saman hópi af sæmilega skikkanlegu fólki sem reddar þessu öllu. Enda margir sem halda því fram að þetta hafi bara verið fólkið, þannig að lausnin hlýtur að vera að fá bara nýtt fólk.
Helst fólk sem er fyndið, frægt, orðheppið, syngur vel eða kemur skemmtilega fyrir í Silfri Egils, - sem reyndar hljómar ansi kunnuglega þegar horft er á fjölmarga þá stjórnmálamenn sem árangri hafa náð á umliðnum árum.
Mun það bæta stjórnmálaumræðuna eða tryggja að stjórnmál fari að snúast um almannaheill og hugsjónir? Nei, það mun svo sannarlega ekki gera það, ekki frekar en að kalla stjórnmálamenn vofur eða zombies. Það mun taka tíma að endurbyggja traust í íslensku samfélagi, þroska umræðuna og gagnrýna hugsun. Stórt skref í þá átt er að á landsvísu eru hópar af góðu fólki, miklu meira en sæmilega skikkanlegu á vegum flokka og ýmissa bæjarmálafélaga að taka sig saman um framboð vegna þess að þeim er ekki sama. Vegna þess að það hefur hugsjónir, hugmyndir og trú á öðru fólki.
Á næstu dögum munu fleiri bætast við enda vika þar til framboðsfresturinn rennur út, og öllum er frjálst að bjóða fram.
Líka Agli Helgasyni.
(Birtist fyrst á Pressunni 2.maí 2010)
2.5.2010 | 14:25
Gullkorn vikunnar
Ég var mjög hugsi yfir viðtalinu við Pál Skúlason í tímariti ASÍ og hvet alla til að lesa það.
Hér eru nokkur gullkorn:
"Við vorum undir erlendu valdi um aldir og höfum eins og margar nýlenduþjóðir fyrirfram neikvæða afstöðu til ríkisins. Við viljum vera laus undan öllum boðum og bönnum og haga okkur eins og okkur sjálfum sýnist. Það verður til þess að við vanrækjum að hugsa og ræða af skynsemi um almannaheill."
" Þjóðin hefur alla andlega burði til að skapa hér manneskjulegt samfélag en það getur hún ekki fyrr en hún gefur siðferðilegum gildum forgang og lætur ekki stjórnast af efnahagslegum gæðum eingöngu. Heilbrigð eða réttlát stjórnmál munu aldrei dafna á landinu nema við tökum til rækilegrar endurskoðunar það stjórnarfar og þá stjórnsiði sem hér hafa tíðkast. Hér verður heldur aldrei heilbrigt eða réttlátt efnahagslíf nema það sé sátt um það í samfélaginu hvernig við öflum okkur tekna og hvernig hinum efnahagslegum gæðum er skipt meðal landsmanna."
"...samfélagið er samandlegur og sammannlegur veruleiki sem við eigum öll þátt í að móta með hegðun okkar og hugsunum...Það verða árekstrar og erfiðleikar í öllum samfélögum og samskiptum manna vegna þess að við erum flóknar hugsandi verur með alls kyns þarfir, hvatir og langanir sem við þurfum sífellt að takast á við bæði hjá sjálfum okkur og öðrum. Þess vegna er það bókstaflega endalaust verkefni að leitast við að byggja upp heilbrigt og réttlátt samfélag. Ef við sinnum því ekki stöðugt og af kostgæfni þá getum við verið viss um að samfélagið verði óheilbrigt og ranglátt. Og ef við höldum að við séum þegar búin að skapa heilbrigt og réttlátt samfélag, þá erum við að blekkja sjálf okkur vegna þess að fullkomið heilbrigði og fullkomið réttlæti eru ekki af þessum heimi."
Og að lokum:
"Áfallið sem við höfum orðið fyrir á að vekja okkur til vitundar um það sem mestu skiptir í tilverunni: Þroski okkar sjálfra, barna okkar og komandi kynslóða," sagði Páll Skúlason heimspekingur og fyrrum háskólarektor.
24.4.2010 | 07:04
Hvað er sparisjóður?
Á fundi viðskiptanefndar í gær var farið yfir stöðu sparisjóðanna eftir að Byr og Sparisjóðurinn í Keflavík höfðu verið teknir yfir af FME.
Mjög athyglisvert er að Byr var gert að hlutafélagi á meðan Sparisjóðurinn í Keflavík heldur áfram sem sparisjóður. Töluvert hefur verið talað um nauðsyn þess að hagræða í bankakerfinu, og það sé alltof stórt miðað við stærð hagkerfisins og umsvifa fjármálafyrirtækjanna. Eftir fundinn fékk ég sterklega á tilfinninguna að framundan séu sameiningar bæði innan sparisjóðakerfisins og við aðrar fjármálastofnanir þegar búið verður að ganga endanlega frá endurfjármögnun minni sjóðanna.
Þá kemur einnig upp spurningin, hvað er sparisjóður? Er sparisjóður sparisjóður ef hann er í eigu ríkisins? Hver eru þá tengsl sparisjóðsins við sveitarfélögin sem hann starfar í, viðskiptavini sína og starfsmenn?
Í sumar þegar lögum um sparisjóði var breytt og samþykkt að skrifa mætti stofnfé niður, - reyndi stjórnandstaðan ítrekað að fá að hreint hvernig stjórnarliðar sæju fyrir sér að losa ríkið út og koma sjóðunum í samfélagslega eigu.
Stjórnarliðar svöruðu því til að það væri framtíðarmúsík, - nú þyrfti bara að klára frumvarpið því endurskipulagningin var alveg á næsta leyti. Ekki væri tími til að skoða löggjöf annarra landa eða íhuga hvernig væri hægt að opna sparisjóðina og fjölga stofnfjáreigendum á nýjan leik. Keyra yrði málið í gegn, enda menn nánast tilbúnir að skrifa undir samkomulag.
Svo leið tíminn.
Nú fleiri mánuðum seinna liggur fyrir að SpKef og Byrs eru komnir í þrot, stofnfjáreigendur hafa tapað öllu sínu, og stjórnvöld hafa enn þá ekki hugmynd um hvernig ríkið á að komast út úr eignarhaldi sínu á sparisjóðunum og þróa sparisjóðina áfram.
Ein af hugmyndunum sem ég vildi ræða í sumar var að allir þeir sem eiga innistæður fyrir ákveðna lágmarksupphæð í sparisjóði geta gerst stofnfjáreigendur. Ég vildi einnig aftengja upphæðina frá atkvæðisréttinum, þannig að hver stofnfjáreigandi færi með eitt atkvæði. Stjórn sjóðsins yrðu skipuð fulltrúum stofnfjáreiganda (kosnir á stofnfjáreigenda fundi), fulltrúum sveitarfélaga sem hann starfar í og fulltrúa starfsfólks.
En nei, enginn tími var til að ræða svona hugmyndir enda ansi byltingarkenndar fyrir Ísland.
Kannski er kominn tími núna?
23.4.2010 | 06:20
100 ára sögu lokið
Sparisjóður Keflavíkur hefur verið tekinn yfir af FME, ásamt sparisjóðnum Byr. Langri og að flestu leyti farsælli sögu Sparisjóðsins í Keflavík er lokið í núverandi mynd.
Innistæður sjóðanna eru öruggar enda tryggðar af ríkisábyrgðinni. Því skiptir mestu að fá á hreint hvað þetta þýðir fyrir viðskiptavini og starfsfólk þessara fyrirtækja. Er ætlunin að loka einhverjum útibúum eða sameina sjóðina öðrum fjármálafyrirtækjum? Er ætlunin að grípa til einhverra aðgerða fyrir stofnfjáreigendur?
Ég hef óskað eftir fundi um stöðu sparisjóðanna í viðskiptanefnd og hyggst þar fara yfir þessar spurningar og fá vonandi einhver svör, - einnig um minni sparisjóðina.
Það tók öld að byggja upp Sparisjóð Keflavíkur en aðeins nokkur ár að fella hann. Þetta gildir um mörg fyrirtæki á Íslandi í dag, fyrirtæki sem Íslendingar byggðu upp af þrautsegju og oft litlum efnum og voru stolt þjóðarinnar.
Þessu megum við aldrei gleyma, að í framtíðinni verðum við að byggja upp raunveruleg verðmæti, raunverulegan rekstur og aldrei tapa okkur aftur í dansinum í kringum gullkálfinn.
![]() |
Ríkið yfirtekur Sparisjóðinn í Keflavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.4.2010 | 11:21
Kynjuð hagstjórn 101?
Þetta er nú bara vandræðalegt. Fjármálaráðuneytið er nú búið að gefa tvisvar út þessa fínu bæklinga um kynjaða hagstjórn og skipa sérstakan starfshóp um breytt vinnulag þar sem kynjasjónarmið ættu að vera í heiðri höfð.
Svo kemur að skipan starfshóps um skattamál og ráðuneytin eru beðin um tilnefningar og í ljós kemur að þeim dettur ekki í hug nema ein kona á öllu Íslandi sem ætti að geta komið með tillögur um breytingar á skattkerfinu.
Því vil ég koma ráðuneytum og fjármálaráðherra til aðstoðar og nefna nokkur nöfn á konum sem vita mjög margt um skattkerfið, bæði hér og erlendis:
- Ingibjörg Ingvadóttir, lektor við lagadeild Háskólans á Bifröst, aðalsvið kennsla í skattarétti og almennri lögfræði.
- Soffía Eydís Björgvinsdóttir, verkefnastjóri og hdl á skattasviði KPMG og fv. deildastjóri hjá Skattstofunni í Hafnarfirði.
- Guðrún Þorleifsdóttir, hdl og fv. sérfræðingur hjá viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu og fv. sérfræðingur á réttarsviði hjá Ríkisskattstjóra.
- Bryndís Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur á skatta- og lögfræðisviði PriceWaterhouseCoopers.
- Vala Valtýsdóttir, yfirmaður skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, hdl og einn eiganda Deloitte.
- Elín Árnadóttir, yfirmaður skatta- og lögfræðisviðs PriceWaterhouseCoopers.
Eiginlega virðist vera fullt af konum sem vita mjög margt um skatta, svo maður tali nú ekki um konurnar sem starfa hjá ríkinu eins og t.d. Elín Alma Arthúrsdóttir sem er yfirmaður stjórnsýslu og skattasviðs hjá Ríkisskattstjóra.
Þetta er dæmi um hvernig kynjuð hagstjórn 101 á EKKI að vera.
17.4.2010 | 08:20
Eitthvað breyst?
Ég sit í viðskiptanefnd Alþingis og við erum með til umfjöllunar stór og mikilvæg mál er varða endurskipulagningu á fjármálakerfi landsins. Stefnt er að því að afgreiða frumvarp um fjármálafyrirtæki og vátryggingafyrirtæki á næstunni.
Eitt stærsta áhyggjuefni mitt varðandi þessi frumvörp eru hversu mikið er enn á ný treyst á Fjármálaeftirlitið (FME) í eftirfylgni og eftirliti með þessum fyrirtækjum án þess að tryggja því viðeigandi tæki og tól til að sinna verkefnum sínum. Lítið hefur verið gert til að treysta innviði FME, fjölga starfsmönnum, útbúa nýtt upplýsingakerfi til greiningar á upplýsingum, skýra valdsvið stjórnar og forstjóra og margt annað sem bent er á í skýrslu Rannsóknanefndarinnar.
Á sama tíma hefur álagið aldrei verið meira á starfsmenn stofnunarinnar.
FME og Seðlabankinn (SÍ) eiga að vera lykilstofnanir í að fylgjast með fjármálamarkaðnum. Samkvæmt skýrslunni þá brugðust báðar þessar stofnanir. FME virtist ekki vita af því sem var að gerast í bankakerfinu, og SÍ sem vissi það brást í að fylgja vitneskju sinni eftir með því að upplýsa rétta aðila og raunverulegum aðgerðum.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, fullyrðir nú í viðtali við RÚV að banki gæti verið fallinn án þess að SÍ vissi af því. Gæti það sama gilt um FME?
Hvað hefur þá í raun breyst?
9.4.2010 | 20:10
Kastljós á landsbyggðinni
Það hefur verið einkar ánægjulegt að fylgjast með Kastljósinu á undanförnu. Þar hefur Þóra Arnórsdóttir verið á flakki um landsbyggðina og tekið skemmtileg og áhugaverð viðtöl við fólk við störf.
Stundum hefur mér fundist fjölmiðlamenn sækjast aðallega eftir að taka viðtöl við skrítið fólk út á landi, eins og það sé bara skrítið fólk sem velur að búa og starfa annars en í Reykjavík ...svona einhvers konar Gísli á Uppsölum-syndróm.
Það hefur einmitt EKKI átt við þessi viðtöl sem ég hef séð, heldur er dregin upp jákvæð og áhugaverð mynd af venjulegu fólki líkt og svína- og kartöflubóndinn sem talar um hagkvæmni smæðarinnar og hjónin sem þrífa og lagfæra mjölpoka fyrir loðnuvinnslur á Austurlandi.
Endilega meira svona!