Sækjum fram saman

Framsóknarflokkurinn fagnaði 90 ára afmæli sínu 16. desember og er allra flokka elstur á Íslandi.  Á stórafmælum er jafnan viðeigandi að líta til baka um leið og horft er fram á veginn.  Á þeim tíma sem Framsóknarflokkurinn hefur starfað, hefur íslenskt samfélag tekið gífurlegum breytingum. Þannig nefndi Jón Sigurðsson, formaður flokksins, að á þessum 90 árum væru efst í hans huga sjálfstæðisbaráttan og útvíkkun landhelginnar.  Í hugum sumra, sérstaklega andstæðinga okkar var þetta frekar einkennileg tilhugsun.  Saga annarra flokka nær í flestum tilvikum ekki nema nokkur ár aftur í tímann og því eiga þeir erfitt með að gera sér í hugalund hinar miklu breytingar sem orðið hafa á samfélaginu beint eða óbeint fyrir tilstuðlan Framsóknar.

Frá torfbæjum til internetsins
Egill  Helgason fjallaði um þessar miklu samfélagsbreytingar í síðasta þætti Silfurs Egils fyrir jól.  Þar talaði hann um hvernig hann hefði reynt að útskýra fyrir ungum syni sínum hvernig fólk bjó fyrir hundrað árum á Íslandi.  Í litlum torfbæjum án rafmagns, bíla, vega, almennrar læknisþjónustu, sjónvarps og tölvu.  Amma mín sagði mér frá því hvernig var að flytja til Reykjavíkur rétt fyrir seinni heimsstyrjöldina.  Móðir mín lýsti því þegar faðir hennar tók bílpróf og keypti fyrsta bílinn og ég man eftir því þegar sjónvarpið sendi ekki út á fimmtudögum og fór í sumarfrí og fyrstu tölvunni.  Sex ára gömul dóttir mín hefur fullt vald á fimm fjarstýringum og á sínar uppáhaldssíður á netinu.

Árangur Framsóknar endurspeglast í þessum breytingum.  

Vinna – vöxtur - velferð
Gildi flokksins og slagorð fyrir síðustu Alþingiskosningar voru vinna – vöxtur – velferð.  Þessi þrjú orð eru að mínu mati kjarninn í stefnu flokksins.  Þetta er nefnilega það sem við eigum sameiginlegt hvar sem við búum.  Við þurfum atvinnu og árangur okkar á því sviði er ótvíræður.  Atvinnuleysi mælist í dag um 1% og heil kynslóð hefur alist upp án þess að þekkja atvinnuleysi.  Við búum við mikinn vöxt í landinu, svo mikinn að sumir telja of mikið að hinu góða.  Velferðarkerfi okkar er eitt það besta í heimi hvort sem litið er til heilbrigðis- eða menntastofnana okkar.  

Verum stolt
Í mínum huga eru gildi Framsóknar skýr.  Við eigum rætur okkar á landsbyggðinni og allt gott landsbyggðarfólk veit að ef við hlúum ekki að rótunum þá visnar tréð og fellur um koll í næstu hviðu.  Því skiptir miklu að vera stolt af uppruna okkar og sögu, vera stolt af framsækinni íhaldssemi okkar, stolt af hugmyndafræði okkar um samvinnu og þjóðhyggju og að vera ekki sama um náungann.  

Á Framsókn ennþá erindi í íslensk stjórnmál eftir níutíu ár í þjónustu almennings?  Tvímælalaust!  Framundan eru mörg verkefni sem bíða úrlausnar og Framsókn getur þar dregið vagninn með sinni áherslu á samvinnu og öfgalaus athafnastjórnmál.  Framsóknarflokkurinn er hinn eiginlegi íslenski miðjuflokkur og er til þjónustu reiðubúinn, íslenskri þjóð til heilla.  

Framsóknarflokkurinn á erindi við íslenska þjóð og mun eiga önnur 90 ár hið minnsta.

Jólaösin

Jólaundirbúningurinn hefur tekið töluverðan tíma á undanförnu.  Við vorum að ljúka við jólaútgáfu Framsóknarblaðsins í Eyjum - sem verður dreift á öll heimili í bæjarfélaginu á morgun (fer þá líka á www.framsoknarbladid.is).  Síðustu jólagjafirnar bíða enn pökkunar og pakkarnir upp á land þurfa að vera komnir til Landflutninga í síðasta lagi fyrir kl. 5 í dag. 

Jólakortin þurfa einnig að komast í póst.  Skildum ekkert í því hvað fá kort höfðu komið, þar til við fréttum af 70 pokum af pósti sem höfðu gleymst í dreifingarmiðstöðinni í Reykjavík.  Eins gott að bréfberarnir fái að slaka vel á um jólin, verða örugglega orðnir mjög þreyttir.  

Frétti af yngri dótturinni og manninum í Þjóðólfi, - en hann er kominn í öll hús upp á landi en ekki enn þá hér.  Var væntanlega í þessum pokum.  Skelli inn greininni úr Þjóðólfi á vefinn á eftir.

Veðrið er mjög einkennilegt, og hræðilegt að heyra af þessum flóðum.  Skilst að það sé spáð um 30 m/s á Suðurlandi á Þorláksmessu, síðan eigi vonandi að fara kólna aftur. 


Fátækt barna

Mikið hefur verið fjallað um fátækt barna og hag þeirra á Íslandi eins og hún birtist í skýrslu forsætisráðherra.  Í skýrslunni kemur fram að um 6,6% íslenskra barna hafa búið við fátækt á árinu 2004.  Með þessu kemur í ljós að Ísland er í hópi þeirra OECD-ríkja þar sem fátækt barna mælist hvað minnst.  

Fagna ber að fátækt barna sé hvað minnst í heiminum hér á landi.  Hins vegar tel ég það óásættanlegt að það séu til fátæk börn í einu ríkasta landi í heimi.  Stjórnarandstaðan tók þetta á lofti, líkt og ritgerð Hörpu Njálsdóttur fyrir fjórum árum síðan, og ásakaði ríkisstjórnina um sinnuleysi.

Ég hef lítinn áhuga á því að standa í að svara þessum ásökunum.  Tölurnar um að fátæktarmörkin hafi hækkað um nálægt 50% að raunvirði milli áranna 1994 og 2004 svara mestu um hvort stjórnvöld hafa verið sinnulaus eða ekki.  Ég hef mun meiri áhuga á að reyna að finna einhverjar lausnir fyrir þau börn sem enn búa við fátækt og er engan veginn sannfærð um að lausnin felist fyrst og fremst í skattkerfinu eða hækkun lágmarkslauna. 

Í skýrslunni segir að veigamestu skýringarþættir mældrar fátæktar barna eru aldur foreldra, hjúskaparstaða og tímabundnar aðstæður. Þannig mælist hlutfallslega mest fátækt hjá einstæðum foreldrum innan við tvítugt.  Bent hefur verið á að hin Norðurlöndin standi sig betur en við hvað varðar fátækt barna.  Af hverju er það?

Á Íslandi er enn tiltölulega algengt, í samanburði við Norðurlöndin, að fólk eignist börn ung.  Á Norðurlöndunum hefur verið unnið markvisst í því að draga úr barneignum ungs fólks.    Í Svíþjóð hefur t.d. getnaðarvarnarpillan verið ókeypis fyrir konur að 24 ára aldri.   

Ég ólst upp hjá einstæðri móður.  Aðstæður mínar og systkina minna hefðu verið mun erfiðari ef afi minn og amma hefðu ekki aðstoðað móður mína við að ljúka framhaldsskóla og síðan háskólanámi.  Margir ungir foreldrar eru ekki jafn heppnir og við systkinin og móðir mín.  Af hverju getum við ekki gert námslán valfrjáls fyrir nemendur frá 18 ára aldri? Nemendur frá 16 ára aldri gætu fengið námslán að uppfylltum ákveðnum skilyrðum s.s. að vera einstæðir foreldrar eða með börn á framfæri. 

Ég legg til að fólk komi með fleiri tillögur, og hugmyndir sem beinast að því að leysa þetta vandamál.  Það er alltof mikilvægt til þess að við getum leyft okkur að fara í einhverjar pólitískar skotgrafir.

 


Fulltrúar hverra á Alþingi?

Ég var nýlega á fundi á Suðurnesjunum þar sem hæfni þingmanna kom til umræðu.  Þar var bent á mikilvægi þess að þingmenn gætu tjáð sig á erlendum tungumálum, þá sérstaklega á ensku.

Nýlega rakst ég líka á færslu á netinu þar sem verið var m.a. að ræða hæfni stjórnmálamanna.  Þar var bætt við því skilyrði um að menn hefðu háskólapróf.

Ég get alls ekki tekið undir þessar kröfur.  Ég veit ekki betur enn að íslenska sé enn móðurmál okkar, og krafan um háskólapróf myndi útiloka um 75% af þjóðinni á aldrinum 25-64 ára.  Ef við tökum frá 18 ára og upp úr þá er það hlutfall enn hærra.  Þannig værum við að segja að 80-90% af þjóðinni sem nú hefur kosningarétt væri ekki kjörgeng til Alþingis. 

Þessi skilyrði hefðu t.d. útilokað Margréti Frímannsdóttur, Guðjón A. Kristjánsson, Valgerði Sverrisdóttur og Ástu R. Jóhannesdóttur frá þingsetu.  Allt frambærilegt fólk sem hafa gengt sínum störfum sem þingmenn vel.

 


Til hamingju Framsókn

Framsóknarflokkurinn átti 90 ára afmæli í gær og var því fagnað víða um land. 

Kaffi var í Suðurkjördæmi á Selfossi, Reykjanesbæ og Grindavík.  Að auki var nýtt merki flokksins kynnt.  Átti því miður ekki heimangengt, en heyrði að fólki leist almennt vel á nýja merkið.

 


Flutningur á vef

Ég hef ákveðið að fylgja straumnum yfir á blog.is og hef nú lokið við flutning færslanna í nýja kerfið.  Því miður er erfiðara að færa athugasemdirnar og verða þær því skildar eftir.  Slóðin á vefinn minn verður áfram http://www.eyglohardar.is.

Að rúlla upp Degi

Það var yndislegt að fylgjast með Kastljósinu í gær þar sem Björn Ingi Hrafnsson sýndi enn og sannaði hversu öflugur stjórnmálamaður hann er.

Í lok viðtalsins hafði hann snyrtilega rúllað Degi upp og pakkað honum saman.

Ég hlakka til að sjá ráðningarsamning Dags við Háskólann í Reykjavík. Hann hlýtur að birta hann á næstunni, líkt og hann hefur flaggað samningi Óskars Bergssonar í öllum fjölmiðlum.

Og jafnvel samning Helga Seljans, fyrst við erum farin að draga allt fram í dagsljósið.


Dómur Ingibjargar

Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur varð tíðrætt um traust í Keflavíkurræðu sinni nú um daginn. Þar benti hún alþjóð á að þingflokki Samfylkingarinnar væri ekki treystandi. Töluverður kurr virðist hafa verið í þingflokknum eftir þessi ummæli og margir tekið þau til sín. Sumir, eins og t.d. Björgvin G. Sigurðsson, eru sannfærðir um að formaðurinn hafi rétt fyrir sér, en þjóðin hafi bara rangt fyrir sér. Hún muni fljótlega sjá að sér og treysta flokknum til ábyrgðarstarfa með góðum árangri í kosningunum í vor.

Gamalt vín á nýjum belgjum
Nú ætla ég ekki að draga úr þeim orðum Ingibjargar að þingflokki Samfylkingarinnar sé ekki treystandi enda hlýtur hún að þekkja sitt heimafólk. Óskir hennar um að batnandi mönnum sé best að lifa er hennar brýning til þess fólks sem kosningar eftir kosningar hefur skipað lista fyrir þennan flokk og viðhengin sem runnu inn í hann. Samfylkingin hefur enda aldrei verið annað en gamalt vín á nýjum belgum og nú er meira að segja farið að slá í belgina.

Árinni kennir illur ræðari
Mín spurning er hins vegar sú hvort ekki sannist hér hið fornkveðna, að árinni kenni illur ræðari? Getur verið að almenningur treysti einfaldlega ekki Ingibjörgu Sólrúnu til að leiða Samfylkinguna og hvað þá ríkisstjórn? Flokkurinn hefur dalað verulega síðan hún tók við formennsku og það þarf ekki að minna nokkurn mann á hvernig hún sprengdi R-listann í Reykjavík. Það gerði hún til að svala eigin metnaðargirnd og gekk svo með forsætisráðherra í maganum í fjóra mánuði. Blekkingarnar sem kjósendum var boðið upp á í þeim farsa öllum hafa kannski ekki minnst að segja um hvers vegna fólk treystir ekki Samfylkingunni.

Ingibjörg ber ábyrgð á Kárahnjúkum
Fleira spilar sjálfsagt inn í. Þannig hefur ávallt verið erfitt að henda reiður á stefnu Samfylkingarinnar. Hún skellir yfirleitt málum fram með upphrópunum og látum en dregur svo strax í land, er eiginlega bæði með og á móti og saltar svo málin í nefnd. Þannig hafa svokallaðir framtíðarhópar Samfylkingarinnar víst unnið árum saman að stefnumótun hennar án þess að nokkuð bóli á niðurstöðum. Og þó, eitthvað kom frá þeim um umhverfismál. En daginn eftir kom í ljós að þingflokkurinn var ekki einu sinni sammála um stefnuna og þingmenn fóru að rífast um álver hér og virkjanir þar fréttatíma eftir fréttatíma. Svo hefur sjaldnast fylgt sögunni að atkvæði Ingibjargar Sólrúnar í borgarstjórn Reykjavíkur réði því að farið var í framkvæmdir við Kárahnjúka. En því vill hún sjálfsagt bara gleyma.

Mun hennar tími koma?
Kannski hitti Ingibjörg Sólrún sjálf naglann á höfuðið þegar hún nefndi í viðtali eftir Keflavíkurræðuna sína að Verkamannaflokkurinn hefði ekki náð sér á strik fyrr en Blair leiddi hann inn í ríkisstjórn og Demókratar ekki rétt úr kútnum fyrr en Bill Clinton varð forseti. Það væri kannski ráð fyrir Samfylkinguna að finna sér öflugan leiðtoga sem getur leitt hana inn í ríkisstjórn, eða a.m.k. skammlaust í gegn um kosningar.

Annars er ég hrædd um að tími Samfylkingarinnar muni aldrei koma.


Vaxandi vitund, aukin von

Talið er að um fjórðungur fólks þjáist einhvern tímann á ævinni af geðrænum vandamálum. Árlega falla á milli 40 og 50 Íslendingar fyrir eigin hendi af ástæðum sem oft má rekja til þunglyndis og kvíðaröskunar. Geðsjúkdómar herja á fólk á öllum aldri, í öllum þjóðfélagsstéttum, um land allt og eru alltof oft lífshættulegir.

Málið er því öllum skylt.

Mikil vakning hefur orðið á síðustu árum um geðsjúkdóma og sem betur fer hafa fordómar gagnvart þeim sem eiga við geðraskanir að stríða farið minnkandi. Ríkisstjórnin hefur tekið ýmis mikilvægi skref til að bæta þjónustu við sjúklinga með geðraskanir. Má þar einna helst nefna stefnumótun heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga með hegðunar- og geðraskanir og átak félagsmálaráðherra, Vilji til verka, um aukna þjónustu við geðfatlað fólk.

Á síðustu 50 árum hafa aðstæður fólks með geðsjúkdóma gjörbreyst, m.a. með tilkomu nýrra geðlyfja. Um 1960 voru um 300 einstaklingar á Kleppi, langflestir til langframa. Í dag eru rúmin um 150 fyrir geðsjúka, og langflestir dveljast í skamman tíma í senn. Talið er að ef hin nýju lyf hefðu ekki komið til væru líklega um 600 manns í langtíma vistun á geðdeild, en þeir eru nú á bilinu 50-60. Hinir geta lifað úti í samfélaginu með stuðningi í formi almennrar meðferðar hjá geðlækni, lyfja og viðtala, auk iðju- og félagsþjálfunar.

Stór skref hafa því verið stigin í rétta átt, en betur má ef duga skal. Því miður hefur geðheilbrigðisþjónusta fyrst og fremst byggst upp á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru stóru sjúkrahúsin, þar eru flestir geðlæknarnir og þar eru stuðningshóparnir fyrir geðsjúka og aðstandendur þeirra. T.d. er eina sérhæfða skipulagða þjónustan á Suðurlandi við geðsjúka og aðstandendur þeirra á Réttargeðdeildinni á Sogni.

Almennt er íslenska heilbrigðiskerfið byggt þannig upp að ef eitthvað amar að líkamlega er leitað til heilsugæslunnar. Þannig tel ég að eigi líka að vera þegar fólk finnur fyrir andlegri vanlíðan. Því er nauðsynlegt að starfsfólk heilsugæslunnar hafi kunnáttu og þekkingu til að greina vandamál hverjar sem orsakirnar eru, enda oft erfitt að greina á milli andlegra og líkamlegra veikinda.

Tilraunaverkefni hafa verið í gangi um sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni milli Landspítala-háskólasjúkrahúss, Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðarbæjar, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hafa þau mælst vel fyrir. Næstu skref hljóta því að vera að útvíkka þessi verkefni og bjóða fleiri heilbrigðisstofnunum þátttöku í þeim.


Orsök og afleiðing

Ísland hefur verið nokkuð í heimspressunni vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra að hefja hvalveiðar á ný og leggjast eindregið gegn banni á notkun botnvörpu á úthöfunum.

Þetta hefur m.a. leitt til þess að við komust í leiðara Washington Post og Whole Foods keðjan hefur ákveðið að hætta að markaðssetja íslenskar landbúnaðarafurðir. 

Skiljanlega hefur þetta valdið áhyggjum, sérstaklega hvað varðar Whole Foods keðjuna.  Miklir fjármunir og vinna hafa verið lagðir í koma íslenskum landbúnaðarafurðum í þessar verslanir.

Ég spyr hvort þetta sé einhver ný stefnumótun hjá sjávarútvegsráðherra?  Er ætlunin að gera allt eftir okkar höfði og gefa ekkert eftir neins staðar?  Hefðum við t.d. ekki verið mun trúverðugari í málflutningi okkar gegn banni við botnvörpuveiðum ef við hefðum ekki nýlega verið búin að hefja hvalveiðar aftur.  Eða ef veiðafærarannsóknir hefðu verið stundaðar hér af einhverju ráði.

Einar K. Guðfinnsson hefur mikla reynslu í stjórnmálum og því er það mjög undarlegt að hann skuli ekki gera sér grein fyrir tengslum á milli orsaka og afleiðinga.  Börn læra þetta fljótt, læra að að velja sér baráttumál og semja til að ná þvi fram sem virkilega skiptir þau máli. 

Er ekki tími kominn til að ráðherra læri það líka?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband