12.1.2007 | 17:19
Er Alþingi óþarfi?
Að undanförnu hefur stjórnarandstaðan bókstaflega verið að springa af spenningi yfir kosningunum í vor og hugsanlegri félagshyggjustjórn stjórnandstöðuflokkanna að þeim loknum. Þannig bar æsingurinn yfir væntanlegum stjórnarskiptum formenn Vinstri-Grænna og Samfylkingarinnar ofurliði í Kryddsíldinni á gamlársdag. Í upphafi stefndi í frekar tíðindalitla Kryddsíld, en skyndilega upphófst orðaskak milli Ingibjargar Sólrúnar og Steingríms J. um hver ætti að verða forsætisráðherra í væntanlegri félagshyggjustjórn.
Eftir þáttinn sat ég eilítið hugsi. Var það virkilega svo að fyrsta mál stjórnarandstöðunnar var að ákveða hver yrði forsætisráðherra? Ekki hver stefnan yrði í Evrópu-, umhverfis-, efnahags- eða innflytjendamálum? Nei, ráðherrastólarnir voru mikilvægastir. Þessi umræða sýnir í hnotskurn þann vanda sem íslensk stjórnskipun er komin í.
Þrískipting valdsins?
Einn af grundvöllum vestræns lýðræðis er þrískipting valdsins í framkvæmda-, dóms- og löggjafarvald. Á Íslandi hefur dómsvaldið áþreifanlega sýnt sjálfstæði sitt með dómum sem hafa ekki fallið sérstaklega í kramið hjá hinum kjörnu fulltrúum. En er hægt að greina á milli löggjafar- og framkvæmdavaldsins hér á landi?
Síðastliðinn vetur tók ég um tíma sæti á Alþingi sem varaþingmaður og starfaði mikið í nefndum þingsins. Það sem kom mér mest á óvart var hversu lítið löggjafarstarf fór í raun fram í nefndunum. Lagafrumvörp voru lögð fram af ráðuneytunum og fylgdu starfsmenn viðkomandi ráðuneyta þeim úr hlaði og virtust oft hafa lítinn áhuga á að heyra skoðanir hinna kjörnu fulltrúa.
Þeir sem enginn kaus
Jarðtenging starfsmanna ráðuneytanna við hinn almenna borgara virtist einnig stundum vera lítil. Má nefna sem dæmi að í einu tilfelli tók ég eftir ákvæði í lagafrumvarpi þess efnis að öll fyrirtæki í landinu ættu að birta ákveðinn texta á vefsíðu sinni. Öll fyrirtæki spurði ég og benti síðan á að Óli pípari og Nonni bóndi sæu sér engan hag í að halda úti vefsíðum í sínum rekstri, en ef frumvarpið færi óbreytt í gegn væri þeim skylt að leggja út í þann kostnað. Þannig virðist vald Alþingis að miklu leyti hafa færst yfir til ráðherranna og í framhaldi af því til starfsmanna ráðuneytanna, sem enginn kaus.
Í flestum lýðræðisríkjum er lögð mikil áhersla á þrískiptingu valdsins. Þannig eru ráðherrar í Bandaríkjunum ekki þingmenn og í Svíþjóð er það svo að ef þingmenn eru útnefndir ráðherrar þurfa þeir að víkja sæti á þingi á meðan þeir gegna ráðherradómi. Enda er það svo að í þessum ríkjum er staða þingforseta raunveruleg valdastaða, ólíkt því sem gerist hér á landi.
Aðskiljum löggjafar- og framkvæmdavaldið
Meðal íslenskra stjórnmálamanna virðist lítill áhugi á að ræða nauðsyn raunverulegs aðskilnaðar löggjafar- og framkvæmdavalds. Stjórnarandstaðan er föst í umræðunni um ráðherrastólana og því miður má það sama má segja um ríkisstjórnarflokkana. Einna helst hefur Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, reynt að vekja upp umræðu um þessi mál við litlar undirtektir.
Það er nauðsynlegt lýðræðinu á Íslandi að tekin verði skref sem tryggi skýra aðgreiningu löggjafar- og framkvæmdavalds. Setning laga á að vera í höndum kjörinna fulltrúa, en ekki nafnlausra embættismanna á kontórum uppi í ráðuneyti. Ráðherrar eiga að framkvæma vilja Alþingis. Ekki öfugt.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. janúar 2007
12.1.2007 | 17:17
Björn leiðréttir bæjarstjórann og mig
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, brást hratt og vel við málflutningi bæjarstjórans í Vestmannaeyjum og pistli mínum hér á vefsíðunni um áhyggjur af flutningi verkefna rannsóknalögreglu frá Eyjum.
Sendi hann m.a. á mig fréttatilkynningu sem barst fjölmiðlum í framhaldi af viðtali við Elliða Vignisson, bæjarstjóra.
Fréttatilkynning um lögreglustörf í Vestmannaeyjum
10.1.2007
Hinn 29. desember sl. gaf dóms- og kirkjumálaráðuneytið út reglugerð um
stjórn lögreglurannsókna, rannsóknardeildir og samvinnu lögreglustjóra við
rannsókn opinberra mála. Breytingarnar eru liður í viðamiklum breytingum á
skipulagi lögreglunnar. Breytingarnar eru allar hugsaðar til þess að efla
lögregluna í landinu með stækkun umdæma, sem leiðir til þess að mannafli
lögreglunnar nýtist betur og ótal möguleikar opnast á sérhæfingu
lögreglumanna, með tilheyrandi eflingu rannsókna og löggæslu. Liður í
þessum breytingum er, að framvegis munu færri og öflugri rannsóknardeildir
sinna rannsókn hinna alvarlegra og flókinna afbrota eingöngu.
Við ákvarðanir vegna breytinga á lögreglulögunum og um stofnun
rannsóknardeilda á sjö stöðum á landinu, var sérstaða Vestmannaeyja
áréttuð og komið til móts við hana með vísan til tillögu í lokaskýrslu
framkvæmdanefndar um nýskipan lögreglumála þar sem sagði:
Staða rannsóknarlögreglumanns í Vestmannaeyjum
Töluverð gagnrýni kom fram á fundi nefndarinnar á Selfossi á þá tillögu
nefndarinnar að færa fjárveitingu vegna rannsóknarlögreglumanns í
Vestmannaeyjum til lykilembættis á Selfossi. Að mati nefndarinnar var það
nauðsynlegt til að styrkja betur uppbyggingu einnar rannsóknardeildar
fyrir allt Suðurland. Með hliðsjón af þeirri skýru andstöðu sem fram kom á
fundinum telur nefndin rétt að hugað verði að uppbyggingu
rannsóknardeildar á Selfossi með öðrum hætti og ekki hróflað við
fjárveitingu til embættisins í Vestmannaeyjum. Dóms- og kirkjumálaráðherra sagði við upphaf umræðna um þetta mál á alþingi, að engin breyting yrði á stöðu rannsóknarlögreglumanns í
Vestmannaeyjum með frumvarpinu um nýskipan lögreglumála og gekk það eftir
við afgreiðslu málsins á þingi.
Í dag var sagt frá því í fréttum að bæjarráð Vestmannaeyja hefði sent frá
sér ályktun vegna þessa og telji ráðið að reglugerðin skerði þjónustu
lögreglunnar við Vestmannaeyinga. Bæjarstjóri Vestmannaeyja hefur svo
haldið því fram opinberlega að rannsóknir opinberra mála í Eyjunum skaðist
við breytingarnar, meðal annars vegna landfræðilegrar legu eyjanna, þar
sem bíða verði rannsóknarmanns ofan af fastalandinu.
Þessar áhyggjur bæjaryfirvalda í Eyjum eru með öllu ástæðulausar. Eins og
legið hefur fyrir lengi, og dómsmálaráðherra tók sérstaklega fram á
alþingi þegar frumvarp til lögreglulaga var lagt fram, þá verður engin
breyting á stöðu rannsóknarlögreglumanns í Eyjum. Þar er nú, rétt eins og
var fyrir breytingu, staðsettur rannsóknarlögreglumaður sem getur tekið
til við rannsóknir afbrota um leið og vitneskja berst um þau. Nú hefur
hins vegar orðið sú breyting, að auk þeirrar þjónustu sem lögreglan í
Vestmannaeyjum veitir munu íbúar Vestmannaeyja einnig njóta þess styrks
sem felst í rannsóknardeild, sem er á Selfossi og sinnir rannsóknum mála
sem krefjast sérhæfingar og aukinnar þekkingar.
Þær breytingar sem urðu á skipan löggæslumála nú um áramótin, munu efla
lögregluna í Vestmannaeyjum og þjónustu hennar við Eyjamenn.
Reykjavík 10. janúar 2007
Björn brást þarna fljótt og vel við eins og hans er von og vísan og benti jafnframt á að til stæði að flytja verkefni út á land, frekar en hitt. Þá stendur bara eftir spurningin um af hverju samflokksmenn hans báru ekki meira traust til hans?
11.1.2007 | 16:18
Írak, Íran, Reykjanesbær?
Samkvæmt frétt á vef Víkurfrétta lýsti forseti bæjarráðs Reykjanesbæjar því yfir á síðasta bæjarstjórnarfundi að Reykjanesbær hyggðist ekki koma sér upp kjarnorkuvopnum. Ég vona innilega að Valgerði Sverrisdóttur takist að sannfæra Bush, Bandaríkjaforseta um að Keflvíkingar segi satt og rétt frá. Við sjáum jú hversu illa Írakar fóru út úr því að þvertaka fyrir að eiga gjöreyðingarvopn.
Án gríns hefði maður haldið að sveitarstjórnarmenn hefðu um margt mikilvægara að ræða en þetta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.1.2007 | 16:58
Enn fækkar opinberum störfum í Eyjum
Í fréttum RÚV var verið að fjalla um flutning verkefna rannsóknalögreglu frá Eyjum á Selfoss. Margir trúðu því að Sjálfstæðisráðherrar myndu hætta að leggja niður störf og verkefni í Eyjum ef Sjálfstæðismenn næðu aftur völdum í þar.
Því miður er það ekki svo. Flutningur þessara verkefna er bara síðasta áfallið sem bæjarfélagið verður fyrir. Stutt er síðan Síminn lokaði í Eyjum í kjölfar einkavæðingar, loftskeytastöðin var lögð niður, Stýrimannaskólinn fluttur til Reykjavíkur og svo mætti halda áfram að telja.
Af einhverri einkennilegri ástæðu verður allt vitlaust þegar talað er um að flytja störf út á land, en enginn segir neitt þegar störfum fækkar stöðugt á vegum hins opinbera á landsbyggðinni.
Við megum víst þakka fyrir að verkefnin skulu allavega ekki fara beint til Reykjavíkur eins Björn Bjarnason myndi eflaust helst vilja, en verði áfram í Suðurkjördæmi.
Árni Mathiesen mun eflaust skýra þetta allt saman mjög vel í kvöld á fundi í Ásgarði.
9.1.2007 | 10:50
Könnun á sudurland.net
9.1.2007 | 10:24
Nei, ráðherra
Það getur verið erfitt að vera nýr ráðherra, sérstaklega þegar stutt er til kosninga.
Einar K. Guðfinnsson er nýr ráðherra sem ég tel að hafi ekki staðið sig nógu vel. Hann byrjaði af krafti, staðráðinn í að moka sem mestum fjármunum í NV-kjördæmið, meðal annars með handstýringum úr AVS-sjóðnum.
En nú skyldi gert enn betur við væntanlega kjósendur.
Ákvað hann með engum fyrirvara að hefja hvalveiðar Íslendinga. Engin markaðsrannsókn var gerð um áhuga á hvalkjöti, engir sölusamningar lágu fyrir og enginn var undirbúningur gagnvart fjölmiðlum heimsins. Kristján Loftsson skyldi fá að fara í allra dýrustu sportveiðiferðir landsins, ef ekki heimsins hvað sem tautaði og raulaði.
Þarna voru Íslendingar búnir að koma sér á radarinn hjá helstu fjölmiðlum heims sem þjóð sem virti ekki alþjóðalög. En það var ekki nóg.
Tryggja þurfti þennan sess okkar með því að koma í veg fyrir bann við botnvörpuveiðum á úthöfum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Árangurinn var ótvíræður, við fengum heilan leiðara í Washington Post (einu virtasta og stærsta dagblaði Bandaríkjanna) um íslenska fiskveiðistjórnun. Leiðaranum var síðan dreift um öll Bandaríkin þar sem okkar var lýst sem leiðandi á okkar sviði; Iceland leads maulers of the seas, eða Ísland í fararbroddi níðinga hafsins.
Forsvarsmenn ferðaþjónustu segja að leggja þurfi hundruðir milljóna króna í markaðssetningu til að vega upp á móti því tjóni sem aðgerðir ráðherrans hafa valdið. Er þá ótalinn sá skaði sem hann hefur valdið sjávarútvegnum. Markaðir sem tekið hefur mörg ár og ótaldar milljónir að vinna í N-Ameríku eru hrundir og sömu sögu má segja í Evrópu. Ef ekki verður gripið strax í taumana getur þetta brölt sjávarútvegsráðherra því kostað okkur milljarða króna á næstu árum.
Á meðan öllu havaríinu stóð sagði ráðherrann í aðfangadagsmogganum að hann hefði íhugað að segja upp Plexus Consulting Group, PR-fyrirtækinu sem á að gæta íslenskra hagsmuna í Washington til að spara.
Það sem ég myndi vilja vita er: Var það fyrir eða eftir ákvörðunina með hvalveiðarnar?
8.1.2007 | 16:07
Fréttapýramídinn hittir í mark
Var á afhendingu árlegs Fréttapýramída Eyjasýnar í hádeginu. Mætingin var feiknar góð og ég var mjög ánægð með þá sem þeir útnefndu í ár.
- Íþróttafélag ársins: Taflfélag Vestmannaeyja
- Félag ársins: Viska, fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja
- Maður ársins: Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs bæjarins og staðgengill bæjarstjóra.
Það er skrítið til þess að hugsa að Viska hafi aðeins verið til í um fjögur ár. Hún er orðin svo stór hluti af samfélaginu í Eyjum, og skipt marga mjög miklu máli. Rut er gott dæmi um það. Hún tók viðskiptafræðina í fjarnámi og gat þannig haldið áfram að sinna fjölskyldu og starfi samhliða námi.
Að mínu mati eru menntastofnanir eins og fræðslu- og símenntunarstöðvarnar, HA, Bifröst o.fl. lang árangursríkustu byggðaaðgerðirnar. Fólk getur sótt nám í sinni heimabyggð, þarf ekki að rífa sig upp ásamt fjölskyldunni og getur haldið áfram að stunda vinnu.
Svo er bara að mæta með dótturina á taflæfingu á eftir!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2007 | 17:56
Hrafn skiptir um formann
Hrafn Jökulsson, skákmaður og bloggari, hefur verið að velta fyrir sér stöðu Samfylkingarinnar í kjölfar (eins og hann orðar það) afleitrar útkomu Samfylkingarinnar. Þar talar hann um að ef formanninum tekst ekki að breyta einhverju all snarlega þá sé kominn tími til að hefja leit að arftaka hennar.
Greinilegt er að Hrafn hefur ekki mikla trú á Sollu og dreif sig því í að finna nýjan formann sem fyrst. Skv. sannri Samfylkingarhefð taldi hann að besta leiðin til þess væri að gera skoðanakönnun, sem mér skilst að Lúðvík Geirsson hafi orðið efstur í.
Er þetta ekki einmitt vandamál Samfylkingarinnar í hnotskurn?
Það er ekki einu sinni hægt að vera með sjálfstæða skoðun um hver maður telur vera besta formannsefnið, heldur þarf að gera könnun til að vita hvaða skoðun maður á að hafa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.1.2007 | 10:44
Fjölgun gistinótta nema á Suðurlandi
Ég hef rekist ítrekað á fréttir af gistinóttum á hótelum frá Hagstofunni þar sem segir að þeim hafi fjölgað í öllum landshlutum nema á Suðurlandi. T.d. hafi þeim fækkað um 20% í nóvember. Ánægjulegu fréttirnar eru að gistinóttum á Suðurnesjum er að fjölga.
Þegar litið er yfir allt árið, hefur gistinóttum fjölgað á Suðurlandi en bara um 4% á meðan þeim er að fjölga frá 11-17% í öðrum landshlutum.
En hver skyldi vera skýringin á þessu? Hefur fólk minni áhuga á að heimsækja Suðurlandið en önnur landsvæði? Er búið að fullnýta helstu ferðamannasvæðin eða er orðið meira um að fólk sé að gista í eigin húsnæði á Suðurlandi?
Allavega virðist hljóðið í ferðaþjónustufólki í Suðurkjördæmi vera gott. Ferðamannatímabilið hefur lengst, og menn óska þess einna helst að fólk fari lengra og stoppi lengur í kjördæminu. Ég er sannfærð um að svo verði í framtíðinni. Þar kemur tvennt til, annars vegar Vatnajökulsþjóðgarður og hins vegar Suðurstrandarvegur.
![]() |
Gistinóttum í nóvember fjölgaði um 23% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.1.2007 | 01:05
Gleðilegt nýtt ár!
Búin að horfa á kryddsíldina, skaupið og lesa yfirlitsgreinar leiðtoganna í MBL og Fréttablaðinu. Fannst kryddsíldin ágæt, yfirlitsgreinar Moggans betri en Fréttablaðsins og fannst skaupið minna fyndið en í fyrra. En svona virðist það oft vera, skaupið í fyrra er ævinlega betra en skaupið í ár.
Ef einhver náði niður símanúmeri Kosningaþjónustu aldraðra og pólverjanna þá er viðkomandi vinsamlegast beðinn um hafa samband fyrir 20. janúar :)
Ég óska vinum, vandamönnum og bara öllum landsmönnum gleðilegs nýs árs.