24.1.2007 | 16:35
Spjall í morgunhananum
Var í morgun í þætti Jóhanns Haukssonar, Morgunhaninn á Útvarpi Sögu.
Ræddum m.a. prófkjörið, sjávarauðlindina sem þjóðareign, hækkun fargjalda í Herjólfi o.fl.
Hægt er að hlusta á viðtalið hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2007 | 10:10
Frúin í Washington
Breyting hefur orðið á valdahlutföllunum í Washingtonborg. Það mátti sjá mjög skýrt þegar George Bush, forseti Bandaríkjanna, hélt stefnuræðu sína á bandaríska þinginu í nótt. Þar stóð nýskipaður forseti fulltrúadeildarinnar, demókratinn Nancy Pelosi, við hlið repúblikans Dick Cheney, varaforseta Bandaríkjanna eins og fjallað er um í grein á New York Times.
Frú Nancy bauð forsetann velkominn með eftirfarandi orðum:
We always give the president a warm welcome as our guest in the chamber, she said, with the operative word, guest.
Áherslan var á orðinu gestur. Í bandaríska þinginu er forsetinn gestur, líkt og aðrir fulltrúar framkvæmdavaldsins.
Ólíkt því sem gildir um íslenska ráðherra.
Breytingin á valdahlutföllunum kemur einnig fram í áherslumálum forsetans. Hann sér fram á að þurfa komast að samkomulagi um mun fleiri máli, ekki bara við demókrata heldur einnig þingmenn síns eigins flokks. Allt í einu eru orð eins og heilbrigðis- og félagsþjónusta orðin vinsæl, á meðan minna er rætt um efnahaginn og skattalækkanir.
Svo er stóra spurningin hvort frúrnar verða orðnar tvær sem munu stjórna Bandaríkjunum eftir tvö ár?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2007 | 14:35
Svik Sjálfstæðismanna
Í lítilli frétt á mbl.is segir að ágreiningur sé á milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um hvort setja eigi inn í stjórnarskrá að sjávarauðlindir eru þjóðareign.
Þetta ætti nú ekki að koma á óvart. Í ræðu sem Geir H. Haarde, þá nýorðinn forsætisráðherra, hélt á aðalfundi LÍÚ 20. október 2006 sagði hann eftirfarandi:
"Brýnasta verkefnið er að treysta þá sátt sem er um núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Eyða þarf enn frekar óvissu um réttarstöðu útgerðarmanna, þannig að ljóst liggi fyrir að réttindi þau sem þeir nú kaupa á markaði muni ekki á einni nóttu verða af þeim tekin. Með þeim hætti skapast traustari rekstrarforsendur, útgerðirnar geta skipulagt rekstur sinn til lengri tíma. Jafnframt stuðlar slíkt að enn ábyrgari umgengni um auðlindina..."
Það er alveg á hreinu að í augum Sjálfstæðisflokksins þá eiga útgerðarmenn fiskinn í sjónum. Hvernig er hægt að túlka þessi orð forsætisráðherrans öðruvísi, - að eyða þurfi frekari óvissu um réttarstöðu útgerðarmanna?
Mín skoðun er sú að það er engin óvissa um réttarstöðu útgerðarmanna. Þjóðin á auðlindina, - en útgerðarmenn hafa keypt sér réttinn til að nýta hana og gildir sá réttur eitt ár í senn. Þetta vita allir sem taka þátt í fiskveiðistjórnunarkerfinu, bæði útgerðir og bankastofnanir sem hafa fjármagnað kaup og leigu á aflaheimildum.
En svo má benda á að á sama tíma og Sjálfstæðismenn hafa miklar áhyggjur af réttarstöðu útgerðarmanna hafa bændur fundið fyrir lítilli umhyggju frá þeim hvað varðar stórfellda eignarupptöku á þinglýstu landi (sjá eldri grein).
Er einhver munur á því að vera í LÍÚ og Bændasamtökunum?
![]() |
Sveik loforð sitt við Framsóknarflokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.1.2007 | 10:57
Karlaplott og þúfupólitík
Nóttin er varla liðin fyrr en karlarnir í flokknum, og jafnvel öðrum kjördæmum, eru farnir að lýsa yfir skoðunum sínum á hvernig listi okkar Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi eigi að líta út.
Ég vil að eftirfarandi sé alveg skýrt:
1. Öllum félögum í Framsóknarfélögunum í Suðurkjördæmi stóð til boða að taka þátt í prófkjöri okkar og rann framboðsfresturinn út þann 15. desember síðastliðinn.
2. Ég gaf kost á mér sem fulltrúi alls kjördæmisins, allt frá Sandgerði yfir til Lónsins. Þetta kunnu Framsóknarmenn að meta og hlaut ég því þriðju flest atkvæðin í prófkjörinu og komu þau atkvæði alls staðar úr kjördæminu.
3. Í prófkjörinu greiddu kjósendur einstaklingum atkvæði, ekki sveitarfélögum eða svæðum. Sú staðreynd að einn frambjóðandi kýs að taka ekki það sæti sem honum bar á listanum gefur hvorki honum né öðrum sjálfdæmi um hver skuli taka það sæti
Að síðustu vil ég benda einum af forystumönnum Framsóknarflokksins í Reykjavík á að það hefur ekki verið hefð í Framsóknarflokknum að menn séu að skipta sér af prófkjörum eða uppstillingum í öðrum kjördæmum. Honum færi betur að hafa meiri áhyggjur af stöðu flokksins í sínu eigin kjördæmi. Ekki veitir af.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
20.1.2007 | 07:46
Kærar þakkir
Þá er kjördagur runninn upp og kosningabaráttunni lokið. Á þessari stundu er mér efst í huga innilegt þakklæti til þeirra fjölmörgu sem komið hafa að baráttunni á einhvern hátt allt frá því að hvetja mig til dáða, til þess að setjast við símann, jafnvel óumbeðið og hvetja fólk um allt kjördæmið til þess að styðja mig. Þessar miklu undirtektir og hvatning hafa verið mér ómetanlegur styrkur. Hvernig sem úrslitin verða á ég þessu fólki mikið að þakka.
Að lokum vil ég hvetja alla sem vettlingi geta valdið að taka þátt í prófkjöri okkar Framsóknarmanna í dag.
18.1.2007 | 17:32
Enn ein atlagan að landsbyggðinni
Nú hefur Eimskip tilkynnt um hækkun á fargjöldum með Herjólfi, þjóðvegi Eyjamanna. Verðhækkunin verður yfir 10% og þótti mörgum nóg fyrir. Eftir hækkunina mun fjögurra manna fjölskylda, á fullu fargjaldi, greiða um 16.000 krónur til að komast fram og til baka á fjölskyldubílnum. Og þetta gjald þurfa Eyjamenn að greiða í hvert sinn sem þeir bregða sér bæjarleið. Ég er hrædd um að heyrðist hljóð úr horni ef íbúar höfuðborgarsvæðisins þyrftu að borga 16.000 krónur í hvert sinn sem þeir skryppu á Þingvöll eða suður í Hafnarfjörð.
Skattur á atvinnulífið
Þá kemur þessi skattur mjög illa niður á atvinnulífinu í Eyjum. Flutningskostnaður til og frá Vestmannaeyjum er þegar svo mikill að hann hamlar mjög vexti og viðgangi fyrirtækja. Þannig þurfa eigendur vöruflutningabifreiða að greiða mun hærra gjald en almennir farþegar. Ætli fyrirtæki að fara með 7 metra flutningabíl fram og til baka er gjaldið í Herjólf yfir 30.000 krónur. Það sér það hver heilvita maður að þetta er ekki eðlilegt.
En er ekki bara rétt að Eyjamenn borgi brúsann? Þeir tóku jú ákvörðun um að búa á þessu skeri. Raunin er bara sú að það er verið að mismuna íbúum Vestmannaeyja þar sem þessi veggjöld eru ekki innheimt neins staðar nema í Hvalfjarðargöngum og í Herjólfi er ríkið í raun að niðurgreiða allar aðrar samgöngur. Nei, óréttlát gjaldtaka í Herjólfi er ekkert annað en sértækur dreifbýlisskattur á byggð í Eyjum. Af þeim hafa Eyjamenn fengið nóg.
Ég mun ekki sætta mig við sértæka landsbyggðarskatta af þessu tagi. Gildir þar einu hvort um er að ræða fargjöld með Herjólfi, auðlindagjald eða olíugjald, en öll þessi gjöld leggjast harðast á íbúa hinna dreifðu byggða.
Nú er mál að linni.
Greinin bíður birtingar í Fréttablaðinu
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.1.2007 | 10:17
Nám er hin nýja byggðastefna
Með aukinni tækni og þekkingu hefur krafan um menntun farið hratt vaxandi. Á meðan menntun umfram grunn- og framhaldsskóla var aðeins í boði á einum eða tveimur stöðum á landinu var landsbyggðarfólki nauðugur einn kostur að rífa sig upp með rótum og sækja menntunina þar sem hún bauðst, eða sitja hjá ella.
Á síðustu árum hefur orðið gjörbylting þar á. Ekki er lengur einblínt á staðbundið nám við 1-2 skóla heldur hefur framboð á námi stóraukist. Stórbætt fjarskipti hafa einnig orðið til þess að fjarnám er orðið fýsilegur kostur, a.m.k. á flestum þéttbýlisstöðum á landinu. Þetta hefur gjörbreytt búsetuskilyrðum á landsbyggðinni. Þannig heyrir það að mestu sögunni til að skortur sé á menntuðum kennurum við jafnt leik- sem grunnskóla á landsbyggðinni. Leiðbeinendur hafa getað stundað réttindanám samhliða kennslu og þannig skilað miklum verðmætum í sína heimabyggð. Sama á við um margar heilbrigðisstéttir.
Tromsö komst á kortið
Hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa fyrir löngu komist að því að einhver árangursríkasta byggðastefna sem hægt er að reka er að byggja upp menntastofnanir og fræðasetur. Þannig má t.d. nefna Tromsö í Noregi, en fram á 7. áratug síðustu aldar var það smábær sem varla var sjáanlegur á landakortinu, langt norðan heimskautsbaugs.
Árið 1967 tók norska ríkisstjórnin ákvörðun um að setja á stofn háskóla í Tromsö og síðan hafa verið stofnsettar þar rannsóknarstofnanir á borð við Norsku heimskautarannsóknastöðina auk þess sem fjölmargar stofnanir hafa þar stór útibú, oft í tengslum við háskólann. Nú búa um 65.000 manns í Tromsö, þar af um 10.000 stúdentar og tæplega 2.000 manns starfa við háskólann.
Byggðastefna sem virkar
Íslendingar hafa verið seinir að tileinka sér þessa vel heppnuðu byggðastefnu en þó hefur mikið orðið ágengt á síðustu árum. Þannig tókst með samstilltu átaki Norðlendinga að koma af stað Háskólanum á Akureyri og Háskólinn á Bifröst, Hólaskóli og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hafa mjög sótt í sig veðrið síðustu ár. Þá hafa símenntunarmiðstöðvar sprottið upp um allt land og má þar nefna Fræðslunet Suðurlands og Visku í Vestmannaeyjum, sem sinna símenntun og fjarnámi hér á Suðurlandi.
Þá er ótalinn þáttur hinna fjölmörgu rannsókna- og fræðasetra og má þar nefna Þórbergssetrið, Frumkvöðlasetur Austurlands á Höfn, BIOICE miðstöðina í Sandgerði, tilraunaeldisstöð Hafró í Grindavík og svo mætti lengi telja.
Það er mikilvægt að hlú að þessum vaxtarbroddum í sunnlensku samfélagi og styrkja vel þær áætlanir sem uppi eru um frekari sókn. Undirbúningur er hafinn að stofnun miðstöðvar um háskólanám á Suðurlandi og þá er nýstofnað í Vestmannaeyjum félag um Tyrkjaránssetur.
Þetta eru vaxtarbroddar sem Framsóknarflokkurinn lætur sér annt um. Þetta er byggðastefna sem virkar.
Greinin birtist í Dagskrá.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.1.2007 | 18:45
Verum í fremstu röð
Árið 1991 var Stofnfiskur settur á stofn af Laxeldisstöð ríkissins og Silfurlaxi. Upphaflega átti fyrirtækið að sinna kynbótum fyrir hafbeit, en fljótlega hófst undirbúningur viðameiri kynbóta fyrir laxeldi. Strax árið 1995 var Stofnfiskur farinn að flytja út laxahrogn, m.a. til Chile og Írlands. Stofnfiskur hefur ávalt lagt mikla áherslu á rannsóknir og þróun og er sú mikla vinna farin að skila sér, því fyrirtækið er nú orðið í fremstu röð í kynbótum í heiminum.
Stofnfiskur er gott dæmi um hvernig nýsköpun á að virka. Hugviti, þekkingu og reynslu er beitt til að leysa raunverulegt vandamál og þolinmótt fjármagn styður við þróunina uns framleiðslan fer að skila arði. Það skemmtilega við nýsköpunina er líka að oft þarf ekki nema einn snjallan mann til að greina vandamál og koma fram með lausnir. Hvort hann er í Sandgerði eða Þorlákshöfn, Grindavík eða Vogum á ekki að skipta máli, svo framarlega sem hann hefur stuðning til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd.
Vaxtarbroddar Reyknesinga
Með öflugum stuðningi við nýsköpun og þróun getum við byggt upp enn öflugra atvinnulíf og samfélag. Reyknesingar hafa hlúð vel að frumkvöðlum á svæðinu og má þar benda á Bláa Lónið, Vísi í Grindavík, Íþróttaakademíuna í Reykjanesbæ og BIOICE í Sandgerði, auk Stofnfisks með sínar starfstöðvar í Grindavík og Vogum. Þessi fyrirtæki eru öll að nýta þau verðmæti sem liggja í auðlindum og mannauði sem fyrir er á svæðinu. Það er við þessa nýsköpun sem ríkisvaldið á að styðja og þar á Framsóknarflokkurinn af vera í fararbroddi.
Greinin birtist í nýjasta tölublaði Víkurfrétta.
15.1.2007 | 12:43
Fæðist næsta Marel í Nýheimum?
Árið 1977 voru tveir verkfræðingar við Háskóla Íslands farnir að velta fyrir sér hvernig hanna mætti vogir sem hægt væri að nota við erfiðar aðstæður um borð í vinnsluskipum. Þeir eyddu næstu árum við að þróa hugmyndir sínar og tókst með harðfylgi og sannfæringarkrafti að fá fjárfesta og samstarfsaðila til liðs við sig. Lausnir þessa verkfræðinga voru snjallar og eftirspurnin jókst og sex árum síðar var fyrirtækið Marel stofnað í Reykjavík. Markaðsvirði fyrirtækisins er nú tæpir 20 milljarðar króna og það er á góðri leið með að verða markaðsráðandi á sviði vinnslulína fyrir matvælaframleiðslu.
Einn snjallan mann
Marel er gott dæmi um hvernig nýsköpun á að virka. Hugviti, þekkingu og reynslu er beitt til að leysa raunverulegt vandamál og þolinmótt fjármagn styður við þróunina uns framleiðslan fer að skila arði. En nýsköpun af þessu tagi verður ekki bara til í háskólum og stofnunum í höfuðborginni. Það skemmtilega við nýsköpunina er að oft þarf ekki nema einn snjallan mann til að greina vandamál og koma fram með lausn. Hvort hann er á Höfn eða Klaustri, Mýrdalnum eða Öræfum á ekki að skipta máli, svo framarlega sem hann hefur stuðning til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Og þar á ríkið að koma til aðstoðar.
Með öflugum stuðningi við nýsköpun og þróun á landsbyggðinni getum við snúið við þeim atgervisflótta sem á sér stað allt of víða. Með því að efla og fjölga frumkvöðlasetrum, rannsóknastofnunum og háskólasetrum á Suðurlandi er hægt að skapa störf fyrir allt unga fólkið okkar, sem sækir sér menntun í háskóla víða um heim, en finnur svo ekki störf við hæfi nema á SV-horninu.
Spennandi ný störf
Gott dæmi um þetta er Frumkvöðlasetur Austurlands á Hornafirði, en undirbúningur að stofnun þess hófst árið 1995. Þar hefur mikið starf verið unnið undir styrkri stjórn Ara Þorsteinssonar, en hann hefur verið duglegur við að koma á samstarfi við hinar ýmsu rannsóknastofnanir og háskóla sem skilað hefur spennandi verkefnum á borð við Humarhótel og Hornfirska álafélagið, auk þess sem háskólanemar nýta aðstöðu Frumkvöðlasetursins í auknum mæli við vinnu rannsóknaverkefna.
Þá hefur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sem nú nefnist Matís, sett á stofn útibú á Höfn. Til þess hefur verið ráðinn Guðmundur H. Gunnarsson, lífefnafræðingur, sem brátt lýkur doktorsprófi frá Háskóla Íslands. Hann er gott dæmi um hvernig uppbygging rannsókna og þróunar á landsbyggðinni getur laðað mannauðinn burt frá höfuðborgarsvæðinu og heim í hérað.
Tryggja þarf fjármagn
Til að hrinda öllum þeim góðu hugmyndum í framkvæmd sem við vitum að búa í okkur þurfum við fjármagn. Því tel ég afar brýnt að setja nýjan kraft í Nýsköpunarsjóð svo hann geti staðið myndarlega við bakið á nýsköpun um allt land. Þá er mikilvægt að þeir fjármunir sem ríkið tekur til sín, t.d. í formi veiðigjalds, skili sér aftur í þær byggðir sem það borga. Og fjármunirnir eiga að skila sér í nýsköpun og frumkvöðlastarf. Þar er vaxtarbroddurinn.
Greinin birtist í nýjasta tölublaði Eystrahorns.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2007 | 18:46