Blogg að flækjast fyrir Edwards

Ég fylgist spennt með forkosningunum í Bandaríkjunum.  Hillary Clinton hefur verið í miklum metum hjá mér og John McCain er ægilegur nagli sem nær að halda jafnvægi á miðjunni, - og maður verður að fyrirgefa honum fyrir að vera í sama flokki og Bush.  

En einhvern veginn stendur John Edwards mjög nálægt mínu hjarta.  Hann er frá sama fylki og ég (þ.e.a.s. þar sem ég var skiptinemi), North Carolina og er ævi hans sannur amerískur draumur.  Braust til mikils ríkisdæmi úr sárri fátækt (með því að fara í mál við stóru ljótu tryggingarfélögin) en tók ákvörðun um að fara í stjórnmál eftir að sonur hans lést skyndilega.  

Draumaframboðið væri Hillary Clinton og John Edwards.  

En enn þá er langt í land og nú síðast var það bloggið sem flæktist fyrir Edwards.  

Blogg er orðinn stór hluti af kosningabaráttu hvers stjórnmálamanns í Bandaríkjunum og skyndilega eru komnir fram titlar eins og kosningabaráttu bloggarar (campaign bloggers) og bloggararáðgjafar (blog consultants).  John Edwards hefur ráðið tvo kröftuga bloggara Amanda Marcotte  og Melissa McEwan  í vinnu hjá sér og hafa þessar konur bloggað töluvert á sínum eigin vefum um stjórnmál og sínar skoðanir á þeim.  Svo kröftugar að ýmsir andstæðingar Edwards fór að rifja þessar skoðanir upp og vildu gera þær að hans.  Aðrir heimtuðu að þær myndu segja af sér.

Minn maður stóð sig bara vel í þessari fyrstu orrahríð sinni, - tók fram að þetta væru þeirra skoðanir, ekki hans og hann gæti ekki borið ábyrgð á öllum sem starfsmenn hans láta sér um munn eða blogg fara.

Þetta er líka ágætis áminning fyrir okkur vannabís að hafa í huga hvernig við bloggum. Wink


It´s hard to be "umhverfisverndarsinni"

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, frambjóðandi VG í Kraganum, sagði í Silfri Egils að það að vera umhverfisverndarsinni er erfitt.  Því myndu skv. henni flestir af hinum "nýju" umhverfisverndarsinnum ekki hafa úthald til að vera raunverulegir umhverfisverndarsinnar, - bara VG.

Ég er sammála henni, þ.a.s. varðandi erfiðleikana við að vera raunverulegur umhverfisverndarsinni.  Meira að segja Steingrímur J. hefur átt í erfiðleikum við að segja skilið við stóra jeppann sem og margir af þeim sem mættu á fundinn í Árnesi í gær til að mótmæla virkjunum í Þjórsá.  Ómar Ragnarsson hvatti til aukinnar bílaumferðar (lesist: aukinn útblástur gróðurhúsalofttegunda) í miðborg Reykjavíkur og er ekki hættur að fljúga þrátt fyrir að vera orðinn helsti talsmaður hægri grænna í landinu. Og hversu mörg af okkur veltu fyrir okkur koldíoxíðssmengun þegar við vorum að panta síðustu Londonarferðina eða skipuleggja sumarfríið til Spánar?

Þess vegna hef ég aldrei skilgreint mig sem umhverfisverndarsinna. 

Þrátt fyrir ýmsa hegðun sem mætti flokka sem umhverfisvæna s.s. að flokka samviskusamlega málma og gler úr heimilissorpinu, og taka rafhlöður til hliðar.  Þrátt fyrir að ég fari með gos- og glerflöskurnar í endurvinnsluna.  Þrátt fyrir að ég versli í Góða hirðinum og velji frekar íslenskar vörur en erlendar. Þrátt fyrir að ég hafi áhyggjur af hækkandi hitastigi í heiminum sem má rekja til gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði, fiskiskipum, flugvélum, vinnuvélum og bifreiðum.  

Það er líka mín skoðun að það eigi ekki að vera erfitt að vera umhverfisverndarsinni.  Maður á ekki að þurfa að fórna sér, gerast píslavottur til að lifa umhverfisvænu lífi líkt og Guðfríður Lilja og félagar hennar í VG boða.  Það á að vera hluti af lífinu.  Verð á vörum á að endurspegla hvort þær séu slæmar fyrir umhverfið eður ei.  Af hverju tökum við t.d. ekki upp koldíoxíðsskatta á innflutt matvæli, frekar en að vera með einhverja tolla og vörugjöld?  Af hverju skyldum við ekki fyrirtæki til að vinna gegn þeirri mengun sem þau eru að orsaka s.s. skógrækt og landgræðslu?  Af hverju ekki leggja álögur á sparneytna Toyota Hybrid bílinn og Ford pick-upinn í samræmi við mengun frá þeim?

Þetta á að vera hlutverk stjórnvalda, og þetta er eitthvað sem ég vil beita mér fyrir.  Ekki bara setja upp píslarvottssvipinn og tala um hverjir séu hinu einu sönnu umhverfisverndarsinnar. 

Ekki bara tala!  


Kvenleg áhrif í dyravörslu...

Ég rakst á frétt í Blaðinu í dag um að Reykjanesbær segist ætla að draga úr ofbeldi og fíkniefnanotkun á veitingastöðum í bænum með því að hvetja til að konur verði ráðnar í dyravörslu o.fl. Ha?? Mér fannst nú frekar ólíklegt að karlkynsdyraverðir ættu upptökin að ofbeldinu sem á sér stað á veitingastöðum, og neyslu fíkniefnanna, hvað þá í Reykjanesbæ þar sem kurteist og friðelskandi fólk býr.  Áframhaldandi lestur leiddi líka í ljós að ofbeldi og fíkniefnaneysla væri ekkert meiri hjá dyravörðum, eða á veitinga- og skemmtistöðum í Reykjanesbæ en annars staðar á landinu.  

Samt þykir meirihluta bæjarstjórnar í Reykjanesbæ ástæða til þess að taka sérstaklega á þessu og með nýstárlegum aðferðum.  Steinþór Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að kannanir hafi leitt í ljós að tiltölulega minna er um ofbeldi þegar konur eru við dyravörslu en þegar karlmenn sinna slíku starfi.  

Þar sem konur hafa verið í miklum minnihluta í þessari starfsstétt er þetta allavega skref í jafnréttisátt og svo skaðar ekki ef færri guttar skila sér heim til sinna kvenna með glóðurauga og brotin rifbein. 

Við konurnar getum greinilega haft jákvæð áhrif á hinum óvæntustu stöðum Smile

 


Mogginn skýtur á Geir

Í leiðara Morgunblaðsins í gær var skotið föstum skotum að Geir H. Haarde, forsætisráðherra og ræðu hans á viðskiptaþingi um skattamál.  Gagnrýndi leiðarhöfundur að Geir skyldi verja af miklum móð núverandi fyrirkomulag fjármagnstekjuskatts, og það óréttlæti sem felst í að þeir sem hafa tekjur af launavinnu greiði yfir 30% skatt á meðan þeir sem lifa á fjármagnstekjum greiða aðeins 10% skatt.  

Í leiðaranum segir:  "Ein réttlæting Geirs Haarde fyrir lágum fjármagnstekjuskatti er að hann sé brúttóskattur, sem leggist m.a. á verðbætur, sem ekki séu raunverulegar tekjur.  Þá hlýtur Geir H. Haarde jafnframt að vera reiðubúinn að leggja aðeins 10% skatt á verðbætur, sem menn fá greiddar af iðgjaldaeign sinni úr lífeyrissjóðum.  Í dag eru þær skattlagðar eins og launatekjur.  Er eitthvert réttlæti í því?"

Ég get ekki svarað fyrir Geir H. Haarde, en ég get svarað fyrir mig:  

Nei, það er ekkert réttlæti í því! 


Anna Nicole á alvarlegu nótunum

Anna Nicole Smith er dáin.  Hægt er að lesa um þetta á öllum vefmiðlunum í dag og ég sá þetta fyrst hér á moggablogginu í gærkvöldi. 

Þetta er kona sem var þekkt fyrir að vera fræg og ég skal viðurkenna að ég hef fylgst með henni frá því ég bjó í Svíþjóð fyrir 14 árum síðan.  Þar komst maður ekki hjá því að taka eftir henni á risastórum auglýsingaskiltum Hennes&Mauritz ; íklædda rauðum nærfötum, sokkaböndum og litlu öðru.  Mjög flott auglýsingaherferð og ég held að nærfötin og náttfötin sem hún auglýsti hafi selst upp það árið.

Síðustu árin hafa verið mjög erfið.  Hún hefur átt í málaferlum við fjölskyldu fyrrum eiginmanns síns, verið gagnrýnd mjög harkalega fyrir þyngd sína og einkalíf, og ekki síst reyndist þungbært andlát sonar hennar aðeins tveimur dögum eftir að hún fæddi dóttur sína.

Anna Nicole er hluti af poppmenningunni, þessari yfirgengilegu fjölmiðlamenningu sem við búum við, - menningu sem hefur gert hana, Pamelu Anderson og Paris Hilton að stórstjörnum. 

Hún er líka hluti af þeim veruleika sem konur fást við á hverju degi.  Þeim veruleika sem segir að ekki er hægt að taka alvarlega konu sem er of kynþokkafull og sexí.  Eða konu sem ræður ekki við þyngd sína, eða einkalífið.  Við getum talað um þannig konur, hlegið eða gert lítið úr þeim.

En konur sem vilja láta taka sig alvarlega skulu passa sig að klæða sig í passlega síð pils, helst ekki vera með of ljóst hár og alls ekki tala um að þær lesi e-hv annað en viðskiptasíðurnar og fagurbókmenntir.


Gangi þér vel, Kristinn

Í dag yfirgaf félagi minn, Kristinn H. Gunnarsson, Framsóknarflokkinn.  Kristinn er öflugur stjórnmálamaður, fylginn sér, óhræddur við erfið verkefni og skarpgreindur.  Hann hefur oft bent á hluti sem hefðu betur mátt fara bæði í samfélaginu og innan Framsóknarflokksins.  

Ég vil því nota tækifærið og óska honum velfarnaðar í framtíðinni innan Frjálslynda flokksins.  Vonandi mun hann geta haft áhrif á flokkinn til góðs og hjálpað honum áleiðis í að verða "... frjálslyndur og umbótasinnaður flokkur..." enda verðugt og ögrandi verkefni.

 

 


Svei ykkur!

Það er einkennilegur siður hjá sumu Samfylkingarfólki, bæði þingmönnum og vannabís, að geta bara gagnrýnt en ekki hrósað þegar vel er gert.  Upp á síðkastið hef ég ítrekað orðið vör við þetta hegðunarmynstur hjá fylgismönnum þessa flokks.  Þegar eitthvað misferst eða er ekki gert eins og þeir vilja, er hamast á viðkomandi þingmanni eða ráðherra, hann borinn öllum illum sökum og að lokum jafnvel krafist að hann segi af sér.

Þegar viðkomandi gerir síðan eitthvað vel, á frumkvæði að nýjungum, bregst við ákveðnum ábendingum eða leiðréttir misfellur í framkvæmd laga eða reglna þá virðist flokkslínan vera að alls ekki má hrósa!  Alls EKKI má segja: "Vel að verki staðið," eða "gott hjá þér"!  Nei, þá er staðið á því fastara en fótunum að þeir (þ.a.s Samfylkingin) hafi átt hugmyndina og þar með heiðurinn.  

Vefsíða feminískra jafnaðarmanna gerir þetta í gær með pistli um hið ágæta verk Magnúsar Stefánssonar um að breyta hvernig fæðingarorlofslaun eru reiknuð þegar foreldrar eignast tvö börn á þriggja ára tímabili.  Foreldrar höfðu komið fram í fjölmiðlum, bent á að í þessu fælist ákveðið óréttlæti og Magnús fór strax í að breyta þessu. Skv. Rósu Þórðardóttur, húsfreyju og bónda á Suðurlandi, má þakka þetta Jóhönnu Sigurðardóttur, Katrínu Júlíusdóttur, Bryndís Ísafold og Oddný Sturludóttir.  Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, hafði að hennar mati nákvæmlega ekkert með þetta að gera...  

Annað dæmi er rammakvein væntanlegs varaþingmanns Samfylkingarinnar, Ástu Ragnheiðar Jóhannsdóttur, um bækling sem heilbrigðisráðherra gaf út til að kynna nýja stefnumótun og áherslu í uppbyggingu öldrunarþjónustu.  Margoft hafði verið óskað eftir að áætlunum og frumkvæði ráðuneytisins í uppbyggingu öldrunarþjónustu yrði komið vel á framfæri og hafði m.a. áðurnefnd Ásta Ragnheiður verið í þeim hópi.   Heyrðum við Ástu Ragnheiði einhvern tímann hrósa ráðherranum fyrir frumkvæðið eða að hafa tekið vel í ábendingar hennar?  

Nei, - bara að það væri allt ómögulegt við þetta og ef það væri eitthvað jákvætt þá væri það bara vegna þess að hún, eða bara einhver annar kom nálægt þessu máli.

Ég segi bara svei ykkur! 


 


Drepa konur?

Blaðafulltrúar NASA hafa örugglega óskað þess að þeir hefðu getað verið veikir heima í gær og í dag.  Hvernig ósköpunum svarar maður spurningum heimspressunnar um handtöku starfsmanns?  Ekki bara hvaða starfsmanns sem er, heldur geimfara sem keyrði alla leiðina frá Houston til Orlando í bleyju, vopnuð loftbyssu og piparspreyi og í dulargervi til að reyna að ræna og myrða konu sem hún áleit vera samkeppni sína um ástir annars geimfara. 

Við sem héldum að geimfararnir í Armageddon væru bilaðir!

Já, - stundum þurfa menn að vinna fyrir launum sínum en greinilegt er að sumir hafa ákveðið að líta á bjartari hliðina á þessu máli.  Menn eru allavega farnir að hringja í NASA eins og er og ræða um geimferðir og geimfara.  Nútímageimfarar þykja nefnilega ekki lengur neitt spennandi.  Á meðan fyrstu geimfararnir voru stórstjörnur og keyrðu um á Corvettum, er víst líklegra að maður rekist á geimfara dagsins í dag á Dodge Caravan á leiðinni í Wal-Mart. 

Það sem vakti athygli mína var setning í einni fréttinni um að það væri mjög óvenjulegt að konur reyni að fremja þessa tegund af glæpum.  Hvað þá?  Að reyna að myrða samkeppnisaðilann? Eða almennt fyrir konur að reyna að drepa?  Ekki þarf að fletta mjög mikið á vefsíðunni Crime Library til að komast að því að konur drepa, eins og karlmenn.

Þar er vitnað í Patricia Pearson í bókinni sinni, When She Was Bad: How and Why Women Get Away With Murder.  Þar bendir hún á að þrátt fyrir að fólk líti almennt á konur sem lítið ofbeldisfullar fremja konur "...the majority of child homicides in the United States, a greater share of physical child abuse, an equal rate of sibling violence and assaults on the elderly, about a quarter of child sexual abuse, an overwhelming share of the killing of newborns, and a fair preponderance of spousal assaults." En alla jafna drepa þær víst frekar þann sem stendur þeim næst: Börnin, makann, elskhugann, en  ekki samkeppnina. 

Þetta er víst jafnrétti í reynd þegar konur fara meira að segja fremja glæpi eins og karlar, - eða hvað?


Sigurjón og öndin

Ég ætla að hrósa Sigurjóni Þórðarsyni.  Þetta er setning sem mér hefði ekki dottið í hug að ég ætti eftir að skrifa, en í dag átti Sigurjón hrós skilið.

Eins og allir góðir varaþingmenn Grin var ég með Alþingisrásina í gangi í dag á meðan ég hóstaði og snýtti mér í janúar/febrúar flensunni og hlustaði á umræður á þinginu.  Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, (sem hefur staðið sig að mínu mati mjög vel síðan hann tók við ráðuneytinu, meira segja í jafn hræðilega erfiðu máli og Byrginu) var að flytja frumvarp til laga um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum.   Skv. frumvarpinu er markmið laganna að vernda rétt starfsmanna evrópskra samvinnufélaga til aðildar að málum og ákvörðunum sem varða starfsemi evrópska samvinnufélagsins sem þeir vinna hjá og tryggja að gildandi reglur hvorki hverfi né minnki að vægi við stofnun þess. 

Jepp, - einmitt!   Ég beið spennt eftir að heyra í ræðu ráðherrans af hverju það væri svona mikilvægt fyrir Ísland að setja þessi lög.  Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, náð greinilega ágætis sambandi við hugsanir mínar (enda hitinn kominn í 39°C)  og kom upp í ræðustól til að spyrja hver væri tilgangurinn með þessu frumvarpi og hvaða áhrif þau myndu hafa á íslensk fyrirtæki.

Við, - þar að segja, ég og Sigurjón biðum með öndina í hálsinum og snýtiklútinn í höndinn eftir svari frá hæstvirtum ráðherra.  Svar ráðherrans míns var stutt og laggott: a) Frumvarpið kæmi frá Evrópusambandinu, b) væri hluti af EES-samningnum, og c) hann hefði í raun ekki hugmynd hvaða áhrif lögin myndu hafa á íslenskt samfélag.  Það yrði bara að koma í ljós.

Við getum allavega huggað okkur við hina klassísku setningu frá Fjármálaráðuneytinu um að "[e]kki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð." 

Ég verð síðan bara að vona að þessi samkennd mín með áðurnefndum Sigurjóni hverfi um leið og hitinn lækkar.


Hafnarfjarðarbrandari eða Blaðabrandari!

Elín Albertsdóttir, ritstjórnarfulltrúi Blaðsins fer mikið í leiðara Blaðsins sl. laugardag.  Í leiðaranum  fjallar hún um skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra: Auknum fellibyljum, þurrkum, flóðum, hitabylgjum og hækkandi sjávarborð.  Síðan úrskurðar hún um hvern eigi að draga til ábyrgðar.  "Jú, okkur sjálf og þá iðnaðar- og stóriðjustefnu sem viðhöfð hefur verið sl. áratugi." Sem sagt íslenskur almenningur og stjórnvöld bera ábyrgð á loftslagsbreytingunum í heiminum skv. úrskurði ritstjórnarfulltrúans.

Hver er ástæðan fyrir undanþágunni í Kyoto-bókuninni? Hver er ástæðan fyrir því að samtökin Climate Group á 11. aðildarríkjaþingi Loftslagssamningsins í Montreal veittu Íslandi viðurkenningu? Ástæðan er einföld.  Ísland nýtur þeirrar sérstöðu í heiminum að nær öll (99%) orkuframleiðsla nýtir endurnýjanlegar orkulindir, vatnsorku og jarðvarma.  Þetta er draumsýn flestra annarra ríkja, eða eins og kemur fram á vefsíðu WWF,  sem eru að berjast fyrir því að hætta að framleiða rafmagn með kolum.

Þar með er ekki sagt að við getum ekki gert mun betur, - en svona óábyrgur málflutningur í blaði sem vill láta taka sig alvarlega hjálpar engum.  Af hverju er ekki bent á aðgerðir til að draga úr losun í sjávarútvegi og samgöngum? Af hverju er ekki talað um að gera kröfur til Alcan og Alcoa um að binda kolefni með landgræðslu og skógrækt til að vega upp á móti losun þeirra?  Annar möguleiki er að koma á kolefnissjóði sem fyrirtæki gætu fjárfest í, í samræmi við hugmyndir EU um útblástursviðskiptasjóð (Emission Trading System).

Nei, eina lausnin er að hrekja álfyrirtækin úr landi eða hvað? 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband