16.2.2007 | 20:25
Hættan við vasilín
Flugfarþegar hafa á undanförnu uppgötvað að ýmislegt, sem þeir töldu tiltölulega meinlaust vill umbreytast í stórhættuleg efni þegar farið er um flugstöðvar heimsins. Þetta fengu tónlistarmenn í Sinfóníunni að reyna þegar þeir reyndu að komast um borð með vasilín og lúðraolíu. Ekki er heldur langt síðan það komst í heimsfréttirnar að brjóstamjólk þótti eitthvað varasöm og móðir var látin drekka mjólkina til að sýna að hún væri skaðlaus.
Vinkona mín fór nýlega frá Íslandi til síns heima í Kanada með börnin sín tvö, fimm og tveggja ára. Hún þurfti að fara í gegnum 6-7 tékk á leiðinni, þar sem þau urðu að setja allan handfarangur, yfirhafnir, belti og skó í gegnumlýsingu. Ekki fékk hún að halda á yngra barninu í gegnum hliðin, heldur varð hún að vekja hann og láta hann ganga einan í gegn sem var nú ekki sérstaklega auðvelt að útskýra fyrir úrvinda barninu.
Einhvern veginn fær allt þetta mann til að finnast eins og Osama bin Laden og kumpánar hans hafi unnið, unnið fyrir langa löngu.
Svo hefði ég mikinn áhuga á að einhver útskýrði fyrir mér hættuna við vasilínið?
![]() |
Vasilín hættulegra en oddhvassir prjónar? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.2.2007 | 10:14
Samfylkingin og konurnar
Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar grein í FBL í gær sem hann titlar Konur og Samfylkingin. Í greininni reynir hann að færa rök fyrir því Samfylkingin muni fagna umræðu um jafnréttismál í vor. Ég hefði einmitt haldið að Samfylkingin hefði takmarkaðan áhuga á að ræða jafnréttismál, allavega jafnréttismál eins og snýr að uppröðun á listum hjá þeim.
Miðað við þær forsendur að þeir sem leiða lista eigi að verða ráðherrar þá er bara eina kona ráðherraefni hjá Samfylkingunni, þ.e.a.s. Ingibjörg Sólrún sjálf. Að öðru leyti eru listar Samfylkingarinnar leiddir af körlum. Og jafnvel ef leitað er neðar á listana í 2. sætið fjölgar væntanlegum ráðherraefnum flokksins aðeins um tvær konur, þær Katrínu Júlíusdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttir. Enda minnist Ágúst Ólafur ekki einu orði á að konur eru aðeins 16,7% þeirra sem leiða lista Samfylkingarinnar. Hann reynir í staðinn að benda á hvernig hlutirnir eru núna í þingflokki Samfylkingarinnar (9/20), en nefnir ekki einu orði um hversu karllægur þingflokkurinn mun væntanlega verða eftir kosningar.
Trúverðugleiki skiptir miklu máli fyrir stjórnmálaflokk, og í þessu máli líkt og svo mörgum öðrum hafa Vinstri Grænir vinninginn gagnvart Samfylkingunni. Þeir leggja mikla áherslu á að þeir eru feminístaflokkur, og konur eru 33,3% þeirra sem leiða lista hjá VG.
Frábært hugsaði ég, - en hvernig er staðan hjá mínum eigin flokki? Hún er nú bara ansi ásættanleg ... þar sem Framsóknarflokkurinn er með helming konur sem leiða lista fyrir þessar Alþingiskosningar, eða 50%. Hlutfallið minnkar lítið þótt farið sé niður listann, en af 12 efstu mönnum eru 42% konur.
Þetta er víst enn eitt dæmið um muninn á umræðu- og framkvæmdastjórnmálum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
15.2.2007 | 17:09
O.J. hvað?
Baugsmálið er að verða jafn spennandi og O.J. Simpson réttarhöldin sem heimurinn fylgdist með fyrir nokkrum árum.
Fullt af uppákomum, fólki fleygt út úr dómsal og dómarinn farinn að taka virkan þátt í réttarhöldunum. Dómari Ito í LA var nú frekar gagnrýndur fyrir að vera ekki nógu ákveðinn. Arngrímur Ísberg, dómari, ætlar greinilega ekki að gera sömu mistök og hefur bæði gert athugasemdir við spurningar saksóknara og nú kl. 16.15 stoppaði hann saksóknarann í spurningaflóðinu mikla.
Hver skyldi verða Kato Kaelin í Baugsmálinu, en hann var lykilvitni saksóknarana í O.J. málinu og klikkaði algjörlega. Er það Jón Gerald Sullenberger eða einhver annar í 115 manna vitnalistanum?
Spennan bara vex...
![]() |
Dómari stöðvaði skýrslutöku saksóknara í Baugsmálinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.2.2007 | 15:51
Græna lestin hans Dofra
Dofri Hermannsson, einn höfunda að Fagra Íslandi eða hinni misheppnuðu stefnumótun Samfylkingarinnar í umhverfismálum, fjallar um lestarsamgöngur á vefsíðu sinni í gær. Í þeim pistli gefur hann sér að ráðherrar Framsóknarflokksins séu að reyna að ná einhverri grænni lest. Ekki er alveg ljóst hvað Dofri á við með þessari samlíkingu sinni. Ég veit ekki betur en að einkennislitur Framsóknarflokksins sé enn grænn, og við erum þannig hinir upprunalegu grænir í íslenskri stjórnmálaflóru og höfum verið síðustu 90 árin. En ég hef lítið heyrt af lestum hér á landi, nema vera skyldi hugmyndir Samfylkingarfólks í R-listanum um lest á milli Rvk og Keflavíkur.
En svo ég leyfi mér að giska þá tengist þetta væntanlega hinni miklu fylgissveiflu sem Samfylkingin hefur þurft að upplifa þar sem fylgi hennar hefur streymt yfir til Vinstri Grænna, m.a. vegna andstöðu við virkjanaframkvæmdir á Kárahnjúkum. Var hið Fagra Ísland örvæntingarfull tilraun flokksins til að hægja á flóttanum.
Ekki tókst betur til en að rammakvein kvað við frá hinum ýmsu samflokksmönnum hans, fólki sem hafði verið að vinna í bestu trú að hagsmunum síns bæjarfélags og var ekki tilbúið til að hafna virkjanaframkvæmdum eða fresta eins og forystukonan Ingibjörg Sólrún orðaði það. Enda erfitt fyrir flokksmenn að átta sig á hver er stefna flokksins í þessum málum þar sem ISG skiptir um skoðun á hálfsmánaðarfresti?
Má þar bara nefna orð hennar um stækkunina í Straumsvík:
- ISG 27. janúar 2007: Þetta er þeirra bær og þetta er þeirra ákvörðun. Og það er ekki við hæfi að ég taki afstöðu til þess hvað Hafnfirðingar eigi að gera í því sambandi.
- ISG 6. febrúar 2007: Og ég tel að til þess að við getum náð utan um þetta tekið raunverulega í taumana að þá þurfi að fresta þeim stóriðjuframkvæmdum sem nú eru fyrirhugaðar á næstu árum og þá er ég auðvitað að vísa til áforma um stækkunina í Straumsvík og álver í Helguvík.
Og svo segir hún að þjóðin treysti ekki þingflokknum!
15.2.2007 | 11:06
Geir og jafnréttið
Fyrir nokkrum dögum bloggaði ég um ræðu Geirs H. Haarde á viðskiptaþingi og velti þá sérstaklega upp áherslu hans á skattalækkanir fyrir fyrirtæki frekar en ellilífeyrisþega og öryrkja. Nokkrir bloggarar bentu á hvernig Geir skreytti ræðu sína með nokkrum setningum um launamun kynjanna, en virtist ekki hafa hugmynd um hvernig væri hægt að draga úr honum.
Því vil ég gjarnan benda honum á nokkrar tillögur sem MBA nemendur við Háskóla Íslands lögðu fram um hvernig væri hægt að draga úr launamun kynjanna. Tillögurnar voru um margt mjög athyglisverðar:
Stofnun jafnréttiseftirlits.
VR velji Jafnréttisfyrirtæki ársins.
Kynjakvóti í stjórnun.
Skylda að setja inn stuðul í ársreikninga um launamun milli kynja í fyrirtækinu.
Jafnlaunavottun.
Afnám launaleyndar
Greina grunnskólanemendum frá launum einstakra starfa.
Upplýsingar um laun sem hluti af námsráðgjöf.
Sérstaklega fannst mér tillögurnar um stofnun jafnréttiseftirlits og kynjakvóta í stjórnun áhugaverðar. Jafnréttiseftirlitið myndi hafa sömu stöðu og samkeppniseftirlitið til að fylgja eftir ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það gæti standið fyrir rannsóknum að eigin frumkvæði og annarra og ákvarðar sektir/refsingu ef lögunum er ekki framfylgt. Norðmenn hafa þegar innleitt kynjakvóta í stjórnir opinberra og skráðra fyrirtækja, og hefur það leitt til stóraukins hlut kvenna.
Maður hefði talið eðlilegt að Geir H. Haarde sem þykir nokkuð nákvæmur maður hefði getað komið með allavega eina af þessum tillögum inn á þingið í stað þess að hvetja til enn meiri skattalækkana fyrirtækja.
En það hefði væntanlega varla vakið jafnmikla hrifningu meðal karlanna á viðskiptaþinginu...
14.2.2007 | 19:34
Hjálmar og Birkir styðja eyjamenn
Hjálmar Árnason og Birkir J. Jónsson, alþingismenn Framsóknar, hafa brugðist hratt og vel við áskorun Vestmannaeyinga um endurskoðun á gjaldskrám ferja, og ekki bara fyrir þá heldur alla eyjamenn sem búa fyrir utan hið svokallaða þjóðvegakerfi.
Ályktunin er svohljóðandi: "Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að undirbúa setningu reglugerðar er feli í sér að kostnaður farþega við að sigla með ferjum til staða utan þjóðvegakerfisins verði sambærilegur við þann kostnað er hlytist af akstri á þjóðvegum. Verki þessu skal lokið fyrir 1. maí 2007."
Greinargerð með ályktuninni er svohljóðandi:
"Til nokkurra byggða á Íslandi verður ekki komist landleiðina. Ferðir þangað og þaðan eru bundnar við skipa- eða flugferðir. Dæmi um slíka staði eru Vestmannaeyjar, Grímsey, Hrísey og Flatey á Breiðafirði. Fólk sem vill komast þaðan eða þangað er bundið af skipferðum eða flugferðum. Fyrir vikið má segja að íbúar þessara svæða séu bundnari en aðrir við áætlunarferðir. Þá má segja að ferðakostnaður fólks á umræddum svæðum geti verið hærri en almennt tíðkast vegna gjaldtöku. Þannig má taka dæmi af hjónum með einn ungling, tvö börn og bíl undir fimm metrum að lengd. Kostnaður þeirra við að ferðast fram og til baka frá Vestmannaeyjum með Herjólfi er á bilinu 813.000 krónur. Til samanburðar væri kostnaður þeirra við að fara Hvalfjarðargöng aðeins veggjaldið (6001.000 kr.), óháð fjölda í bíl.
Hér er mikið ójafnræði meðal þegna landsins eftir því hvort þeir búa á eyjum við landið eða geta ferðast landleiðina á bílum sínum. Með rökum má halda því fram að siglingar með Herjólfi séu þjóðleiðin til Vestmannaeyja. Því er ekki óeðlilegt að gjaldskrá farþega með Herjólfi sé sniðin að því, þannig að kostnaður við að ferðast milli lands og eyja verði sambærilegur við það sem yrði ef ekið væri á milli. Hið sama gildir um önnur eyjasamfélög.
Þingsályktun þessi gerir ráð fyrir því að samgönguráðherra undirbúi breytingar á gjaldskrá ferja á fyrrgreindum forsendum og ljúki því verki fyrir 1. maí. nk.
Ein lausn vandans gæti verið sú að íbúar með lögheimili á umræddum stöðum fengju að sigla gjaldfrjálst með hinum ríkisstyrktu ferjum. Með því móti væri aðstöðumunur jafnaður en kostnaður ríkisins af þessu væri óverulegur."
Ég hvet alla eyjamenn, hvar sem þeir eru búsettir til að hafa samband við sína þingmenn og hvetja þá til að samþykkja þessa ályktun.
.
14.2.2007 | 12:25
Var í Morgunhananum í morgun
Ég og Lúðvík Bergvinsson, Samfylkingunni vorum í Morgunhananum hjá Jóhanni Haukssyni. Spjölluðum þar um Vestmannaeyjar, sérstöðu þeirra, samgönguvanda og atvinnumál á landsbyggðinni. Þetta var í framhaldi af utandagsskrárumræðu á Alþingi í gær.
Hægt er að hlusta á þáttinn hér.
13.2.2007 | 18:07
Mörður malar um Náttúruminjasafnið
Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, var í Síðdegisútvarpinu í dag til að tala illa um stjórnvöld og frumvarp menntamálaráðherra um Náttúruminjasafnið. Umsjónarmaður SDÚ missti fljótlega alla stjórn á viðtalinu og Mörður lét móðan mása.
Allt var ómögulegt. Safnið hefur algjörlega verið hunsað að hans mati, lagafrumvarpið er arfavitlaust, fáránlegt að láta sér detta í hug að færa safnið út fyrir Reykjavík og svo eiga engir peningar að fylgja með. Honum tókst meira að segja á einhvern undraverðan máta að tengja umræðuna um Náttúruminjasafnið við starfslok Halldórs Ásgrímssonar.
Alveg einstakt. Maður hefði nú haldið að hann fengi nægt ráðrúm í sal Alþingis til að tjá sig. Viðmælandi hans komst varla að, nema rétt til að benda á að hún sem fulltrúi hollvina safnsins væri ekki að mótmæla frumvarpinu heldur leggja áherslu á að frumvarpið yrði samþykkt á þessu þingi.
Eitt voru þau þó sammála um og það var að svona mikilvægt safn gæti alls ekki farið út fyrir borgarmörkin. Ekki einu sinni alla leið á Reykjanesið, sem er í um 40 mínútna fjarlægð frá miðborginni. Ég spyr bara hvort einhver er búinn að benda forstöðumönnum menningar- og menntastofnana á borð við Háskólann á Akureyri, Hólaskóla, Bifröst og Listasafnið á Akureyri á að það gengur alls ekki að vera með svona starfsemi fyrir utan borgarmörkin?
Þeir verða bara að hætta því strax og koma sér fyrir í Vatnsmýrinni!
13.2.2007 | 14:11
Kjalvegur og Sundabrautin
Skv. könnun Fréttablaðsins er meirihluti höfuðborgarbúa andvígur Kjalvegi. Meirihluti landbyggðarbúa er hlynntur því að vegurinn verður lagður.
Könnunin sýnir enn á ný að í landinu búa tvær þjóðir. Höfuðborgarbúar sem vilja hafa allt óhreyft og "óspillt" og helst banna allar framkvæmdir austan 101 líkt og félagi minn Bjarni Harðar orðar svo vel í grein á vefsíðu sinni og íbúar landsbyggðarinnar sem vilja gjarnan fá að lifa og starfa í sínum byggðarlögum.
Eitt af rökunum sem hafa verið notuð gegn Kjalvegi er að hann muni aðeins stytta vegalengdina á milli Reykjavíkur og Akureyrar um 47 km. En það gleymist alveg í umræðunni að hann mun sytta vegalengdina á milli Suður- og Norðurlands um 141 km og munar nú um minna.
Kjalvegur myndi opna mikla möguleika fyrir þetta e-hv annað sem maður heyrir stöðugt í umræðunni um uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni. T.d. yrði hugsanlega hægt að gera Kerlingarfjöll að heilsársskíðasvæði og auðvelda almennt aðgang ferðamanna að hálendinu.
Síðan bíð ég spennt eftir að fá að heyra könnunina um viðhorf allra landsmanna til Sundabrautarinnar, eða hafa höfuðborgarbúar kannski engan áhuga á að heyra hvað landsbyggðarfólki finnst um þá umræðu alla?
![]() |
Meirihluti andvígur nýjum Kjalvegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.2.2007 | 17:56
Fylgistap í Fréttablaðinu
Stundum verður maður að velja á milli þess að gráta eða hlæja. Ég hef alltaf verið frekar meira fyrir hláturinn og flissaði því brjálæðislega yfir tilhugsuninni um Valgerði mína og Guðna minn í 2 manna þingflokki sem "...yrði varla þingflokkur sem myndi dansa vangadans á rauðum rósum gleðinnar" líkt og Stefán Friðrik Stefánsson orðaði í pistli sínum um niðurstöður könnunar Fréttablaðsins um helgina.
Góðu fréttirnar í könnuninni eru að þetta er 800 manna úrtak og um 40-45% af aðspurðum voru að heiman, vildu ekki svara eða voru óákveðnir. Sama og var í könnun Blaðsins fyrir um viku síðan. Einnig að það var ekkert sem hafði gerst síðustu vikuna sem hefði getað réttlætt þetta fylgistap, úr 9-10% sem við höfum alla jafna verið að mælast með síðustu misseri.
Varla voru það ummæli Valgerðar Sverrisdóttur um vilja hennar til að halda áfram núverandi stjórnarsamstarfi, enda löngu ljóst að það samstarf hugnast henni mjög vel. Ungir Framsóknarmenn í Skagafirði eru ekki jafn hrifnir og ég hefði gjarnan viljað sjá þá bæta við í ályktun sinni að ef Framsóknarflokkurinn fær undir 10% fylgi í kosningunum þá á hann ekki setjast í ríkisstjórn.
Því ef svo fer, þá er alveg ljóst að mínu mati að íslenska þjóðin telur að sá árangur sem land og þjóð hefur náð undir leiðsögn Framsóknarflokksins er ekki ásættanlegur, - og þá er ekki um neitt annað að ræða en að endurskoða starf og stefnu flokksins.
Við sem störfum í stjórnmálum getum heldur ekki farið bara í fýlu yfir niðurstöðum kannana. Auðvitað geta miklar sveiflur virkað ruglandi, - en ég heyrði engan Framsóknarmann lýsa því yfir að pólitísk óvild lægi á bakvið mikla sveiflu Frjálslynda flokksins í könnun Blaðsins, þar sem þeir misstu rúman helming fylgis frá síðustu könnun Þjóðarpúlsins.
Nei, ég segi að við eigum heldur að gera orð Jóns Baldvins að okkar: "Come hell or high water...."
Framsóknarmenn, nú brettum við upp ermar og berjumst fyrir því sem við stöndum fyrir!
![]() |
Vilja ekki að Framsóknarflokkur myndi áfram stjórn með Sjálfstæðisflokki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)