Fræðsla virkar

Í nýlegum tölum frá Landlæknisembættinu kemur fram að fóstureyðingum hefur fækkað hér á landi síðustu fimm ár.  Skv. fréttinni er ástæðan talin vera aukin fræðsla og forvarnir. Þetta er alveg frábært að heyra.

Ég hefði haft mjög gaman af því að sjá samanburð við Bandaríkin.  Þar hefur verið stefna Bush-stjórnarinnar að draga úr fræðslu um getnaðarvarnir í skólakerfinu og frekar leggja áherslu á "abstinence" eða halda sig frá kynlífi.  Í nýlegri heimildamynd sem ég sá, að mig minnir á einhverri af norrænu stöðvunum, var verið að fjalla um hvernig árangurinn af þessari stefnu er frekar aukning í kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum og var Houston, Texas tekin sérstaklega fyrir. 

Það hefur verið skoðun sérfræðinga hér á landi, og að ég held almennt á Norðurlöndunum, að það eina sem virkar til að draga úr ótímabærum þungunum og þar af leiðandi fóstureyðingum er aukin fræðsla og notkun getnaðarvarna.

Annað sem vakti athygli mína í samanburðinum við Norðurlöndin er að Svíþjóð er með fleiri fóstureyðingar og virðast þær ekki hafa dregist saman líkt og hér.  Af hverju skyldi það vera? Sænska ríkið hefur niðurgreitt getnaðarvarnir í fjölda mörg ár og er með mjög góða kynfræðslu í grunn- og menntaskólum.  Gæti þetta tengst því að íslenskar konur eru líklegri til að ganga með, ef þær á annað borð verða ófrískar á meðan sænskar konur velja í fleiri tilvikum að fara í fóstureyðingum?

Gaman væri ef einhver gæti svarað þessari spurningum. 


mbl.is Árlegum fóstureyðingum fer fækkandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunhaninn í morgun

Var hjá Jóhanni Haukssyni í Morgunhananum á Útvarpi Sögu í morgun.  Ræddi þar meðal annars auðlindamálið sem mikið hefur verið í umræðunni um helgina.  Hægt er að hlusta á þáttinn hér.

Framtíðarsýn Geirs

Í Silfri Egils í dag var Sigurði Kára Kristjánssyni, Sjálfstæðismanni og alþingismanni, bent á hina einstöku framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins í stóriðjuuppbyggingu.  Hún er að innan 10 ára verði starfandi hér sex stór álver. Staðsetningarnar verða væntanlega þessar:  Grundartangi, Straumsvík, Reyðarfjörður, Helguvík, Þorlákshöfn og Húsavík. 

Ekki var annað en hægt, en að dást að viðbrögðum og leikarahæfileikum þingmannsins unga.  Hann bliknaði hvorki né brást við á nokkurn máta við þessu heldur tók að benda á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fyrir ríflega 40 árum haft frumkvæði að náttúruverndarlögum. 

Vá, bravó, - klapp, klapp!

En ég tel að sumir hefðu líklega átt að þekkjast boð Samfylkingarinnar um sjá myndina an Inconvenient Truth með Al Gore.  Í henni segir hann þessa klassísku setningu:  "Þetta snýst ekki um pólitík lengur heldur siðferði." 

Siðferðislega skyldu okkar allra til að draga úr, ekki auka útblástur gróðurhúsalofttegunda ekki bara í heiminum heldur hér á Íslandi. Ég á því æ erfiðara með að tala fyrir stækkun Straumsvíkur.  Ég sé ekki að það sé nokkuð í atvinnulífinu á suðvesturhorninu sem réttlæti stækkun álversins, og þann aukna útblástur gróðurhúsalofttegunda sem hún mun hafa í för með sér. Eigum við ekki... og trúið mér að þetta er ekki auðvelt að skrifa... að gera eins og sumir í Samfylkingunni leggja til og fresta frekari framkvæmdum?

Blásum á framtíðarsýn Geirs og leyfum umhverfinu að njóta vafans. 


mbl.is Segir mengun frá Alcan aukast við stækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á skítugum skónum

Í viðtali við Fréttablaðið ásakar varaformaður Sjálfstæðisflokksins okkur Framsóknarmenn um að hafa engar hugsjónir.  Þar segir hún að eina ástæðan fyrir því að við erum að berjast fyrir auðlindaákvæðinu eru prósentustig í skoðanakönnunum eða kosningum.  Orðrétt segir hún: "Sérstaklega finnst mér óviðeigandi að nota stjórnarskrána til að hífa sig upp um eitt, tvö eða þrjú prósentustig í skoðanakönnunum eða kosningum."  

Það liggur við að morgunkaffið hafi frussast út úr mér þegar ég las þetta.  Þorgerður Katrín er sama manneskjan og hefur staðið í óformlegum stjórnarviðræðum við Samfylkinguna á bakvið samstarfsflokk sinn.   Hún er ein þeirra Sjálfstæðismanna sem samþykkti stjórnarsáttmálann þar sem stendur skýrt að ákvæðið um að auðlindir þjóðarinnar eru sameign eigi að fara í stjórnarskrá.  Þetta er manneskja sem hefur staðið fyrir hverju klúðrinu á fætur öðru í Menntamálaráðuneytinu (sem hefur haft lítil tengsl við einhverjar hugsjónir) sem mitt fólk hefur neyðst ítrekað til að bera í bætiflák fyrir.

Ég var ein þeirra sem börðust af mikilli hörku fyrir að þetta ákvæði færi inn sem kosningamál fyrir fjórum árum síðan og veit að mikil áhersla var lögð á að setja þetta í stjórnarsáttmálann.  Því var ljóst í upphafi stjórnarsamstarfsins á þessu kjörtímabili að við myndum ekki gefa þetta eftir. Vinna stjórnarskrárnefndar hefur staðið yfir þetta kjörtímabil og mitt fólk hefur unnið þar að fullum heilindum og trúað því að það sama gilti um Sjálfstæðismenn.

En eitthvað virðist hafa breyst eftir að nýir menn tóku við í brúnni hjá Sjálfstæðisflokknum.  Fyrst byrjar Geir H. Haarde að tala um að tryggja nýtingarrétt útgerðarmanna á LÍÚ þingi, síðan leggur hann fram frumvarp um að afhenda þjóðlendur Landsvirkjun og nú á að svíkja undirritaðan sáttmála á milli stjórnarflokkanna.

Þolinmæði okkar Framsóknarmanna er mikil.  En Þorgerður Katrín og Geir þurfa að fara gera sér grein fyrir að það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að ganga oft yfir mann á skítugum skónum!

Allir í bíó!

Samfylkingin ætlar að bjóða öllum í bíó á sunnudaginn (væntanlega á meðan húsrými leyfir).  Hún vill að þjóðin sjái hina stórgóðu heimildarmynd, An inconvenient truth með Al Gore.

Ég mæli eindregið með að þeir sem hafa ekki enn séð hana drífi sig í bíó.  Staðurinn er Háskólabíó og stundin kl. 14.00 á sunnudaginn.  Framsóknarmenn verða búnir að samþykkja stórgóðar ályktanir og komnir í baráttugírinn þannig að þetta verður góður endir á helginni að drífa sig í bíó á kostnað Samfylkingarinnar.

Vonandi voru líka einhverjir Framsóknarmenn sem gátu nýtt sér ókeypis í göngin á leiðinni á flokksþingið.

Allt í boði Samfylkingarinnar! 


Svik Sjálfstæðismanna II

Í janúar skrifaði ég pistil sem hét Svik Sjálfstæðismanna þar sem ég fjallaði um ágreining stjórnarflokkanna um hvort setja eigi inn í stjórnarskrá að sjávarauðlindir eru þjóðareign.

Þessi ágreiningur hefur bara ágerst á undanförnu og er að mínu mati ein helsta ástæðan fyrir því að Framsóknarflokkurinn sá ástæðu til að ítreka og raunar útvíkka þessa kröfu sína í drögum að ályktun flokksþingsins.  

Þar segir að tryggja eigi stöðu auðlinda í þjóðareigu með því að setja inn í stjórnarskrá eftirfarandi setningu: "Auðlindir landsins eru sameign íslensku þjóðarinnar".  Með auðlindum er átt við nytjastofna á Íslandsmiðum, auðlindir á, í eða undir hafsbotninum utan netalaga og náttúruauðlindir í þjóðlendum.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra reynir í fréttum útvarpsins að verja svik flokks síns gagnvart Framsóknarmönnum og brot á stjórnarsáttmála.  Þar virðist hann bara telja það gott og gilt gagnvart Framsóknarflokknum og almenningi að fresta þessu öllu saman, væntanlega um aldur og ævi.  

Undarlegt, ef satt er að Sjálfstæðismenn hafi skrifað undir þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum án þess að gera sér grein fyrir hvað þetta þýddi og hvernig væri best að útfæra þetta.  

Þetta er málefni sem má ekki gefa eftir!

FlyMe með Sterling?

Ég flaug með Sterling síðastliðið sumar og hef síðan þá fengið fréttabréf með tilboðum og þess háttar.  Í dag fékk ég bréf frá sjálfum forstjóranum, Almari Erni Hilmarssyni.  Hann býður mér flug með Sterling, jafnvel frítt, ef ég átti bókað flug með nú gjaldþrota samkeppnisaðilanum FlyMe.

Þetta kalla ég að nýta sér viðskiptatækifæri hratt og vel þegar þau opnast... 

Bréfið er svohljóðandi:  

A special message from the CEO of Sterling

Dear Sterling Customer,


Today our competitors, the Swedish airline FlyMe, announced they have ceased operations on all flight routes.

We know that there are a lot of people out there who have already booked flights with FlyMe. If you are one of them, I want you to know that you can now use your old FlyMe booking to get a discount on international flights with Sterling.

Also, if you have booked a domestic FlyMe flight within Sweden, Sterling will exchange your FlyMe ticket to a flight free of charge.

Finally, if you have already flown to your destination and can't get back, Sterling will fly you home free of charge, provided that we fly that route and that there are available seats onboard our airplanes.

We'll do our best to keep you updated with information and details on our website at sterling.dk/flyme

Best regards,

Almar Örn Hilmarsson

Almar Örn Hilmarsson
CEO, Sterling Airlines

 


Myndavélar um borð?

Ég velti fyrir mér hvort þetta opni fyrir möguleika á að vera með myndavélar um borð í skipum, í stað veiðieftirlitsmanna? 

Gaman væri að vita hvort sé dýrara... 


mbl.is Starfsmaður Landhelgisgæslunnar til starfa hjá FAO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan um svefninn

Síðustu vikurna höfum maðurinn minn og ég átt í stríði við 6 mánaða gamla dóttur okkar.  Stríðið gengur út á að fá hana til að sofna sjálf.  Hernaðartaktíkin nefnist Ferber-aðferðin og virðist við fyrstu sýn ganga út á að vera vond við barnið.

Svona gengur kvöldið fyrir sig:

  • Barnið er lagt vakandi í rúmið og ljósið er slökkt.  Henni er klappað á vangann eða magann stuttlega og svo fer ég út úr herberginu.  
  • Barnið grætur!
  • Ég kem aftur inn eftir ákveðið millibili, klappa aftur (bannað að horfa í augun eða taka hana upp) og fara út.
  • Barnið grætur
  • Maður minn fer næst inn, klappar á vangann eða magann, horfir alls ekki í augun og fer aftur út.
  • Barnið grætur enn hærra!
  • Foreldrar þ.a.s. maðurinn minn og ég engjumst...
  • Þegar hún loksins gefst upp og sofnar, - er málið að taka hana ekki upp og gefa henni yfir nóttina.  

Vefsíðurnar og bækurnar segja að þetta taki venjulega þrjá daga.  Litla mín virðist hafa þrjóskuna frá öllum öðrum en mér (ég hef mína enn þá Wink) og gaf sig ekki fyrr en fimmtu nóttina.  Við vorum orðin illa sofin, úrill og með hrikalegt samviskubit.  Svo hjálpar ekki að nánast öllum í fjölskyldunni finnst við vera óskaplega grimm.

En í þetta sinn höfum við eldri dótturina sem sönnunargagn nr. 1!  Hún þurfti að fara í gegnum Ferber (fyrst barna í fjölskyldunni) og hefur sofið heilu næturnar frá 9 mánaða aldri, sefur í sínu eigin rúmi, skríður (nánast) aldrei upp í og finnst það bara ekkert tiltökumál.

Þannig að maður verður bara að halda áfram að telja sér trú um að þetta sé barninu fyrir bestu og að stundum verða góðir foreldrar að vera vondir.

Hér eru svo tvær góðar greinar fyrir þá sem eru að tapa baráttunni...

Whose bed is it anyway?

Big story: The best sleep advice you´ve never heard 


1 atkvæði - 1 maður?

Í drögum að ályktunum sem lagðar verða fyrir á flokksþing Framsóknarflokksins núna um helgina er lagt til að breyta kosningalöggjöfinni.  Markmið breytinganna á að vera að tryggja við kosningar til Alþingis persónukjör og vægi kjósenda við röðun á lista og fjölga kjördæmum til að skapa meiri nálægð milli kjörinna fulltrúa og kjósenda.  

Þessu vilja menn ná með eftirfarandi leiðum:

  • Hluti þingmanna verði kjörinn af landslista og hluti þeirra í kjördæmum.
  • Kjósendur raða fulltrúum á landslista og kjósa síðan flokk í því kjördæmi þar sem þeir hafa búsetu.
  • Landslisti verði notaður til að velja uppbótarþingmenn til að tryggja að samræmi sé milli kjörfylgis og fulltrúa á þingi.
  • Sami einstaklingur getur setið á kjördæmalista og landslista og kemur þannig til álykta sem uppbótarmaður nái hann ekki kjöri í viðkomandi kjördæmi.
  • Kjördæmunum verður fjölgað í til að mynda 11 kjördæmi þar sem 3 eru í kjöri í hverju kjördæmi (mín athugasemd: mættu vera fleiri).  Kjördæmamörk breytist í samræmi við breytingar á búsetu og tryggt verði að 1 maður þýðir 1 atkvæði. (Set persónulega spurningamerki við þetta).
  • Sett verði krafa um lágmarksfylgi á landsvísu til að flokkur sem ekki kemur að kjördæmakjörnum þingmanni, komi til álykta við úthlutun uppbótarþingsæta. 

Ég hef verið meðal þeirra sem hef haft miklar áhyggjur af fjarlægð á milli kjörinna fulltrúa og kjósenda í þessum risakjördæmum sem landsbyggðarþingmenn hafa verið að vinna í.  Það er líka sannfæring mín að m.a. þessi fjarlægð er að orsaka æ meiri hrepparíg og þúfupólitík um efstu sætin.  Þannig að það markmið er ég alveg sátt við.

En um leið er talað um að tryggja að 1 maður þýði 1 atkvæði. 

Þetta er eitthvað sem ég er beggja blands með.  Ég hef almennt verið á móti þessu en spyr mig nú hverju hefur þetta breytt fyrir landsbyggðina?  Hefur einhverju skipt að vægi atkvæða á landsbyggðinni hefur verið meira?  Ekki hefur það komið í veg fyrir hina svokölluðu höfuðborgarstefnu sem ég hef kallað núverandi byggðaþróun- og stefnu stjórnvalda. Ekki hefur það aukið jafnvægið á milli opinberra verkefna á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðisins? 

Kannski myndu landskjörnir fulltrúar huga að meira að heildarmyndinni og hagsmunum íbúa í öllu landinu, í stað þess að sætta sig endalaust við hagræðingarrökin miklu.

Það verður allavega áhugavert að hlusta á rökin með og á móti... 


mbl.is Framsóknarmenn vilja stjórnarskrárákvæði um auðlindir landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband