Mogginn hefur upp raust sína

Ég hafði saknað skoðana Morgunblaðsins í auðlindamálinu, en það er gott að sjá að þeir hafa ekki skipt um skoðun.  Vil því hvetja fólk til að lesa leiðara Moggans frá því á föstudaginn sem heitir því ágæta nafni Vond niðurstaða.

Hafa væntanlega ekki viljað skipta sér fyrr af...

 


Allt Framsókn að kenna!

Þetta er stefna Samfylkingarinnar í hnotskurn.  Nýjasta útspilið var í hádegisfréttunum í dag þegar Anna Kristín Gunnarsdóttir veifaði tölum frá Iðnaðar- og Viðskiptaráðuneytinu um flutning opinberra starfa til og frá landsbyggðinni.  Fréttin var kynnt þannig að landbúnaðarráðherra hefði flutt 160 opinber störf landbúnaðarráðuneytisins af 182 í sitt kjördæmi á síðustu 10 árum, á meðan aðeins 12 ný opinber störf hefðu orðið á Vestfjörðum.

Hvað kemur Landbúnaðarráðuneytinu málinu við?  Væri ekki nær að telja upp hvað þingmenn og ráðherrar NV-kjördæmis hefðu gert á síðustu árum.  Nei, hér á enn að reyna slá einhverjar pólitískar keilur á kostnað Framsóknarflokksins.  

Ef við viljum endilega blanda Landbúnaðarráðuneytinu inn í málið þá er einkennilegt að ekki var hægt að minnast á mikinn stuðning ráðherrans við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Hólaskóla, sem eru báðir staðsettir í NV-kjördæmi.  Stuðningur sem hefur ekki alltaf vakið mikla hrifningu hjá kjósendum og íbúum í Suðurkjördæmi.

En skoðum aðeins ráðherra NV-kjördæmis:

  • Sturla Böðvarsson hefur verið samgönguráðherra frá 1999 og skv. tölum Önnu Kristínar hefur störfum á vegum Samgönguráðuneytisins fækkað um 8,63 í NV-kjördæmi frá 1995-2005. 
  • Á sama tíma hefur störfum á vegum Félagsmálaráðuneytisins fjölgað um 59,8 undir stjórn ráðherra Framsóknarflokksins Páls Péturssonar, Árna Magnússonar og nú síðast Magnúsar Stefánssonar. 

Fulltrúar hópsins sem stóðu fyrir baráttufundinum á Ísafirði sögðu þá snýst þetta ekki um pólitík eða að stilla landsbyggðarkjördæmunum gegn hvert öðru.  Við sem búum á landsbyggðinni þurfum að standa saman, gegn aðdráttarafli höfuðborgarsvæðisins.  Ekki rífast um hvert störfin fara út á land, heldur krefjast þess að þau fari. 

Því lofa ég Önnu Kristínu að ég skal vera fyrsta manneskjan til að fagna því ef t.d. þingmaður og ráðherra NV-kjördæmis Einar K. Guðfinnsson ákveður að flytja Fiskistofu eða þó það væri ekki nema bara Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna til Vestfjarða.  En frekar lítið hefur gerst á vettvangi þess ráðuneytis hingað til.  Til stóð að flytja 7 störf í fyrra, 5 í ár, 6 2008 og 6 2009.  Af þeim áttu 2  að fara á Ísafjörð af 7 sem áttu að fara í allt í NV-kjördæmi. 

Því meginmarkmiðið hlýtur að vera að rétta hlut landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu!

Ekki rífast um hver fær hvað! 

 

 


Fjármagn flýr sjávarútveginn

Í Fréttablaðinu í morgunn er lítil frétt um grein sem Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson (Binni), framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum skrifaði í ritinu Þjóðareign.  Í greininni skrifar Binni: "Lítill áhugi er eðlilega á að fjárfesta í grein sem fær ekki að dafna vegna þess að vöxtur hennar verður skattlagður af ríkinu sérstaklega. Með öðrum orðum, fjármagnið flýr greinina,"

Nú skal ég viðurkenna að ég hef ekki enn komist yfir þetta merka rit. En í fréttinni er sagt að Binni komist að þeirri niðurstöðu að auðlindagjaldið hefði komið heildarmarkaðsvirði eigin fjár sjávarútvegsfélaga niður í nánast ekki neitt í árslok 2005.  Einnig ber hann saman þróun eigin fjár sjávarútvegsins við viðskiptabankana og Bakkavör árin 2001 til 2005.  Árið 2001 hafi eigið fé sjávarútvegsins verið margfalt meira en eigið fé hvers banka, en í árslok 2005 hafi eigið fé Bakkavarar verið orðið meira en eigið fé útvegsins.

Sem sagt allt auðlindagjaldinu að kenna!

Ég myndi vilja koma með aðra kenningu.  Gæti verið að ástæðan fyrir áhugaleysi fjárfesta sé skortur á vexti?  Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og stjórnendur þeirra hafa verið mjög upptekin af því að hagræða í rekstri og ná aukinni framlegð.  Einnig hafa þau verið mjög upptekin af því að fjárfesta í aflaheimildum innanlands og nú nýlega endurnýjun á núverandi skipaflota.

Á sama tíma hafa íslensku bankarnir og Bakkavör haft mestan áhuga á að fjárfesta í nýjum viðskiptatækifærum erlendis.  Afleiðingin hefur verið gífurlegur vöxtur, mikil veltuaukning og aukinn hagnaður. Allt þættir sem hugnast fjárfestum einstaklega vel. 

Ákvörðun sem byggðist á þeirri staðreynd að vaxtarmöguleikar innanlands eru takmarkaðir.  Þetta er eitthvað sem flest íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa ekki enn gert sér grein fyrir, nema vera skyldi Samherji og Sjóvík (sem kom svo heim og keypti SH). 

 


Sammála Grími!

Grímur Gíslason skrifar pistil á heimasíðu sinni um hvernig Vestfirðingar eru að bregðast við byggðavanda sínum.  Ég hef einmitt að undanförnu verið að velta fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að halda baráttufund líkan þeim sem haldinn var á Vestfjörðunum víðar á landsbyggðinni.

Við þurfum að halda svona fundi í Vestmannaeyjum, Vík, Hornafirði, Raufarhöfn, Húsavík, og svona væri hægt að telja áfram hringinn í kringum landið.  Grímur segir í grein sinni: “Vandi Ísafjarðar er vandi ýmissa jaðarsvæða á landsbyggðinni í hnotskurn.”  

Þessu er ég algjörlega sammála!

Ólína Þorvarðardóttir var ein þeirra sem skipulagði baráttufundinn á Ísafirði.  Á Rás 2 sagði hún að staðan væri orðin þannig að þetta snérist ekki lengur um pólitík og flokka, heldur um að taka höndum saman og snúa þróuninni við.  Spurt var í viðtalinu af hverju það er alltaf þannig að ef rétta á hlut landsbyggðarinnar, fjölga opinberum störfum eða jafna stöðu fyrirtækja s.s. með skattaívilnunum eða lækkun flutningskostnaðar þá er talað um ölmusu til handa landsbyggðinni. 

  • Þrátt fyrir að margítrekað hafi verið bent á að 70% opinberra starfa er á höfuðborgarsvæðinu, en bara 62% íbúa. 
  • Þrátt fyrir að margítrekað hafi verið bent á ósanngirnina í álagningu ýmissa opinberra gjalda s.s. olíugjaldið og virðisaukaskattur á vöruflutninga.    

Þetta er því engin ölmusa, - heldur sanngjörn krafa!

Því vil ég taka undir orð Gríms um að tími sé til kominn að Eyjamenn eða bara landsbyggðarmenn í heildina hefji upp raust sína og krefjist viðlíkra aðgerða og Ísfirðingar.


Auðlindaákvæðið markleysa?

Í umræðunni um auðlindaákvæðið hafa ýmsir löglærðir menn stigið fram og haldið því fram að auðlindaákvæðið sé markleysa. Helstu rökin fyrir því eru að hugtakið þjóðareign (þ.a.s. sameign þjóðarinnar) sé ekki til í íslenskum lögum og þar með sé ekki hægt að setja það inn í stjórnarskránna.

Lögfræðingarnir virðast telja að ekki megi koma með nýja hugmyndafræði inn í stjórnarskránna, lagatexta eða jafnvel pólitíska umræðu.  Það er ekki laust við að það laumist að manni sjá grunur að þessir sömu löglærðu menn hefðu sómað sér vel í hinum pápíska rannsóknarrétti sem átti til að pynta eða jafnvel brenna menn sem dirfðust að koma með nýjar og undarlegar hugmyndir.  Ein var t.d. að jörðin væri hnöttótt og snérist í kringums sólina, en ekki flöt eins og pönnukaka.

Eitthvað sem við í dag teljum eðlilegt og rétt. 

Árið 1788 dirfðust nokkrir menn í Philadelphiu að setja niður á blað róttækar hugmyndir þess efnis að fólkið í landinu hefði eitthvað um stjórnun landsins að segja.  Fyrsta setningin í því plaggi hljómar svona: "We the People of the United States..."  Í bandarísku stjórnarskránni kom fram fullt af nýjum hugmyndum sem áttu ekkert sérstaklega upp á pallborðið hjá ríkjandi stéttum í heiminum.  Ári seinna hófst Franska byltingin þegar franskur almenningur dirfðist að gera kröfu um jafnan atkvæðisrétt og aðalinn og klerkastéttin eða bara að þeir borguðu skatta líkt og almenningur.

Eitthvað sem við í dag teljum eðlilegt og rétt.

Nokkuð mörgum árum seinna eða 1920, bættu Bandaríkjamenn við 20. stjórnarskrábreytingunni þar sem konur fengu að kjósa. Ýmsir lögfróðir menn stigu þá á stokk og bentu á að þetta væri nú stórhættulegt eða bara hrein og klár vitleysa að leyfa konum að kjósa.  Útvatnaði atkvæðisrétt karla og ég veit ekki hvað!

Eitthvað sem við í dag teljum eðlilegt og rétt.

Guðrún Gauksdóttir, dósent við HR og forstöðumaður Rannsóknarstofnunar í auðlindarétti, hefur verið rödd skynseminnar í þessari umræðu.  Ein fárra hefur hún bent á að með því að setja auðlindaákvæðið inn í stjórnarskránna verður það sjálfkrafa hluti af íslenskum lögum og réttarkerfi.  Dómstólar, Alþingi og íslenskt samfélag í heild mun fara að taka tilliti til þessa hugtaks og vinna út frá því.

Þetta hefur þegar sýnt sig, þrátt fyrir að auðlindaákvæðið sé enn þá bara frumvarp.  En í gær dróg forsætisráðherra til baka frumvarp sitt um að afhenda varanlega þjóðlendur til Landsvirkjunar, enda andsætt auðlindaákvæðinu þar sem þjóðlendur eru auðlindir þjóðarinnar.

Því er alveg ljóst að ákvæðið skiptir máli, er ekki markleysa og mun móta íslenskt samfélag um ókomna tíð.    


Sænska Melodifestivalen

Svíar halda loka-forkeppni sína í Eurovision eða Melodifestivalen, eins og þeir kalla það, í kvöld.  Ég er áskrifandi að Evrópupakkanum hjá Skjánum og ætla að fylgjast með. Þetta eru svona leifarnar af nærri fjögurra ára búsetu í Stokkhólmi.  Ég get alltaf haldið með bæði Svíum og Íslendingum, allavega þegar það er búið að sparka okkur út nema auðvitað þegar Charlotte vann Selmu (sem ég bara skil ekki enn þáShocking). 

En þeir skildu heldur aldrei hinn mikla áhuga minn á Eurovision, það voru engin Eurovision partý og ég átti alltaf í miklum erfiðleikum með að finna stöðina sem sendi hina alvöru Eurovision keppni út.  Sem hefur örugglega átt einhvern þátt í að ég íhugaði ekki einu sinni að setjast að í Svíaríki!

Kannski er ástæðan sú að þeir hafa ekkert fyrir því að vinna, - eða senda þokkalega sigurstranglega slagara á hverju ári í Eurovision.   

En þetta hefur greinilega breyst til batnaðar, allavega er sent beint út á SVT og DN veðjar á að The Ark með the Worrying kind vinni.  Þeirra Eiríkur Hauksson í ár er líka tiltölulega síðhærður, en minnir frekar á Boy George eða Adam Ant.

Jæja, poppið og kókið er allavega tilbúið. 

  


Gunnar er krútt?

Ég rakst á fyndna frétt á visir.is þess efnis að Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, væri nú orðin formlega bókaður sem krútt í fundargerð bæjarráðs.  Sú sem bókaði, Guðríður Arnardóttir oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, hefur nú venjulega ekki verið svona "næs" í orðum sínum við bæjarstjórann og þetta er nú ekki orð sem ég hefði notað.

En nú rennur kannski upp nýtt skeið blóma og friðar í Kópavogi þar sem minnihlutinn fer að sýna hversu vel alinn hann er... Grin


Froðufellandi framkvæmdastjóri ÞSSÍ

Sighvatur Björgvinsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ), spilaði út í útvarpi í gær í beinni frá Afríku.  Orsök dramans var skýrsla utanríkisráðherra um fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands. Sjaldan eða aldrei hafa jafn heiftarleg viðbrögð sést hjá starfsmanni í utanríkisþjónustu, sem gerir yfirleitt út á yfirvegun í vinnubrögðum.  Því er ekki að undra að maður spyrji sig hvað orsakar í raun þessi viðbrögð Sighvats Björgvinssonar.  

Er það vinnan við skýrsluna?  Vinna við að endurskoða þróunarsamvinnu hefur staðið yfir frá því í nóvember og framhaldi af þeirri vinnu var tilkynnt að utanríkisráðherra hyggðist endurskoða lögin um ÞSSÍ.  Í fréttatilkynningunni frá ráðuneytinu sagði: "...kannað verði hvort þörf sé á breyttu skipulagi þróunarsamvinnu Íslands.  Meðal álitaefna sem skoðuð verða eru kostir og gallar núverandi lagaramma ÞSSÍ, svo og fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands, bæði tvíhliða og á fjölþjóðlegum grundvelli."  Við gerð skýrslunnar var málþing haldið, talað við framkvæmdastjórann, stjórn stofnunarinnar, þá starfsmenn sem náðist og fjölda annarra sem koma að þróunarsamvinnu hérlendis. Skýrslan er tilbúin og ráðherra tilkynnti um leið að ekkert lagafrumvarp yrði lagt fram á núverandi þingi um leið og hún skýrði sín sjónarmið. 

Sem sagt engar breytingar á þessu kjörtímabili og því getur það varla verið ástæðan.

Ég ætla að leyfa mér að koma með aðra kenningu.  Frá því að Valgerður Sverrisdóttir tók við utanríksráðuneytinu hefur hún sýnt og sannað að hún hefur lítinn áhuga á að fylgja í fótspor fyrri ráðherra.  Hún ætlar ekki að fjölga sendiráðum, og enn þá síður úthluta einhverjum bitlingum til fyrrum stjórnmálamanna, og skiptir þá litlu hvort leitað er til hennar af eigin flokksmönnum eða öðrum. Nýjar áherslur í þróunarsamvinnu hafa einnig vakið athygli.  Meira segja einn helsti gagnrýnandi Framsóknar, Dofri Hermannsson, gat ekki annað en lýst yfir ánægju sinni með þær breytingar á vefsíðunni sinni: "Hún afvopnaði friðargæsluliðið, sendi jeppagengið heim og ljósmæður út í staðinn."

Gæti verið að Sighvatur Björgvinsson óttist að eins verði farið með hann og jeppagengið og að bitlingunum fækki jafnvel um einn á vegum ráðuneytisins?

Það skyldi nú aldrei vera…


Samkomulag komið!

Frábært. Stjórnarflokkarnir eru búnir að komast að samkomulagi um auðlindaákvæðið, svokallaða.  Geir H. Haarde sagði á blaðamannafundinum að þetta ákvæði "hækkar í tign" 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna og gefur henni mun meira vægi.  Ég er líka einstaklega ánægð með að þetta skuli eiga ekki bara við um auðlindir okkar í hafinu, heldur allar náttúruauðlindir okkar.   

Ákvæðið verður svohljóðandi:  "Náttúruauðlindir Íslands skulu vera þjóðareign þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila samkvæmt 72. grein. Ber að nýta þær til hagsbóta þjóðinni, eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu, að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum."

Einkar athyglisvert er líka að þetta verður borið fram sem þingmannafrumvarp, ekki ríkisstjórnarfrumvarp og því mun hver og einn þingmaður geta tekið afstöðu til frumvarpsins á sínum forsendum. 

Stjórnarandstöðunni gefst nú einstakt tækifæri til að standa við stóru orðin og styðja frumvarpið!   


mbl.is Formenn stjórnarflokka flytja frumvarp um stjórnarskrárbreytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hollráð til Samfylkingarinnar

Smá ábending til spunameistaranna í Samfylkingunni, - þetta verðið þið nú að berja á gagnvart VG.  Að valið sé einfalt:  Ef kjósendur velja VG þá séu þeir í raun að velja Sjálfstæðisflokkinn :)

Hlýtur að toga fylgið aðeins upp!

 


mbl.is VG og Sjálfstæðisflokkur gegn ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband