Stór stund framundan

Á laugardaginn göngum við til kosninga.  Val okkar á kjördag mun hafa áhrif á líf okkar næstu fjögur árin.  Stjórnmál snúast nefnilega um líf okkar; skólagöngu barnanna okkar, hversu mikið við greiðum í Herjólf, aðgang að heilbrigðisþjónustu, umönnun afa okkar og ömmu og síðast enn ekki síst hversu mikið við fáum í launaumslagið um hver mánaðarmót. 

Gráu og grænu flokkarnir
Þrýstihópar hafa komið fram að undanförnu og hvatt fólk til að velja á milli gráu eða grænu flokkana.  En hverjir eru hvað? Hversu grár væri veruleikinn ef félagar Steingríms J. í Alþýðubandalaginu hefðu fengið sínu framgengt og bannað litaútsendingar í sjónvarpi?  Birtist gráminn ekki líka í tillögum VG, a la George Orwell og 1984, um netlögreglu og hertan útivistartíma barnanna okkar.  Viljum við að landinu verði stjórnað af fólki sem hefur ekki trú á getu okkar sjálfra til að velja og hafna?  Viljum við að landinu verði stjórnað af fólki sem telur sig betur hæft til að ráðstafa okkar peningum en við sjálf?  Viljum við að landinu verði stjórnað af fólki sem predikar boð og bönn, höft og hömlur?

Kjósum árangur
Ég segi nei! Veljum frekar fólk sem vill byggja upp enn öflugra og kröftugra samfélag hér á Íslandi.  Veljum flokk sem vill árangur áfram, ekkert stopp.  Setjum X við B þann 12. maí.

Greini birtist í Vaktinni í gær.


mbl.is Steingrímur: forsætisráðherra hreytir ónotum í kjósendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokaspretturinn

Kominn föstudagur og bara einn dagur eftir til kosninga.  Vikan búin að líða áfram á ógnarhraða og Framsóknarmenn aldrei verið baráttuglaðari. 

Fór á Selfoss á miðvikudaginn og rakst þar á Össur Skarphéðinsson vera að styðja við sína menn.  Staðan greinilega nógu góð í Reykjavík þannig að hann gat rokið austur fyrir fjall til að aðstoða Björgvin og félaga.  Var svo við opnun kosingaskrifstofu á Hvolsvelli ásamt Bjarna og Gissuri.  Hitti þar fjölda Bolvíkinga, -Smile sem voru að heimsækja hið fagra Rangárþing.  Að því loknu skildu leiðir og Bjarni hélt á fjölmennan borgarafund í Eyjum um samgöngumál á meðan ég átti stefnumót við fjölda kvenna á Selfossi. 

Kvennakvöld Framsóknar á Selfossi tókst með eindæmum vel.  Flottir frambjóðendur Wink, spákona, ljúf tónlist og veitingar, og óperudýfurnar slúttuðu síðan kvöldinu með glæsibrag.

Rauk síðan aftur til Eyja í gærmorgunn, enda átti eftir að undirbúa Eurovision kvöldið á kosningaskrifstofunni og kosningakaffið á kjördag.  Lögin sem ég kaus komust áfram: Serbía, Ungverjaland og Slóvenía.  En því miður komst ekki rauðhærði rokkarinn okkar áfram... en maður getur nú ekki fengið allar sínar óskir uppfylltar.

Dagurinn í dag er fullskipaður, - og kosningaskrifstofan opin til kl. 21.00 í kvöld. 

 


Íslenska fyrirmyndin

Að undanförnu hefur hinn nýi Jafnaðarmannaflokkur Íslands (annars þekkt sem Samfylkingin) töluvert talað um ágæti skandinavíska módelsins umfram hið íslenska. 

Um leið hafa fulltrúar flokksins reynt að gera sem minnst úr þeirri staðreynd að í fjórum Norðurlöndunum af fimm sitja nú borgaralegar ríkisstjórnir.  Það sem meira er, er að borgaralegu stjórnir hafa verið að líta til Íslands sem fyrirmyndar um hvernig megi bæta skandinavíska módelið.

Ekki eintóm paradís
Ljóst er að í samanburði við flest lönd í heimi eru samfélög Norðurlandanna á flestu leyti til fyrirmyndar um velmegun, jöfnuð, menningu og almenna hagsæld.  En fáar þjóðir greiða eins mikla skatta og Danir og Svíar, eða allt að 50-60%.  Skattar á atvinnurekstur eru líka miklu hærri í þessum löndum en hér.  Afleiðingin hefur meðal annars verið allt að því þrefalt hærra atvinnuleysi en þekkst hefur hér. 

Danska ríkisstjórnin hefur þegar gripið til skattalækkana til að breyta þessu og koma nýjum krafti í efnahagslífið.  Svíinn Fredrik Rehnfeldt lét það verða eitt sitt fyrsta verk eftir að hann tók við sænska forsætisráðherrastólnum að leggja til skattalækkanir.  Enda hafa þeir fyrirmyndina hér á Íslandi þar sem sterkt og öflugt efnahagslíf hefur rennt enn styrkari stoðum undir íslenska velferðarkerfið. 

Góður efnahagur – aukin velferð
Vegna góðrar stöðu efnahagsmála hafa framlög til velferðarmála aukist. Framlög ríkisins til heilbrigðismála jukust að raungildi um 27,5 milljarða króna frá árinu 1998 eða 49%.  Framlög ríkisins til almannatrygginga og velferðarmála jukust að raungildi um 23 milljarða króna frá árinu 1998 eða 45%. 

Árangurinn er m.a. sá að samkvæmt nýrri skýrslu tölfræðinefndar Norðurlanda, Nososco, Social tryghed i de nordiske lande 2004, reyndust lífeyristekjur íslenskra lífeyrisþega að meðaltali hæstar á Norðurlöndunum árið 2004.  Kjör þeirra eru einnig betri og hafa batnað hraðar en í flestum löndum heims.  Ný skýrsla Evrópusambandsins um fátækt, Poverty and Social Exclusion, segir að hlutfall aldraðra, 65 ára og eldri, við eða undir fátæktarmörkum sé næstlægst á Íslandi af öllum Evrópuríkjum eða 10%.  Aðeins Lúxemburg er með lægra hlutfall.  Draumalönd Samfylkingarinnar mælast með 11% í Svíþjóð, 18% í Finnlandi og Danmörku og 19% í Noregi.

Gerum enn betur
Framsóknarflokkurinn vill gera enn betur á næsta kjörtímabili.

Við leggjum eftirfarandi til: Hærra frítekjumark á atvinnutekjur lífeyrisþega, auka heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu sveitarfélaganna, breyta fjölbýlum í einbýli á dvalar- og hjúkrunarheimilum og bjóða upp á sveigjanlegri starfslok á vinnumarkaði.

Því á vinnu byggist vöxturinn og á vextinum byggist velferðin. 

Greinin birtist í vikunni í Fréttum


Madeleine enn leitað

Madeleine McCann er enn leitað í Algarve, Portúgal.  Madeleine var rænt úr íbúð foreldra sinna fyrir sex dögum þar sem hún svaf ásamt systkinum sínum.  Foreldrar hennar voru rétt hjá að borða á veitingastað, og höfðu komið reglulega við til að fylgjast með börnunum.

Í sumar ætla ég, líkt og fjöldi annarra að fara með dætur mína út.  Fréttirnar af Madeleine minna mann á hversu mikilvægt það er að hafa stöðugt varann á.  Það þarf stundum bara augnablik, líkt og bróðir minn komst t.d. að þegar hann og fjölskyldan hans dvöldu á Spáni fyrir nokkru.  Konan hans var að svæfa yngsta barnið, og hann var úti í sundlaugargarðinum ásamt eldri börnunum.  Þegar mágkonan mín var búin að svæfa barnið,  tók hún eftir að veskið og síminn voru horfnir úr eldhúsinu.  

Enginn hafði heyrt eða séð neitt í garðinum, - þjófurinn hafði bara stokkið inn og út aftur. Sem betur fer í þessu tilviki var bara verið að leita eftir fjármunum, en ekki sofandi smábarni líkt og í tilfelli Madeleine.


Björn og starfsmannamál

Enn á ný eru lög og reglur að flækjast fyrir dómsmálaráðherra í mannaráðningum.  Nú síðast er það auglýsingin eftir aðstoðarríkislögreglustjóra sem "týndist" í vefútgáfu Lögbirtingarblaðsins.  Í frétt á visir.is er haft eftir Sigurði Líndal, fyrrverandi lagaprófessor, að hún hafi ekki verið í samræmi við lög.

Í fréttinni segir:  "Auglýst var eftir „starfsmanni með embættispróf í lögfræði, reynslu af störfum innan réttar- og refsivörslukerfisins og þekkingu á starfsmannamálum lögreglunnar".

Í lögreglulögum kemur fram að allir þeir sem hafi „lokið námi frá Lögregluskóla ríkisins svo og stjórnunarnámi eða öðru sambærilegu námi" geti gegnt stöðu aðstoðarríkislögreglustjóra.

Sigurður Líndal, fyrrverandi lagaprófessor, segir auglýsinguna ekki hafa uppfyllt skilyrði samkvæmt lögum. „Í auglýsingunni hefði átt að taka fram öll skilyrðin sem fram koma í lögunum. Hafi það ekki verið gert, eins og útlit er fyrir, er auglýsingin ekki í samræmi við lög."

Björn telur væntanlega að þessi lög eigi líka heima á Þjóðminjasafninu, þrátt fyrir að Alþingi hafi nýlega samþykkt þessa breytingu. 

 

 


Fréttir úr baráttunni

Skrapp upp á land um helgina og kom meðal annars við á opnun kosningaskrifstofu flokksins í Hveragerði.  Boðið var upp á kaffi og kleinur og spjall um bæjarmálin.  Hljóðið er greinilega almennt gott í Hvergerðingum, tvöföldun Hellisheiðarinnar framundan og mikið byggt.  Að sjálfsögðu barst garðyrkjuskólinn í tal og áhyggjur manna af þróuninni.  

Kannski er orðið tímabært fyrir sveitarfélagið Hveragerði, jafnvel í samstarfi við Ölfus tæki yfir reksturinn á skólanum?  

Á sunnudaginn var heljarins fjölskylduskemmtun við kosningaskrifstofu Framsóknar á Selfossi, mikið fjölmenni og Hara-systur sungu.  Hinum megin við götuna voru svo sjálfstæðismenn á meðan frambjóðendur Samfylkingarinnar brjóstu sínu blíðasta á skiltinu fyrir ofan skrifstofuna. Skildu örugglega ekkert í öllu þessu fólki, - né hvert fylgið þeirra væri að fara Smile

Enda sýnir áskorunin um opna stjórnmálafundi á síðustu metrunum titringinn í þeim herbúðum.

 


Allt annað líf með VG

Vinstri Grænir auglýsa í gríð og erg um allt annað líf sem kjósendum býðst undir stjórn flokksins og formannsins Steingríms Jóhanns Sigfússonar. Hvernig verður þetta líf? Oft getur verið gott að rifja upp fortíðina til að sjá hvað mun liggja í framtíð okkar undir stjórn Steingríms og félaga.  

Sigla frekar en fljúga
Steingrímur hefur verið ötull baráttumaður gegn ýmsum ógnunum sem hann hefur séð steðja að íslensku samfélagi.  Má þar fyrst nefna stærð Leifsstöðvar.  Steingrímur hafði miklar áhyggjur af stærð flugstöðvarinnar þegar bygging hennar var áformuð en áætlað var að hún yrði 12 þús m2.  Lagði hann fram þingsályktunartillögu um að skera hana niður all verulega.  Ástæðan var m.a.: “… framboð á sætum með skipum milli Íslands og nágrannalandanna hefur farið vaxandi og í vaxandi mæli kjósa menn nú þann ferðamáta að ferðast með farþegaskipum og taka jafnvel bifreið sína með. Á þeim vettvangi verða flugsamgöngurnar naumast samkeppnishæfar á næstunni.”

Sem betur fer var tillaga hans ekki samþykkt og Leifsstöð er í dag orðin 55 þús m2 og árlega hafa verið slegin met í farþegaflutningum í gegnum hana.  Hins vegar hélt hann um stjórnartaumana þegar Herjólfur var smíðaður og ákvað þá að stytta skipið um 8m.  Heila átta metra sem hefði verið hægt að nota til að flytja fleiri bíla á milli lands og Eyja.

Sjónvarp í lit
Á flokksþingi VG var töluvert rætt um mikilvægi eftirlits á netinu og nefndu nokkrir framámenn í flokknum nauðsyn þess að setja á stofn netlöggu.  Hræðslan við nýja tækni er ekki ný af nálinni hjá VG, enda arfleið Steingríms frá Alþýðubandalaginu. Steingrímur var t.d. nýkominn á þing fyrir Alþýðubandalagið þegar allt ætlaði um koll að keyra í flokknum vegna stórhættulegra hugmynda um að hefja sjónvarpsútsendingar í lit.

Efnahagslegur stöðugleiki?
Í stefnuskrá VG er talað m.a. um að innleiða ábyrga efnahagsstjórn og skapa hagstæð skilyrði til nýsköpunar og þróunar í atvinnulífinu.  Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og formaður BSRB útskýrir hvað þetta þýðir fyrir bankana í landinu í pistli á vefsíðu sinni.  Þar segir hann að það sé til þess vinnandi að senda viðskiptabankana úr landi til að geta aukið jöfnuð í samfélaginu. Félagi Ögmundur virðist þannig enn sjá kosti kommúnismans a la Kúbu og Sovétríkjanna, þar sem enginn mátti eiga neitt meira en annar.

Boð og bönn, höft og hömlur, - allt annað líf með Vinstri Grænum.

Hvernig er best að bjóða í fisk?

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra ákvað á síðustu dögum ráðherratíðar sinnar að afnema 10% álag á gámafisk.  Í álaginu felst að botnfiskafli sem fluttur er út óunninn og ekki vigtaður hér á landi er reiknaður með 10% álagi til aflamarks.  Auk þess skipaði ráðherrann þriggja manna nefnd til að skila tillögum um hvernig fiskkaupendum hérlendis verður best tryggður möguleiki á að bjóða í þennan fisk áður en hann er fluttur út.  Ég vil gjarnan leggja fram tillögu við nefndina um hvernig ég tel að best sé að bjóða í fisk.

Af hverju ekki nota fiskmarkaðina?
Hvernig væri að nefndin skoðaði möguleikann á að nýta sér fiskmarkaðina sem starfa víða um land?  Fiskmarkaðirnir hafa margsannað gagnsemi sína.  Íslensku fiskmarkaðirnir eru samtengdir með einu fullkomnasta uppboðskerfi í heimi. Fiskkaupendur hérlendis eru daglega að kaupa fisk á mörkuðum og því alveg ljóst að þetta kerfi virkar.  

Oft tala gagnrýnendur kvótakerfisins um skort á nýliðun í greininni.  Þegar fiskmarkaðirnir voru settir á stofn jókst nýliðun í greininni, enda batnaði aðgangur að hráefni mjög. Markaðirnir hvöttu einnig til nýsköpunar og vöruþróunar, því með tilkomu þeirra varð fyrst mögulegt að sérhæfa sig í vinnslu ákveðinna tegunda.  Áhrifin á nýliðunina yrðu enn meiri ef öllum fiski sem ekki er landað beint í fiskvinnslu hérlendis yrði landað í gegnum fiskmarkaðina.

Virkar frjáls markaður ekki best?
Deilur um stjórnun fiskveiða myndu stórminnka þar sem aðgangur að hráefninu yrði betri og auðveldara yrði fyrir nýja aðila að stofna fiskvinnslur. Fjöldi starfa yrði til hér í Eyjum við að aðstoða erlenda kaupendur við að bjóða í þau ca. 3000 tonn sem árlega eru flutt beint út og bankarnir yrðu væntanlega að ráða fleira fólk til að sinna erlendum viðskiptum.  Svo maður nefni nú ekki störfin við fiskmarkaðinn sjálfan.

Eini gallinn á gjöf Njarðar yrði minni þörf á eftirliti...

Það hlýtur að hugnast Sjálfstæðismönnum, enda segja þeirra helstu hugmyndafræðingar að frjáls og gegnsær markaður virki ætíð best.

--------------------

Greinin birtist í Vaktinni í þessari vikur, www.eyjar.net 


Dæmigert

Tóku þið eftir skiptingunni á borgarafundinum í sjónvarpinu í gær?  Einn karl lagði í "mjúku" heilbrigðismálin, Kristinn H. Gunnarsson enda yfirlýstur feminísti Wink og ekki ein einasta kona var í hópnum til að fjalla um skattamálin.  

Í gær tók ég þátt í mjög skemmtilegri dagskrá hjá verkalýðsfélögunum í Eyjum í tilefni 1. maí um jafnrétti kynjanna.  Maríanna Traustadóttir var með örnámskeið þar sem hún fjallaði m.a. um hversu kynjaskiptur vinnumarkaðurinn á Íslandi er.  Þetta væri einkenni flestra vestrænna landa en væri sérstaklega einkennandi hér.  Konur eru í "mjúku" greinunum, s.s. kennslu og hjúkrun á meðan karlarnir eru í "hörðu" greinunum s.s. fjármálunum og iðnaði.  Konur hafa verið að sækja í yfir í greinar þar sem karlar eru í meirihluta, en karlar hafa sýnt kvennagreinunum lítinn áhuga.  

Og borgarafundurinn virtist sanna að þetta gildir líka á hinu háa Alþingi. 


Léleg þjónusta DHL

Ég var að ljúka samtali við fulltrúa DHL á Íslandi og sjaldan eða aldrei hef ég fengið jafn lélega þjónustu.  Vandamálið er að ég bý í Vestmannaeyjum og hef verið að dirfast að panta bækur frá Amazon.

Af einhverri ástæðu, sem ég er að bíða eftir að fá skýringu á frá Amazon, hafa þeir verið að senda pakkana mína til Íslands með DHL.  DHL sendir síðan pakkana sína með vörubílum Hraðflutninga út á land eða Eimskipum.  Síðan bíða pakkarnir hér í Eyjum eftir að viðskiptavinurinn nái í þá.

Í fyrstu sendingunni sem ég pantaði var aldrei hringt til að tilkynna um að pakkinn væri hjá Hraðflutningum. Hraðsendingin endaði því með að taka 3-4 vikur.  Í annarri sendingunni var pakkinn sendur á rangt heimilisfang þrátt fyrir að margítrekað hafði verið að hann ætti að koma til Eyja. Hraðsendingin var þá komin í 2-3 vikur, eftir að honum hafði loksins verið komið í póst. Nú í þriðja skipti er ég búin að biðja um að pakkinn verði einfaldlega sendur með póstinum þar sem hann er keyrður beint í hús til mín.

Svarið var:  Nei, það getum við ekki gert því við erum með samninga við Hraðflutninga.  Samningurinn skiptir mestu máli, ekki þjónustan.  Þegar ég bað um að fá að tala við framkvæmdastjórann, þar sem ég hafði þegar reynt ítrekað að koma athugasemdum mínum að í gegnum þjónustudeildina, lág við að starfsmaðurinn færi að hlægja.  "Nei, framkvæmdastjórinn mun ekki hringja í þig," sagði konan í símanum, enda hefur hann greinilega eitthvað merkilegra að gera en að tala við óánægða viðskiptavini.

Mér skilst að þjónustan hjá DHL sé mun betri í Reykjavík, jafnvel að þeir keyri sjálfir út pakkana enda eiga þeir víst að heita hraðsendingarfyrirtæki. 

En hér út á landi, eigum við sætta okkur við ótrúlega lélega afgreiðslu. Enda væntanlega bara 2.stigs fólks sem býr út á landi að mati DHL. 

PS. 10.50 Sölustjórinn hjá DHL var að hafa samband, þannig að þeir eiga sér kannski viðreisnar von.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband