Að sparsla í réttar holur

Í vinnu við fjárlögin fyrir jól varð stjórnarmeirihlutinn ítrekað uppvís að slælegum og hroðvirknislegum vinnubrögðum. Frumvarpið var endurskrifað trekk í trekk milli fyrstu og annarrar umræðu og stjórnarliðar kepptust við að sparsla og kítta í holur og göt allt fram í þriðju umræðu. Þannig voru nefndarmenn fjárlaganefndar á handahlaupum við að leiðrétta nefndarálitið rétt áður en þeir ruku upp í ræðustól til að mæla fyrir frumvarpinu.

Nú þegar er hroðvirknin farin að segja til sín.  Umhverfisráðuneytið var með tillögur um fjárframlög til tveggja verkefna sem það hafði skuldbundið sig til að fjármagna með samningum.  Þar er annars vegar um að ræða verkefnið Hekluskóga, sem er í höndum heimamanna og hins vegar Landgræðsluskóga, sem eru í höndum Skógræktarfélags Íslands. Samkvæmt samningum áttu Hekluskógar að fá 50 milljónir króna, en Skógræktarfélagið 35 milljónir.  Fyrir aðra umræðu lagði ríkisstjórnin til 5 milljóna niðurskurð á framlögum til Hekluskóga og 15 milljóna niðurskurð hjá Skógræktarfélagsinu á þeim forsendum að verkefni Skógræktarfélagsins væri nýtt og því auðveldara að fresta því. 

Við þriðju umræðu gerist það svo skyndilega að framlög til Hekluskóga eru skorin niður um 25 milljónir á meðan Skógræktin var ekki aðeins komin með 15 milljónirnar sínar aftur, heldur tæpar 13 til viðbótar. Hekluskógar höfðu því misst helming þeirrar upphæðar sem kveðið var á um í samningum, en Skógræktin komin með tæpar 13 milljónir umfram samninga.

Umhverfisráðuneytið, sem ber ábyrgð á fyrrgreindum samningum við Hekluskóga og Skógræktina sver af sér alla ábyrgð og bendir á fjárlaganefnd. Hvort formaður Skógræktarfélagsins, Magnús Gunnarsson, fyrrum bæjarfulltrúi í Hafnarfirði hefur náð að sannfæra Gunnar Svavarsson, formann fjárlaganefndar og núverandi bæjarfulltrúa í Hafnarfirði, svona rækilega um ágæti Skógræktarfélagsins umfram Hekluskóga, nú þegar flokkarnir þeirra eru samherjar í ríkisstjórn, skal ósagt látið. Hinsvegar er ljóst að Hekluskógar eru í uppnámi og með þeim fjölmörg störf á Suðurlandi.

Starfsmenn sem fara á atvinnuleysisbætur hljóta að geta huggað sig við fjárlaganefnd telur fjármununum betur varið í báknið í Borgartúni en við atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni.


Í sárri neyð...

Ég lærði í Svíþjóð og fékk þar að upplifa hvernig það er að vera námsmaður erlendis. Að þurfa algjörlega að reiða sig á sjálfan sig, hafa engan sem maður getur skotist til í mat þegar ísskápurinn er galtómur og alls engan til að lána manni fyrir strætó og klósettpappír.

Því var það með mikilli samúð og samhug sem ég fylgdist með fréttum af erfiðleikum námsmanna erlendis þegar bankarnir hrundu. Ég skildi vel óöryggið sem fylgir því að sjá kannski fram á að geta ekki greitt húsaleiguna, og hafa enga ættingja til að leita skjóls hjá og áhyggjurnar yfir því hvernig ætti að redda pening fyrir mat, almenningssamgöngum, rafmagni og leikskólagjöldum barnanna. Hversu ömurlegt það hlaut að vera að horfa á áætlanir sínar um fjármögnun námsins og dvalarkostnaðarins verða að engu.

Því var ég mjög ánægð að lesa í lok október að ríkisstjórnin með menntamálaráðherra í broddi fylkingar ætlaði að grípa til aðgerða í sex liðum til að leysa úr vanda námsmanna erlendis. Mesta athygli vakti að námsmenn gætu sótt um neyðarlán til LÍN sem myndi samsvara tveggja mánaða námsláni.

Leið svo og beið uns fjallið tók sótt og fæddist lítil mús.

Eftir að hafa setið sveitt við yfir 115 umsóknum, ákvað stjórnin að aðeins 7 þeirra uppfylltu skilyrði sjóðsins. Og hver eru þau? Umsækjendur þyrftu að vera í sárri neyð... það er að segja þessir sjö og hinir yrðu bara að þreyja þorrann.

Hvernig væri nú að skikka menntamálaráðherra, stjórnarformanninn Gunnar Birgisson og félaga hans í stjórn LÍN til að reyna að lifa af námslánunum erlendis í eins og svona tvo til þrjá mánuði?


Jólakveðja

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Þakka samstarfið og samvinnuna á árinu sem er að líða.

Ég vona að árið sem senn gengur í garð verði svo sannarlega ár samvinnunnar.


Samvinna í verki

Samvinnustefnan byggir á þremur lykilstoðum. Að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar. Að eina leiðin til tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar. Að unnið sé að því að hvetja til reksturs samvinnu félaga og annarra sameignar félaga sem hafi hagsmuni meðlima að leiðarljósi fremur en það eitt að hámarka hagnað.

Fram undan er mikil vinna við uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Hér tel ég að höfuðborgarsvæðið geti lært af reynslu landsbyggðarinnar. Landsbyggðin hefur barist árum saman við samdrátt og fólksfækkun og er að mínu mati aðeins tvennt sem hefur borið verulegan árangur. Annað er uppbygging menntakerfisins, þ.e. framhaldsskóla, fræðslu- og símenntunarmiðstöðva og háskóla á landsbyggðinni.

Hitt eru vaxtarsamningarnir, sem byggja á hugmyndum Michael Porters um samvinnu í samkeppni, eða uppbyggingu klasa. Fyrirtæki, stofnanir, hið opinbera og einstaklingar skilgreina saman hver sé styrkleiki atvinnulífsins á svæðinu og vinna síðan markvisst að því að styrkja þá þætti enn frekar í samstarfi. Í raun ætti að endurnefna samningana og kalla þá samvinnusamninga, því þeir byggja á samvinnuhugsuninni og endurspegla skýrt hversu miklu sterkari við erum þegar við vinnum saman, en ekki sem einstaklingar.

Samþjöppun valds hefur einkennt íslenskt samfélag. Eignarhald fyrirtækja hefur safnast á æ færri hendur og það sama hefur gerst hjá hinu opinbera. Í stjórnarskránni kemur skýrt fram að við stofnun íslenska lýðveldisins var ætlunin að tryggja þrískiptingu valds í framkvæmdavald, dómsvald og löggjafarvald. Forsetinn hefur framkvæmdavaldið en framselur það til ráðherranna, Alþingi á að setja lög og dómstólar að úrskurða samkvæmt þeim. Af þessum eru bara forsetinn og Alþingi kosin beinni kosningu af almenningi. Hefð hefur síðan skapast fyrir þingræði, og forsetinn hefur orðið nánast valdalaus innan íslenskrar stjórnskipan.

Til að ná fram sanngirni í samfélaginu verðum við að dreifa valdi, og það gerum við ekki nema með róttækum breytingum á íslenskri stjórnskipan. Á síðustu tveimur mánuðum hefur kristallast hversu veikt löggjafarvaldið er orðið gagnvart framkvæmdavaldinu, og samráð er nánast haft til málamynda við þingmenn og þingnefndir um skuldbindingar, samninga og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.

Þær breytingar sem þarf að gera til að treysta þrískiptingu valdsins eru meðal annars að banna að ráðherrar sætu jafnframt sem þingmenn. Ef þingmenn tækju að sér ráðherraembætti yrðu þeir að segja af sér þingmennsku, en sú leið er einmitt farin í Svíþjóð. Ganga mætti lengra og sameina hlutverk forseta og forsætisráðherra.

Forsætisráðherra yrði þá kosinn beinni kosningu og hann svo velur ráðherra sem yrðu að hljóta samþykki þingsins, líkt og gert er í Bandaríkjunum. Ráðherrar veldu sér síðan ráðuneytisstjóra og helstu trúnaðarmenn inn í viðkomandi ráðuneyti. Þannig væru völd embættismanna í ráðuneytum, sem enginn hefur kosið, einnig takmörkuð. Annar varnagli gegn samþjöppun valds væri að kjörnir fulltrúar gætu aðeins setið samfellt tvö kjörtímabil, enda eiga 8 ár að duga ágætlega til að koma hugmyndum sínum og hugsjónum á framfæri.

Endurskoða þarf löggjöfina um samvinnurekstur og aðlaga hana að nútímasamfélagi. Opna þarf fyrir rekstur samvinnulánastofnana, styrkja stöðu sparisjóðanna og nýta skattakerfið til að umbuna fyrirtækjum sem sýna samfélagslega ábyrgð og vitund í rekstri.

Græðgisvæðing íslensks samfélags reið því nærri að fullu. Ofuráhersla á hagnað, hagræðingu, vöxt og samþjöppun valds gerði það að verkum að auðgildið var sett ofar manngildinu. Til að rata út úr þessum ógöngum þurfum við að endurskoða stjórnskipan landsins, tryggja valddreifingu, jafnt stjórnvalds sem viðskiptalífs og byggja upp nýtt samfélag á grunni samvinnu, sanngirni og jafnréttis. Þar mun samvinnustefnan gegna lykilhlutverki.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag)


Kjördæmapot menntamálaráðherra?

Búið er að ráða skólameistara við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. Áætlaður kostnaður við skólann á skv. fjárlagafrumvarpinu er 52,3 milljónir kr.

Kostnaður við skólann er um 14% af fyrirhuguðum niðurskurði til framhaldsskóla skv. tillögum ríkisstjórnarinnar. Einhvern veginn finnst manni það skjóta skökku við að verið sé að setja á stofn  nýjan skóla á sama tíma og starfandi skólar standa frammi fyrir harkalegum niðurskurði og uppsögnum starfsmanna.

Allavega voru það rökin fyrir að slegið var á frest stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð.

Enda einstaklega óhentug landfræðileg staðsetning með tilliti til kjördæmaskipanar... 

 


mbl.is Guðbjörg skipuð skólameistari í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostnaður við prófkjör

Í frétt sem Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar í Fréttablaðið í dag er því haldið fram að ég hafi ekki svarað fyrirspurn um kostnað vegna prófkjörs. Það er ekki rétt. Hið rétta er að ég sendi Jóni eftirfarandi tölvupóst þann 5. desember, eftir að ég hafði frétt af fyrirspurninni eftir krókaleiðum.

From: Eygló Þóra Harðardóttir
Sent: 5. desember 2008 10:53
To: jse@frettabladid.is
Subject: Svar við fyrirspurn

Sæll Jón,

hér er svarið mitt:

Prófkjörsbarátta mín í Suðurkjördæmi kostaði á milli 700-800 þús. kr. Ég greiddi sjálf stærsta hluta kostnaðarins auk þess sem fjölskylda mín studdi mig fjárhagslega. Lítill hluti kom frá einstaklingum og fyrirtækjum mér ótengd, eða innan við 100 þús. kr.

bkv. Eygló
-------------------
Eygló Harðardóttir

þingmaður

 


Við þurfum samvinnu

Á götum úti heyrist kallað eftir nýrri hugsun og nýjum hugmyndum fyrir nýtt Ísland.

Vinstri grænir segja að best sé að gera ekki neitt, á meðan Samfylkingin telur að Evrópusambandið leysi öll heimsins vandamál. Sjálfstæðisflokkurinn neitar að gera upp við frjálshyggjuna og skilur ekki hvað hugtakið að axla ábyrgð þýðir og Frjálslyndi flokkurinn veit ekki hvort hann er að koma eða fara. Eini flokkurinn sem virðist ætla að svara kalli almennings eftir endurnýjun og uppgjör við fortíðina er Framsóknarflokkurinn.

Ný forysta verður valin í janúar og sú forysta verður að endurspegla gildi samvinnustefnunnar um sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstöðu. Móta þarf stefnu flokksins upp á nýtt og byggja hana á áherslum um sjálfsábyrgð hvers og eins, lýðræðislegum vinnubrögðum og jafnrétti þar sem allir hafa málfrelsi og jafnan atkvæðisrétt, sjálfstæði einstaklinganna, mikilvægi menntunar og fræðslu, samvinnu og umhyggju fyrir samfélaginu. En hvernig útfærir maður falleg orð yfir í stjórnmálastefnu?

Samvinnustefnan leggur mikla áherslu á ábyrgð einstaklinganna á sjálfum sér og sínu lífi. Er það meitlað í stein að skólar eða heilsugæsla eigi að vera rekin af hinu opinbera, þótt þeir séu fjármagnaðir með skattfé? Foreldrar og kennarar sem hafa áhuga á mótun skólastarfs í sínu samfélagi eiga að geta stofnað skóla. Þetta hefur verið gert í nágrannalöndum okkar, þar á meðal Bretlandi og Svíþjóð. Þar hafa verið stofnuð samvinnufélög um skólana þar sem meðlimir velja fulltrúa í stjórn og nemendur, kennarar og foreldrar taka þannig virkan þátt í stjórnun þeirra. Námið er svo skipulagt í samræmi við þarfir viðkomandi samfélags á grunni hugsjóna um sjálfshjálp, samfélagslega vitund og sanngirni.

Ýmsir möguleikar eru varðandi þróun heilbrigðisþjónustu þar sem hægt er að byggja á samvinnu og samfélagslegri vitund. Þannig er hægt að hætta að einblína á "hagræðingu" og "styttingu biðtíma" og fara í staðinn að hugsa um val sjúklinga og möguleika þeirra til að hafa áhrif á þá þjónustu sem þeir fá. Heilbrigðisstarfsmenn og almenningur gætu þannig tekið sig saman og stofnað t.d. heilsugæslu, fæðingarheimili, mæðravernd eða endurhæfingarstöðvar. Sjúkratryggingar Íslands settu svo kröfur fyrir greiðslu, sem gætu m.a. verið að eigendur yrðu meðlimir í samvinnufélagi, en ekki hluthafar, lýðræði ríkti meðal meðlima og þeir tækju virkan þátt í rekstrinum miðað við framlag þeirra. Tilgangur samvinnufélagsins væri þannig að hámarka þjónustu, en ekki bara hagnað.

Jafnrétti og jafnræði hefur alltaf verið ofarlega í huga samvinnumanna og hefur sú stefna endurspeglast mjög skýrt í stefnu Framsóknarflokksins. Eitt stærsta skrefið í átt að jafnrétti á vinnumarkaði var tekið með lögum um Fæðingarorlofssjóð auk þess sem mikil áhersla er lögð á jafnrétti í öllu flokksstarfi, sem hefur m.a. leitt til þess að nú eru konur í meirihluta í þingflokki Framsóknarflokksins. En betur má ef duga skal. Útrýma þarf kynbundnum launamun, jafna hlut karla og kvenna á vinnumarkaði og auka fræðslu um jafnréttismál. Samvinnuhugsjónin er öflugt tæki til þess.

Til að ná árangri þurfum við að gera samvinnu og samstöðu að lykilhugtökum í íslensku samfélagi.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag)


Aftur til samvinnu

Íslenskur almenningur situr nú í brunarústum óhefts kapítalisma. Hin ósýnilega hönd hins frjálsa markaðar var eftir allt saman ekkert ósýnileg, hún var hreinlega ekki til. Sýnin um að sífellt væri hægt að stækka kökuna með því að ýta undir græðgi einstaklinganna reyndist vera draumsýn, fals eitt þar sem engin raunveruleg verðmæti voru sköpuð. Óheftur kapítalismi er hruninn líkt og kommúnisminn í lok síðustu aldar.

Tími er til kominn að skoða aðra hugmyndafræði, sem byggir á raunverulegri verðmætasköpun þar sem fólk leggur saman þekkingu sína, reynslu og hagsmuni til að ná ákveðnum sameiginlegum markmiðum. Það er kominn tími til að endurreisa samvinnuhugsjónina á Íslandi.

Í allt of langan tíma hefur samvinna verið ljótt orð í íslensku. Hugmyndafræðin á bak við samvinnustefnuna hefur týnst og meira að segja menn innan samvinnuhreyfingarinnar sjálfrar hafa týnt sér í frjálshyggjunni og græðgisvæðingu hins íslenska samfélags, eins og sorgardæmið um Samvinnutryggingar sýnir svo átakanlega.

En fyrir hvað stendur samvinnustefnan? Að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar. Að eina leiðin til tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar. Að vinna að því að hvetja til reksturs samvinnufélaga og annarra sameignarfélaga sem hafa hagsmuni meðlima að leiðarljósi fremur en það eitt að hámarka hagnað. Þar sem manngildi er sett ofar auðgildi. En hún er dáin, er það ekki?

Samvinnumenn vilja vissulega ná árangri, en á grunni siðferðislegra gilda og sterkrar samfélagslegrar vitundar. Þetta endurspeglast í viðhorfum þeirra gagnvart samfélaginu og umhverfinu. Gildin eru: sjálfshjálp, sjálfsábyrgð, lýðræði, jafnrétti, sanngirni og samstaða. Þessi gildi endurspeglast síðan í áherslum þeirra á sjálfsábyrgð hvers og eins, lýðræðislegum vinnubrögðum, jafnrétti þar sem hver einstaklingur hefur eitt atkvæði, sjálfstæði, mikilvægi menntunar og upplýsinga til allra hagsmunaaðila, samvinnuanda og umhyggju fyrir samfélaginu sem þeir starfa í.

En er samvinnuhreyfingin ekki dauð? Er hún ekki jafn útbrunnin og kapítalismi og kommúnismi? Á vefsíðu ICA (ica.coop), regnhlífarsamtaka samvinnumanna um heim allan kemur fram að alls standa að þeim 221 félagssamtök frá 87 löndum með meira en 800 milljónir meðlima. Félög sem starfa í anda samvinnustefnunnar má finna í landbúnaði, lánastarfsemi, sjávarútvegi, heilsugæslu, fasteignum, iðnaði, tryggingum, ferðaþjónustu, verslun, þróunaraðstoð og stjórnmálum. Meira að segja í hinu svokallaða höfuðvígi kapítalismans, Bandaríkjunum, sjá samvinnufélög í raforkuframleiðslu 25 milljónum manna fyrir rafmagni, eiga helming raforkulínanna og reka heilsugæslu, sem grundvallast á samvinnuhugsjóninni, fyrir 1,4 milljónir fjölskyldna.

Framsóknarflokkurinn á rætur sínar í samvinnuhreyfingunni. Í stefnuskrá hans segir m.a.: "Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls." Í stefnuskránni segir líka "við setjum manngildi ofar auðgildi …" En hvar hafa áherslur flokksins verið? Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknar voru meðal annars tveir bankar einkavæddir, eitt símafyrirtæki selt og hlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja seldur. Markmiðið var að framselja eignir almennings til auðvaldsins í þeirri von að nokkrir brauðmolar dyttu af borðum hinna útvöldu til almúgans.

Man einhver eftir hugmyndum um samvinnurekstur í heilbrigðisþjónustu, skólakerfinu eða bönkunum? Leik-, grunn-, og framhaldsskólum sem reknir væru af kennurum og foreldrum? Heilsugæslu þar sem læknar og sjúklingar sameinuðust um reksturinn? Húsnæðisfélögum þar sem íbúar taka höndum saman til að tryggja sér húsnæði á sanngjörnu verði? Skattalegri umbun til fyrirtækja sem sinna samfélagslegum verkefnum? Eða samvinnusparisjóðum þar sem markmiðið væri að lána peninga á sanngjörnum kjörum til meðlima?

Framsóknarflokkurinn þarf, eins og aðrir, að gera upp við kapítalismann sem ráðið hefur ríkjum síðustu tvo áratugi. Það gerir hann best með því að leita aftur til upprunans og hefja samvinnustefnuna, sem hann var grundvallaður á, til fyrri metorða. Samvinna, samstarf og samvinnurekstur mega ekki lengur vera bannorð í íslensku samfélagi.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag)


Atvinnuleysi í boði Sjálfstæðismanna

Atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur náð nýjum hæðum og eru nú tæp 10% íbúa skráðir atvinnulausir, eða 1150 einstaklingar. Þessi tala á væntanlega eftir að hækka á næstu vikum og mánuðum, því vitað er um fjölda manns sem nú vinna uppsagnarfrest sinn. Stór hluti þeirra sem eru atvinnulausir hafa starfað í byggingariðnaði og þjónustu tengd Keflavíkurflugvelli.

Einkennilegt er hversu lítið hefur heyrst af aðgerðum ríkisstjórnarinnar og sveitarfélagsins vegna þessarar stöðu. Vegna samsetningar fyrirtækja í atvinnulífinu hefði mátt vera fyrirsjáanlegt að mikill samdráttur yrði á svæðinu. Hlutfall fyrirtækja í byggingariðnaði og fasteignaumsýslu er hátt, auk þess sem umsvif á Keflavíkurflugvelli hafa ætíð skipt Suðurnesjamenn mjög miklu. Stutt símtal til CreditInfo Ísland hefði einnig getað leitt í ljós að staða margra þessara fyrirtækja var viðkvæm og þau líklegri til að lenda í greiðsluörðugleikum og uppsögnum starfsmanna.

Algjört andvaraleysi

Eitt af því fáa sem hagfræðingar virðast vera sammála um þessa dagana er hvernig hið opinbera á að beita sér á þenslu- og krepputímum. Á þenslutímum á að draga saman framkvæmdir, en á krepputímum á að ráðast í framkvæmdir til að auka jafnvægið í efnahagslífinu. Dæmi um þetta eru boðaðar aðgerðir Obama, verðandi Bandaríkjaforseta um auknar opinberar framkvæmdir. Markmið hans er að fjölga störfum um 2,5 milljónir, m.a. með endurnýjun vega, brúa og skóla. Þessar aðgerðir eru boðaðar þrátt fyrir að atvinnuleysi í Bandaríkjunum sé enn töluvert minna en á Suðurnesjum, eða um 6,7%.

En hvað með íslensk stjórnvöld? Enn er beðið eftir svörum frá ríkisstjórninni um stækkun álversins í Helguvík, lítið fréttist af framkvæmdum við dreifikerfi raforku á svæðinu sem er undirstaða orkufreks iðnaðar, öllum framkvæmdum á vegum Samgönguráðuneytisins hefur verið slegið á frest og sveitarfélagið lauk byggingu og endurnýjun skóla og íþróttaaðstöðu á meðan á mestu þenslunni stóð. Afleiðingin er sú að sjóðir sveitarfélagsins, undir stjórn Sjálfstæðismanna, eru tómir og engir varasjóðir til að bregðast við því mikla atvinnuleysi sem nú er orðin staðreynd.

Heilbrigðisráðuneytið undir stjórn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar bætir svo um betur með uppsögnum og samdrætti hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og er passlega búið að gleyma loforði um nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ.

Aðgerðir strax!

Síðustu fjárlög íslenska ríkisins hunsuðu algjörlega kenningar hagfræðinga um að eiga eitthvað til mögru áranna, enda ráðamenn alltof önnum kafnir að við að klippa á borða, fagna útrásinni og fljúga um í einkaþotum. Afleiðingin er sú að nú er ekkert svigrúm til að bregðast við þeirri hrikalegu stöðu sem komin er upp í samfélaginu.

Ætli stjórnvöld að koma í veg fyrir að við missum allt þetta fólk af landi brott, margt fyrir fullt og allt, ber þeim að skjóta styrkum stoðum undir atvinnulífið á Suðurnesjum og það strax. Tryggja þarf að framkvæmdir við dreifikerfi raforku fari strax af stað, byggt verði nýtt hjúkrunarheimili og hætt við niðurskurð til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, framkvæmdir við Helguvík fari af stað, og þorskseiðaeldisstöð verði staðsett á Suðurnesjum, svo fátt eitt sé nefnt.

Þetta þarf ríkisstjórnin að gera núna, áður en það er of seint.

(Greinin birtist í Víkurfréttum)


Af Testamenti Iðnaðarráðherra...

Hluti eftirlýstrar atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar er komin fram í netheimum. Á bloggsíðu, undir fyrirsögninni Testamenti iðnaðarráðherra, upplýstir iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, hvernig hann sér fyrir sér að íslenska þjóðin muni ná sér upp úr kreppunni. Testamentið lyktar langar leiðir af testosteróni og stórkarlalegum hugsunarhætti.

Gott dæmi um það eru draumarnir um olíu á Drekasvæðinu. Í stað fjármálaævintýrisins á nú að leysa öll vandamál Íslands með því að leita að olíu, sem mun, skv. Iðnaðarráðherra, gera Ísland að ríkustu þjóð í heimi. Á vefsíðu hans segir: "Ég hef látið nægja að segja olíuvinnsla gæti í besta fallið verið farin af stað eftir tíu ár... Í öllu falli er ljóst að sterkar vísbendingar eru um að Íslendingar eigi á næstu áratugum eftir að draga verulegt magn af olíu og gasi upp úr hafsbotninum."

Í skýrslu Iðnaðarráðuneytisins frá því í mars 2007 kemur ítrekað fram að starfsfólk við leit, rannsóknir, framkvæmdir og framleiðslu verði erlent þar sem engin þekking sé til staðar innanlands á olíuvinnslu.

En örvæntið ekki, því ráðherra gerir ráð fyrir að einhver störf verði til tímabundið á Norðurlandi við að fara yfir umsóknir um rannsóknarleyfi. Þá á ráðherrann von á því að eftir 15-20 ár, þegar erlend olíufyrirtæki hafa hugsanlega hafið vinnslu á svæðinu, muni ein þyrla Landhelgisgæslunnar verða staðsett á svæðinu auk þess sem einhver störf kunni að skapast fyrir heilbrigðisstarfsmenn vegna þjónustu við starfsmenn borpallanna.

Iðnaðarráðherra sér semsagt fram á að það neyðarástand sem nú ríkir í samfélaginu, þar sem þúsundir eru ýmist búnir, eða við það að missa vinnuna, þar á meðal hundruð sérhæfðra starfsmanna í byggingariðnaði, verði leyst með nokkrum störfum við yfirferð umsókna og svo einni þyrlu og nokkrum heilbrigðisstarfsmönnum eftir 15-20 ár.

Er skrítið að maður spyrji hvað ætlar ráðuneytið að gera núna til að leysa úr þeim bráða vanda sem blasir við í íslensku atvinnulífi, og þá sérstaklega í byggingariðnaði? Hvað ætlar að ráðuneytið að gera til að tryggja þeim hundruðum, ef ekki þúsundum sem eru búnir, eða eru að missa vinnuna, atvinnu? Hvað ætlar ráðuneytið að gera núna til að hvetja þá fjölmörgu íslensku iðnaðarmenn sem þegar hafa flutt af landi brott vegna ástandsins í byggingariðnaðinum til að koma heim aftur?

Er ekki nær að vinna í að tryggja íslenskum orkufyrirtækjum, á borð við Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur, fjármögnun til raunverulegra framkvæmda, svo sem í Þjórsá og við Búðarhálsvirkjun? Væri ekki nær að vinna að því að treysta atvinnuuppbyggingu í Norðurþingi með nýtingu jarðvarma á svæðinu? Það væru þá minni líkur á að iðnaðarráðherra þyrfti að loka blogginu sínu þegar olíubólan springi, líkt og viðskiptaráðherra neyddist til að gera þegar bankabólan sprakk. Því þar væri um raunverulegar framkvæmdir að ræða, byggðar á íslensku hugviti og þekkingu, sem nýta myndi íslenskt vinnuafl og nýta það strax.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband