Stendur ekki á okkur!

Í frétt á visir.is veltir Birgir Ármannsson, helsti talsmaður Davíðs Oddssonar á Alþingi, fyrir sér hverju sætir að ríkisstjórnin hefur ekki lagt fram fleiri mál.

Í fréttinni kemur fram að: "Ríkisstjórnin hefur einungis lagt fram 16 mál á þingi af þeim 30 frumvörpum og þingsályktunartillögum sem ríkisstjórnin hefur afgreitt frá sér frá því hún tók við völdum í lok janúar..."

Aðeins níu af þessum 30 málum varða hagsmuni heimilanna og fyrirtækjanna. 

Birgir spyr síðan:  „...hvort þessi mál liggi óafgreidd í þingflokkum stjórnarflokkanna eða hvort samningar við Framsóknarflokkinn taki svona langan tíma..." 

Ég get fullyrt að þetta snýr ekki að samningum við okkur.  Öllum er frjálst að leggja fram frumvörp og þingsályktunartillögur og munum við framsóknarmenn að sjálfsögðu styðja öll góð mál og reyna að vinna að þeim innan þingsins. Þess vegna höfum við einmitt verið að kalla eftir frumvörpum og þingsályktunartillögum frá stjórnarflokkunum sem tengjast hagsmunum atvinnulífs og heimila.

Það sama hlýtur að gilda um Sjálfstæðisflokkinn, er það ekki? 

Að þeir séu tilbúnir að leggja fram sín eigin mál til að bæta hag heimilanna eða fyrirtækjanna í staðinn fyrir að tuða bara?


Byggjum betra Ísland

Á næstu vikum og mánuðum er áætlað að 10 fyrirtæki komist í greiðsluþrot dag hvern.  Nýjustu tölur frá Vinnumálastofnun segja að nú séu 16.000 manns á atvinnuleysisskrá.  Þegar ný ríkisstjórn tók við keflinu sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að verkefni nýrrar stjórnar væri fyrst og fremst að reisa við atvinnuvegina og mynda skjaldborg um heimilin í landinu. Í trausti þess ákváðum framsóknarmenn að verja minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna vantrausti. 
Það er sannfæring okkar að ekkert er mikilvægara en að verja heimilin og fyrirtækin í landinu.  Það verður ekki gert með óskhyggju eða fallegum orðum, heldur aðeins með raunverulegum aðgerðum og einbeittum vilja.

Lækkun vaxta
Háir stýrivextir eru að sliga íslensk heimili og fyrirtæki.  Á sama tíma og helstu viðskiptalönd okkar eru að bregðast við minnkandi eftirspurn með því að lækka stýrivexti, allt niður í núll prósent, býr íslenskur almenningur við okurvexti. 

Öll rök hníga að því að lækka vexti og þarf vaxtalækkunarferlið að hefjast strax í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Helstu rök fyrir lækkun vaxta eru mikill samdráttur í íslensku efnahagslífi, hratt lækkandi verðbólga, jákvæður vöruskiptajöfnuður, mikið atvinnuleysi og minnkandi eftirspurn eftir þjónustu og vörum.

Aðgerðir fyrir heimilin
Skuldir eru að sliga íbúa landsins. Ekki er hægt að bíða lengur með að skera þjóðina úr hengingarólinni, og losa um skuldaklafann. Við leggjum til að öll húsnæðislán verði færð frá bönkunum til Íbúðalánasjóðs, miðað við þá afskrift sem varð á lánasöfnun við flutninginn yfir til nýju bankanna. Íbúðalánasjóður veitir síðan flata 20% niðurfellingu skulda vegna allra húsnæðislána hjá sjóðnum. Þannig yrði tryggt jafnræði milli þeirra sem áttu húsnæðislán hjá bönkunum og Íbúðalánasjóði.

Þetta byggist á því að nýju bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna með verulegum afslætti. Þannig eru erlendu kröfuhafarnir búnir að afskrifa eignir í gömlu íslensku bönkunum, sumir jafnvel að öllu leiti.

Nauðsynlegt er að koma fasteignamarkaðnum aftur af stað. Við leggjum til að hámarkslán sjóðsins verði 30 milljónir en að lánshlutfall verði jafnframt lækkað í 70%. Þannig nýtist lán frá sjóðnum til kaupa á fleiri eignum en áhætta sjóðsins er minnkuð að sama skapi.  Stimpilgjöld á fasteignaviðskiptum yrðu afnumin.

Snúum hjólum atvinnulífsins
Há vaxtabyrði og gjaldeyrishöft eru að þurrka upp lausafé í landinu og því þarf að auka peningamagn í umferð. Í fyrsta lagi verði lífeyrissjóðum gert kleift að eiga gjaldeyrisviðskipti. Lífeyrissjóðirnir eiga miklar eignir erlendis.  Með því að leyfa þeim að stunda gjaldeyrisviðskipti geta þeir selt eignir erlendis og keypt krónur á hagstæðum kjörum af þeim erlendu aðilum sem eiga krónueignir og vilja selja þær. Samhliða þessu mun ríkið ábyrgjast lán til skamms tíma á milli banka, til að koma aftur á stað millibankamarkaði með krónur. Þetta gerir bönkunum kleift að lána fyrirtækjum á ný. Í þriðja lagi leggjum við til að stjórnvöld komi á stofn sjóði sem kaupir eignir, til dæmis lán, af bönkunum fyrir ríkisbréf.

Allt þetta mun auka peningamagn í umferð til muna og tryggja að hjól atvinnulífsins fari að snúast á nýjan leik.

Endurskipulagning fjármálakerfisins
Stór þáttur í að tryggja trúverðugleika og traust á nýju bönkunum og á íslensku efnahagslífi er að kröfuhafar eignist hlut í nýju bönkunum. Hætta er á að með setningu neyðarlaganna þann 6. október hafi ríkið skapað sér bótaskyldu gagnvart kröfuhöfum. Með því að kröfuhafar eignuðust hlut í nýju bönkunum yrði hlutur þeirra réttur og tryggt að hagsmunir þeirra og Íslands færu saman við uppbyggingu bankanna og efnahagslífsins. Kröfuhafar myndu þannig sjá sér hag í að færa eignir úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju á lægra verði til að styrkja nýju bankana.

Samhliða þessu verður skipt um yfirstjórn í Seðlabankanum.

Sannfæring okkar
Alltof oft að undanförnu hafa stjórnmál snúist um smámuni.  Stjórnmál eiga að snúast um að fylgja hugsjónum sínum og sannfæringu. Þingmenn eiga að sjálfsögðu að hafa frelsi til að fylgja sannfæringu sinni og Alþingi á að sinna hlutverki sínu sem æðsta valdastofnun landsins. Hlutverk ríkisstjórnarinnar á að vera að framfylgja vilja þingsins.

Hlutverk þeirra sem sitja á Alþingi er að koma hjólum atvinnulífsins í gang og standa vörð um heimilin í landinu.

Við teljum að efnahagstillögur okkar geri það kleift á þeim skamma tíma sem er til kosninga.

Aðeins með samvinnu og sanngirni getum við byggt upp betra Ísland.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins
Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins
Eygló Harðardóttir, ritari Framsóknarflokksins

(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu)


20% niðurfelling húsnæðislána

Ég vil benda ykkur á pistla sem Vilhjálmur Þorsteinsson skrifar um 20% niðurfellingu húsnæðislána og lána til fyrirtækja.  Ég gæti ekki orðað þetta betur og hvet ykkur til að lesa þessa pistla hans.

Hann segir í fyrri pistli sínum: "Á dauða mínum átti ég von, fremur en því að sjá ástæðu til að hrósa Framsóknarflokknum.  En nú hefur sem sagt flokkurinn gefið út alveg ágætlega skýrar og mjög málefnalegar tillögur um aðgerðir og úrræði í efnahagsmálum.  Ég er ekki sammála öllu sem þar stendur (reyndar flestu), en framtakið er mjög virðingarvert og til fyrirmyndar fyrir aðra flokka og góða stjórnmálaumræðu yfirleitt."

Þrátt fyrir almennar efasemdir sínar fjallar hann áfram um þær í öðrum pistli  sem hann nefnir "Gæti 20% skuldaniðurfærsla gengið upp?":

"Til að skýra betur hvað Framsókn er að meina, eins og ég skil það, þá er dæmið einhvern veginn svona:

  1. Jón og Gunna skulduðu Gamlabanka 100 kr.
  2. Gamlibanki afskrifar allar húsnæðisskuldir um t.d. 40% (mat á lánasöfnum er í gangi þessa dagana á vegum skilanefnda og FME, og á að ljúka fyrir 15. apríl).  Skuld Jóns og Gunnu er því metin á 60 kr. og hún er færð yfir í Nýjabanka á því mati.  Athugið að það eru kröfuhafar bankanna sem tapa 40 kr. í þessu dæmi, en þeir hafa þegar afskrifað lungann af sínum kröfum.
  3. Nýibanki selur Íbúðalánasjóði (ÍLS) skuldina á 60 kr. og losnar við hana úr sínum bókum.
  4. Í stað þess að rukka Jón og Gunnu um 100 kr. - og hér kemur framsóknartrixið - færir ÍLS höfuðstólinn niður í 80 kr. og rukkar Jón og Gunnu um þá upphæð (og vexti af henni).  ÍLS tapar aðeins peningum á þessu ef, og að því marki sem, allir Jónar og Gunnur eru að meðaltali borgunarfólk fyrir minna en 60 kr. af þessum 80 krónum.

Framsóknartrixið veldur ÍLS (=skattborgurum) aðeins búsifjum ef meðaltalsinnheimtan verður innan við 60 kr. af þeirri ástæðu að Jón og Gunna eru rukkuð um 80 kr. en ekki 100 kr.  Þau tilvik sem skipta máli í því sambandi eru þau þar sem Jón og Gunna hefðu getað borgað 100 kall en sleppa við það af því þau eru aðeins rukkuð um 80 kall.  En á það ber að líta á móti að hagkerfið hressist við niðurskriftina og fleiri færast upp fyrir 60 krónu greiðslugetumarkið."

Svo bætir hann við góðri hugmynd um sanngjarna lausn til handa kröfuhöfum, um að bjóða upp skuldirnar að fasteignalánunum, sem er mjög áhugaverð.

Það er kominn tími til að ekki bara fjármagnseigendur njóti vafans, heldur einnig lántakendur!


Aðgerðir fyrir Íslendinga

Í gær kynntum við framsóknarmenn efnahagstillögur okkar um aðgerðir til handa heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Við leggjum mikla áherslu á að stýrivextir lækki sem fyrst auk þess sem fella þarf niður skuldir heimila og fyrirtækja í landinu.  Það yrði gert með því að húsnæðislán yrðu færð yfir til Íbúðalánasjóðs frá bönkunum, með þeim afskriftum sem þegar hafa orðið á lánunum við að flytjast frá gömlu bönkunum yfir til þeirra nýju. Íbúðalánasjóður myndi síðan fella niður 20% af skuldunum þvert á allt lánasafnið sitt, þannig að allir sætu við sama borð hvort sem þeir tóku gengistryggð lán eða verðtryggð lán.

Við teljum eðlilegt að fyrirtæki fengju sömu meðferð, að 20% af lánunum þeirra yrðu felld niður.  Þetta er hægt vegna þess að erlendir kröfuhafar bankanna eru þegar búnir að afskrifa fjárfestingar sínar hérlendis.  Þeir reikna með því að allt fé þeirra sé tapað.  En til að koma til móts við þá teljum við eðlilegt að þeir fái hlut í nýju bönkunum, á móti ríkinu.

Mikilvægt er að koma fasteignamarkaðnum aftur í gang, og það viljum við gera með því að hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs í 30 milljónir kr., en lækka um leið hámarkshlutfall lánsins í 70%.  Stimpilgjöldum við kaup á fasteignum yrðu jafnframt afnumin.

Við teljum einnig mjög mikilvægt að auka peningamagn í umferð til að hjól atvinnulífsins fari að snúast á nýjan leik. Það viljum við gera með því að leyfa lífeyrissjóðum að eiga gjaldeyrisviðskipti.  Með því að leyfa þau geta lífeyrissjóðirnir selt minni hluta eigna sinna erlendis en ella fyrir jafnmargar krónur og komið með þessa fjármuni heim. Koma þarf á uppboðsmarkaði fyrir krónur, til að létta þrýsting á krónuna. Lífeyrissjóðirnir ásamt öðrum gætu boðið í krónur í stað þess að Seðlabankinn þyrfti að ganga á gjaldeyrisforðann. Ríkið myndi einnig samkvæmt okkar tillögum ábyrgjast millibankalán í skamman tíma, til að auðvelda fjármögnun fjármálastofnana.

Þessar aðgerðir munu að okkar mati lækka vexti, auka peningamagn í umferð, auka eftirspurn eftir vöru og þjónustu, draga úr atvinnuleysi, fækka gjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja og koma fasteignamarkaðnum aftur í gang.

Hér er hægt að sjá tillögurnar nákvæmlega útlistaðar.


Gjaldþrot fyrirtækja

Maður getur ekki annað en orðið sleginn yfir þessum tölum.  Samkvæmt frétt RÚV voru alls 748 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta 2008 eða 18% fleiri en árið 2007.

Í fréttinni segir: "Þau hafa ekki verið fleiri á einu ári frá því mælingar Hagstofunnar hófust árið 1990. Fyrra metið var frá 2003 þegar 669 fyrirtæki urðu gjaldþrota.

Í fyrra voru flest gjaldþrot voru í heild- og smásöluverslun eða 166. Þá voru 150 fyrirtæki í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð tekin til gjaldþrotaskipta 71 framleiðslufyrirtæki."

CreditInfo Ísland birti fyrir stuttu spá sína um að allt að 3500 fyrirtæki gætu lent í miklum örðugleikum eða gjaldþroti á næstu vikum og mánuði, eða um 10 fyrirtæki dag hver næstu tólf mánuði.

Það hlýtur að vera kominn tími til að grípa til aðgerða gagnvart fyrirtækjum.  Gjaldþrot fyrirtækja þýðir einfaldlega að fleiri fara á atvinnuleysisskrá, og nýjustu tölur segja að nú séu 16.000 manns á atvinnuleysisskrá.

Í fyrsta lagi þarf að lækka vexti til að fyrirtæki geti staðið undir greiðslubyrði og fjármagnað sig. Í öðru lagi þarf að tryggja að greiðsluaðlögun eigi ekki bara við um einstaklinga sem aldrei hafa komið nálægt fyrirtækjarekstri heldur líka þá sem hafa verið tilbúnir að leggja mikið á sig til að skapa störf. Í þriðja lagi þarf að setja á stofn sérstakan Endurreisnarsjóð sem getur farið að fjárfesta og lána bæði fyrirtækjum og sveitarfélögum. Í fjórða lagi þarf að veita markvissa ráðgjöf til þeirra sem eru að lenda í greiðsluörðugleikum um leiðir til úrlausnar.

 


Heildarsýn í heilbrigðismálum

Virðulegi forseti

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir þurfa allir að taka á sig auknar byrðar. Þeir tímar velmegunar sem við höfum búið við síðasta áratuginn eru liðnir og framundan er stórfelldur niðurskurður á ríkisútgjöldum. Heilbrigðiskerfið verður þar ekki undanskilið.

En það er ekki sama hvernig farið er að. Þær aðgerðir sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra hugðist grípa til, voru flausturslegar og virtust ekki byggðar á góðri stjórnsýslu. Blind sameining heilsugæslu fyrir heilu landsfjórðungana, án tillits til landfræðilegrar sérstöðu, sérþekkingar starfsfólks eða annarra þátta er ekki til þess fallin að hagræða í rekstri. Það eitt að sameina er ekki sjálfkrafa ávísun á hagræðingu.

Fjármálaráðuneytið og ríkisendurskoðun hafa gagnrýnt sameiningar ríkisstofnana og þar hefur komið fram að slíkar sameiningar séu í flestum tilfellum illa undirbúnar og skili litlum sem engum ávinningi. Í nýlegu leiðbeiningarriti Fjármálaráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

Hlutaðeigandi ráðuneyti þarf að gæta þess að sameining sé vel undirbúin og veita henni öflugan stuðning þar til sameiningarferlinu er lokið. Fyrsta skrefið er að fela hópi manna að gera frumathugun áður en ákvörðun um sameiningu er tekin. Vinnan felst einkum í því að fjalla um stöðuna, móta framtíðarsýn, setja skýr markmið með sameiningu, velja viðmiðanir, skoða valkosti, greina hindranir og fjalla um álitamál. Mælt er með því að setja niðurstöður í skýrslu sem lögð er til grundvallar vandaðri kynningu og ákvörðun.

 

Þar segir einnig, með leyfi forseta:

Sameiningu stofnana fylgja yfirleitt bæði kostir og gallar sem ætti að vega og meta með tilliti til annarra valkosta. Sameining er ekki sjálfstætt markmið, heldur leið til að ná öðrum markmiðum. Það er mikilvægt að ráðuneyti hrindi ákvörðun um sameiningu strax í framkvæmd til að eyða óvissu. Gera þarf vandaða samrunaáætlun á grundvelli frumathugunar um sérhvert skref í ferlinu. Áætlunin auðveldar hraða og örugga sameiningu. Jafnframt ætti að ráða forstöðumann sameinaðrar stofnunar mörgum mánuðum áður en sameining fer fram svo hann geti undirbúið hana og veitt forystu. Ráðuneytið þarf að taka virkan þátt í undirbúningsvinnunni enda verður mörgu ekki lokið án stuðnings og beinnar aðkomu þess. Þar á meðal er gerð samnings um árangursstjórnun sem skilgreinir áherslur, gagnkvæmar skyldur og samskiptaferli milli ráðuneytis og stofnunar.

 

Grundvallaratriðið hér er að menn þurfa að fara af stað með vel skilgreind markmið. Hvað er það sem menn ætla að ná fram með sameiningu? Ef markmiðið er það eitt að spara þarf líka að vera á hreinu að hægt sé að ná fram sparnaði með sameiningunni. Leggja þarf til grundvallar ítarlegar úttektir á starfseminni og traustan rökstuðning fyrir því að hagræðing náist með aðgerðunum.

En það er ekki nóg að setja bara fram markmið um að hagræða. Það eitt að fara af stað með það markmið að hagræða getur hæglega snúist upp í andhverfu sína ef ekki er nein heildarsýn þar að baki. Þannig sýna tölur að fjárframlög til stofnana sem farið hafa í gegnum svokölluð sameiningar- og hagræðingarferli hafa oftar en ekki aukist mun meira en til þeirra sem ekki hafa sameinast.

Þannig hefur Ríkisendurskoðun bent á að t.d. sameining Sankti Jósefsspítala og Sólvangs í Hafnarfirði hafi tæplega átt rétt á sér með tilliti til raunverulegrar hagræðingar. Þar var einkum um að kenna að engar formlegar framkvæmda- eða kostnaðaráætlanir voru gerðar eða fjárhagsleg og fagleg markmið sett um sameinaða stofnun.

Allt of oft er farið að stað með háleit markmið um hagræðingu og sparnað án þess að nein ákveðin stefna liggi þar til grundvallar.

Og þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Við höfum ekki enn mótað okkur neina heildarsýn um hvernig heilbrigðisþjónustu við viljum veita hér á landi í ljósi þeirra aðstæðna sem framundan eru. Hvernig heilbrigðisþjónustu viljum við veita og hvernig heilbrigðisþjónustu höfum við efni á að veita.

Síðast í morgun bárust fréttir af því að frá og með 1. júní næstkomandi verði heilsugæslan í Gríndavík, nærri 3.000 manna byggðarlagi, aðeins opin hálfan daginn og starfshlutfall starfsmanna skorið niður um 50%. Þá stefnir í að þrátt fyrir 20 milljóna króna fjárfestingu í húsnæði verði engin heilsugæsla í Sandgerði á næstunni. Hvar er rökstuðningurinn með þessum aðgerðum og hvar eru tillögur um hvernig þörf Suðurnesjamanna fyrir heilsugæslu verði mætt?

Þessi frétt dregur samt athyglina að meginvandanum. Framtíðarsýnina skortir. Það er nú einu sinni svo að greiður aðgangur að heilsugæslu í nærsamfélaginu getur verið mjög hagkvæmur þegar á heildina er litið. Að veita góða grunnþjónustu í heimabyggð dregur úr þörf íbúa til að leita annað, sem aftur dregur úr kostnaði heimilanna og álagi á sérfræðinga.

Þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir eru vissulega ógnun við íslenskt velferðarkerfi. En þær eru líka tækifæri. Tækifæri til að taka kerfið til heildarendurskoðunar. Og þar þarf allt að vera undir.

Stærsti kostnaðurinn við heilbrigðiskerfið er launakostnaður og þar vegur launakostnaður lækna þyngst. Læknar eru langsamlega dýrasta starfsfólk heilbrigðiskerfisins, enda hafa þeir lengstu menntunina og mestu sérhæfinguna að baki. Eitt af því sem skoða þarf við heildarendurskoðun á heilbrigðiskerfinu er einmitt hlutverk lækna.

Eins og staðan er í dag hefur fólk frjálst val um hvert það sækir sér þjónustu. Þannig geta sjúklingar leitað beint til sérfræðinga án milligöngu heilsugæslulækna. Þá þurfa allir þeir sem leita til heilsugæslunnar að hitta lækni, hversu stór eða smá sem þeirra vandamál eru.

Í fjölmörgum löndun hefur farið fram umræða og stefnumótun um hlutverk annarra heilbrigðisstarfsmanna en lækna í heilsugæslu og nærþjónustu. Þannig hafa hjúkrunarfræðingar í Bandaríkjunum um langt skeið haft leyfi til að greina sjúklinga og jafnvel ávísa lyfjum eftir ákveðnum reglum. Á þeim forsendum hafa hjúkrunarfræðingar með tilskylda menntun og reynslu getað sett upp litlar heilsugæslustöðvar sem létta þannig álaginu af sérfræðimenntuðum læknum að hluta.

Heimsóknir á slíkar stöðvar eru að jafnaði um helmingi ódýrari en heimsóknir til lækna og ljóst að umtalsverðir fjármunir geta sparast ef svipuð tilhögun næðist hér á landi.

Þá er mikilvægt að huga að því að taka á ný upp tilvísanakerfi þar sem sjúklingar þurfi að hitta heilsugæslulækni sem tæki í kjölfarið ákvörðun um hvort vísa eigi þeim áfram til sérfræðings.

Rekstrarform heilsugæslunnar og annara þátta heilbrigðiskerfisins má einnig skoða, en þar hefur til dæmis samvinnurekstur augljósa kosti sem ekki hafa verið kannaðir til hlítar.

Staðan er einfaldlega sú að við höfum ekki efni á að niðurgreiða skilyrðislaust alla þá heilbrigðisþjónustu sem fólk velur að sækja sér og því þurfa stjórnvöld að setja ramma um hvað telst grunnþjónusta og hvað ekki. Við þurfum líka að setja ramma um hvernig menntun við viljum fjárfesta í fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Við stærum okkur oft af því að vera með eitthvað það best menntaða heilbrigðisstarfsfólk sem völ er á, en við þurfum einnig að gæta þess að offjárfesta ekki í menntun. Þegar fjármagnið er takmarkað þurfum við að forgangsraða og fjárfesta á þeim sviðum sem skila okkur sem bestri þjónustu þegar á heildina er litið.

Slík stefnumótunarvinna, í samstarfi stjórnvalda, heilbrigðisstarfsmanna, menntastofnana og almennings er grunnforsenda þess að við getum byggt upp öfluga heilbrigðisþjónustu í því efnahagsumhverfi sem við stöndum frammi fyrir.

Það er hlutverk stjórnvalda að setja rammann og svo er það hlutverk stjórnenda og starfsfólks stofnananna að starfa innan þess ramma.

Þannig er yfirstjórn Landspítala að vinna metnaðarfullar áætlanir um hvernig mæta má þeim niðurskurði sem boðaður er. Ætlunin er m.a. að bera sig saman við erlend sjúkrahús og byrja á norskum sjúkrahúsum, setja mælanleg markmið í öllum helstu þáttum spítalans, skoða fyrst framleiðni, gæði, starfsmenn og fjárhaginn og setja sér ákveðin viðmið, setja sér nýtt skipurit þar sem fækka á stjórnendum og minnka yfirbyggingu og skilgreina stefnumótun til næstu 3-5 ára.

Stærsta vandamálið er skortur á samvinnu.  Engin samvinna er t.d. við hin kragasjúkrahúsin að neinu ráði, þrátt fyrir skýrslur og undirbúning þess efnis. Þá er nánast engin samvinna við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Stjórnvöld þurfa að styðja við vinnu sem þessa, þar sem fagfólki er falið að útfæra stefnu stjórnvalda um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Eins og segir í riti Fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

Þótt vönduð frumathugun og samrunaáætlun skipti máli eru mannlegu þættirnir þó enn mikilvægari. Alltaf má búast við að skoðanir verði skiptar um sameiningu og breytingar sem henni fylgja og fólk sjái bæði ógnir og tækifæri í breytingum. Til þess að auka samstöðu starfsfólks er því afar mikilvægt að vekja sem mestan áhuga á framtíðarsýninni og markmiðunum sem stefnt er að með sameiningu. Allir aðilar þurfa að sjá einhvern ávinning af sameiningunni. Stöðug upplýsingamiðlun, víðtæk þátttaka sem flestra starfsmanna í breytingaferlinu og vilji til að taka tillit til mismunandi sjónarmiða eru mikilvægir þættir.

 

Því er ljóst að skýr framtíðarsýn er nauðsynleg til að árangur náist í skipulagsbreytingum heilbrigðiskerfisins. Það er ljóst að draga þarf úr kostnaði, en hvernig það er gert skiptir máli. Það er hlutverk okkar alþingismanna að marka framtíðarsýnina. Hana þurfum við svo að kynna vel því fólki sem á að framfylgja henni, starfsfólki og stjórnendum heilbrigðisstofnananna. Það er fólkið sem hefur fagþekkinguna til að hrinda stefnu stjórnvalda í framkvæmd og við verðum að treysta því til þess.

(ræða flutt við umræður á Alþingi um skýrslu heilbrigðisráðherra) 


Seðlabankastjóri á Skrímslasetrið

Davið Oddsson, aðalseðlabankastjóri og Eiríkur Guðnason, aukaseðlabankastjóri, mættu á fund viðskiptanefndar í gær.  Þeir voru þar til að fylgja eftir umsögn sinni um Seðlabankafrumvarpið sem þeir sögðu vera handónýtt.

Helstu athugasemdir þeirra við frumvarpið voru að Davíð þyrfti alls ekki að hætta, þar sem hann uppfyllir hæfniskröfur til að gegna starfi seðlabankastjóra og það sé í raun alls ekki verið að leggja niður starfið hans. Það hlýtur að vera ástæðan fyrir því að menn vildu halda málinu aðeins lengur í nefndinni til að finna lausn á því hvernig sé hægt að breyta yfirstjórn Seðlabankans í raun og veru.

Því fannst mér frábærir bakþankar Fréttablaðsins í morgun Wink.  Þar er greinilega komin lausnin á þessu máli. Þar leggur pistlahöfundur til að Jóhanna sendi svohljóðandi bréf til seðlabankastjóranna:

"Við í Samfylkingunni höfum lengi viljað efla atvinnu á landsbyggðinni. Því hefur verið ákveðið að flytja stöður seðlabankastjóra til Bíldudals og munu þeir hafa aðsetur á Skrímslasetrinu. Einnig verður gerð sú breyting á hlutverki þeirra að þeir munu sjá um umsvif bankans í útplássi Bíldudals en skipuð verður varastjórn sem mun sjá um öll önnur verkefni bankans. Með þessu móti ætla stjórnvöld að auka ferðamannastraum til Vestfjarða, auka áhuga útlendinga í fjármálageiranum á að koma til Íslands og auk þess sparast miklir fjármunir þar sem ekki mun þurfa að sækja skrímsli í Arnarfjörð til að kynna á setrinu. Þar að auki er minn tími kominn og það þýðir fjör."

En því miður hafa fullyrðingar Samfylkingarinnar um að vilja efla atvinnu á landsbyggðinni alltof oft reynst vera orðin tóm...


Dagur fyrir lýðræði

Skipan stjórnlagaþings var eitt af lykilskilyrðum okkar fyrir að verja ríkisstjórnina vantrausti og því lögðum við mikla áherslu á að fá að flytja frumvarpið okkar sem fyrst.

Sá dagur er runninn upp!

Frumvarpið er niðurstaða mikillar vinnu innan Framsóknarflokksins, fyrst á vegum íbúalýðræðishóps flokksins og svo málefnahópa flokksþingsins.Síðustu vikur og mánuðir hafa svo sannarlega sýnt okkur að lýðræðið virðist ekki virka eins og skyldi hér á landi. Í 65 ár hefur staðið til að endurskoða stjórnarskránna, og þá sérstaklega þá þætti er varða stjórnskipan landsins. Aldrei hefur náðst sátt á Alþingi Íslendinga til að fara í þessa viðamiklu vinnu og því teljum við nauðsynlegt að taka þetta úr höndum stjórnmálamanna og færa þetta í hendur þjóðarinnar.

Sorglegasta dæmið um þetta var niðurstaða síðustu stjórnarskrárnefndar, þar sem það eina sem menn gátu verið sammála um var hvernig ætti að standa að breytingum að stjórnarskránni.

Allt annað var deilt um.

Við sjáum fyrir okkur að kosið verði á landsvísu um fulltrúa á stjórnlagaþingið, hver og einn hafi allt að sjö atkvæði og geti þannig valið allt að sjö fulltrúa á þingið. Ráðherrar, þingmenn og varaþingmenn ásamt forseta Íslands verða ekki kjörgeng. Kosningar til stjórnlagaþings gætu hugsanlega farið fram samhliða Alþingiskosningunum, eða í haust eins og við kynntum upphaflega.

Það bara ansi gott að vera Framsóknarmaður í dag :) 


Græn ríkisstjórn í bígerð?

Bráðfyndið. Alfreð Þorsteinsson fer með barnabarn sitt til dóttur sinnar í Seðlabankanum, rekst þar á Davíð Oddsson og sest niður með honum. Í framhaldinu spinnur Stöð 2 heila frétt úr þessari heimsókn undir fyrirsögninni "Alfreð byggir brýr."

Ég veit ekki hvort ég eigi að þora að viðurkenna að ég átti góðan fund með Ögmundi Jónassyni í heilbrigðisráðuneytinu á föstudaginn.

Kannski sjáum við næst fyrirsögnina: "Græn ríkisstjórn í bígerð?"


Fjármálaleg axarsköft...

Lítið hefur farið fyrir fréttum af dómi sem féll 11. desember sl. gegn félagsmálaráðherra vegna brots á stjórnsýslulögum.

Þar var þáverandi félagsmálaráðherra, og núverandi forsætisráðherra, dæmdur fyrir að hafa vikið á ólögmætan máta formanni stjórnarnefndar um málefni fatlaðra og brotið 21. gr. stjórnsýslulaga um um rökstuðning fyrir stjórnvaldsákvörðun. Afleiðingin af því að hafa ekki einfaldlega farið að stjórnsýslulögum um hvernig eigi að segja fólki upp er að ríkið neyðist til að borga fyrrum formanni, Sigurjóni Erni Þórssyni, 500.000 kr. plús vexti ásamt 640.000 kr. í málskostnað.

Samtals 1.140.000 kr. plús vexti. 

Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið mikill talsmaður bætts siðferðis í stjórnmálum og meðal annars lagt fram þingsályktunartillgu um siðareglur í opinberri stjórnsýslu.  Í ræðu sem hún flutti við það tækifæri sagði hún m.a.:

"Ég held, herra forseti, að atburðir síðustu vikna og missira segi okkur ljóslega að það er brotalöm í stjórnsýslu okkar, þar er ekki allt sem vera skyldi. Ábyrgð virðist vera óljós í stjórnsýslunni og hana þarf að skilgreina miklu betur... stjórnendur sem treyst hefur verið og trúað fyrir stjórnunarstöðum innan stofnana á vegum ríkisins hafa brugðist trausti og trúnaði, og það er auðvitað ekkert annað en að bregðast almenningi vegna þess að það er almenningur sem hefur þurft að borga fyrir þau mistök og fjármálalegu axarsköft..."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband