28.5.2009 | 17:12
ESB umsókn á málefnalegum grunni
Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn lögðu fram þingsályktunartillögu í dag um málefnalegan undirbúning að hugsanlegri aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þingsályktunin er svohljóðandi:
"Alþingi ályktar að fela utanríkismálanefnd Alþingis að undirbúa mögulega umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Nefndinni er falið eftirfarandi hlutverk:
1. Að setja saman greinargerð um mikilvægustu hagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
2. Að vinna vegvísi að mögulegri aðildarumsókn sem taki til umfjöllunar öll álitamál varðandi upphaf aðildarviðræðna og hvernig að þeim skuli staðið, auk þess að fjalla um nauðsynlegar ráðstafanir í tengslum við staðfestingu mögulegs aðildarsamnings.
Nefndin ljúki framangreindum verkefnum sem allra fyrst og eigi síðar en 31. ágúst 2009."
Við teljum að með þessu væri verið að taka skref til að skapa víðtækari sátt um mögulega umsókn að ESB í samfélaginu en sú málsmeðferð sem ríkisstjórnin hefur lagt til. Þar virðist Alþingi (lesist: stjórnarandstaðan) náðarsamlegast eiga að leyfa Samfylkingunni að fara til Brussel og afhenda fullveldi þjóðarinnar án þess að hafa nokkra fullvissu fyrir hvaða skilyrði utanríkisráðherra eigi að setja fyrir samningi og hvernig málsmeðferðin eigi að vera.
Ég verð einfaldlega að viðurkenna að ég hreinlega treysti ekki Samfylkingunni til að gæta nægilega vel að hagsmunum íslensku þjóðarinnar og tel því eðlilegt að þingið setji samningsumboði ríkisstjórnarinnar mjög strangar kröfur.
Því styð ég þingsályktunartillögu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
27.5.2009 | 22:08
Framtíðarsýn Samfylkingarinnar?
23.5.2009 | 11:28
Sýnum samstöðu á Austurvelli!
Ég vil benda ykkur á samstöðufund sem Hagsmunasamtök heimilanna standa fyrir á Austurvelli kl. 15.00 í dag.
Hagsmunasamtök heimilanna vilja:
* Að gengis- og verðtryggð lán verði leiðrétt með almennum aðgerðum
* Að áhætta milli lánveitenda og lántakenda verði jöfnuð
* Afnema verðtryggingu
* Að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði
* Samfélagslega ábyrgð lánveitenda
Ríkisstjórnin virðist ekki ætla sér að gera neitt af þessu sem samtökin eru að krefjast og vill að sjálfsögðu sem minnst af efnahagstillögum okkar Framsóknarmanna vita. Þar á meðal 20% almenn leiðrétting á skuldum heimila og fyrirtækja.
Ég hvet því sem flesta til að mæta á fundinn og sýna samstöðu með heimilunum í landinu.
20.5.2009 | 07:58
Gengistryggð lán ólögleg?
Á undanförnu hefur hópur undirbúið lögsókn vegna gengistryggðra lána. Lögfræðingurinn Björn Þorri Viktorsson hefur farið fyrir þeim hópi og vill láta á reyna hvort það hafi verið löglegt að bjóða gengistryggð lán líkt og íslenskar lánastofnanir gerðu í gríð og erg fyrir hrun.
Áætlað er að gengistryggð fasteignalán séu um 185 milljarðar og að í heildina séu gengistryggðar skuldir almennings um 200-300 milljarðar. Einnig tóku mörg fyrirtæki gengistryggð lán sem byggðist á tekjum þeirra í erlendri mynt. Höfuðstóll þessara lána hefur tvöfaldast við hrun krónunnar á síðustu 12-18 mánuðum og valdið fólki miklum erfiðleikum.
Hins vegar finnst mér alltof lítið rætt um stöðu sveitarfélaganna. Mörg sveitarfélög tóku gengistryggð lán og staða þessara sveitarfélaga er orðin geysilega erfið. Dæmi um þetta er Akureyri sem skilar jákvæðri rekstrarniðurstöðu fyrir fjármagnsliði en neikvæðri um 5 milljarða eftir fjármagnsliði.
Þetta þýðir einfaldlega skert þjónusta fyrir íbúa viðkomandi sveitarfélaga.
Því spyr ég hvort viðkomandi sveitarstjórnarmenn eigi ekki að íhuga réttarstöðu þeirra vegna gengistryggðu lánanna?
Annars er ég ansi hrædd um að við munum fara sjá æ fleiri fyrirsagnir á borð við þessa.
16.5.2009 | 18:25
Jóhanna og verðtryggingin
Tveir erlendir sérfræðingar hafa nýlega komið til landsins og bent okkur á hvers konar paradís við höfum búið til fyrir lánardrottna með verðtryggingunni. Michael Hudson, prófessor í hagfræði og hagsögu, orðaði þetta þannig í grein sem birtist í Fréttablaðinu: Með verðtryggingu skulda hefur Ísland komið upp einstöku kerfi fyrir banka og aðra lánardrottna sem stóreykur tekjur þeirra af lánastarfsemi, á kostnað launa og tekna af raunverulegri atvinnustarfsemi.
Ann Pettifor, rithöfundur og stjórnandi Advocacy International, skrifar á vefnum Debtonation um heimsókn sína til Íslands: I learned a lot. The one fact that angered me most is that Icelanders that took out loans with domestic banks have had those loans indexed to inflation - by law it appears. Clearly, Iceland was another bank-owned-state, governed in the interests of creditors. If their new government is to represent the interests of the Icelandic people, and not just those of creditors, then legally-binding indexing must be repealed.
Verðtryggingu hefur aldrei verið beitt í útlánum lánastofnana til heimila í ríkjum OECD að Íslandi undanskildu. Notkun verðtryggingar hefur einskorðast við ríkisskuldabréf og þá aðeins í átta af OECD ríkjunum. Hlutfall verðtryggingar á ríkisskuldabréfum er einnig langhæst hér á landi.
Ég get ekki annað en tekið undir orð Michael Hudson og Ann Pettifor um að kerfið hér á landi virðist miðast fyrst og fremst við hagsmuni lánardrottna. Þetta er sérstaklega sláandi núna þegar höfuðstóll fasteignalána hefur hækkað um rúm 20% á sama tíma og markaðsvirði eignanna hefur lækkað um svipaða prósentu.
Því mætti ætla að velferðarstjórnin undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur myndi hafa afnám verðtryggingarinnar í skrefum sem eitt af stóru málunum í 100 daga áætluninni. Enda hefur forsætisráðherra okkar ítrekað flutt þingsályktanir þess efnis.
En hvað segir í 100 daga áætluninni? Þar er ekki eitt orð um verðtrygginguna. Hins vegar ætlar ríkisstjórnin að finna tíma til að leggja fram frumvarp um persónukjör, endurskoðun á reglum um fjármál stjórnmálaflokka, nýja náttúruverndaráætlun og mótun menningarstefnu til framtíðar í samráði við listamenn.
Í stjórnarsáttmálanum sjálfum er ein stutt setning um verðtrygginguna: Jafnframt verður óskað eftir mati Seðlabankans á því hvernig best verði dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi.
Ætli forsætisráðherra sé búinn að finna hörpu til að spila á, meðan eignir Íslendinga fuðra upp?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
15.5.2009 | 12:01
Lausnir strax!
Í október bað Geir H. Haarde guð að blessa okkur og svo hrundi hver bankinn á fætur öðrum. En einhvern veginn hélt lífið áfram. Við bjuggum áfram í húsunum okkar, versluðum ívíð meira í Bónus og Krónunni og tókum ákvörðun um að leigja frekar sumarhús innanlands en að fara til Spánar og Portúgals.
Það tók soldið í að höfuðstóll verðtryggðu lánanna hafði hækkað um rúm 20% og höfuðstóll gengistryggðu lánanna hafði nánast tvöfaldast. En bankinn bauð frystingu og við vonuðum öll að þetta myndi nú ganga til baka. Krónan hlyti að styrkjast og var ekki einhver að tala um upptöku Evrunnar?
Staðreyndin er að þetta er raunveruleikinn sem við erum að fást við. Krónan er ekki að styrkjast, atvinnuleysi verður um 10% allavega næstu 2-3 árin og vextirnir eru himinháir.
Á sama tíma lýsir Franek Rozwadowski, nýi landsstjórinn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að hann telji ekki aðstæður fyrir frekari vaxtalækkun. Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, lýsir því yfir að Bretar séu að misbeita AGS til að innheimta fjármuni hjá okkur Íslendingum og nú síðast Seðlabankinn að væntanlega séu um 30-40 ár þar til við uppfyllum skilyrði Maastricht um upptöku Evru.
Svo mér til mikillar undrunar og furðu virðist það eina sem ríkisstjórnin hafi til að leysa úr vanda Íslendinga er að senda sendinefnd til Brussel í boði Samfylkingarinnar.
Miklu meira þarf til.
Því vil ég sjá að samþykkt verði strax á sumarþinginu að leiðrétta 20% af skuldum heimilanna og fyrirtækjanna. Lækka þarf vextina tafarlaust og tryggja þarf að AGS, Bretar og aðrir erlendir kröfuhafar séu ekki að taka okkur í nefið.
Síðan getum við rætt aðildarumsókn að ESB.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
5.5.2009 | 11:19
Ótrúlega aumt...
Já, það er ótrúlega aumt ef þetta á að vera niðurstaða margra daga viðræðna stjórnarflokkanna um ESB. ESB var stóra deilumálið, - ágreiningsmálið sem Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon lögðu mikla áherslu á að ná sameiginlegri niðurstöðu í. Hver er svo hinn stóri Salómonsdómurinn?
Hann er, skv. heimildum Morgunblaðsins, að vísa málinu frá sér og treysta á aðra stjórnmálaflokka eða eins og segir í fréttinni: "...því sem næst verður komist er niðurstaðan sú að það verði meirihluta Alþingis að ákveða hvort hafnar verða aðildarviðræður við Evrópusambandið, óháð ólíkri stefnu stjórnarflokkanna til aðildar." Segja má að fjallið tók joðsótt og fæddist mús.
Er ekki tímabært að spyrja sig hvernig í ósköpunum getum við treyst þessari ríkisstjórn til að semja við ESB þegar þeir geta ekki einu sinni náð niðurstöðu sín á milli? Samfylkingin hefur líka sýnt að henni er ekki treystandi í samningaviðræðum er varða ESB, - það sýndi hún skýrt og greinilega þegar hún samdi um IceSave skuldbindingarnar. Þar var hægt að leggja hundruðir milljarða á íslenskan almenning, allt í þeirri veiku von að ESB myndi nú hugsanlega vera almennilegt við okkur þegar að aðildarumsókn kæmi.
Bara eitt orð nær yfir þetta, - aumingjaskapur.
![]() |
ESB-málið til Alþingis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.4.2009 | 20:08
Takk, takk :)
Alveg frábær kjördagur og kosninganótt er að baki. Ég er alveg geysilega ánægð og þakklát fyrir þann stuðning sem við Framsóknarmenn fengum hér í Suðurkjördæmi og á landsvísu, en ekki síst í Vestmannaeyjum.
Innilega til hamingju með kjörið Sigmundur Davíð, Vigdís, Siv, Gunnar Bragi, Guðmundur, Birkir Jón, Höskuldur og Sigurður Ingi.
Kærar þakkir til allra sem lögðu hönd á plóg og svo er að hvíla sig vel því nú hefst baráttan fyrir alvöru.
Baráttan um að byggja betra Ísland!
25.4.2009 | 08:57
X við B
Sólin skein þegar ég vaknaði og ég er bjartsýn að okkur muni ganga vel.
Leiðtogaþátturinn í gær sýndi enn á ný að lausnir okkar Framsóknarmanna eru þær einu raunhæfu til að takast á við stöðuna eins og hún er.
Setjum X við frumkvæði
Setjum X við hugmyndir
Setjum X við lausnir
Setjum X við B, - fyrir okkur öll!
20.4.2009 | 19:22
Norðurál til bjargar Steingrími :)
Jöklabréfin er risavandamál sem íslensk stjórnvöld hafa ekki vitað hvernig ætti að takast á við.
Í byrjun apríl talaði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um mikilvægi þess að tappa þrýstingnum sem jöklabréfin orsaka í kerfinu og koma því í jafnvægi á nýjan leik. Að hans mati voru þrjár leiðir færar. Ein væri eignasala lífeyrissjóðanna, önnur að undirbúa að hleypa því fé út sem sem þurfi að fara og þriðja leiðin að innlendir aðilar bjóðist til að taka þetta fé að láni til einhvers tíma þannig að það bindist hér inni í hagkerfinu og taki þannig stöðu með krónunni og með hagkerfinu í staðinn fyrir að fara.
Fátt eitt fréttist af aðgerðum og ákvarðanatöku.
En sem betur fer var einhver með skilning á vandræðum fjármálaráðherrans og íslensku þjóðarinnar. Norðurál hefur verið að vinna í fjármögnun álversins í Helguvík og segir Ágúst Hafberg, framkvæmdastjóri hjá Norðuráli, sagði í samtali við fréttastofu RÚV í dag að innlendur kostnaður vegna fyrstu tveggja áfanganna væri á bilinu 30-40 milljarðar króna. Kostnaður vegna framkvæmda á vegum Orkuveitunnar og Hitaveitu Suðurnesja eru um 60-70 milljarðar króna og er áhugi á að fjármagna þær á sama máta.
Í fréttinni segir:
"Norðurál væri tilbúið að freista þess að semja við eigendur jöklabréfanna um að þeir lánuðu krónur en Norðurál gæfi út skuldabréf í dollurum á móti. Afborganir af því myndu hefjast þegar tekjur af sölu álsins í dölum kæmu í kassann. Þetta gæti verið kostur fyrir þá sem komast ekki úr landi með fé sitt vegna gjaldeyrishafta. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa stjórnendur Norðuráls rætt þetta við Seðlabankann en samningaviðræður við eigendur jöklabréfanna eru ekki hafnar.
Þetta myndi auðvelda fjármögnun framkvæmdanna og létta þrýstingi af krónunni. Rætt hefur verið um að Hitaveita Suðurnesja virki jarðhita á Reykjanesi og Orkuveita Reykjavíkur útvegi orku frá Hellisheiðar- og Hverahlíðarvirkjun vegna álversins. Gert er ráð fyrir að þær framkvæmdir kosti á bilinu 60-70 milljarða sem yrðu fjármagnaðar á sama hátt. Því gæti heildarupphæðin verið um 100 milljarðar króna. Allt fer þetta þó eftir því hvort eigendur bréfanna vilja fjárfesta hér innanlands."
Það skyldi nú aldrei fara svo að virkjanir og álver í Helguvík komi nú fjármálaráðherranum til bjargar.
Og hann sem var á rauða takkanum í þinginu!