18.6.2009 | 16:00
Veit ekki hvort ríkið geti ráðstafað eignum Landsbankans
Í rökstuðningi sínum fyrir Icesave nauðasamningunum hefur ríkisstjórnin iðulega fullyrt að eignir Landsbankans muni duga fyrir stærstum hluta skuldanna. Ráðamenn hafa einnig haldið því fram að strax verði byrjað að borga inn á höfuðstólinn og það verði gert hratt og örugglega, eftir því sem eignir Landsbankans seljist, til að lækka höfuðstólinn og draga úr vaxtabyrði.
Fjármálaráðherra fullyrti á blaðamannafundi þann 6. júní að fyrsta greiðslan inn á skuldbindinguna yrði 230 milljónir punda sem breska ríkisstjórnin lagði hald á og hafa setið vaxtalaust inn á reikningi í Seðlabanka Englands.
Hins vegar er það þannig að lögum samkvæmt gilda ákveðnar reglur um greiðslur úr þrotabúum bæði almennra fyrirtækja og fjármálafyrirtækja. Alþingi samþykkti nýlega að skilanefndum er aðeins heimilt að greiða kröfuhöfum eftir fyrsta kröfuhafafund eftir að kröfufresti lýkur. Undanþága á þessu ákvæði var samþykkt til bráðabirgða hvað varðar laun í uppsagnarfresti og vegna innlána sem njóta forgangsréttar, ef víst er að nægilegt fé sé til að greiða að fullu eða í jöfnu hlutfalli kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð.
Því spurði ég forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum í dag:
1. Fara þessar 230 milljónir punda beint í að greiða niður höfuðstól Icesave skuldbindinga okkar, eða þarf að bíða þess að hefðbundinni kröfumeðferð þrotabús Landsbankans ljúki þar til hægt verður að ráðstafa þeim til lækkunar höfuðstólsins?
2. Getur forsætisráðherra fullyrt að allar eignir Landsbankans muni renna til þess að greiða Icesave skuldbindingarnar, eða þarf Innistæðutryggingasjóður að bíða, eins og aðrir kröfuhafar, eftir að eignum þrotabúsins verði ráðstafað á lögbundinn hátt?
3. Samkvæmt fréttum stefnir í málssókn á hendur Íslenska ríkinu til að fá neyðarlögunum hnekkt. Verði þeim hnekkt, hver verður þá staða Innistæðutryggingasjóðs gagnvart öðrum kröfuhöfum í þrotabú Landsbankans?
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sem gaf fulltrúum fjármálaráðherra leyfi til að skrifa undir Icesave samninginn fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, gat ekki svarað spurningunni. Hún vissi ekki hvort þessi fjárhæð gangi beint inn í þrotabú bankans og renni til slitastjórnarinnar og verði meðhöndluð eins og aðrar eignir til ráðstöfunar til kröfuhafanna.
Spurningin er ekki hvort eignir Landsbankans séu 550 eða 690 milljarða króna virð (75-95% af 730 milljörðum)! Spurningin er hvort andvirði eignanna sem á að selja verði borgað til innistæðutryggingarsjóðsins og inn á lánið! Staðreyndin er að langflestir kröfuhafar gamla Landsbankans munu gera kröfu til þessara eigna eftir ákveðinni aðferðafræði, ekki bara innstæðueigendur Icesave. Svo má ekki gleyma að margir Icesave innistæðueigendur fá ekki nema brotabrot greitt úr innistæðutryggingasjóðnum. Afganginn þurfa þeir að sækja í þrotabú Landsbankans.
Ég vil ljúka þessum pistli með tilvitnun í Ágúst Þórhallsson, hdl /MBA: Ef skilanefnd gamla Landsbankans ákveður að selja einhverja eign og nýta andvirðið til niðurgreiðslu á láninu en síðar kemur í ljós að tilheyrði öðrum kröfuhöfum með réttu er ríkið búið að baka sér skaðabótaskyldu og þá er ljóst að stór hluti af þessum rúmlega 900 milljörðum mun falla á okkur og okkar barnabörn með einum eða öðrum hætti og þar með er búið að festa okkur í skuldklafa sem ekki verður séð út úr. Ég hefði talið fyrirfram að einhver hluti þessara eigna hljóti að tilheyra öllum kröfuhöfum gamla Landsbankans eftir gjaldþrotalögum en ekki endilega einum þeirra Tryggingasjóði innistæðueigenda sem fær framseldar innistæðukröfur Breta og Hollendinga samkvæmt samkomulaginu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.6.2009 | 22:54
Okkar eigin ríkisstjórn...
Meira og meira er að koma fram um þann hrylling sem Icesave samningarnir eru fyrir íslenska þjóð. Skv. nýjustu fréttum mun bara vera hægt að leysa úr ágreiningi fyrir enskum dómstólum og Hollendingar munu geta gengið að hvaða eignum íslenska ríkisins ef það verður greiðslufall.
Sama er væntanlega í samningnum við enska innistæðutryggingasjóðinn.
Ég hef sagt ýmislegt um þennan samning, og með hverjum degi virðist það koma betur og betur í ljós hvers konar svik við þjóðina þessi samningur er. En hér ætla ég að fá að vitna í Jónas Kristjánsson og nýjan pistil á vefsíðu hans undir fyrirsögninni Icesave samningar eru landráð:
"Þá vitum við það. Ríkisstjórnin hefur afsalað fullveldinu. Þar á meðal stjórnarflokkur, sem lýsir yfir áhyggjum af afsali fullveldis vegna Evrópusambandsins. Þessir samningar um afsal fullveldis eru landráð og verða felldir á Alþingi."
Það er ekki skrítið að sjálfstæði þjóðarinnar skuli vera mönnum ofarlega í huga í dag, - því við stöndum í dag í harðri baráttu fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og það gegn m.a. okkar eigin ríkisstjórn.
Okkar eigin ríkisstjórn!
![]() |
Enskir dómstólar skera úr Icesave-deilum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.6.2009 | 11:38
Réttur til upplýsinga
Erlendir kröfuhafar virðast hafa fengið upplýsingar um efni Deloitte/Oliver Wyman skýrslunnar þrátt fyrir að hafa neitað að skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu við Deloitte.
Ég vona svo sannarlega að þessi frétt sé röng eða á misskilningi byggð. Þingmenn viðskipta- og efnahags- og skattanefndar hafa nefnilega ítrekað beðið um að fá að sjá helstu niðurstöður úr Deloitte/Oliver Wyman skýrslunni en fengið þvert nei.
Aðeins með því að skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu yrði hægt að upplýsa þingmenn um innihald skýrslunnar.
Um þetta var rætt fram og til baka á fundi með FME og Deloitte. Fyrst var vísað til upplýsingalaga. Þegar það virkaði ekki var dreginn fram þessi ægilegi samningur á milli FME og Deloitte um að ekki væri leyfilegt að birta neinum þessar upplýsingar án þess viðkomandi skrifaði undir non-disclosure/harmless yfirlýsingu við Deloitte.
Sú yfirlýsing þýðir að viðkomandi megi ekki nota upplýsingarnar, ekki fara í mál við einn eða neinn á grundvelli þeirra og ég veit ekki hvað.
Þingmenn reyndu þá að fá upplýsingar um aðferðafræðina sem notuð var við gerð skýrslunnar, en hún var líka flokkuð sem trúnaðarmál.
Ég var orðin ansi þreytt á þessum moðreyk og þrasi embættismannanna, þar sem hver benti á annan og ákvað því að senda inn skriflega fyrirspurn um nýju bankana. Vonandi geta þingmenn fengið einhverjar upplýsingar um eignasafn bankanna, svona áður en við þurfum að taka ákvörðun um að leggja tæpa 400 milljarða í þá sem nýtt eigið fé.
Miðað við þann leyndarhjúp sem einkennir störf ríkisstjórnarinnar ætla ég þó ekki að halda niðri í mér andanum.
![]() |
Virði eignasafna nýju bankanna er mjög á reiki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.6.2009 | 16:19
Stjórn á brauðfótum
Ríkisstjórnin virðist algjörlega ófær um að standa saman í mikilvægum málum. Þetta kom berlega í ljós strax fyrir kosningar þegar stjórnin klofnaði í atkvæðagreiðslu um uppbyggingu í Helguvík, og iðnaðarráðherra varð að treysta á atkvæði stjórnarandstöðunnar.
Kannski komust menn á bragðið þá og töldu þetta ágætislausn til að leysa öll vandamál stjórnarinnar í framtíðinni.
Allavega varð það niðurstaðan í ESB málinu að stjórnin myndi einfaldlega vísa málinu frá sér. Samfylkingin í þeirri von að aðildarumsókn yrði samþykkt og VG í þeirri von að hún yrði felld.
Nú er svo komið að einu langstærsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar frá upphafi, IceSave nauðasamningarnir. Stjórnin er klofin, einn ráðherra hefur lýst yfir andstöðu við málið sem og þingflokksformaður VG.
Enn á ný vísar forsætisráðherra málinu til stjórnarandstöðunnar. Sjálfstæðismenn eiga núna að koma til bjargar í ljósi forsögunnar.
Hvernig væri að viðurkenna að þessi stjórn stendur á algjörum brauðfótum og veldur ekki verkefnum sínum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.6.2009 | 11:24
Lettar og ESB
Lettland hefur nú tekið við þeim vafasama heiðri að vera talið mest plagaða land heims vegna heimskreppunnar af Íslandi sagði nýlega í litlu fréttaskoti í FBL. Þeir hafa því leitað til AGS og ESB um aðstoð en þurfa í staðinn að ná niður 130 milljarða króna halla.
Samdráttur á fyrst fjórðungi ársins var 28,7% en "bara" 3,9% hér.
Þeir standa líka frammi fyrir miklum vanda með mynt sína. Myntin hefur verið tengd við evruna, en Lettar hafa ekki viljað aftengja hana og láta hana "fljóta" (líkt og hér m/ aðstoð gjaldeyrishafta) þar sem stór hluti lána almennings er í evrum. Aftenging myndi þýða að höfuðstóll og afborganir lána myndu hækka stórlega og fólk gæti ekki staðið í skilum með lánin.
Kunnuglegt?
Vandinn virðist ekki vera neitt minni þrátt fyrir margra ára aðild að ESB, - ef e-hv þá má segja að frjálst flæði fjármagns sem var dælt inn í landið af vestur-evrópskum bönkum hafa verið einn af orsakavöldunum fyrir efnahagshruninu.
Vandinn virðist heldur ekki vera neitt minni þrátt fyrir tengingu við evruna, - sem er það eina sem við Íslendinga virðumst geta vonast eftir á meðan við leitum leiða á næstu 30-40 árum til að uppfylla Maastricht skilyrðin.
Lettar geta hins vegar huggað sig við að lettneskir stjórnmálamenn hafa meiri skilning á áhrifum gengishruns á gengistryggð lán, og eru að reyna að tryggja að fólk geti staðið í skilum við skuldbindingar sínar.
Ólíkt íslenskum stjórnvöldum sem hvetja bara til meiri bjartsýni og jákvæðni!
6.6.2009 | 00:07
Hvernig svíkur maður þjóð?
Í kjölfar umræðunnar á þinginu í dag um væntanlegan samning um IceSave og orða Ólínu Þorvarðardóttur á bloggsíðu hennar og á Alþingi tel ég ágætt að rifja upp fyrir henni og öðrum lesendum sögu hruns bankanna og söguna í kringum Icesave.
Öll saga Icesave málsins sýnir að Samfylkingin hefur ekki borið hag íslenska ríksins eða íslensk almennings fyrir brjósti í þeim erindrekstri. Verði skrifað undir saminga á þeim nótum sem kynnt hefur verið í dag, eiga þingmenn engan kost annan en hafna þeim í atkvæðagreiðslu á þingi eða ráða ella íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð með því að setja þjóðina í algjört skuldafangelsi.
Mun því mikil ábyrgð hvíla á herðum þingmanna Vinstri Grænna því ásetningur þingmanna Samfylkingarinnar virðist einbeittur.
Til upprifjunar eru hér helstu vendipunktar Icesave málsins:
- Ingibjörg og Geir markaðssetja Icesave
Þrátt fyrir að þeim mætti vera ljóst hversu erfið staða bankanna var orðin halda Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde í markaðsherferð um Evrópu og N-Ameríku þar sem þau hamra á því að sparifjáreigendur geti treyst bönkunum. Aukast erlend innlán bankanna gríðarlega.
- Björgvin G. Sigurðsson tekur einhliða ákvörðun um að skuldbinda tryggingasjóð innistæðueigenda langt umfram eignir (og umfram ESB reglur)
Þegar bresk yfirvöld lýsa áhyggjum sínum af stöðu bankanna lýsir Björgvin G. Sigurðsson því yfir í bréfi til breskra stjórnvalda að hans túlkun á lögum um innstæðutryggingar sé mun víðtækari en lesa má íslenskum texta laganna. Björgvin fullyrðir í bréfinu að tryggingasjóðurinn muni undir öllum kringumstæðum taka lán til að tryggja innistæður upp að 20.887 evrur. Í lögunum segir aðeins að hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum.
- Ingibjörg og Geir ríkisvæða tap bankanna
Þegar bankarnir stefna í þrot ákveður ríkisstjórn Ingibjargar og Geirs að taka yfir bankana og þar með skuldbindingar þeirra.
- Samfylkingin hafnar því að láta reyna á ábyrgðir fyrir dómstólum
Samkvæmt heimildum úr herbúðum Samfylkingarinnar var alltaf mjög takmarkaður vilji hjá þingflokki hennar að láta reyna á lagalegan ágreining um Icesave ábyrgðirnar. Hræðslan við að skemma fyrir hugsanlegri ESB umsókn virðist hafa ráðið meira og minna öllum aðgerðum Samfylkingarinnar.
- VG kúvendir. Var þeim hótað af Samfylkingunni?
Hér talar formaður VG, áður en umskiptingurinn settist í stól fjármálaráðherra í hans stað: ...Veigamikil rök hnigu því strax frá upphafi að því að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á skuldum vegna Icesave-reikninganna umfram þá upphæð sem var til staðar í Tryggingarsjóði innstæðueigenda...Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki Tryggingarsjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn.
- Forseti lagadeildar HÍ ósammála Samfylkingunni
Björg Thorarensen, forseti lagadeildar HÍ, sagði á ráðstefnu í Háskóla Íslands að tilskipunin um innistæðurnar gæti ekki gert aðildarríki, ríkisstjórnir ábyrgar fyrir innistæðum. Orðrétt sagði hún: ESB-ríkin eru ófáanleg til að fallast á að úr þessum ágreiningi yrði skorið eftir löglegum leiðum. Augljóslega hefði málið valdið óróa innan Evrópusambandsríkjanna og vakið athygli allra á því að engar Evrópureglur eru til sem mæla fyrir ríkisábyrgð á bankainnstæðum. Síðar heldur hún því fram að það hafi engin lagaleg skylda borið til að taka þessa ábyrgð: Hvorki eftir Evróputilskipun né öðrum þjóðréttarlegum reglum... Samningar af þessum toga eru á lögfræðimáli kallaðir nauðungarsamningar. Ekki aðeins í okkar lögum heldur einnig í þjóðaréttinum. Og slíkir samningar eru raunar ógildanlegir.
Allt gengur út á að bjarga aðildarumsókn að Evrópusambandinu og bönkunum. Frekar á að eyða allt að 400 milljörðum króna í vaxtagreiðslur til Breta og það sem útaf mun standa eftir eignasölu Landsbankans en að leiðrétta skuldir heimilanna. Nei, Samfylkingin, fyrst með stuðningi Sjálfstæðisflokks og nú VG ætlar að skuldbinda íslensku þjóðina langt umfram alþjóðlegar skuldbindingar, til þess eins að styggja ekki Evrópusambandið.
Er skrítið að manni blöskri? Er skrítið að maður fari að velta fyrir sér lagaákvæðum í almennum hegningarlögum og hvort þau geti hugsanlega átt við í þessu tilviki?
Skaðinn sem fyrrum viðskiptaráðherra, forsætisráðherra og aðrir fulltrúar Samfylkingarinnar hafa valdið íslensku þjóðinni með aðgerðum sínum er óbætanlegur og þyngri en tárum tekur.
PS. Í tíunda kafla almennra hegningarlaga er fjallað um landráð. Samkvæmt honum telst hver sá landráðamaður sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.Þá telst sá landráðamaður sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess.
Dæmi nú hver fyrir sig.
5.6.2009 | 10:59
Tannlækningar eða matur?
Í óundirbúnum fyrirspurnum í dag spurði Steinunn Valdís Óskarsdóttir heilbrigðisráðherra hvernig ætti að bregðast við vanda barna með miklar tannskemmdir. Heilbrigðisráðherra útlistaði að tannheilsa flestra íslenskra barna væri með ágætum en ákveðinn hópur barna væri með mjög miklar tannskemmdir. Hann hefði því komið á stað starfshópi til að leita leiða til að bregðast við þessum vanda.
Þingmaðurinn talaði svo um að auðvelt yrði að setja upp tannlæknastóla í skólum landsins og væntanlega redda tannlæknum til að sinna eftirlitinu.
Ætla má að stór hluti þessara barna eigi foreldra með lágar tekjur. Þessir foreldrar standa oft frammi fyrir valinu á milli þess að kaupa mat handa börnunum sínum eða fara til tannlæknis. Væntanlega eru börn atvinnulausra í þeim hópi, en tæplega 7000 atvinnulausir einstaklingar þiggja greiðslur vegna barna frá Vinnumálastofnun. Upphæðin á dag er 276 kr. sem dugar varla fyrir kexpakka, hvað þá næringarríkari mat eða tannlæknaþjónustu.
Yfir þessu hefur síðan fjármálaráðherra fussað undanfarna daga, - að stjórnarandstaðan skyldi dirfast að spyrja hvernig sé hægt að framfæra barn á 276 kr. á dag (og þá bara virka daga, því atvinnuleysisbætur eru ekki reiknaðar fyrir helgar) og boða þannig frekari útgjöld.
Ég verð því að spyrja hvort þingmaðurinn og heilbrigðisráðherrann hafa rætt við hæstvirtan fjármálaráðherra um viðhorf hans til valsins á milli tannlækninga og hugsanlega matar fyrir börnin.
Eða eiga börn tekjulágra foreldra kannski að fá hvorugt?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2009 | 17:39
Enginn vandi?
Í umræðu um stöðu heimilanna í gær kom mjög á óvart að heyra frá fulltrúum stjórnarflokkanna að vandi heimilanna er mun minni en áður var talið. Forsætisráðherra hafði þar farið heilan hring á tæpum sólarhring því forsíðufrétt Moggans um morguninn var að staðan væri mun verri en áður var talið og allt væri ægilega erfitt.
Það er erfitt er að átta sig á þessum sveiflum og þeim æpandi verkkvíða sem einkennir ríkisstjórnina. En nýjar tölur frá Íbúðalánasjóði ætti samt að segja sína sögu um hvort sé sannara:
"Íbúðalánasjóði hafa borist 1502 umsóknir vegna greiðsluerfiðleika það sem af er árinu, þ.e. fyrstu fimm mánuði ársins. Þetta eru nær 100 fleiri umsóknir en allt árið í fyrra, þegar umsóknir vegna greiðsluvanda voru alls 1405. Aldrei áður höfðu borist svo margar umsóknir á einu ári og nú er það met þegar slegið þótt árið sé ekki hálfnað. Umsóknirnar á þessu ári skiptast nokkuð jafnt milli mánaða nema í apríl, en þá voru þær fæstar. 305 umsóknir bárust í janúar, 321 í febrúar, 316 í mars, 233 í apríl og 327 í maí. "
Samt er hámark á lánveitingum sjóðsins, miðað við brunabótamat og allt verðtryggt með föstum vöxtum en ekki gengistryggð.
Hvernig í ósköpunum er staðan þá hjá bönkunum?
30.5.2009 | 20:01
Þak á verðtrygginguna
Þingflokkur Framsóknarmanna lagði fram á föstudaginn frumvarp um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu.
Frumvarpið er þríþætt:
1) Sett verði 4% þak á hámarkshækkun verðtryggingar á ársgrundvelli.
2) Ríkissjóður og stofnanir ríkins gefi ekki út verðtryggð ríkisskuldabréf.
3) Þingið setji á stofn nefnd sem leggi til frekari tillögur og lagabreytingar um afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga til framtíðar. Nefndin skili tillögum til viðskiptanefndar sem mun vonandi leggja fram viðkomandi frumvörp.
Lagafrumvarpið er svohljóðandi:
Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
1. gr.
13. gr. laganna verður svohljóðandi: Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu, þó skal hámarkshækkun verðtryggingar á ársgrundvelli vera 4%. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
2. gr.
Við 1. mgr. 14. gr., bætist nýr málsliður svohljóðandi: Ríkissjóður og stofnanir á vegum ríkisins, svo sem Íbúðalánasjóður og Seðlabanki Íslands, skulu ekki gefa út verðtryggð ríkisskuldabréf nema í undantekningartilfellum og skal þá rökstyðja sérstaklega forsendur fyrir útgáfu þeirra opinberlega og tilgreina forsendur.
3. gr.
Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo: Alþingi skal skipa nefnd sem leggi mat á og mótar tillögur um aðgerðaáætlun og nauðsynlegar lagabreytingar um frekara afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga. Nefndin meti áhrifin til lengri og skemmri tíma á fjármálamarkaðinn og fjárskuldbindingar heimila og atvinnulífs og setji fram áætlun um afnám verðtryggingar. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa frá hverjum eftirtalinna: Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Landssambandi lífeyrissjóða, Neytendasamtökunum, Hagsmunasamtökum heimilanna, Fjármálaeftirlitinu, Seðlabankanum og Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja. Nefndin skal skila skýrslu ásamt tillögum um aðgerðaáætlun og nauðsynlegar lagabreytingar til viðskiptanefndar.
4. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.5.2009 | 00:39
Hagsmunir hverra?
Stjórnarflokkarnir samþykktu í kvöld rúmar 12 milljarða króna auknar álögur á íslenskan almenning að lágmarki. Við borgum 4,4 milljarða í gegnum vörugjöld og um 8 milljarða í gegnum hækkun höfuðstóls verðtryggðra lána íslenskra heimila
Ef ég hefði fengið að ráða þá hefði ég nú frekar viljað fá greiðsluseðil fyrir vörugjöldunum og borgað þannig aukaskattinn beint í ríkissjóð og sparað mér hækkunina á fasteignaláninu.
Mín fjögurra manna fjölskylda hefði þurft að borga 36.000 kr. í ár og tæplega tvöfalt þetta á næsta ári. Í staðinn hefðum við sem erum með verðtryggð lán sparað okkur hækkun höfuðstóls lánanna.
En kannski vill ríkisstjórn VG og S fá 8 milljarðana líka þar sem ríkið er helsti eigandinn á verðtryggðum lánum á Íslandi.
Og á morgunn ræðum við áfram ESB...
![]() |
Áfengi og eldsneyti hækka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |