Þjóðlendumál

Fyrir mánuði síðan vörpuðu þeir Jóhannes Kristjánsson, Þórir N. Kjartansson og Örn Bergsson fram fyrirspurn til frambjóðenda sem sækjast eftir efstu sætum á listum til Alþingiskosninga í vor. Þar fóru þeir fram á að frambjóðendur gerðu grein fyrir skoðun sinni á þjóðlendulögunum og þeim málatilbúnaði sem af þeim hefur leitt. Því er mér ljúft og skylt að tíunda þær skoðanir minar hér.

Hvað varðar lögin sjálf tel ég að sem slík séu þau af hinu góða. Mikilvægt er að færður sé til bókar eignarréttur á landi einkum í ljósi þess að nýtingarréttur auðlinda ýmis konar verður sífellt verðmætari. Þannig er mikilvægt, jafnt fyrir ríkið sem landeigendur aðra að ljóst sé hver eigi land og þær auðlindir sem í því kunna að leynast. Þessu held ég að flestir geti verið sammála, enda voru lögin og síðari tíma breytingar á þeim samþykkt mótatkvæðalaust.

Framkvæmd laganna er hins vegar allt annar handleggur. Þar hefur ríkið farið offari og ég held að fáir átti sig á því hvað fjármálaráðherra gengur til. Ég held að fáir hafi gert sér grein fyrir að gengið yrði fram af jafn mikilli hörku og óbilgirni og raun hefur orðið á og má segja að hér sé um að ræða einhverja mestu eignaupptöku í sögu þjóðarinnar. Því er kaldhæðnislegt að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hingað til hefur litið á sig sem málsvara einstaklingsfrelsis og séreignarréttar skuli ganga fram eins og kommúnistastjórnir í alræðisríkjum á síðustu öld.

Ég tel ljóst að framsóknarþingmenn hafi ekki gert sér grein fyrir því hver framkvæmd laganna yrði í höndum fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og þá er sorglegt að verkaskipting innan ríkisstjórnarinnar skuli vera svo stíf að ráðherrum okkar skuli ekki takast að koma böndum á fjármálaráðherra. Þá má með réttu segja að gullið tækifæri hafi gengið okkur úr greipum þegar við fórum með forsætisráðuneytið, en þá hefði hugsanlega mátt rétta hlut landeigenda.

Þessi afstaða Sjálfstæðisflokksins er líka afar einkennileg þegar hún er skoðuð í samhengi við framgöngu hans í sjávarútvegsmálum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur, frá því kvótakerfið var tekið upp, unnið að því leynt og ljóst að færa eignarrétt á fiskistofnunum kringum landið frá þjóðinni til kvótaeigenda. Þar er litið svo á að nýtingarréttur síðustu 10-20 ára sé í raun ígildi eignarréttar. Þessi sami flokkur hunsar nú ekki bara alda gamlan nýtingarrétt íslenskra bænda heldur einnig þinglýst afsöl sem blekið er vart þornað á. Það er kaldhæðni örlaganna að þeim gjörningi stýri nú fyrrum sjávarútvegsráðherra, Árni Mathiesen.

Mér er fyrirmunað að skilja hví fjármálaráðherra þarf að beita fyrir sig slíkum óþokkabrögðum við að sölsa undir sig eigur íslenskra bænda og þetta er mál sem ég tel mikilvægt að taka upp hið fyrsta á Alþingi. Ef það verður ekki gert fyrir kosningar mun það verða eitt af mínum fyrstu verkum fái ég til þess brautargengi í kosningunum næsta vor.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og sautján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband