Forsendubrestur verðtryggðra lána?

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, bendir á áhugaverð atriði í dómi Héraðsdóms á Pressunni vegna verðtryggðra lána.  Þar segir hann:

"Það er ágætt að fá þennan dóm því hann gefur þá það fyrirheit að ef forsendubrestur verði í samningum þá megi hrófla við vöxtum samningsins. Það þýðir því væntanlega að fólk sem tekið hefur verðtryggð lán og gert ráð fyrir því að stjórnvöld myndu halda sig við það sem þau lögðu upp með, þ.e. að halda verðbólgu í kringum 2,5%, að þá er kominn forsendubrestur ef verðbólgan hleypur upp úr öllu valdi."

 Skyldi dómurinn hafa verið að opna leið til að fá leiðréttingu á forsendubresti verðtryggðra lána?


Kjarklaus dómari

Héraðsdómur Reykjavíkur bognaði undan þrýstingi frá stjórnvöldum og dæmdi óverðtryggða seðlabankavexti á gengistryggð lán.  Síðasta tilraun stjórnvalda, FME, SÍ, skilanefndum bankanna og annarra fulltrúa fjármálakerfisins til að hafa áhrif á dóminn var birt orðrétt í fréttum RÚV í gær "Allt riðar vegna bílalánsdóms á morgun".

Dómarinn ákvað að víkja til hliðar neytendasjónarmiðum og stöðu aðila við samningsgerðina og leggur megináherslu á að aðilar máls hafi báðir gert sér grein fyrir að gengistryggingin væri verðtrygging.  Vextir miðuðust svo við þessa verðtryggingu.  Því sé ástæða til að víkja til hliðar vöxtum samningsins,- en til að henda smá dúsu til aumingja lántakandans þá ákveður hún að setja á óverðtryggða vexti SÍ í stað verðtryggingar, sem hún taldi þó báða aðila hafa sæst á.

Engin umræða er svo um hvort lántakandinn hefði yfir höfuð tekið lánið, verðtryggt eða óverðtryggt, vitandi það sem hann veit núna að þetta eru víst "verðtryggð" krónulán með óverðtryggða vexti...

Varðhundar kerfisins höfðu betur og dómarinn stóðst ekki þrýstinginn.

Til hamingju gamla Ísland.


Klappað fyrir Björk

Björk Guðmundsdóttir hélt blaðamannafund í gær til að kynna undirskriftasöfnun sem hún hefur hafið gegn kaupum Magma á HS orku.  Blaðamannafundurinn var blanda af tónleikum og ræðuhaldi, og var almenningi ekki hleypt inn, bara blaðamönnum.  Þrátt fyrir það var sérstaklega tekið fram af söngvaranum að hún vildi sá fræjum til að örva rannsóknarblaðamennsku, þar sem hún hefði áhyggjur af mati fjölmiðla á að Magma-málið væri ekki nógu „sexy“.

Svo skilst mér að spurningar hafi ekki verið leyfðar... enda verið að sá fræjum rannsóknarblaðamennsku á Íslandi.

Björk hefur ítrekað lýst skoðunum sínum á nýtingu orkuauðlinda á Íslandi, - og beitt bæði sínum áhrifum og fjármunum til að hafa áhrif á umræðuna á Íslandi.  Er það alveg sjálfsagt og eðlilegt, enda eru þetta hennar skoðanir, hennar tími og hennar peningar.

Það sem mér fannst hins vegar hvorki eðlilegt né sjálfsagt var klappið. Þarna voru aðeins blaðamenn og eftir hún hélt sína framsögu, var klappað. 

Fulltrúar fjölmiðla landsins klöppuðu...

 

 


Sofandi stjórnvöld

Hæstiréttur Íslands felldi tvo dóma þann 16. júní þess efnis að gengistrygging lána væri ólögleg. Málunum hafði verið áfrýjað eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur komist að misvísandi niðurstöðu um lögmæti þessara lána.

Viðbrögð stjórnvalda eftir dóm Hæstaréttar bentu til þess að þau hefðu verið gripin í bólinu.  Eftir nokkra fundarsetu og óskir um tillögur frá m.a. Samtökum fjármálafyrirtækja, talsmanni neytenda og Hagsmunasamtökum heimilanna sendi ríkisstjórnin  Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið fram á sviðið með tilmæli til fjármálafyrirtækjanna.  Tilmælin voru þess efnis að víkja ætti samningsvöxtum lánanna til hliðar og notast ætti við óverðtryggða vexti Seðlabankans á meðan dómstólar kæmust að niðurstöðu um vexti samninganna. 

Ábúðarfullir embættismenn  útskýrðu að tilmælin væru ekki skuldbindandi, hvorki fyrir fyrirtækin né lántakendur, en byggðust á túlkun þeirra á lögum um vexti og verðtryggingu.  Stuttu síðar lögðu svo fjármálaráðherra  og efnahags- og viðskiptaráðherra blessun sína yfir þessi tilmæli og sögðu að þetta væri eitthvað sem allir ættu að geta lifað við.

Ýmsir voru því ósammála.

Engin heildaryfirsýn
Því óskuðu undirrituð eftir sameiginlegum fundi efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar til að fá rökstuðningi Seðlabankans, FME og efnahags- og viðskiptaráðuneytis fyrir þessum tilmælum.

Jafnframt kröfðumst við skýringa á því hvernig þessar stofnanir höfðu undirbúið sig fyrir niðurstöðu Hæstaréttar og fórum m.a. fram á útreikninga á áhrifum dómsins út frá mismunandi forsendum sem og lögfræðiálit á lögmæti gengistryggðra lána.  Þá fórum við fram á upplýsingar um hver bæri ábyrgð á aðgerðum og aðgerðaleysi innan þessara stofnana.

Eftir fundinn var ljóst að ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið höfðu ekki heildaryfirsýn yfir áhrif dóms Hæstaréttar. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins hefur staðfest að það hefur tekið stofnunina um hálft ár að útvega upplýsingar sem gefa heildarmynd af þeim hluta eignarsafns fjármálafyrirtækjanna sem felst í gengistryggðum lánum.  Eftir að dómurinn féll var erlenda ráðgjafarfyrirtækið Oliver Wyman fengið til verksins og er áætlað að heildarmyndin verði orðin skýr í lok þessarar viku.

Það er einfaldlega sláandi hvað lítið virðist hafa breyst frá hruni. Undirbúningur fyrir útgáfu tilmælanna var óvandaður og ófullnægjandi. Yfirlýsingar viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra, Seðlabanka og FME um áhrif dóms Hæstaréttar á fjármálastöðugleika virðast ekki hafa byggst á neinum haldbærum gögnum.  Áhrifin á fjármálastöðugleika og efnahagslífið hafa ekki enn þá verið kortlögð og takmörkuð lögfræðiálit virðast hafa legið fyrir. 

Menn slumpa bara og giska út í loftið.

Hvað viljum við?
Við höfum óskað eftir að útreikningar um áhrif dómsins og minnisblöð þeirra lögmanna sem tilmæli Seðlabankans og FME byggjast á verði lögð fram.  Strax í febrúar var lagt fram frumvarp á vegum Framsóknarmanna með stuðningi þingmanna úr öllum þingflokkum um flýtimeðferð fyrir dómstólum og frestun nauðungarsölu á grundvelli þessara lánasamninga.  Það mál hefur legið í allsherjarnefnd síðan þá.  Þá var einnig lagt fram frumvarp Vinstri Grænna um hópmálsókn, sem hefur einnig legið í dvala hjá allsherjarnefnd. Þá lá líka fyrir mat sérfræðinga á því að líklega þyrfti að dæma í fimm til sex prófmálum áður en öllum vafa yrði eytt í kjölfar dóms Hæstaréttar.

Þótt niðurstaða fáist í nýju máli sem Lýsing hefur höfðað um vextina á enn eftir að skýra margt. Má þar nefna fordæmisgildi gagnvart öðrum lánasamningum sem bundnir eru gengisviðmiðum,  hvenær lán eru íslensk og hvenær þau eru erlend, bótaskyldu, forsendubrest og svo mætti lengi telja. Því skiptir miklu að tryggja flýtimeðferð þessara mála og fækka þeim fjölda mála sem þarf að höfða með lögum um hópmálsókn.

Efasemdir eru um réttmæti þess að opinberar stofnanir leggi til bráðabirgðalausn sem mætti túlka sem skilaboð til dómstóla um það sem  fjármálakerfið „ræður við“.  Mun nærtækara hefði verið að samningsvextir hefðu verið látnir standa.  Einnig er lántaka og lánveitanda frjálst að semja um annars konar greiðslufyrirkomulag, líkt og t.d. talsmaður neytenda, Frjálsi fjárfestingarbankinn og Spron hafa lagt til um að innheimta tiltekna krónutölu miðað við hverja milljón króna af upphaflegum höfuðstól lána ef vafi leikur á lögmæti þeirra.  Endanleg niðurstaða fengist svo fyrir dómstólum. Þegar er skýrt að dómurinn á við gengistryggð bílalán og því er ekki hægt að hvetja lántakendur til að fara eftir tilmælum Seðlabankans og FME hvað fjármögnunarfyrirtækin varðar.

Fjármálaráðherra telur að málin muni skýrast með haustinu, en hvorki heimilin né fyrirtækin í landinu þola marga mánaða óvissu um þetta gríðarstóra mál.

Birkir Jón Jónsson
Eygló Harðardóttir
Þingmenn og fulltrúar Framsóknarflokksins í efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd Alþingis.
(Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu)


Viljum við afnema verðtryggingu?

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að draga eigi úr vægi verðtryggingar og stjórnarandstaðan hefur að stærstum hluta tekið undir þessi markmið stjórnarflokkanna. Í því ljósi lagði þingflokkur Framsóknarmanna fram frumvarp um að setja skyldi 4% þak á verðtrygginguna á meðan leitað væri frekari leiða til að afnema hana.

Eftir mikla baráttu Framsóknarmanna varð það niðurstaðan að sett yrði á stofn þverpólitísk nefnd sem skal koma með tillögur um hvernig megi draga úr umfangi verðtryggingar án þess að ógna fjármálastöðugleika.

Hún skal kanna forsendur verðtryggingar á Íslandi, meta kosti og galla þess að draga úr vægi hennar í íslensku fjármálakerfi og hvaða leiðir eru bestar í því skyni. Nefndin á að skoða á heildstæðan hátt áhrif verðtryggingar á lántaka og lánveitendur sem og áhrif hennar á virkni hagstjórnar og efnahagslegan stöðugleika almennt.  Tillögurnar skulu liggja fyrir í lok árs 2010.

Ekki lesið stjórnarskrána
Í ljósi þessara markmiða ríkisstjórnarinnar er því heldur einkennilegt að sjá stjórnarliða taka undir að setja eigi verðtryggingu á hin svokölluðu erlendu lán eftir að Hæstiréttur felldi dóm sinn um ólögmæti gengistryggingar. Yfirlýst markmið stjórnarinnar var að draga úr vægi og umfangi verðtryggingar, ekki að bæta við nýjum, stórum lánaflokki. Hvergi kemur fram í dómnum hvort eitthvað eigi að koma í staðinn fyrir gengistrygginguna, aðeins að hún er ólögleg samkvæmt íslenskum lögum.  Því er það svo að þrátt fyrir að rifist sé fram og tilbaka um vaxtaákvæði samninganna og hvernig eigi að reikna höfuðstól og endurgreiðslur, er enginn sem heldur því fram á grunni lagalegra raka að setja eigi verðtryggingu á lánin í staðinn.

Það skal viðurkennast að ég hélt að lánveitendur myndu hugsanlega gera varakröfu um þetta fyrir Hæstarétti svo dómsóllinn gæti tekið afstöðu varðandi þau atriði. Svo var ekki og því ekki á valdi stjórnmálamanna að fara að smyrja verðtryggingu á lán sem voru að mati Hæstaréttar aldrei verðtryggð til að byrja með. Slíkt heitir afturvirkni til skaða fyrir þann sem fyrir verður og er bannað skv. stjórnarskránni (sjá greinar 27, 69, 72 og 77).

Flestir þingmenn með smá þingreynslu ættu að átta sig á að slík stjórnarskrárbrot líðast ekki.

Eykur verðtrygging verðbólgu?
Frá seinni hluta áttunda áratugarins fram á miðjan þann níunda var mikil verðbólga viðvarandi vandamál á Íslandi. Ástæður verðbólgunnar voru margvíslegar; ytri áföll, þaninn vinnumarkaður, gengisfellingar og seðlaprentun eða í stuttu máli almenn efnahagsleg óstjórn þar sem áherslan var á að skapa atvinnu fremur en hemja verðbólgu.  Marinó Njálsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, hefur reiknað út að verðbólga síðustu 40 ára var að meðaltali 82.262%, síðustu 30 ár um 5.214%, síðustu 20 ár 154% og síðustu 10 árin 84,7%. Með miklu átaki náðist verðbólgan niður í tveimur skrefum og var undir 3% um tíma á tíunda áratugnum.

Verðtryggingin var viðbragð við almennri óstjórn í efnahagsmálum og tók alls ekki á sjúkdómnum sjálfum, verðbólgunni. Ýmsar vísbendingar eru uppi um að verðtrygging geri stjórn efnahagsmála erfiðari og flóknari og dragi tennurnar úr stýrivöxtunum sem eru einmitt helsta tæki Seðlabankans við að draga úr verðbólgu. Einnig hefur samspil verðbólgu og verðtryggingar lítið verið rannsakað.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á að hugsanlega sé verðtryggingin verðbólguhvetjandi í sjálfu sér vegna áhrifa verðbóta á efnahagsreikning fjármálastofnana. Verðbólga er mæling á fjármagni í umferð. Hærri verðbólga hækka verðbætur á efnahagsreikning bankanna, efnahagsreikningurinn stækkar, bankarnir geta lánað meiri pening, sem eykur aftur peninga í umferð. Afleiðingin er því hærri verðbólga.

Á þeim tíma sem verðtrygging hefur verið í gildi hefur þjóðfélagslegur sparnaður aukist, en þá fyrst og fremst lögþvingaður sparnaður í gegnum lífeyrissjóðina. Á sama tíma hafa skuldir heimilanna margfaldast. Því virðist verðtrygging sparifjár ekki hafa hvatt til aukins sparnaðar hjá almenningi heldur frekar hvatt til skuldsetningar.

Mikilvægt er fyrir nefndina að skoða verðtrygginguna út frá hagsmunum allra. Allir Íslendingar verða að axla ábyrgð á sínum efnahagsmálum á sama máta og aðrar þjóðir. Hluta af þeim vanda sem við stöndum núna frammi fyrir varðandi gengistryggðu lánin má rekja til verðtryggingarinnar. Fólk var einfaldlega að leita eftir sambærilegum vaxtakjörum og þekkjast hjá þeim þjóðum sem eru okkur næstar. Engin fordæmi eru í hinum vestræna heimi fyrir sambærilegri útbreiðslu verðtryggingar, hvað þá á neytendalánum. Markmið íslenskrar efnahagsstjórnar á að vera stöðugleiki, sem mun endurspeglast í lágri verðbólgu, stöðugra gengi og raunverulegri verðmætasköpun.

Allir Íslendingar verða að bera sameiginlega ábyrgð á því að draga úr verðbólgu. Enginn er undanskilinn í því stríði. Ekki fjármagnseigendur eða skuldarar, ekki lífeyrissjóðir eða Íbúðalánasjóður, ekki stjórn eða stjórnarandstaða.

Verðtryggingin er hækja og við verðum að finna leiðina til að kasta henni.

(Greinin birtist fyrst í DV,  23. júní 2010)


Axlar enginn ábyrgð?

Gylfi Magnússon segir að ríkið eigi á hættu að tapa hundrað milljörðum króna ef niðurstaðan verður sú að vextir af lánunum séu í samræmi við það sem fram kemur í lánasamningum gengistryggðra lána.

Ég spyr hvar hefur Gylfi Magnússon verið undanfarna mánuði?  Ítrekað hefur verið spurt um hvort ráðuneytið hefði gert sér grein fyrir því að vafi væri um lögmæti gengistryggðra lána.  Ráðuneytið valdi að afla sér ekki utanaðkomandi lögfræðiálits um lögmæti þess sbr. svari við fyrirspurn minni til efnahags- og viðskiptaráðherra.

Það sama gerði Fjármálaráðuneytið, þ.e.a.s. ekki neitt lögfræðiálit. Hvar var Steingrímur J. Sigfússon?

Enginn gerði neitt, allra síst Gylfi eða Steingrímur.

Ég hef einnig reynt að koma með tillögu um lagabreytingar sem gætu flýtt fyrir að skýra lagalega stöðu þessa lánasamninga.  Það mál hefur legið í dvala í allsherjarnefnd síðan dómurinn í Héraðsdómi Reykjavíkur féll.

Enginn gerði neitt, allra síst Gylfi og Steingrímur.

Þá hefði maður haldið að þeir ráðherrar sem fara með efnahags- og ríkisfjármálin hefðu verið búnir að undirbúa sig undir niðurstöðu Hæstaréttar, bæði með og á móti.  En nei, - það virðist algjörlega hafa komið þeim í opna skjöldu að Hæstiréttur skyldi dæma í samræmi við þann texta sem kom fram í lögum um vexti og verðtryggingu.

Engin viðbragðsáætlun var til staðar, ekkert plan frekar en fyrir hrun. Ráðherrar, FME og Seðlabankinn úti að aka.  Enn á ný ætlar enginn að axla ábyrgð á hugsanlega hundrað milljarða króna tapi íslenska ríkisins sem hefði verið hægt að lágmarka ef tillit hefði verið tekið til þessa við uppgjör nýju og gömlu bankanna.

DEJA VU 2008 eða hvað? 

 


mbl.is Gæti kostað kröfuhafa hundruð milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almennra aðgerða er þörf

"Í vikunni kemur Alþingi Íslendinga saman á ný. Helstu verkefni þingsins verða að vera aðgerðir til bjargar heimilunum í landinu. Hér dugar ekkert fum og fát, doði eða seinagangur líkt og einkennt hefur aðgerðir núverandi ríkisstjórnar." Þetta skrifaði ég fyrir tæpu ári síðan, þegar Alþingi kom aftur saman haustið 2009. Þessi orð eiga því miður enn fullan rétt á sér nú þegar Alþingi kemur saman til að afgreiða lagafrumvörp til aðstoðar heimilunum.

Fum, fát, doði og seinagangur hafa einkennt ríkisstjórnina er kemur að skuldamálum heimilanna. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa einfaldlega verið í afneitun um nauðsyn þess að grípa til almennra aðgerða til aðstoðar heimilunum í landinu. Fullyrt er að sá ráðherra sem fer með efnahags- og viðskiptamál hafi lagst gegn aðgerðum fyrir heimilin og vísað nánast gjaldþrota einstaklingum á dómstóla landsins ef þeir hefðu eitthvað við aðgerðir, eða aðgerðaleysi fjármálafyrirtækja og stjórnvalda að athuga.

Þannig virkaði skjaldborg ríkisstjórnarinnar.

Lengi vel virtust einu úrræði ríkisstjórnarinnar vera að lengja tímabundið í hengingaról heimilanna. Sértæk skuldaaðlögun var nánast brandari þar sem enginn hvati var fyrir kröfuhafa að semja við heimilin, framkvæmd laga um greiðsluaðlögun seinleg og óskilvirk og enginn veit hvað á að gera við upphæðirnar sem safnast nú upp á greiðslujöfnunarreikningum.

Bútasaumur stjórnarinnar
Helstu tillögur ríkisstjórnarinnar ganga út að bæta þau lög sem þegar hafa verið samþykkt. Greiðsluaðlögun á að verða skilvirkari, gjaldþrot huggulegra og umboðsmaður skuldara tekur við hlutverki ráðgjafastofu heimilanna við að leiðbeina heimilunum í þann frumskóg úrræða sem stjórnvöld hafa skapað. Stjórnarliðar hafa einnig lagt áherslu á að kynna þessi úrræði vel, því að þeirra mati er greinilegt að heimilin hafa bara ekki skilið snilld þeirra.

Vandinn hefur ekki verið að heimilin hafi ekki skilið úrræði ríkisstjórnarinnar, heldur eru þau óréttlát og sýna skilningsleysi stjórnvalda á örvæntingu almennings.

Frumkvæði Framsóknar
Framsóknarmenn hafa talað fyrir því að vandi íslenskra heimila og fyrirtækja sé fyrst og fremst gífurlegur skuldavandi. Vandinn er það mikill að til að takast á við hann duga ekkert annað en almennar aðgerðir. Í efnahagstillögum flokksins sem kynntar voru í febrúar 2009 var lagt til að svigrúm bankanna vegna niðurfærslu lána yrði nýtt til varanlegrar leiðréttingar á höfuðstól þeirra. Samhliða yrði gripið til sértækra aðgerða vegna þeirra sem voru í mestum vandræðum.

Í ljósi nýlegrar greinar Helga Hjörvars, formanns efnahags- og skattanefndar um sanngjarnar skuldaleiðréttingar, tel ég að mögulegt sé að ná þverpólitískri sátt um almennar aðgerðir vegna húsnæðislána. Húsnæðislán heimilanna eru hjá þremur aðilum: Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum. Íbúðalán viðskiptabankanna hafa þegar verið flutt yfir í nýju bankana með tugmilljarða króna afslætti. Dómur Hæstaréttar og sú niðurfærsla sem hefur þegar farið fram ætti að taka á leiðréttingu svokallaðra erlendra lána. Þá standa eftir Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir.

Fjármögnun aðgerða
Nýleg viðskipti Seðlabankans við lífeyrissjóðina með Avens skuldabréfin hafa gefið lífeyrissjóðunum svigrúm til að færa niður íbúðalán sín um allt að 10-15%. Seðlabankinn hagnaðist einnig á þessum viðskiptum og því mætti láta þann hagnað renna til Íbúðalánasjóðs til niðurfærslu á lánasafni sjóðsins. Það mun hins vegar ekki duga til þar sem meginhluti húsnæðislána Íslendinga er hjá Íbúðalánasjóði og því mætti skoða ýmsar leiðir til að fjármagna þá niðurfærslu. Formaður efnahags- og skattanefndar bendir t.d. á hærri vaxtamun, skattlagningu á séreignasparnaði og sérstaka bankaskatta. Einnig mætti fara í útgáfu á nýjum skuldabréfaflokki líkt og sérfræðingar í málefnum Íbúðalánasjóðs hafa bent á.

Í almennum aðgerðum liggur mesta réttlætið. Allir sitja við sama borð og fá sömu niðurfærsluna miðað við tegund viðkomandi láns. Þeir sem telja sig ekki þurfa niðurfærslu geta hafnað henni og íslenska ríkið notað skattkerfið til að jafna stöðu manna á grundvelli eigna og tekna. Auknar skatttekjur vegna niðurfærslunnar og aukinnar samneyslu væru svo nýttar til að auka við eigið fé bankanna, Íbúðalánasjóðs eða til að rétta af stöðu ríkisins.

Þjóðarsátt er nauðsyn
Það er nauðsynlegt að leita þjóðarsáttar. Þjóðarsátt gengur út á að gera sér grein fyrir að við erum öll í sama báti. Enginn getur fengið allt sem hann vill, hvorki fjármálafyrirtækin né heimilin, atvinnurekendur eða verkalýðurinn, stjórn eða stjórnarandstaða.

Tími er til kominn að stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar komi sér saman um alvöru þjóðarsátt - fyrir okkur öll.

(Birtist fyrst í FBL 23. júní 2010)


Frekar um dóma Hæstaréttar.

Ég held að ansi margir séu núna á fullu að reyna að átta sig á því hvað dómar Hæstaréttar frá því í gær þýða í raun. Ég vil benda á tvær bloggsíður með mjög áhugaverðum pælingum, annars vegar Gísli Tryggvason og hins vegar Marinó Njálsson.

Alltaf jafn skarpir og flottir!

Fyrst eftir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur lág fyrir taldi ég mögulegt að Hæstiréttur myndi á einhvern máta taka á því hvort eitthvað ætti að koma í staðinn fyrir gengistrygginguna. 

Dómar Hæstaréttar taka ekki á því.

Í gær samþykkti Alþingi þingsályktun um stofnun nefndar um verðtrygginguna, sem á að leggja fram tillögur um hvernig megi draga úr vægi verðtryggingar á Íslandi.  Þetta hefur verið mikið baráttumál okkar Framsóknarmanna og ég mun taka sæti í nefndinni fyrir hönd Framsóknarflokksins. Við það tilefni nefndi ég að það gæti ekki verið í anda þingsályktunarinnar eða stjórnaryfirlýsingarinnar um verðtrygginguna að fjölga verðtryggðum lánum, heldur að fækka þeim. 

Ríkisstjórnin á því EKKI að láta sér detta í hug að setja lög um að verðtryggja þessi lán.

Á morgun verður haldinn sameiginlegur fundur efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar um málið.  Þar mun vonandi skýrast hversu víðtækt  fordæmisgildi þessara dóma er, áhrifin og hvaða hugmyndir eru upp á borðinu um viðbrögð stjórnvalda.


RÉTTLÆTI!

Hæstiréttur var að dæma gengistryggingu lána ólögmæta. 

Tilfinningar mínar eru á þessari stundu að það er í raun til réttlæti!

Alltof, alltof lengi hefur hallað of mikið á lántaka gagnvart lánveitendum í íslensku samfélagi.  Með þessum dómi er vonandi tekið risaskref (engin hænuskref hér!!) í áttina auknu jafnvægi á milli lánveitenda og lántaka á Íslandi.

Mér skilst að dómurinn taki ekki afstöðu til vaxta eða annars konar verðtryggingar, - heldur einfaldlega að þessi ákvæði samningsins hafi verið ólögmæt.


Helgi Hjörvar skrifar!

Í Fréttablaðinu í morgun er grein eftir Helga Hjörvar sem heitir Sanngjarnar skuldaleiðréttingar.  Ég ætla að leyfa mér að birta hana orðrétt og fagna því heit og innilega að svona skrifi formaður efnhags- og skattanefndar og einn af framámönnum Samfylkingarinnar.

"Alþingi afgreiðir nú endurbætt og vönduð úrræði fyrir verst settu skuldarana. Einar sér eru slíkar lausnir þó líkt og að bera sólarljós inn í gluggalaust hús, því hætt er við að án víðtækra almennra skuldaleiðréttinga bætist við ný vandamál jafn harðan og leysist úr hinum eldri. Þess vegna er fagnaðarefni að fyrir Alþingi liggur einnig stjórnarfrumvarp félagsmálaráðherra um almennar aðgerðir vegna bílalána. Enn hefur þó ekki náðst samstaða um almennar aðgerðir vegna húsnæðislána almennings sem hafa ýmist orðið fyrir gengishruni eða verðbólgusprengju.

Þverpólitísk samstaða tókst í efnahags- og skattanefnd Alþingis fyrr á árinu um að kanna svigrúm bankanna til afskrifta. Af ársreikningi Landsbankans má ráða að bankinn sjálfur fékk hjá sínum kröfuhöfum 33% niðurfærslu á lánum einstaklinga. Einnig hefur fréttaflutningur verið af lánaflokki einnar fjármálastofnunar sem hafði verið færður niður um nær helming. Alls eru íbúðalán viðskiptabankanna yfir 500 milljarðar og afslátturinn sem þeim hefur verið veittur af kröfum tugmilljarðar. Bankarnir hafa gert almenn tilboð um skuldaleiðréttingar gengistengdra lána, en ekki verðtryggðra íslenskra húsnæðislána (utan Íslandsbanka - 10%) sem þó væri eðlilegt að gera tilkall til enda bera þeir og kröfuhafar þeirra verulega ábyrgð á forsendubresti sem viðskiptavinirnir líða nú fyrir og sanngjarnt að deila þeim kostnaði. Almennar leiðréttingar væru þó alltaf mun lægri en afsláttur til bankanna var því hann fer að verulegu leyti í tapaðar kröfur.

Skuldaleiðréttingar íslenskra húsnæðislána hafa hinsvegar alltaf strandað á því að lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður yrðu að taka þátt í þeim. Það gæti annarsvegar leitt til skerðingar lífeyris sem enginn vill og hinsvegar gæti ríkið ekki lagt Íbúðalánasjóði til það sem þarf.


Ný staða

Seðlabanki Íslands gerði nýverið hagstæðan samning við Seðlabankann í Lúxemborg um kaup á skuldabréfapakka Avens sem innihélt íslensk íbúðabréf og innistæður. Skuldabréfin voru svo seld lífeyrissjóðunum og er talið hafa styrkt tryggingafræðilega stöðu sjóðanna um 1-2%, eða á þriðja tug milljarða. Stærstu sjóðirnir eru með liðlega 150 milljarða í húsnæðislánum til einstaklinga en nærri lætur að ávinningurinn af Avens samningnum gæti staðið undir 10-15% lækkun húsnæðislána lífeyrissjóðanna án þess að skerða þyrfti lífeyrisréttindi. Ekki getur talist óeðlilegt að ávinningur sjóðanna af íbúðabréfaviðskiptum renni til skuldaleiðréttinga húsnæðislána. Ábati ríkissjóðs af samningnum var ekki langt frá því sem lífeyrissjóðirnir nutu. Þar sem fyrst og fremst er um hagnað af íbúðabréfaviðskiptum að ræða væri ekki óeðlilegt að láta Íbúðalánasjóð njóta góðs af með sömu rökum og að ofan. Ef frekari eiginfjárframlög þyrfti til sjóðsins eða bankanna, þá er rétt að hafa í huga að endurfjármögnun bankakerfisins varð hátt í 200 milljörðum lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá má skoða ýmsar aðrar leiðir til eflingar Íbúðalánasjóði, s.s. hærri vaxtamun, merkja honum tekjur af sérstökum bankasköttum, skattleggja séreignasparnað og leggja í sjóðinn, o.s.frv. Þegar saman er lagt afskriftasvigrúm bankanna, ávinningur lífeyrissjóðanna og ríkissjóðs af Avens samningnum, auk annarra leiða er ljóst að skapa má allt að 100 milljarða svigrúm til almennra aðgerða.

Á næstu dögum fellur Hæstaréttardómur um lögmæti gengistenginga og getur þá skapast enn ný staða í skuldaleiðréttingamálum ef dómurinn fellur skuldurum í vil. Þegar þeirri réttaróvissu hefur verið eytt hafa stjórnmálaöflin í landinu tækifæri til að taka forystu og ná saman um sanngjarnar almennar skuldaleiðréttingar. Þær munu ekki leysa hvers manns vanda, né munu afskrifast 20% af öllu hjá öllum. Lántakendur geta heldur ekki vænst þess að lánveitendur beri allan skaðann sem 29,4% verðbólga á hálfu þriðja ári er, en eðlilegt er að honum sé deilt og kannski almennar aðgerðir eigi einkum að miða að þeim sem keyptu húsnæði á síðustu árum fyrir hrun.


Sáttaskref

Sumir hafa haft áhyggjur af því að almennar aðgerðir nýtist líka fólki sem ekki þarf á að halda. Þá er þrenns að gæta. Í fyrsta lagi hefur það fólk líka sætt óréttmætu vaxtaokri. Í öðru lagi, þó fólk eigi eignir umfram skuldir hefur auk tæplega 30% verðbólguskots, kaupmáttur rýrnað um 13% frá ársbyrjun 2008. Í þriðja lagi verður hægt að skattleggja þá sem við teljum ekki að eigi að njóta almennra aðgerða. Þeir sem hafa haft áhyggjur af skuldaradekri ættu að hafa í huga að án almennra aðgerða komum við einkum til móts við þá sem gengu lengst í skuldsetningu, en venjulegt vinnandi fólk sem hélt sig innan hámarkslána Íbúðalánanasjóðs fær engan stuðning þó lánin hafi hækkað um tæp 30% og kaupmáttur rýrnað um 13%. Það væru ekki góð skilaboð inn í framtíðina að skuldagleðin ein njóti skilnings.

Við munum ekki greiða úr fjármálum heimila hratt og vel nema saman fari greiðsluerfiðleikaúrræði og almennar aðgerðir sem skapa fólki almenn skilyrði. Stjórnvöld og fjármálakerfið þurfa líka að viðurkenna ábyrgð sína á vanda heimila. Skuldaleiðrétting er áþreifanleg leið til þess og mikilvægt skref til að byggja upp traust og ná sáttum í íslensku samfélagi."

(Birtist í Fréttablaðinu 15. júní 2010)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband