27.11.2006 | 12:16
Vatnajökulsþjóðgarður í augsýn
Ríkisstjórn Íslands samþykkti fyrir skömmu tillögu Jónínu Bjartmars, umhverfisráðherra, að stjórnarfrumvarpi um Vatnajökulsþjóðgarð. Þjóðgarðurinn verður einstakur í heiminum og sá stærsti í Evrópu. Hann mun ná yfir um 15.000 ferkílómetra, sem jafngildir um 15% af yfirborði Íslands. Gert er ráð fyrir að hægt verði að stofna Vatnajökulsþjóðgarð síðari hluta 2007 eða snemma árs 2008.
Þjóðgarðurinn verður ríkisstofnun með sjö manna stjórn, en honum verður svo skipt upp í fjögur rekstrarsvæði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fulltrúar sveitarfélaga, ferðamálasamtaka og umhverfissamtaka skipi svokölluð svæðisráð. Verkefni þeirra verður m.a. að gera tillögu að verndaráætlun og rekstraráætlun fyrir viðkomandi svæði til stjórnar og vera þjóðgarðsverði til ráðgjafar um málefni þjóðgarðsins á svæðinu. Fulltrúar heimamanna verða formenn svæðisráðanna og taka sömuleiðis sæti í stjórn þjóðgarðsins.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu á svæðinu. Þannig verður byggt upp net upplýsinga- og þjónustustaða sem byggjast á þremur einingum, þ.e. gestastofum sem verða meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins, starfsstöðvum landvarða og upplýsingastöðvum. Nú þegar er gestastofa staðsett í Skaftafelli en einnig er unnið að byggingu gestastofu í Ásbyrgi sem stefnt er að því að opna vorið 2007. Til viðbótar er lagt til að fjórar nýjar gestastofur verði reistar, þ.e. ein á hverju rekstrarsvæði þjóðgarðsins. Landvarsla innan marka þjóðgarðsins er nú á fjórum stöðum en lagt er til að staðirnir verði 11 við stofnun hans.
Kostnaður við þessa gríðarlegu uppbyggingu er áætlaður um 1.150 milljónir króna fyrstu fimm árin eftir stofnun þjóðgarðsins. Þannig verður þjónustunetið fullgert árið 2012 og er gert ráð fyrir að þá hafi þjóðgarðurinn fjölgað ferðamönnum til Íslands um 30-40 þúsund manns og aukið gjaldeyristekjurnar um 3-4 milljarða króna. Þá er áætlað að Vatnajökulsþjóðgarður muni auka atvinnu- og þjónustutekjur í sveitunum umhverfis þjóðgarðinn um 1,5 milljarða króna á árinu 2012.
Frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð er gríðarlega mikilvægt skref. En það er aðeins fyrsta skrefið. Í framhaldi af því skiptir sköpum að tryggja nægilegt fjármagn svo hægt verði að reka þjóðgarðinn og halda áfram uppbyggingu hans til lengri tíma. Þá er gríðarlega mikilvægt að sjá til þess að sú þekking og reynsla sem skapast við uppbyggingu þjóðgarðsins haldist í heimabyggð og verði þannig útflutningsafurð við uppbyggingu annarra þjóðgarða hérlendis sem erlendis.
Það er hlutverk sveitarstjórnarmanna og þingmanna Suðurkjördæmis að tryggja að þau geysilegu verðmæti sem felast í Vatnajökulsþjóðgarði skili sér til heimamanna um alla framtíð.
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning