Framtíðaraflið eða framsóknarmennskan?

Það var fullt af orðum, en lítið nýtt í hinni svokölluðu vitrænu byggðastefnu Samfylkingarinnar sem leiðandi stjórnmálaafls framtíðarinnar, a.m.k. eins og hún var kynnt í grein þingmannsins Björgvins G. Sigurðssonar í Vaktinni þann 8. september 2005.

Í greininni talar Björgvin um það sem hann vill gera í draumsýninni um nýja byggðastefnu Samfylkingarinnar.  Þar nefnir hann nútímalegar og öruggar samgöngur, háhraðanettengingu og aðgang að framhaldsskóla og háskólamenntun úr heimabyggð.  Svo talar hann fjálglega um uppbyggingu sérhæfðs háskóla á Suðursvæðinu, með starfsstöðvar í Vestmannaeyjum, Hornafirði, Reykjanesbæ og Selfossi.

Eftir lestur greinarinnar veltir maður fyrir sér hvar þingmaðurinn hefur verið að undanförnu. Hverju hefur framsóknarmennskan áorkað, á meðan hið “leiðandi framtíðarafl” hefur verið viðsfjarri? Rennum aðeins yfir óskalista þingmannsins.

  • Nútímalegar og öruggar samgöngur.

Á árunum 2007-2010 verður 15 milljörðum varið til framkvæmda i vegamálum.  Í Suðurkjördæmi má einna helst nefna tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, 800 milljónir í hringveg um Hornafjarðarfljót, nýja vegtengingu yfir Hvítá í Árnessýslu og 400 milljónir í Suðurstrandarveg.  Ferðum Herjólfs mun væntanlega fjölga um 120-130 strax á næsta ári og er niðurstöðu um ferjuhöfn í Bakkafjöru eða jarðgöng að vænta.

Ég vil einnig benda þingmanninum á að spjalla aðeins við Eirík Bergmann Einarsson, flokksbróður sinn um reglur er gilda um niðurgreiðslu flugleiða innan Evrópusambandsins og þannig á EES-svæðinu.

  • Háhraðatenging.

Strax á þessu ári verður varið einum milljarði króna til upbyggingar á sviði fjarskipta og 1,5 milljörðum króna árin 2007-2009.  Bætt verður við GSM sendum á hringveginum, auðvelduð dreifing stafræns sjónvarps um gervihnött, og háhraðatengingar byggðar upp á landsbyggðinni.

  • Aðgangur að framhaldsskólum og háskólamenntun úr heimabyggð.

Sjaldan hefur meira framboð verið af menntun á landsbyggðinni.  Háskólinn á Akureyri hefur fyrirlöngu sannað gildi sitt, Viðskiptaháskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskólinn (starfsstöðvar á Hvanneyri, Reykjum og Reykjavík) hafa aldrei boðið upp á fjölbreyttara nám og Háskólinn á Hólum býður upp á nám á heimsmælikvarða í ferðamálum, fiskeldi og hrossarækt.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar hafa gjörbylt möguleikum fólks á landsbyggðinni til að stunda sitt nám í heimabyggð, en þær eru nú 9 talsins með starfsemi um allt land.  Í Eyjum eru t.d. um 70 háskólanemar sem stunda fjarnám auk þess sem mikill fjöldi Eyjamanna sækir bæði styttri og lengri námskeið á vegum Visku.

Nú síðast var sett á stofn Háskólasetur Vestfjarða, en stofnun setursins var ein helsta tillagan í vaxtarsamningi Vestfjarða.

Frekar lítið eftir á óskalistanum, eða hvað?
Undir stjórn núverandi ríkisstjórnar hefur byggðastefnan tekið breytingum, þar sem áherslan er á að sameina krafta heimamanna, hins opinbera og atvinnulífs á viðkomandi svæðum til að styrkja undirstöðu þeirra og sérstöðu, með svokölluðum vaxtarsamningum.  Vaxtarsamningur Eyjafjarðar var sá fyrsti, og er nú unnið að gerð vaxtarsamnings fyrir Suðurland og Vestmannaeyjar annars vegar og Austfirði með sérstaka áherslu á Hornafjörð hins vegar.

Markmið með háskólasetrum er að styrkja sérstöðu viðkomandi svæða og hlúa að séreinkennum þeirra, og styðja við atvinnuuppbyggingu á viðkomandi svæðum. Því er  af tillögum Eyjamanna fyrir vaxtarsamning fyrir Suðurland og Vestmannaeyjar að styrkja og efla Rannsókna-og fræðasetur Vestmannaeyja  í rannsóknum á auðlindum hafsins.  Jafnframt er verið að ræða stofnun Háskólaseturs á Suðurlandi sem mundi sérhæfa sig m.a. í ferðaþjónustu, skógrækt og matvælaframleiðslu. Þess konar svæðisbundin háskólasetur gætu styrkt mjög byggð t.d. í Rangárþingum og stutt við áframhaldandi uppbyggingu í Árnessýslu.

Framsóknarmenn munu halda áfram að vinna að því að bæta stöðu hinna ýmsu byggðarlaga, og “framtíðaraflið” hans Björgvins ætti því að einhenda sér í að útbúa nýjan óskalista.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og ellefu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband