19.11.2006 | 23:29
Hvað er Eyjamatur?
Norræna nýsköpunarmiðstöðin var nýlega í fréttum vegna verkefnis sem þeir eru að ýta úr hlaði. Verkefnið heitir Ný norræn matvæli þar sem ætlunin er að efla hæfni til samkeppni og nýsköpunar í tengslum við matargerðarlist, viðburði, menningu og ferðamennsku.
Í framhaldinu fór ég að velta fyrir mér hugtakinu Eyjamatur. Eyjamenn framleiða gífurlegt magn af matvælum, ætlað til bæði manneldis og sem dýrafóður. Við flytjum árlega út um 10-12% af sjávarafurðum Íslands, og erum mjög stolt af þessu framlagi okkar. Við erum einnig mjög stolt af lundanum okkar, fiskibollunum hans Gríms og réttsælis rollunum í Heimakletti. En er hugtakið Eyjamatur í raun til?
Nú í haust fékk ég stóran hóp af útlendingum í heimsókn til Eyja og vildi endilega bjóða þeim upp á ekta Eyjamat, og niðurstaðan varð lundi. Því miður reyndist lundinn ófáanlegur og því varð úr að bjóða upp á íslenskan þorramat sem vakti mismikla lukku.
Í hinni margumtöluðu bók Andra Snæs Magnasonar, Draumalandinu, fjallar hann um það sem má kalla nafnleysi íslenskra landbúnaðarafurða. Hann spyr: ”Hvaða afurðir hefur maður borðað sem eru beintengdar einum snillingi? Hvar er Siggi Hall bændastéttarinnar? Einar Már hangikjötsins eða Eiður Smári lambakjötsins? Maður getur spurt sig: Hvert er frægasta býli á Íslandi? Frægasti bóndabær? Margir eru þekktir en þá er það yfirleitt forn frægð. Hlíðarendi, Flugumýri, Oddi.” Við þessar spurningar Andra gæti maður bætt við: Hvaðan eru frægustu fiskibollurnar? Eða frægasti humarinn? Hver er sérstaða sjávarafurða frá Eyjum? Hver veit t.d. að Vinnslustöðin er einn stærsti eigandi humarkvóta á Íslandi?
Hnattvæðingin hefur aukið eftirspurn eftir sérstökum mat. Mat sem einkennir ákveðinn stað eða svæði. Eftirspurn sem stafar einnig af auknum kröfum um þekkingu á uppruna matvælanna og meðferð þeirra. Neytendur hafa áhyggjur af þáttum eins og eiturefnum í matvælum, ýmsum sjúkdómum s.s. kúariðu, umhverfinu og dýravernd. Allt þetta hefur æ meiri áhrif á viðhorf neytenda til matvæla. Aðrir þættir sem líka hafa áhrif eru m.a. meiri kaupmáttur, aukin ferðalög, minni tími, fjölbreytt fjölskyldumynstur og auknar kröfur um efnisleg lífsgæði í hinum vestræna heimi.
Það þekkja allir Brie, Cognac, Camenbert, Dijon, Burgundy og Bordeaux í Frakklandi. Allt eru þetta héruð eða borgir sem hafa orðið að heimþekktum vörumerkjum í mat. Á síðustu árum og áratugum hafa fjölmargir reynt að brjótast inn á þennan markað og mörgum orðið þokkalega ágengt og má t.d. nefna ný-sjálenskt lambakjöt, áströlsk og bandarísk vín auk þess sem við stöndum í stöðugu stríði við Norðmenn um hvort besti saltfiskur í heimi sé íslenskur eða norskur.
Þróun vörumerkja þýðir einfaldlega að humar verður ekki bara humar, gallabuxur ekki bara gallabuxur og hamborgari ekki bara hamborgari. Þetta verða New England humar, Diesel gallabuxur og Big Mac hamborgari. Neytendur gera greinarmun og eru oft tilbúnir að greiða hærra verð fyrir viðkomandi vöru.
Í vaxtarsamningi Suðurlands og Vestmannaeyja er einmitt komið inn á þetta. Þar er ein af tillögunum um uppbyggingu þróunar-, markaðs- og sölumiðstöðvar sjávarafurða í Vestmannaeyjum. Markmiðið með tillögunni er að auka vinnslustig og virðisauka sjávarafurða í Eyjum, og nálgast markaði beint. Stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar nefndi þetta einnig sérstaklega á síðasta aðalfundi, hversu mikilvægt það er að skapa sinni vöru sérstöðu s.s. með þróun vörumerkja og stjórnun dreifileiða. Afleiðingu af þessari stefnumörkun fyrirtækisins mátti m.a. sjá í nýlegri fjárfestingu þeirra í fisksölufyrirtækinu About Fish.
Ég er sannfærð um að mikil sóknarfæri liggja í þessu til nýsköpunar og vöruþróunar og auknir möguleikar til að skapa okkur sérstöðu með uppbyggingu á vestmannaeyskri matarmenningu sem mun styðja enn frekar við núverandi matvælaframleiðslu.
Og hver veit, kannski mun ég geta boðið næsta hóp af erlendum gestum upp á Heimaeyjarhumar, Réttsælisrolluost og Tyrkjaránsþara ásamt vonandi lundanum…
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning