Nótt safnanna

Enn á ný hefur nótt safnanna sýnt og sannað hversu kröftugt menningarlífið er í Vestmannaeyjum. Menn voru ekkert að láta slæmar veðurspár eða niðurfelldar ferðir Herjólfs stoppa sig og fjölmenntu m.a. á frábæra tónleika lúðrasveitarinnar í Gömlu höllinni, fyrirlestur um garðfugla í Fiska- og náttúrugripasafninu og á létta “pöbbastemmingu” í Vélasalnum fram á nótt.

Frábær hugmynd sem markaðsfulltrúinn Kristín Jóhannsdóttir tók með sér heim frá Þýskalandi og greinilegt að margir bæjarbúar voru ekkert að flýta sér fram úr í morgun.

Aðrir tóku þátt í kosningavökum og lágu yfir tölum úr prófkjöri Sjálfstæðismanna. Var ansi nærri þessu: Árnarnir í fyrstu tveimur, Kjartan og Björk. Því miður náði Guðjón Hjörleifsson ekki þeim árangri sem hann stefndi að né Drífa Hjartardóttir.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri, og ég mættum galvösk í morgun í upptöku á þættinum Fréttaljós þar sem við spjölluðum um niðurstöðu prófkjöranna hjá Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum. Ljóst er að skiptar skoðanir eru á niðurstöðunni, eins og kemur t.d. fram á vef Sjálfstæðismannsins Andrésar Magnússonar og bloggi ritstjórans Péturs Gunnarssonar. Árangur Drífu virðist hafa komið fólki sérstaklega á óvart, eins og kom fram í Silfrinu.

Mitt mat er að þetta sýnir enn á ný að kjósendur eru að senda mjög skýr skilaboð um að þingmenn verði að láta vita hvað þeir séu að gera á þinginu. Ekki er nóg að vinna vel í nefndum, inn á þinginu, eða á bak við tjöldin…

Eða eins og Janet Jackson orðaði það: “What have you done for me lately?”


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og tíu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband