13.12.2006 | 13:31
Dómur Ingibjargar
Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur varð tíðrætt um traust í Keflavíkurræðu sinni nú um daginn. Þar benti hún alþjóð á að þingflokki Samfylkingarinnar væri ekki treystandi. Töluverður kurr virðist hafa verið í þingflokknum eftir þessi ummæli og margir tekið þau til sín. Sumir, eins og t.d. Björgvin G. Sigurðsson, eru sannfærðir um að formaðurinn hafi rétt fyrir sér, en þjóðin hafi bara rangt fyrir sér. Hún muni fljótlega sjá að sér og treysta flokknum til ábyrgðarstarfa með góðum árangri í kosningunum í vor.
Gamalt vín á nýjum belgjum
Nú ætla ég ekki að draga úr þeim orðum Ingibjargar að þingflokki Samfylkingarinnar sé ekki treystandi enda hlýtur hún að þekkja sitt heimafólk. Óskir hennar um að batnandi mönnum sé best að lifa er hennar brýning til þess fólks sem kosningar eftir kosningar hefur skipað lista fyrir þennan flokk og viðhengin sem runnu inn í hann. Samfylkingin hefur enda aldrei verið annað en gamalt vín á nýjum belgum og nú er meira að segja farið að slá í belgina.
Árinni kennir illur ræðari
Mín spurning er hins vegar sú hvort ekki sannist hér hið fornkveðna, að árinni kenni illur ræðari? Getur verið að almenningur treysti einfaldlega ekki Ingibjörgu Sólrúnu til að leiða Samfylkinguna og hvað þá ríkisstjórn? Flokkurinn hefur dalað verulega síðan hún tók við formennsku og það þarf ekki að minna nokkurn mann á hvernig hún sprengdi R-listann í Reykjavík. Það gerði hún til að svala eigin metnaðargirnd og gekk svo með forsætisráðherra í maganum í fjóra mánuði. Blekkingarnar sem kjósendum var boðið upp á í þeim farsa öllum hafa kannski ekki minnst að segja um hvers vegna fólk treystir ekki Samfylkingunni.
Ingibjörg ber ábyrgð á Kárahnjúkum
Fleira spilar sjálfsagt inn í. Þannig hefur ávallt verið erfitt að henda reiður á stefnu Samfylkingarinnar. Hún skellir yfirleitt málum fram með upphrópunum og látum en dregur svo strax í land, er eiginlega bæði með og á móti og saltar svo málin í nefnd. Þannig hafa svokallaðir framtíðarhópar Samfylkingarinnar víst unnið árum saman að stefnumótun hennar án þess að nokkuð bóli á niðurstöðum. Og þó, eitthvað kom frá þeim um umhverfismál. En daginn eftir kom í ljós að þingflokkurinn var ekki einu sinni sammála um stefnuna og þingmenn fóru að rífast um álver hér og virkjanir þar fréttatíma eftir fréttatíma. Svo hefur sjaldnast fylgt sögunni að atkvæði Ingibjargar Sólrúnar í borgarstjórn Reykjavíkur réði því að farið var í framkvæmdir við Kárahnjúka. En því vill hún sjálfsagt bara gleyma.
Mun hennar tími koma?
Kannski hitti Ingibjörg Sólrún sjálf naglann á höfuðið þegar hún nefndi í viðtali eftir Keflavíkurræðuna sína að Verkamannaflokkurinn hefði ekki náð sér á strik fyrr en Blair leiddi hann inn í ríkisstjórn og Demókratar ekki rétt úr kútnum fyrr en Bill Clinton varð forseti. Það væri kannski ráð fyrir Samfylkinguna að finna sér öflugan leiðtoga sem getur leitt hana inn í ríkisstjórn, eða a.m.k. skammlaust í gegn um kosningar.
Annars er ég hrædd um að tími Samfylkingarinnar muni aldrei koma.
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning