Hvenær er maður Eyjamaður?

Það er aldeilis að ein lítil grein um hvenær maður sé Eyjamaður hefur komið við kauninn á mörgum manninum. Tilgangur skrifa minna var að vekja athygli á titlum og skrautfjöðrum sem frambjóðendur í prófkjörum í Suðurkjördæmi skreyta sig með í baráttu sinni fyrir sæti á Alþingi fyrir “heimabyggð” sína.

Víst er það rétt að bæði Lúðvík Bergvinsson og Róbert Marshall eru uppaldir Vestmanneyingar sem hafa ákveðið sér búsetu í Reykjavík. Því neitar enginn. Hins vegar hafa þeir engin bein tengsl við kjördæmið og þar með talið Vestmanneyjabæ með varanlegri búsetu, skólagöngu barna sinna, verslun í heimabyggð að staðaldri o.s.frv.

Því var það einföld ábending til þeirra sem ekki sáu í gegnum Eyjamannastimpilinn á þessum frambjóðendum Samfylkingarinnar að benda á að þeir eigi um margt meira sameiginlegt með t.d. íbúum höfuðborgarsvæðisins en hagsmunagæslu fyrir Suðurkjördæmi. Þessir menn tóku báðir þá ákvörðun að flytja upp á fastalandið, og yfirgefa Suðurkjördæmi. Er það trúverðugt þegar þessir sömu frambjóðendur segja við unga fólkið okkar og okkur hin að við eigum að vinna í heimabyggð og ala upp fjölskylduna þar, þegar þeir sjálfir fluttust á mölina í Reykjavík?

Eru hagsmunir þeirra meiri eða minni um hvort að bætt verði heilsugæslan í Vestmanneyjum eða Reykjavík? Að kennsla verði bætt við Framhaldsskólann á Hornafirði eða í Menntaskólanum í Reykjavík? Það er alveg ljóst að stefna Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi er að okkar unga og efnilega fólk velji að búa í sinni heimabyggð og ala upp sína fjölskyldu þar, - hvort sem það er í Vestmanneyjum, á Flúðum, Hornafirði eða á Reykjanesi.

Það er líka mikill munur á því að neyðast til að flytja frá Vestmannaeyjum um stundarsakir til að sækja sér þjónustu sem ekki er þar í boði, eins og til dæmis námsmennirnir okkar gera, eða kjósa af eigin hvötum að ala upp börnin sín og eyða ævinni annars staðar en í Eyjum.

Að lokum vil ég segja að við erum öll Eyjamenn. Ísland er líka eyja, en það er ekki sama að vera Eyjamaður og að vera brottfluttur Eyjamaður. Ég held að það þætti mörgum frekar fyndið, ef frambjóðandi sem byggi í Kópavogi væri í framboði í Reykjavík og héldi því fram að hann væri sannur Reykvíkingur, uppalinn og hvaðeina en það væri bara svo ofsalega gott að búa í Kópavogi.

Eygló Harðardóttir, búsett í Suðurkjördæmi og býður sig fram í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og tveimur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband