1.11.2006 | 14:50
Að vera eða vera ekki… trúverðugur stjórnmálaflokkur?
Eftir að hafa legið undir feldi í sex ár hefur Samfylkingin loksins myndað sér skoðun á náttúru Íslands. Niðurstaðan er merkileg, - flokkurinn er fylgjandi henni, þ.e.a.s. náttúrunni og leggur til að við núverandi aðstæður verði frekari stóriðjuáformum slegið á frest.
Af hverju skyldi flokksforystan vera að skella fram svona yfirlýsingu?
Ef við lítum á þau verk sem liggja eftir Samfylkinguna þá virðist frestun á stóriðjuframkvæmdum ekki hafa verið sérstaklega ofarlega í huga flokksmanna. Fyrir austan er ein stærsta breyting í atvinnulífinu að verða að raunveruleika með byggingu Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðaráls. Samfylkingin stóð sameinuð að Kárahnjúkum og kaus formaður Samfylkingarinnar með þeirri virkjun í borgarstjórn. Án stuðnings Samfylkingarinnar hefði tvöföldun Norðuráls aldrei orðið að raunveruleika á Grundartanga, og nú engjast Samfylkingarmenn í Hafnarfirði yfir því hvernig þeir eigi að geta leyft tvöföldun álversins í Straumsvík, - án þess að þurfa að bera ábyrgð á ákvörðuninni.
Greinilegt er af þessu að Samfylkingin hefur verið í lykilaðstöðu til að slá fyrri stóriðju á frest og er enn í aðstöðu til að slá áformum um stækkun í Straumsvík á frest. Kannski er skýringa að leita í að skoðanakannanir gáfu til kynna að flótti væri hafinn hjá kjósendum Samfylkingarinnar til Vinstri-Grænna og því þyrfti að skapa nýjar leikreglur, - strika yfir allt sem hafði verið gert áður og hlaupast undan ábyrgð.
Er þetta trúverðugt?
Rústum landbúnaðinum
Er það trúverðugt fyrir okkur sem búum á landsbyggðinni að það er allt í lagi að gera e-hv sem tengist stóriðju á Suð-Vesturhorninu, en ef e-hv raunverulegt er gert á landsbyggðinni þá verður allt vitlaust.
Hvar eru blómlegustu byggðir landsins? Borgarfjörðurinn hefur tekið miklum breytingum eftir að álverið á Grundartanga opnaði. Hafnarfjörður hefur stækkað og blómstrað eftir að fyrsta álver landsins var opnað þar og hver og einn sem það vill sjá sér þær stórkostlegu breytingar sem eru að verða í Fjarðabyggð.
Blekið var varla þornað á hinu Fagra Íslandi þar sem áherslan átti að vera á að nýjar atvinnugreinar myndu haldast í hendur við hefðbundnar s.s. landbúnað og sjávarútveg, áður en að formaðurinn var mættur með tillögur um að leggja landbúnaðinn í rúst á næstu tveimur árum. Fella skyldi niður í einum vettvangi öll vörugjöld og alla innflutningstolla á matvæli og núverandi stuðningur við landbúnað afnuminn.
Formaðurinn var varla búinn að sleppa orðinu, fyrr en samflokksmenn hennar Björgvin G. Sigurðsson og Anna Kristín Gunnarsdóttir voru farnir að draga úr orðum hennar. Hversu trúverðugt er það?
Að vera trúverðugur stjórnmálaflokkur
Flokkurinn sem ætlar að leiða ríkisstjórn verður að vera trúverðugur. Hann verður að gera sér grein fyrir að ákvarðanir hans og skoðanir munu hafa áhrif á líf og lífsviðurværi fólks í landinu. Miðað við frammistöðu síðustu vikna virðist mjög langt í að Samfylkingin og formaður hennar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, geri sér grein fyrir þessu.
Því getur Samfylkingin ekki talist trúverðugur stjórnmálaflokkur.
Eygló Harðardóttir
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning