8.11.2006 | 12:00
Snúum við byggðaþróuninni!
Af einhverri ástæðu hefur orðið byggðastefna orðið að ljótu orði í íslensku. Ég skil það hreint ekki – því í mínum huga er alveg klárt að byggðastefna skilar árangri. Við höfum t.d. rekið mjög árangursríka og skilvirka byggðastefnu hérlendis í marga áratugi…
Í REYKJAVÍK!
Um 60% þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu, en þar eru staðsett um 72% opinberra starfsmanna. Uppbyggingin á svæðinu hefur verið gífurleg, sem gerir Reykjavík og nágrenni eitt besta dæmið um að virk byggðastefna skilar úrvalsárangri. Staðsetning opinberra starfa s.s. í stjórnsýslu, mennta-, heilbrigðis- og rannsóknastofnunum skiptir miklu máli til að auka arðsemi viðkomandi svæða.
Byggðastofnun hefur bent á að hvergi, ekki einu sinni á hinum Norðurlöndunum, hafi fólk safnast jafn mikið saman á einu svæði og Stór-Reykjavíkursvæðinu. Til 1970 var íbúaþróun mjög svipuð í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og hér. Ungt og menntað fólk flutti í miklum mæli af landsbyggðinni, oft konur fyrst með börnin og svo karlarnir á eftir. Um 1970 gripu stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum inn í þessa þróun með því að flytja umtalsverðan fjölda opinberra starfa út á landsbyggðina og hafa haldið þeim aðgerðum áfram.
Nú síðast í byrjun þessa árs ákvað sænska ríkisstjórnin að flytja 2.700 störf út á land, þar af sex stofnanir í heilu lagi og hluta 12 annarra. Með þessum aðgerðum hefur að mestu tekist að stöðva þessa þróun. Hér á landi hefur þessi fólksflótti hinsvegar staðið stöðugt, án þess að stjórnvöld hafi gripið til neinna marktækra aðgerða.
Framsóknarflokkurinn með viðskipta- og iðnaðarráðherra fremstan í flokki hefur reynt að snúa við þessari þróun og lagt fram mjög góða stefnumörkun um byggðamál, sem hefur því miður fengið lítinn hljómgrunn hjá samstarfsflokknum. Einna helst hafa ráðuneytin látið sér detta í hug að flytja nokkur láglauna fjarvinnsluverkefni út á land, á meðan við sjáum arfleið Davíðs Oddssonar rísa í flottu hátæknisjúkrahúsi og risastórri brú í miðri Reykjavík.
Við verðum að krefjast af okkar þingmönnum að þeir stoppi þessa þróun. Ég tel mjög mikilvægt þegar nýjar opinberar stofnanir taka til starfa, verði þeim fundinn staður á landsbyggðinni. Ég vil einnig að hvatt verði til nýsköpunar í landinu öllu með því að árlega verði lagðir til tveir milljarðar króna sem áhættufjármagn og að jafnræðis verði gætt á milli landshluta. Styrkja mætti þannig sjávarbyggðir með nýjum atvinnutækifærum og landbúnaðarhéruð gætu haslað sér völl á nýjum sviðum í bland við hefðbundnar búgreinar.
Unga fólkið okkar gæti þannig enn á ný farið að VELJA sér búsetu hérlendis, ekki bara neyðst til að setjast að í Reyjavík eða nærliggjandi sveitarfélögum, vegna starfsins!
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning