12.12.2006 | 18:18
Vaxandi vitund, aukin von
Talið er að um fjórðungur fólks þjáist einhvern tímann á ævinni af geðrænum vandamálum. Árlega falla á milli 40 og 50 Íslendingar fyrir eigin hendi af ástæðum sem oft má rekja til þunglyndis og kvíðaröskunar. Geðsjúkdómar herja á fólk á öllum aldri, í öllum þjóðfélagsstéttum, um land allt og eru alltof oft lífshættulegir.
Mikil vakning hefur orðið á síðustu árum um geðsjúkdóma og sem betur fer hafa fordómar gagnvart þeim sem eiga við geðraskanir að stríða farið minnkandi. Ríkisstjórnin hefur tekið ýmis mikilvægi skref til að bæta þjónustu við sjúklinga með geðraskanir. Má þar einna helst nefna stefnumótun heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga með hegðunar- og geðraskanir og átak félagsmálaráðherra, Vilji til verka, um aukna þjónustu við geðfatlað fólk.
Á síðustu 50 árum hafa aðstæður fólks með geðsjúkdóma gjörbreyst, m.a. með tilkomu nýrra geðlyfja. Um 1960 voru um 300 einstaklingar á Kleppi, langflestir til langframa. Í dag eru rúmin um 150 fyrir geðsjúka, og langflestir dveljast í skamman tíma í senn. Talið er að ef hin nýju lyf hefðu ekki komið til væru líklega um 600 manns í langtíma vistun á geðdeild, en þeir eru nú á bilinu 50-60. Hinir geta lifað úti í samfélaginu með stuðningi í formi almennrar meðferðar hjá geðlækni, lyfja og viðtala, auk iðju- og félagsþjálfunar.
Stór skref hafa því verið stigin í rétta átt, en betur má ef duga skal. Því miður hefur geðheilbrigðisþjónusta fyrst og fremst byggst upp á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru stóru sjúkrahúsin, þar eru flestir geðlæknarnir og þar eru stuðningshóparnir fyrir geðsjúka og aðstandendur þeirra. T.d. er eina sérhæfða skipulagða þjónustan á Suðurlandi við geðsjúka og aðstandendur þeirra á Réttargeðdeildinni á Sogni.
Almennt er íslenska heilbrigðiskerfið byggt þannig upp að ef eitthvað amar að líkamlega er leitað til heilsugæslunnar. Þannig tel ég að eigi líka að vera þegar fólk finnur fyrir andlegri vanlíðan. Því er nauðsynlegt að starfsfólk heilsugæslunnar hafi kunnáttu og þekkingu til að greina vandamál hverjar sem orsakirnar eru, enda oft erfitt að greina á milli andlegra og líkamlegra veikinda.
Tilraunaverkefni hafa verið í gangi um sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni milli Landspítala-háskólasjúkrahúss, Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðarbæjar, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hafa þau mælst vel fyrir. Næstu skref hljóta því að vera að útvíkka þessi verkefni og bjóða fleiri heilbrigðisstofnunum þátttöku í þeim.
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning