Dómsdagsspá um fiskinn í sjónum

Spegilinn fjallaði í kvöld um grein sem birtist í nýjasta blaði hins virta tímarits Science Magazine.

Greinin heitir A need for a sea change og í henni reyna nokkrir virtir vísindamenn að meta hver áhrif minni fjölbreytileika í lífríki hafsins verða ef fram fer sem horfir. Niðurstaða þeirra er að það verða engir nýtanlegir stofnar í hafinu árið 2050.

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, reyndi að draga úr þessu en varð þó að viðurkenna að ráðleggingum stofnunarinnar hafði nú ekki alltaf verið fylgt og sóknin verið of þung. Einnig væri mengun í hafinu áhyggjuefni. Sjávarútvegsráðherra talaði bara um “umhverfissinna”, sem er væntanlega orðið nýja skammaryrðið hans.

Ég tel að við getum ekki sagt að allt sé í lagi hérna hjá okkur, og það séu bara aðrar þjóðir sem verða að taka sig á. Við höfum veitt of mikið og gerum of lítið til að draga úr mengun, t.d. eru enn öll fiskiskipin okkar knúin svartolíu og vinnslurnar (bæði á sjó og landi) dæla úrgangi beint út í sjó.

En það jákvæða í þessu öllu er að það er enn ekki of seint að snúa þessari þróun við!

Allavega segja þessir “umhverfissinnar” það,- ó, já og forstjóri Hafró.


Lítil skref í átt að einkavæðingu?

Frétt gærdagsins var að ríkið væri búið að kaupa hlut Akureyrar og Reykjavíkur í Landsvirkjun. Í samningnum kemur fram að ef til einkavæðingar kemur, mun kaupverðið verða endurskoðað. Gefur þetta ekki til kynna að Sjálfstæðismennirnir í stjórn Akureyjarbæjar og Reykjavíkur viti eitthvað meira en við?

Með því að taka nógu mörg lítil skref, sem erfitt er að gera athugasemdir við, eru Sjálfstæðismenn að verða búnir að einkavæða fiskistofnana í kringum landið. Eru þeir á sömu vegferð með raforkuna?
Mörg lítil skref… og það eina sem Samfylkingin kvartar undan er að verðið var ekki nógu hátt.


Framtíðaraflið eða framsóknarmennskan?

Það var fullt af orðum, en lítið nýtt í hinni svokölluðu vitrænu byggðastefnu Samfylkingarinnar sem leiðandi stjórnmálaafls framtíðarinnar, a.m.k. eins og hún var kynnt í grein þingmannsins Björgvins G. Sigurðssonar í Vaktinni þann 8. september 2005.

Í greininni talar Björgvin um það sem hann vill gera í draumsýninni um nýja byggðastefnu Samfylkingarinnar.  Þar nefnir hann nútímalegar og öruggar samgöngur, háhraðanettengingu og aðgang að framhaldsskóla og háskólamenntun úr heimabyggð.  Svo talar hann fjálglega um uppbyggingu sérhæfðs háskóla á Suðursvæðinu, með starfsstöðvar í Vestmannaeyjum, Hornafirði, Reykjanesbæ og Selfossi.

Eftir lestur greinarinnar veltir maður fyrir sér hvar þingmaðurinn hefur verið að undanförnu. Hverju hefur framsóknarmennskan áorkað, á meðan hið “leiðandi framtíðarafl” hefur verið viðsfjarri? Rennum aðeins yfir óskalista þingmannsins.

  • Nútímalegar og öruggar samgöngur.

Á árunum 2007-2010 verður 15 milljörðum varið til framkvæmda i vegamálum.  Í Suðurkjördæmi má einna helst nefna tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, 800 milljónir í hringveg um Hornafjarðarfljót, nýja vegtengingu yfir Hvítá í Árnessýslu og 400 milljónir í Suðurstrandarveg.  Ferðum Herjólfs mun væntanlega fjölga um 120-130 strax á næsta ári og er niðurstöðu um ferjuhöfn í Bakkafjöru eða jarðgöng að vænta.

Ég vil einnig benda þingmanninum á að spjalla aðeins við Eirík Bergmann Einarsson, flokksbróður sinn um reglur er gilda um niðurgreiðslu flugleiða innan Evrópusambandsins og þannig á EES-svæðinu.

  • Háhraðatenging.

Strax á þessu ári verður varið einum milljarði króna til upbyggingar á sviði fjarskipta og 1,5 milljörðum króna árin 2007-2009.  Bætt verður við GSM sendum á hringveginum, auðvelduð dreifing stafræns sjónvarps um gervihnött, og háhraðatengingar byggðar upp á landsbyggðinni.

  • Aðgangur að framhaldsskólum og háskólamenntun úr heimabyggð.

Sjaldan hefur meira framboð verið af menntun á landsbyggðinni.  Háskólinn á Akureyri hefur fyrirlöngu sannað gildi sitt, Viðskiptaháskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskólinn (starfsstöðvar á Hvanneyri, Reykjum og Reykjavík) hafa aldrei boðið upp á fjölbreyttara nám og Háskólinn á Hólum býður upp á nám á heimsmælikvarða í ferðamálum, fiskeldi og hrossarækt.

Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar hafa gjörbylt möguleikum fólks á landsbyggðinni til að stunda sitt nám í heimabyggð, en þær eru nú 9 talsins með starfsemi um allt land.  Í Eyjum eru t.d. um 70 háskólanemar sem stunda fjarnám auk þess sem mikill fjöldi Eyjamanna sækir bæði styttri og lengri námskeið á vegum Visku.

Nú síðast var sett á stofn Háskólasetur Vestfjarða, en stofnun setursins var ein helsta tillagan í vaxtarsamningi Vestfjarða.

Frekar lítið eftir á óskalistanum, eða hvað?
Undir stjórn núverandi ríkisstjórnar hefur byggðastefnan tekið breytingum, þar sem áherslan er á að sameina krafta heimamanna, hins opinbera og atvinnulífs á viðkomandi svæðum til að styrkja undirstöðu þeirra og sérstöðu, með svokölluðum vaxtarsamningum.  Vaxtarsamningur Eyjafjarðar var sá fyrsti, og er nú unnið að gerð vaxtarsamnings fyrir Suðurland og Vestmannaeyjar annars vegar og Austfirði með sérstaka áherslu á Hornafjörð hins vegar.

Markmið með háskólasetrum er að styrkja sérstöðu viðkomandi svæða og hlúa að séreinkennum þeirra, og styðja við atvinnuuppbyggingu á viðkomandi svæðum. Því er  af tillögum Eyjamanna fyrir vaxtarsamning fyrir Suðurland og Vestmannaeyjar að styrkja og efla Rannsókna-og fræðasetur Vestmannaeyja  í rannsóknum á auðlindum hafsins.  Jafnframt er verið að ræða stofnun Háskólaseturs á Suðurlandi sem mundi sérhæfa sig m.a. í ferðaþjónustu, skógrækt og matvælaframleiðslu. Þess konar svæðisbundin háskólasetur gætu styrkt mjög byggð t.d. í Rangárþingum og stutt við áframhaldandi uppbyggingu í Árnessýslu.

Framsóknarmenn munu halda áfram að vinna að því að bæta stöðu hinna ýmsu byggðarlaga, og “framtíðaraflið” hans Björgvins ætti því að einhenda sér í að útbúa nýjan óskalista.


Að vera eða vera ekki… trúverðugur stjórnmálaflokkur?

Eftir að hafa legið undir feldi í sex ár hefur Samfylkingin loksins myndað sér skoðun á náttúru Íslands. Niðurstaðan er merkileg, - flokkurinn er fylgjandi henni, þ.e.a.s. náttúrunni og leggur til að við núverandi aðstæður verði frekari stóriðjuáformum slegið á frest.

Af hverju skyldi flokksforystan vera að skella fram svona yfirlýsingu?

Ef við lítum á þau verk sem liggja eftir Samfylkinguna þá virðist frestun á stóriðjuframkvæmdum ekki hafa verið sérstaklega ofarlega í huga flokksmanna. Fyrir austan er ein stærsta breyting í atvinnulífinu að verða að raunveruleika með byggingu Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðaráls. Samfylkingin stóð sameinuð að Kárahnjúkum og kaus formaður Samfylkingarinnar með þeirri virkjun í borgarstjórn. Án stuðnings Samfylkingarinnar hefði tvöföldun Norðuráls aldrei orðið að raunveruleika á Grundartanga, og nú engjast Samfylkingarmenn í Hafnarfirði yfir því hvernig þeir eigi að geta leyft tvöföldun álversins í Straumsvík, - án þess að þurfa að bera ábyrgð á ákvörðuninni.

Greinilegt er af þessu að Samfylkingin hefur verið í lykilaðstöðu til að slá fyrri stóriðju á frest og er enn í aðstöðu til að slá áformum um stækkun í Straumsvík á frest. Kannski er skýringa að leita í að skoðanakannanir gáfu til kynna að flótti væri hafinn hjá kjósendum Samfylkingarinnar til Vinstri-Grænna og því þyrfti að skapa nýjar leikreglur, - strika yfir allt sem hafði verið gert áður og hlaupast undan ábyrgð.

Er þetta trúverðugt?

Rústum landbúnaðinum
Er það trúverðugt fyrir okkur sem búum á landsbyggðinni að það er allt í lagi að gera e-hv sem tengist stóriðju á Suð-Vesturhorninu, en ef e-hv raunverulegt er gert á landsbyggðinni þá verður allt vitlaust.

Hvar eru blómlegustu byggðir landsins? Borgarfjörðurinn hefur tekið miklum breytingum eftir að álverið á Grundartanga opnaði. Hafnarfjörður hefur stækkað og blómstrað eftir að fyrsta álver landsins var opnað þar og hver og einn sem það vill sjá sér þær stórkostlegu breytingar sem eru að verða í Fjarðabyggð.

Blekið var varla þornað á hinu Fagra Íslandi þar sem áherslan átti að vera á að nýjar atvinnugreinar myndu haldast í hendur við hefðbundnar s.s. landbúnað og sjávarútveg, áður en að formaðurinn var mættur með tillögur um að leggja landbúnaðinn í rúst á næstu tveimur árum. Fella skyldi niður í einum vettvangi öll vörugjöld og alla innflutningstolla á matvæli og núverandi stuðningur við landbúnað afnuminn.

Formaðurinn var varla búinn að sleppa orðinu, fyrr en samflokksmenn hennar Björgvin G. Sigurðsson og Anna Kristín Gunnarsdóttir voru farnir að draga úr orðum hennar. Hversu trúverðugt er það?

Að vera trúverðugur stjórnmálaflokkur
Flokkurinn sem ætlar að leiða ríkisstjórn verður að vera trúverðugur. Hann verður að gera sér grein fyrir að ákvarðanir hans og skoðanir munu hafa áhrif á líf og lífsviðurværi fólks í landinu. Miðað við frammistöðu síðustu vikna virðist mjög langt í að Samfylkingin og formaður hennar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, geri sér grein fyrir þessu.

Því getur Samfylkingin ekki talist trúverðugur stjórnmálaflokkur.

Eygló Harðardóttir


Tilkynning um framboð

Eygló Harðardóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Meginmarkmið Eyglóar er að endurreisa hin klassísku gildi Framsóknarstefnunnar, þar sem áherslan er á öflugt velferðarkerfi, virka byggðastefnu og frjósamt atvinnulíf þar sem leikreglur eru skýrar og eftirlit einfalt og skilvirkt.

Eygló var í 4. sæti á lista Framsóknarmanna fyrir síðustu alþingiskosningar og sat um tíma á Alþingi sem varaþingmaður síðastliðinn vetur. Hún hefur verið mjög virk í starfi á vegum flokksins og er m.a. ritari Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi, fulltrúi í miðstjórn Framsóknarflokksins og gjaldkeri Framsóknarfélags Vestmannaeyja. Eygló hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa á vegum Vestmannaeyjabæjar, m.a. verið aðalmaður í skólamálaráði, setið í stjórn Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja, Visku,- fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar og sem stjórnarformaður Náttúrustofu Suðurlands.

Eygló hefur einnig víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hún er einn aðaleigenda og framkvæmdastjóri þorskeldisfyrirtækisins Þorsks á þurru landi ehf og situr sem fulltrúi þess í stjórn Icecod á Íslandi ehf þar sem hún hefur m.a. verið stjórnarformaður. Í gegnum þessi fyrirtæki hefur Eygló verið einn frumkvöðla í þorskeldi á Íslandi. Eygló er jafnframt framkvæmdastjóri ráðningaþjónustunnar Nínukots ehf. Þá hefur hún sinnt margvíslegum störfum í landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu í kjördæminu.

Eygló er búsett í Vestmannaeyjum með eiginmanni sínum og tveimur dætrum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband