16.11.2006 | 16:43
Sunnlensk matarmenning?
Norræna nýsköpunarmiðstöðin var nýlega í fréttum vegna verkefnis sem þeir eru að ýta úr hlaði. Verkefnið heitir Ný norræn matvæli þar sem ætlunin er að efla hæfni til samkeppni og nýsköpunar í tengslum við matargerðarlist, viðburði, menningu og ferðamennsku.
Suðurland hefur stundum verið nefnt matarkista Íslands, en í framhaldi af þessari frétt fór ég að velta fyrir mér hvort það væri eitthvað til sem héti sunnlenskur matur. Við eigum til SS hangikjöt, skyr.is og hollar og góður gúrkur. En er hugtakið sunnlenskur matur í raun til?
Í hinni margumtöluðu bók Andra Snæs Magnasonar, Draumalandinu, fjallar hann um það sem má kalla nafnleysi íslenskra landbúnaðarafurða. Hann spyr: ”Hvaða afurðir hefur maður borðað sem eru beintengdar einum snillingi? Hvar er Siggi Hall bændastéttarinnar? Einar Már hangikjötsins eða Eiður Smári lambakjötsins? Maður getur spurt sig: Hvert er frægasta býli á Íslandi? Frægasti bóndabær? Margir eru þekktir en þá er það yfirleitt forn frægð. Hlíðarendi, Flugumýri, Oddi.”
Hnattvæðingin hefur aukið eftirspurn eftir sérstökum mat. Mat sem einkennir ákveðinn stað eða svæði. Eftirspurn sem stafar einnig af auknum kröfum um þekkingu á uppruna matvælanna og meðferð þeirra. Það þekkja allir Brie, Cognac, Camenbert, Dijon, Burgundy og Bordeaux í Frakklandi. Allt eru þetta héruð eða borgir sem hafa orðið að heimþekktum vörumerkjum í mat. Þróun vörumerkja þýðir einfaldlega að humar verður ekki bara humar, gallabuxur ekki bara gallabuxur og hamborgari ekki bara hamborgari. Þetta verða New England humar, Diesel gallabuxur og Big Mac hamborgari. Neytendur gera greinarmun og eru oft tilbúnir að greiða hærra verð fyrir viðkomandi vöru. Andri Snær nefnir sem dæmi sauðaost sem hann sá á markaði í Toronto. Kílóverðið á ostinum var 25.000 kr. eða 25 milljónir króna tonnið.
Greinileg merki eru um að þetta sé að breytast. Guðmundur í Víkurskála er farinn að bera fram rjúkandi íslenska kjötsúpu í hádeginu og er fátt vinsælla. Verslunareigandinn á Gömlu Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi býður upp á nýbakað bakkelsi, fersk egg og fagurgrænar gúrkur frá matvælaframleiðendum af svæðinu og vörumerkið Klaustursbleikja hefur verið að ryðja sér til rúms.
Allt þetta er angi af nýrri tegund af ferðaþjónustu sem er sífellt að verða vinsælli, þar sem ferðamaður reynir að upplifa menningu þjóða í gegnum mat og matargerðarlist. Enda alveg ljóst að menn þurfa að borða og stór hluti af tíma hvers ferðamanns fer í að ákveða hvar og hvað skuli borða á ferðalagi. Sama er hægt að segja um fjármuni hvers ferðamanns. Með því að selja matvæli sem eru framleidd á svæðinu til ferðamanna verður meiri gjaldeyrir eftir inni á svæðinu, auk þess sem það skapar atvinnu í formi ýmiss konar þjónustu.
Fyrir nokkru lokaði SS sláturhúsinu á Kirkjubæjarklaustri. Öllu fé er keyrt þaðan í burtu. Menn víða, og þar á meðal ég, veltu fyrir sér hvað væri hægt að gera. Væri einhver möguleiki á að nýta þetta húsnæði í annað? Bent hefur verið á að á svæðinu eru nokkrir mjög stórir og öflugir ferðaþjónustubændur, en nær öll matvæli sem eru í boði eru aðflutt. Mikið stendur til á næstu árum við uppbyggingu Vatnajökulsþjóðgarðar og gera má sterklega ráð fyrir að ferðamönnum muni fjölga á áhrifasvæði hans.
Því tel ég mikla möguleika fyrir sérunnin matvæli á Suðurlandi þar sem aðstaða á svæðinu er nýtt og sú þekking sem er til staðar á framleiðslu matvæla, hvort sem boðið verður upp á rjúkandi Víkurkjötsúpu, Laugarvatnssultu, Gunnarsviskí úr íslenskum humlum og malti frá Rangárþingi eða sérreykta Skaftárpylsu.
Þá má fastlega gera ráð fyrir að frægustu bóndabæirnir á Íslandi verða ekki bara úr sögubókunum!
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2006 | 14:14
Karlrembuverðlaun ársins
Það virðist sem stjórn KSÍ sé komið langt fram úr öðrum keppendum um karlrembuverðlaun ársins. Keppnina hófu þeir glæsilega með því að endurráða ekki Helenu Ólafsdóttur, þjálfara A-landsliðs kvenna í knattspyrnu, eftir að hún dirfðist að benda á mismunun kvenna og karla hjá KSÍ.
Fátt virðist hafa breyst þrátt fyrir vilja styrktaraðila, og hafa menn þar nú jafnvel gengið svo langt að segja upp styrktarsamningi við Íslandspóst til að geta haldið fram þeirri staðreynd að styrktaraðilar karla haldi algjörlega uppi kvennaboltanum.
Þessi fyrirtæki eru auglýst á vefsíðu KSÍ sem “alltaf í boltanum”.
Varla er þetta sú tegund af auglýsingu og umfjöllun sem þau eru að sækjast eftir?
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2006 | 00:30
Nótt safnanna
Enn á ný hefur nótt safnanna sýnt og sannað hversu kröftugt menningarlífið er í Vestmannaeyjum. Menn voru ekkert að láta slæmar veðurspár eða niðurfelldar ferðir Herjólfs stoppa sig og fjölmenntu m.a. á frábæra tónleika lúðrasveitarinnar í Gömlu höllinni, fyrirlestur um garðfugla í Fiska- og náttúrugripasafninu og á létta “pöbbastemmingu” í Vélasalnum fram á nótt.
Frábær hugmynd sem markaðsfulltrúinn Kristín Jóhannsdóttir tók með sér heim frá Þýskalandi og greinilegt að margir bæjarbúar voru ekkert að flýta sér fram úr í morgun.
Aðrir tóku þátt í kosningavökum og lágu yfir tölum úr prófkjöri Sjálfstæðismanna. Var ansi nærri þessu: Árnarnir í fyrstu tveimur, Kjartan og Björk. Því miður náði Guðjón Hjörleifsson ekki þeim árangri sem hann stefndi að né Drífa Hjartardóttir.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri, og ég mættum galvösk í morgun í upptöku á þættinum Fréttaljós þar sem við spjölluðum um niðurstöðu prófkjöranna hjá Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum. Ljóst er að skiptar skoðanir eru á niðurstöðunni, eins og kemur t.d. fram á vef Sjálfstæðismannsins Andrésar Magnússonar og bloggi ritstjórans Péturs Gunnarssonar. Árangur Drífu virðist hafa komið fólki sérstaklega á óvart, eins og kom fram í Silfrinu.
Mitt mat er að þetta sýnir enn á ný að kjósendur eru að senda mjög skýr skilaboð um að þingmenn verði að láta vita hvað þeir séu að gera á þinginu. Ekki er nóg að vinna vel í nefndum, inn á þinginu, eða á bak við tjöldin…
Eða eins og Janet Jackson orðaði það: “What have you done for me lately?”
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2006 | 00:27
Skiptar skoðanir hjá frambjóðendum Samfylkingarinnar
Hlynur Sigmars tjáir sig…
Róbert Marshall tjáir sig…
Hvað gerðum við ef við gætum ekki bloggað?
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2006 | 00:21
Vatnajökulsþjóðgarður
Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, kynnti nú á dögunum frumvarp sem hún hyggst leggja fram um Vatnajökulsþjóðgarð. Þjóðgarðurinn verður sá stærsti í Evrópu og mun þekja um 15.000 km2 sem samsvarar um 15% af yfirborði Íslands.
Þetta er alveg frábært framtak og liggur mikil vinna á bakvið frumvarpinu. Þjóðgarðurinn mun í fyrstu ná til alls jökulsins og helstu áhrifasvæða hans, þ.m.t. Jökulsá á Fjöllum.
Á nýafstöðu kjördæmisþingi Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi var þessu fagnað sérstaklega: “Þing KSFS fagnar því að nú hyllir undir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og hvetur stjórnvöld til að tryggja nægt fjármagn til uppbyggingar og reksturs hans. Jafnhliða stofnun þessa stærsta þjóðgarðs Evrópu verði lagt fjármagn til markaðsrannsókna á áhrifum hans á samfélag og byggð.”
Í grein á visir.is kemur fram að Rögnvaldur Guðmundsson, ferðamálafræðingur telur að þjóðgarðurinn muni fjölga ferðamönnum aukalega um 5-7% árið 2012 og skila um 3-4 milljörðum króna í viðbótar gjaldeyristekjur. Atvinnu- og þjónustutekjur á þeim svæðum sem liggja næst garðinum munu aukast um 1,5 milljarða króna árið 2012.
Athyglisvert er að ekki eru tilgreind nákvæm mörk þjóðgarðsins, þar sem þau munu ráðast endanlega af samningnum við landeigendur og handhafa nytjaréttar. Spurningin er hvort landeigendur á þessu svæði séu búnir að fyrirgefa yfirgang Fjármálaráðuneytisins og óbyggðanefndar í þjóðlendumálinu þar sem skilningurinn á aðstæðum landeigenda hefur því miður ekki verið nægur.
Því er skiljanlegt að traust landeigenda næst jöklinum er ekki mikið… en kannski breytist þetta með nýjum og betri fjármálaráðherra í nýju kjördæmi og meiri nánd við landeigendur almennt?
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2006 | 19:03
Nýsköpun í sveitum
Í fréttum útvarpsins í kvöld var fjallað um nýtt verkefni sem Norræna nýsköpunarmiðstöðin hefur haft frumkvæði að. Það heitir Ný norræn matvæli þar sem ætlunin er að efla hæfni til samkeppni og nýsköpunar í tengslum við matargerðarlist, viðburði, menningu og ferðamennsku. Markmið verkefnisins er að setja í gang 5-6 verkefni sem munu gefa af sér:
Hægt er að lesa meira um þetta hjá Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni.
Áhugi í sveitum á heimavinnslu matvæla hefur verið að aukast og var t.d. haldin ráðstefna um þetta á Hvanneyri. Markaður er að myndast fyrir sérunnin matvæli, þar sem byggt er að sérstöðu viðkomandi svæða og tel ég mikla möguleika á þessu sviði fyrir íslenskan landbúnað og ferðaþjónustu. Hvort sem litið er til þess að bjóða upp á rjúkandi kjötsúpu við Gullfoss, hrútaberjasultu frá Laugavatni, viskí úr íslensku humlum og malti frá Rangárþingi eða sérreykta pylsu frá Kirkjubæjarklaustri.
Því er frábært að sjá þetta framtak hjá Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni, og vonandi munu Íslendingar taka þátt í þessu af krafti.
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2006 | 13:44
Hvenær er maður Eyjamaður?
Það er aldeilis að ein lítil grein um hvenær maður sé Eyjamaður hefur komið við kauninn á mörgum manninum. Tilgangur skrifa minna var að vekja athygli á titlum og skrautfjöðrum sem frambjóðendur í prófkjörum í Suðurkjördæmi skreyta sig með í baráttu sinni fyrir sæti á Alþingi fyrir “heimabyggð” sína.
Víst er það rétt að bæði Lúðvík Bergvinsson og Róbert Marshall eru uppaldir Vestmanneyingar sem hafa ákveðið sér búsetu í Reykjavík. Því neitar enginn. Hins vegar hafa þeir engin bein tengsl við kjördæmið og þar með talið Vestmanneyjabæ með varanlegri búsetu, skólagöngu barna sinna, verslun í heimabyggð að staðaldri o.s.frv.
Því var það einföld ábending til þeirra sem ekki sáu í gegnum Eyjamannastimpilinn á þessum frambjóðendum Samfylkingarinnar að benda á að þeir eigi um margt meira sameiginlegt með t.d. íbúum höfuðborgarsvæðisins en hagsmunagæslu fyrir Suðurkjördæmi. Þessir menn tóku báðir þá ákvörðun að flytja upp á fastalandið, og yfirgefa Suðurkjördæmi. Er það trúverðugt þegar þessir sömu frambjóðendur segja við unga fólkið okkar og okkur hin að við eigum að vinna í heimabyggð og ala upp fjölskylduna þar, þegar þeir sjálfir fluttust á mölina í Reykjavík?
Eru hagsmunir þeirra meiri eða minni um hvort að bætt verði heilsugæslan í Vestmanneyjum eða Reykjavík? Að kennsla verði bætt við Framhaldsskólann á Hornafirði eða í Menntaskólanum í Reykjavík? Það er alveg ljóst að stefna Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi er að okkar unga og efnilega fólk velji að búa í sinni heimabyggð og ala upp sína fjölskyldu þar, - hvort sem það er í Vestmanneyjum, á Flúðum, Hornafirði eða á Reykjanesi.
Það er líka mikill munur á því að neyðast til að flytja frá Vestmannaeyjum um stundarsakir til að sækja sér þjónustu sem ekki er þar í boði, eins og til dæmis námsmennirnir okkar gera, eða kjósa af eigin hvötum að ala upp börnin sín og eyða ævinni annars staðar en í Eyjum.
Að lokum vil ég segja að við erum öll Eyjamenn. Ísland er líka eyja, en það er ekki sama að vera Eyjamaður og að vera brottfluttur Eyjamaður. Ég held að það þætti mörgum frekar fyndið, ef frambjóðandi sem byggi í Kópavogi væri í framboði í Reykjavík og héldi því fram að hann væri sannur Reykvíkingur, uppalinn og hvaðeina en það væri bara svo ofsalega gott að búa í Kópavogi.
Eygló Harðardóttir, búsett í Suðurkjördæmi og býður sig fram í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2006 | 12:00
Snúum við byggðaþróuninni!
Af einhverri ástæðu hefur orðið byggðastefna orðið að ljótu orði í íslensku. Ég skil það hreint ekki – því í mínum huga er alveg klárt að byggðastefna skilar árangri. Við höfum t.d. rekið mjög árangursríka og skilvirka byggðastefnu hérlendis í marga áratugi…
Í REYKJAVÍK!
Um 60% þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu, en þar eru staðsett um 72% opinberra starfsmanna. Uppbyggingin á svæðinu hefur verið gífurleg, sem gerir Reykjavík og nágrenni eitt besta dæmið um að virk byggðastefna skilar úrvalsárangri. Staðsetning opinberra starfa s.s. í stjórnsýslu, mennta-, heilbrigðis- og rannsóknastofnunum skiptir miklu máli til að auka arðsemi viðkomandi svæða.
Byggðastofnun hefur bent á að hvergi, ekki einu sinni á hinum Norðurlöndunum, hafi fólk safnast jafn mikið saman á einu svæði og Stór-Reykjavíkursvæðinu. Til 1970 var íbúaþróun mjög svipuð í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og hér. Ungt og menntað fólk flutti í miklum mæli af landsbyggðinni, oft konur fyrst með börnin og svo karlarnir á eftir. Um 1970 gripu stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum inn í þessa þróun með því að flytja umtalsverðan fjölda opinberra starfa út á landsbyggðina og hafa haldið þeim aðgerðum áfram.
Nú síðast í byrjun þessa árs ákvað sænska ríkisstjórnin að flytja 2.700 störf út á land, þar af sex stofnanir í heilu lagi og hluta 12 annarra. Með þessum aðgerðum hefur að mestu tekist að stöðva þessa þróun. Hér á landi hefur þessi fólksflótti hinsvegar staðið stöðugt, án þess að stjórnvöld hafi gripið til neinna marktækra aðgerða.
Framsóknarflokkurinn með viðskipta- og iðnaðarráðherra fremstan í flokki hefur reynt að snúa við þessari þróun og lagt fram mjög góða stefnumörkun um byggðamál, sem hefur því miður fengið lítinn hljómgrunn hjá samstarfsflokknum. Einna helst hafa ráðuneytin látið sér detta í hug að flytja nokkur láglauna fjarvinnsluverkefni út á land, á meðan við sjáum arfleið Davíðs Oddssonar rísa í flottu hátæknisjúkrahúsi og risastórri brú í miðri Reykjavík.
Við verðum að krefjast af okkar þingmönnum að þeir stoppi þessa þróun. Ég tel mjög mikilvægt þegar nýjar opinberar stofnanir taka til starfa, verði þeim fundinn staður á landsbyggðinni. Ég vil einnig að hvatt verði til nýsköpunar í landinu öllu með því að árlega verði lagðir til tveir milljarðar króna sem áhættufjármagn og að jafnræðis verði gætt á milli landshluta. Styrkja mætti þannig sjávarbyggðir með nýjum atvinnutækifærum og landbúnaðarhéruð gætu haslað sér völl á nýjum sviðum í bland við hefðbundnar búgreinar.
Unga fólkið okkar gæti þannig enn á ný farið að VELJA sér búsetu hérlendis, ekki bara neyðst til að setjast að í Reyjavík eða nærliggjandi sveitarfélögum, vegna starfsins!
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2006 | 10:55
Hvenær er maður Eyjamaður?
Í fréttum RÚV í morgun var sagt að á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi væru þrír Eyjamenn í 6 efstu sætunum. Ég verð að viðurkenna að ég hikstaði aðeins á þessari fullyrðingu.
Af þessu tilefni ákvað ég að setja saman lítið próf til að við gætum betur áttað okkur á hvað það er að vera Eyjamaður.
- Hvar býr viðkomandi?
- Hvert borgar hann útsvar?
- Hvar ganga börnin hans í skóla?
- Hvar verslaði hann síðustu 3 skiptin í matinn?
- Hvar borgar hann fasteignagjöld?
Af þessum 5 einföldu spurningum tel ég að aðeins einn í 6 efstu sætunum geti svarað öllum með Vestmannaeyjar og það er Guðrún Erlingsdóttir. Allt tal um að þrír Eyjamenn séu í 6 efstu sætunum er hreinlega út í hött og ef sú skilgreining á að duga að viðkomandi hafi einhvern tímann búið í Eyjum, held ég að ansi margir “Eyjamenn” séu á listum allra flokka um allt land.
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2006 | 10:11
Besta hrósið!!
Nýja vefsíðan mín hefur fengið ýmis viðbrögð og flest góð. En besta hrósið tel ég mig hafa nú fengið frá Grími Gíslasyni, frambjóðanda í 3.-5. sæti á lista Sjálfstæðismanna.
Kíkið endilega inn á síðuna hans og svo aftur á mína, svo inn á síðuna hans og svo aftur á mína…
Breytt 14.12.2006 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)