Bein markaðssetning

Fór nýlega inn á vefinn courttv.com.  Það er svo sem ekki til frásögu færandi fyrir utan þá staðreynd að British Airways var með auglýsingu á vefnum á ÍSLENSKU.

Framtíðin er greinilega hér og núna í beinni markaðssetningu á vefnum. Banner-auglýsingin hefur “lesið” að ég kæmi frá Íslandi og textinn sem birtist var:

Úr hverju má bjóða þér að drekka?
A. Postulínsbolla á the Ritz?
B. Bjórkrús á the Stanford Bridge?
C. Kristalsglasi á the Savoy?
Smelltu og kepptu um ferð til London

Þetta virkaði svo vel að ég hef nú deilt þessu með ykkur, kæru lesendur.


Þjóðlendumál

Fyrir mánuði síðan vörpuðu þeir Jóhannes Kristjánsson, Þórir N. Kjartansson og Örn Bergsson fram fyrirspurn til frambjóðenda sem sækjast eftir efstu sætum á listum til Alþingiskosninga í vor. Þar fóru þeir fram á að frambjóðendur gerðu grein fyrir skoðun sinni á þjóðlendulögunum og þeim málatilbúnaði sem af þeim hefur leitt. Því er mér ljúft og skylt að tíunda þær skoðanir minar hér.

Hvað varðar lögin sjálf tel ég að sem slík séu þau af hinu góða. Mikilvægt er að færður sé til bókar eignarréttur á landi einkum í ljósi þess að nýtingarréttur auðlinda ýmis konar verður sífellt verðmætari. Þannig er mikilvægt, jafnt fyrir ríkið sem landeigendur aðra að ljóst sé hver eigi land og þær auðlindir sem í því kunna að leynast. Þessu held ég að flestir geti verið sammála, enda voru lögin og síðari tíma breytingar á þeim samþykkt mótatkvæðalaust.

Framkvæmd laganna er hins vegar allt annar handleggur. Þar hefur ríkið farið offari og ég held að fáir átti sig á því hvað fjármálaráðherra gengur til. Ég held að fáir hafi gert sér grein fyrir að gengið yrði fram af jafn mikilli hörku og óbilgirni og raun hefur orðið á og má segja að hér sé um að ræða einhverja mestu eignaupptöku í sögu þjóðarinnar. Því er kaldhæðnislegt að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hingað til hefur litið á sig sem málsvara einstaklingsfrelsis og séreignarréttar skuli ganga fram eins og kommúnistastjórnir í alræðisríkjum á síðustu öld.

Ég tel ljóst að framsóknarþingmenn hafi ekki gert sér grein fyrir því hver framkvæmd laganna yrði í höndum fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og þá er sorglegt að verkaskipting innan ríkisstjórnarinnar skuli vera svo stíf að ráðherrum okkar skuli ekki takast að koma böndum á fjármálaráðherra. Þá má með réttu segja að gullið tækifæri hafi gengið okkur úr greipum þegar við fórum með forsætisráðuneytið, en þá hefði hugsanlega mátt rétta hlut landeigenda.

Þessi afstaða Sjálfstæðisflokksins er líka afar einkennileg þegar hún er skoðuð í samhengi við framgöngu hans í sjávarútvegsmálum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur, frá því kvótakerfið var tekið upp, unnið að því leynt og ljóst að færa eignarrétt á fiskistofnunum kringum landið frá þjóðinni til kvótaeigenda. Þar er litið svo á að nýtingarréttur síðustu 10-20 ára sé í raun ígildi eignarréttar. Þessi sami flokkur hunsar nú ekki bara alda gamlan nýtingarrétt íslenskra bænda heldur einnig þinglýst afsöl sem blekið er vart þornað á. Það er kaldhæðni örlaganna að þeim gjörningi stýri nú fyrrum sjávarútvegsráðherra, Árni Mathiesen.

Mér er fyrirmunað að skilja hví fjármálaráðherra þarf að beita fyrir sig slíkum óþokkabrögðum við að sölsa undir sig eigur íslenskra bænda og þetta er mál sem ég tel mikilvægt að taka upp hið fyrsta á Alþingi. Ef það verður ekki gert fyrir kosningar mun það verða eitt af mínum fyrstu verkum fái ég til þess brautargengi í kosningunum næsta vor.


Orðaleikur Björns

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, reynir með öllum brögðum að komast undan hleranamálinu. Nýjasta útspil hans er að þótt leyfi hafi verið veitt til hlerana og framhaldshlerana sé alls ósannað hvort það hafi verið hlerað. Þetta byggir hann á þeirri staðreynd að meirihluta gagna úr hlerunum hefur verið eytt, - brennt í ruslatunnu og í einhverjum tilfellum eytt að beiðni NATO.

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur var ekki alveg sáttur við þessar skýringar ráðherrans og sagði það ótvírætt að símar hafi verið hleraðir á árunum 1949 til 1968. “Það eru til gögn um það, sem ég vitna meðal annars til í bók minni, sem sýna það ótvírætt að lögreglan hafi hlerað. Árið 1949 og 1951 var úrskurðað um áframhaldandi hleranir og árið 1968 fjölluðu lögreglumenn um að þeir hefðu orðið einhvers vísari við hleranirnar. Út frá þessum upplýsingum finnst mér það hafið yfir allan vafa að hleranirnar hafi farið fram,” segir Guðni í viðtali við Fréttablaðið.

Er ekki kominn tími til að hætta þessum orðaleik?

Viðurkenna hreinlega að hér hafi menn verið stimplaðir óvinir ríkisins án nokkurra sannana. Viðurkenna að íslenskir embættismenn hafi að beiðni erlendra eytt gögnum um hleranir á saklausum íslenskum ríkisborgurum þegar vinstri flokkar tóku við stjórnartaumunum. Viðurkenna að dómsmálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafi gert sitt besta til að hindra að íslenskur almenningur fengi vitneskju um þetta allt saman.

Manni líður svo miklu betur eftir á þegar búið er að létta á samviskunni.


Gott fordæmi er það ekki, góurinn!

Í drögum að fjárlögum sem nú eru til umfjöllunar hjá Alþingi er lögð til hækkun á áfengisgjaldi. Hækkunin er tilkomin samkvæmt Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, vegna fyrirhugaðar lækkunar á virðisaukaskatti á matvæli.

Ég virðurkenni fúslega að persónulega er mér nokk sama þó áfengi hækki, enda lítið verið hrifin af sterkari drykkjum en diet kók og ávaxtate :) … en ég tel þetta ekki vera til fyrirmyndar og slæmt fordæmi fyrir alla þá sem selja eða framleiða matvæli þ.m.t. drykkjarvörur.

Þegar hefur nokkuð borið á hækkunum á matvælum, sem sumir telja vera til komnar vegna fyrirhugaðar lækkunar á vaskinum. Að menn séu að hækka verðin áður en þau lækki og því muni matvælaverð í raun standa í stað, frekar en að lækka til samræmis við verðlag á matvælum á Norðurlöndum eins og stefnt er að.

Hvernig á t.d. talsmaður neytenda geta verið að mótmæla hækkunum þegar ríkisvaldið gengur svona á undan með slæmu fordæmi?


Út með Margréti - inn með öfga hægri menn

Mikið gengur á í Frjálslynda flokknum. Baráttan um atkvæðin og völdin hefur leitt til þess að Margrét Sverrisdóttir, ein síðasta frambærilega konan í flokknum, hefur verið sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri þingflokksins. Ekki er langt síðan spurt var hvar Guðrún Ásmundsdóttir væri.

Væntanlega má rekja uppsögnina til viðbragða Margrétar við útspili þeirra félaga Magnúsar Þórs og Jóns Magnússonar í innflytjendamálum. Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins (sem er væntanlega í minnihluta í þingflokknum gegn bakkabræðrunum Sigurjóni Þórðarsyni og Magnúsi Þór), þarf enn á ný að mæta í fjölmiðla og reyna að draga sem mest úr skaðanum.

Held samt að félagarnir hafa ekki miklar áhyggjur, sérstaklega í ljósi síðasta Þjóðarpúls Gallup/IMG/Capacent, þar sem kemur í ljós að allir öfga hægri mennirnir í Sjálfstæðisflokknum eru búnir að finna nýtt heimili.

Skyldi Björn Bjarnason banka næst upp á?


Krummaskuð eða fallegasti bærinn?

Fréttaflutningurinn hjá Fréttablaðinu af landsbyggðinni getur verið ansi undarlegur, svo ekki meira sé sagt.

Fyrst birtist heilmikill greinarbálki um landsbyggðina þar sem meira segja blómlegustu sveitarhéruð landsins s.s. uppsveitir Árnessýslurnar voru afskrifaðar. Austfirðirnir áttu sér enga framtíð, þar sem mikil fólksfækkun hafði einkennt svæðið á undanförum áratugum, og ekkert tillit var tekið til hinnar miklu uppbyggingar sem er þar nú.

Síðan misstu menn sig aðeins og leyfðu sér að velja fallegasta bæinn, sem reyndist vera Akureyri. Eftir þessa smá jákvæðni í garð landsbyggðarinnar, varð að snúa af villu síns vegar og halda áfram að prédika um hversu ómögulegt allt væri á landsbyggðinni með því að velja mesta krummaskuð landsins.

Sigurvegarinn reyndist vera Reyðarfjörður. Rökstuðningurinn hjá sérfræðingum Fréttablaðsins var að bærinn væri orðinn svona wannabe stórborg, ekki lengur rólegt sveitarþorp. Hin bæjarfélögin fengu síðan sínar tilnefningar vegna þess að þau voru svo róleg sveitarþorp.

Það er greinilega ekki hægt að vinna í þessu máli!


Uppgjör við Íraksstríðið

Um helgina var sat ég mjög góðan miðstjórnarfund hjá flokknum og voru umræður mjög fjörlegar. Hæst bar að sjálfsögðu tímabært uppgjör Jóns Sigurðssonar við ákvörðunina um stuðning við Íraksstríðið.

Innrás í Írak, eða innrás í fullvalda ríki yfir höfuð, hefur aldrei rúmast í stefnu Framsóknarflokksins. Framsóknarmönnum hefur liðið mjög illa með þessa ákvörðun og því fagna ég innilega að ný forysta flokksins skuli hafa kjark og þor til að gera upp þetta mál.

Góð ábending hjá Steingrími Sævarri um að það getur verið vandlifað í þessu heimi.


Vatnajökulsþjóðgarður í augsýn

Ríkisstjórn Íslands samþykkti fyrir skömmu tillögu Jónínu Bjartmars, umhverfisráðherra, að stjórnarfrumvarpi um Vatnajökulsþjóðgarð. Þjóðgarðurinn verður einstakur í heiminum og sá stærsti í Evrópu. Hann mun ná yfir um 15.000 ferkílómetra, sem jafngildir um 15% af yfirborði Íslands. Gert er ráð fyrir að hægt verði að stofna Vatnajökulsþjóðgarð síðari hluta 2007 eða snemma árs 2008.

Þjóðgarðurinn verður ríkisstofnun með sjö manna stjórn, en honum verður svo skipt upp í fjögur rekstrarsvæði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fulltrúar sveitarfélaga, ferðamálasamtaka og umhverfissamtaka skipi svokölluð svæðisráð. Verkefni þeirra verður m.a. að gera tillögu að verndaráætlun og rekstraráætlun fyrir viðkomandi svæði til stjórnar og vera þjóðgarðsverði til ráðgjafar um málefni þjóðgarðsins á svæðinu. Fulltrúar heimamanna verða formenn svæðisráðanna og taka sömuleiðis sæti í stjórn þjóðgarðsins.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu á svæðinu. Þannig verður byggt upp net upplýsinga- og þjónustustaða sem byggjast á þremur einingum, þ.e. gestastofum sem verða meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins, starfsstöðvum landvarða og upplýsingastöðvum. Nú þegar er gestastofa staðsett í Skaftafelli en einnig er unnið að byggingu gestastofu í Ásbyrgi sem stefnt er að því að opna vorið 2007. Til viðbótar er lagt til að fjórar nýjar gestastofur verði reistar, þ.e. ein á hverju rekstrarsvæði þjóðgarðsins. Landvarsla innan marka þjóðgarðsins er nú á fjórum stöðum en lagt er til að staðirnir verði 11 við stofnun hans.

Kostnaður við þessa gríðarlegu uppbyggingu er áætlaður um 1.150 milljónir króna fyrstu fimm árin eftir stofnun þjóðgarðsins. Þannig verður þjónustunetið fullgert árið 2012 og er gert ráð fyrir að þá hafi þjóðgarðurinn fjölgað ferðamönnum til Íslands um 30-40 þúsund manns og aukið gjaldeyristekjurnar um 3-4 milljarða króna. Þá er áætlað að Vatnajökulsþjóðgarður muni auka atvinnu- og þjónustutekjur í sveitunum umhverfis þjóðgarðinn um 1,5 milljarða króna á árinu 2012.

Frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð er gríðarlega mikilvægt skref. En það er aðeins fyrsta skrefið. Í framhaldi af því skiptir sköpum að tryggja nægilegt fjármagn svo hægt verði að reka þjóðgarðinn og halda áfram uppbyggingu hans til lengri tíma. Þá er gríðarlega mikilvægt að sjá til þess að sú þekking og reynsla sem skapast við uppbyggingu þjóðgarðsins haldist í heimabyggð og verði þannig útflutningsafurð við uppbyggingu annarra þjóðgarða hérlendis sem erlendis.

Það er hlutverk sveitarstjórnarmanna og þingmanna Suðurkjördæmis að tryggja að þau geysilegu verðmæti sem felast í Vatnajökulsþjóðgarði skili sér til heimamanna um alla framtíð.


Tvöföldun vegarins yfir Hellisheiði og lýsing Þrengslavegarins!

Á nýafstöðnu kjördæmisþingi Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi var samþykkt harðorð ályktun um mikilvægi þess að tvöfalda veginn yfir Hellisheiðina, þ.e. tvær aðskildar akgreinar verði í hvora átt, en ekki 2 + 1 eins og Vegagerðin vinnur nú að.

Ályktunin var svohljóðandi: “Sú framkvæmd sem nýlokið er við, við breikkun hluta Suðurlandsvegar, verður að teljast algjörlega ófullnægjandi miðað við þann umferðarþunga sem á þessum hluta vegarins er. Því ályktar þing KSFS að strax skuli ráðast í tvöföldun vegarins, þ.e. tvær aðskildar akgreinar verði í hvora átt, austur fyrir Selfoss. Skal þessi framkvæmd ekki koma niður á öðrum vegaframkvæmdum í kjördæminu samkvæmt vegaáætlun heldur vera sértæk aðgerð.”
Umferðarþunginn um Svínahraunið og yfir Hellisheiðina er sífellt að aukast og því skiptir alveg geysilega miklu að ráðast strax í tvöföldunina.

Ég bíð líka spennt eftir að Orkuveitan fari að lýsa upp Þrengslaveginn. Ákvörðun um að setja fjármagn í að lýsa Þrengslaveginn var eitt af síðustu verkum Alfreðs Þorsteinssonar sem stjórnarformaður OR, og nú er að vona að Guðlaugur Þór fari í það verk af sama krafti og hann fór í að starta Hellisheiðarvirkjun.


Hvað er Eyjamatur?

Norræna nýsköpunarmiðstöðin var nýlega í fréttum vegna verkefnis sem þeir eru að ýta úr hlaði. Verkefnið heitir Ný norræn matvæli þar sem ætlunin er að efla hæfni til samkeppni og nýsköpunar í tengslum við matargerðarlist, viðburði, menningu og ferðamennsku.

Í framhaldinu fór ég að velta fyrir mér hugtakinu Eyjamatur. Eyjamenn framleiða gífurlegt magn af matvælum, ætlað til bæði manneldis og sem dýrafóður. Við flytjum árlega út um 10-12% af sjávarafurðum Íslands, og erum mjög stolt af þessu framlagi okkar. Við erum einnig mjög stolt af lundanum okkar, fiskibollunum hans Gríms og réttsælis rollunum í Heimakletti. En er hugtakið Eyjamatur í raun til?

Nú í haust fékk ég stóran hóp af útlendingum í heimsókn til Eyja og vildi endilega bjóða þeim upp á ekta Eyjamat, og niðurstaðan varð lundi. Því miður reyndist lundinn ófáanlegur og því varð úr að bjóða upp á íslenskan þorramat sem vakti mismikla lukku.

Í hinni margumtöluðu bók Andra Snæs Magnasonar, Draumalandinu, fjallar hann um það sem má kalla nafnleysi íslenskra landbúnaðarafurða. Hann spyr: ”Hvaða afurðir hefur maður borðað sem eru beintengdar einum snillingi? Hvar er Siggi Hall bændastéttarinnar? Einar Már hangikjötsins eða Eiður Smári lambakjötsins? Maður getur spurt sig: Hvert er frægasta býli á Íslandi? Frægasti bóndabær? Margir eru þekktir en þá er það yfirleitt forn frægð. Hlíðarendi, Flugumýri, Oddi.” Við þessar spurningar Andra gæti maður bætt við: Hvaðan eru frægustu fiskibollurnar? Eða frægasti humarinn? Hver er sérstaða sjávarafurða frá Eyjum? Hver veit t.d. að Vinnslustöðin er einn stærsti eigandi humarkvóta á Íslandi?

Hnattvæðingin hefur aukið eftirspurn eftir sérstökum mat. Mat sem einkennir ákveðinn stað eða svæði. Eftirspurn sem stafar einnig af auknum kröfum um þekkingu á uppruna matvælanna og meðferð þeirra. Neytendur hafa áhyggjur af þáttum eins og eiturefnum í matvælum, ýmsum sjúkdómum s.s. kúariðu, umhverfinu og dýravernd. Allt þetta hefur æ meiri áhrif á viðhorf neytenda til matvæla. Aðrir þættir sem líka hafa áhrif eru m.a. meiri kaupmáttur, aukin ferðalög, minni tími, fjölbreytt fjölskyldumynstur og auknar kröfur um efnisleg lífsgæði í hinum vestræna heimi.

Það þekkja allir Brie, Cognac, Camenbert, Dijon, Burgundy og Bordeaux í Frakklandi. Allt eru þetta héruð eða borgir sem hafa orðið að heimþekktum vörumerkjum í mat. Á síðustu árum og áratugum hafa fjölmargir reynt að brjótast inn á þennan markað og mörgum orðið þokkalega ágengt og má t.d. nefna ný-sjálenskt lambakjöt, áströlsk og bandarísk vín auk þess sem við stöndum í stöðugu stríði við Norðmenn um hvort besti saltfiskur í heimi sé íslenskur eða norskur.

Þróun vörumerkja þýðir einfaldlega að humar verður ekki bara humar, gallabuxur ekki bara gallabuxur og hamborgari ekki bara hamborgari. Þetta verða New England humar, Diesel gallabuxur og Big Mac hamborgari. Neytendur gera greinarmun og eru oft tilbúnir að greiða hærra verð fyrir viðkomandi vöru.

Í vaxtarsamningi Suðurlands og Vestmannaeyja er einmitt komið inn á þetta. Þar er ein af tillögunum um uppbyggingu þróunar-, markaðs- og sölumiðstöðvar sjávarafurða í Vestmannaeyjum. Markmiðið með tillögunni er að auka vinnslustig og virðisauka sjávarafurða í Eyjum, og nálgast markaði beint. Stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar nefndi þetta einnig sérstaklega á síðasta aðalfundi, hversu mikilvægt það er að skapa sinni vöru sérstöðu s.s. með þróun vörumerkja og stjórnun dreifileiða. Afleiðingu af þessari stefnumörkun fyrirtækisins mátti m.a. sjá í nýlegri fjárfestingu þeirra í fisksölufyrirtækinu About Fish.

Ég er sannfærð um að mikil sóknarfæri liggja í þessu til nýsköpunar og vöruþróunar og auknir möguleikar til að skapa okkur sérstöðu með uppbyggingu á vestmannaeyskri matarmenningu sem mun styðja enn frekar við núverandi matvælaframleiðslu.

Og hver veit, kannski mun ég geta boðið næsta hóp af erlendum gestum upp á Heimaeyjarhumar, Réttsælisrolluost og Tyrkjaránsþara ásamt vonandi lundanum…


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband