Hryllingssaga af raforkumarkaðinum

Undanfarið hafa ýmsir talað fyrir því að einkavæða orkufyrirtækin.  Bent hefur verið á einkavæðingu ríkisbankanna sem fordæmi og þeim rökum haldið fram að með einkavæðingu orkufyrirtækjanna yrði mikill kraftur leystur úr læðingi.

Í Svíþjóð hefur hluti af orkufyrirtækjunum verið einkavæddur á meðan hluti er enn í eigu hins opinbera (sveitarfélaganna).  Hver er árangurinn? Skv. nýrri skýrslu bjóða opinber raforkufyrirtæki að jafnaði 24% lægra verð en einkarekin, og 16% lægra en þau þrjú stærstu.  Gildir það hvort sem litið er til einstaklinga eða fyrirtækja. Hagnaður hinna opinberu er eitthvað lægri en þeirra einkareknu, en svo sem ekkert til að fúlsa við (20-30%).

Reynslan af breyttu lagaumhverfi sem átti að hvetja til aukinnar samkeppni með raforku hefur ekki verið góð í Svíþjóð.  Tveir vísindamenn við KTH lýsa breytingunni sem “skräckexempel”.  Sveitarfélög seldu orkufyrirtækin sín í þeirri trú að það myndi lækka verð til íbúanna.  Fortum, Eon og Vattenfall keyptu, og stækkuðu og stækkuðu.  Verð á rafmagni hækkaði í stað þess að lækka, - eins maður hefði búist við ef virk samkeppni væri til staðar.  Verð á rafmagni hefur aldrei verið hærra, og markaðnum er meira og minna stjórnað af risunum þremur. 

Hljómar þetta kunnuglega?  Árið 2003 voru sett ný raforkulög sem skapa áttu forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku.  Afleiðingin er að verð hefur hækkað og voru það sérstaklega fyrirtæki á landsbyggðinni sem fundu fyrir hækkuninni s.s. í fiskeldi, ferðaþjónustu og landbúnaði.

Ég er sannfærð um að ýmsir viðskiptajöfrar hafa verið að fylgjast með þróuninni í Svíþjóð, yfirlýsingum leiðtoga Sjálfstæðisflokksins og hlakka mikið til næstu einkavæðingar.  Hannes Smárason, Jón Ásgeir Jóhannesson og félagar í FL Group og Glitnir hafa t.d. þegar hafið undirbúninginn með stofnun Geysir Green Energy og hafa fengið Reykjanesbæ (stærsta einstaka sveitarfélagið í Hitaveitu Suðurnesja) með sér.

Er kannski bara tímaspursmál þangað til við fáum almennt hærri rafmagnsreikninga svona í samræmi við hærri bankavexti?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir þennan pistil Eygló. Vinstri græn voru að vísu búin að benda á þessa þróun í mörgum löndum oft og vandlega. En það var einmitt varaformaður þinn hún Valgerður sem fór hvað hæst með stuðningi Sjallanna í einkavæðingarplönum orkufyrirtækjanna. En gott ef sumir eru að sjá að sér núna. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 24.6.2007 kl. 15:21

2 identicon

Frá því að nýju raforkulögin tóku gildi hefur raforka lækkað í verði hér á landi, að teknu tilliti til þróunar vísitölu neysluverðs (raunar hefur verið samið hærra raforkuverð til stóriðju en áður var en það er held ég ekki áhyggjuefni skrifanna hér að ofan). Sú var t.d. niðurstaða verðlagseftirlits ASÍ (sem ríkissjóður kostar) í kringum síðustu áramót. Þessi meinta dæmisaga um stöðuna á Íslandi á því einfaldlega ekki við rök að styðjast.

Gústaf Adolf Skúlason (IP-tala skráð) 24.6.2007 kl. 20:25

3 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Sammála því að varlega verði að fara í þessum efnum, við höfum fordæmin fyrir okkur á öðrum sviðum þar sem hlaupið var af stað án þess að vita hvert ætti að hlaupa. Mér dettur í hug "samkeppnin" á símamarkaðnum, þar sem ómögulegt er að bera saman nokkurn skapaðan hlut því svokölluð vildarkjör ráðast af ótrúlegustu breytum. Þannig get ég ekki skipt við Vodafone í Eyjum, nema borga Símanum fyrir að komast inná kerfið. Þarna hefðu Framsóknarmenn og Sjallar mátt huga að grunn neti símans, eða a.m.k. leggja það niður fyrir sig hvað það væri.  Ég er hálf hræddur um að ef raforkan verði einkavædd þá fylgi grunn netið með, annars vill enginn kaupa.

Guðmundur Örn Jónsson, 25.6.2007 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband