Ótrúlegur Gylfi

Gylfi Arnbjörnsson mætti brattur í viðtal hjá R2 og tilkynnti að ASÍ væri boðið og búið að vinna með öllum og hefði lagt fram tillögur til lausnar efnahagsvandans sem þjóðin glímdi við.  Stjórnmálaöflin væru hins vegar að þvælast fyrir og litu ekki við neinum tillögum frá ASÍ.

Þetta er ótrúlegur málflutningur. 

Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi tekið nánast allar tillögur ASÍ hvað varðar skuldavanda heimilanna og gert þær að sínum.  Dæmi um þetta er að Gylfi Arnbjörnsson stýrði á sínum tíma starfshóp um vanda lántakenda með verðtryggingu á vegum félagsmálaráðuneytisins. 

Jóhanna Sigurðardóttir var þá félagsmálaráðherra og flutti tölu um af hverju væri ekki hægt að leiðrétta verðtrygginguna afturvirkt og byggði það á rökstuðningi Gylfa. Þar sagði hún m.a.: "Að mati hópsins er ljóst að afnám verðtryggingar á lánsfé mundi draga úr skuldum lántakenda en hætt er við ýmsum hliðarverkunum sem kæmu heimilunum í landinu illa. Gagnvart lánveitendum eru alvarleg formerki á því að afnema verðtryggingu lána. Samkvæmt því sem fram kom í starfshópnum liggur fyrir að ef verðtrygging á fasteignalánum til heimila væri felld niður tímabundið, til dæmis frá júní 2008 til júní 2009, mundu tekjur lánveitenda verða 180 milljörðum kr. minni á tímabilinu en ella, ef verðbólguspá Seðlabanka Íslands er lögð til grundvallar."

Áhyggjur þeirra af minnkandi tekjum lánveitenda leiddu til að Gylfi og co lögðu til svokallaða greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, sem þýddi lægri greiðslubyrði en mun hærri heildargreiðslur fasteignaveðlána í stað leiðréttingar á verðtryggingunni eða afnám hennar!

Ríkisstjórnin lagði svo til aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins með sértækri skuldaaðlögun og breytingum á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána, og ASÍ fagnaði.  Lántakendur fengu ekki úrræðin eða afþökkuðu pent.

Í vor lagði ríkisstjórnin til nokkur frumvörp í samræmi við tillögur ASÍ um sértæk skuldaúrræði.  Lög um umboðsmann skuldara, lög um greiðsluaðlögun einstaklinga og  lög um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota. Þúsundum einstaklinga þótti svo mikið um þessi úrræði að þeir fjölmenntu á Austurvöll við þingsetningu og stefnuræðu forsætisráðherra til að láta í ljós "ánægju" sína.

Gylfi Arnbjörnsson hefur aldrei tekið í mál almenna skuldaleiðréttingu, og eyddi töluverðum tíma í að útskýra fyrir okkur Framsóknarmönnum hversu arfavitlaus sú hugmynd væri á fundi sem við áttum með honum.  Hann hefur einnig barist hatrammlega gegn afnámi verðtryggingarinnar enda virðast hagsmunir lífeyrissjóðanna ganga framar öllu.

Sárast er þó að horfa til þess að Gylfi hafði gullið tækifæri til að taka á verðtryggingunni en gerði ekki. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Eygló, eitt ráð vil ég gefa og það er að rökræða ekki við hagfræðinga með hagfræðilegum rökum. Þar eru þeir á heimavelli og munu kaffæra þig með sínum rökum nákvæmlega á sama hátt og ekki er hægt að rökræða við heimskingjann. Betra er að sýna fram á að þeirra útkoma er röng og fá þá til að leiðrétta skekkjuna á sínum forsendum. Þá mun nást niðurstaða sem allir geta unað.Varðandi verðtrygginguna þá felst skekkjan í sjálfri samsetningu vísitölunnar. Fáðu þá til að taka útúr vísitölunni þætti sem stjórnvöld hafa bein áhrif á til hækkunar eða lækkunar svo sem skatta, eldsneyti og vín og tóbak.

Því verðtrygging sem er byggð á réttri mælingu verndar gegn veikum gjaldmiðli fyrst og fremst. Og auðvitað verður að verðtryggja laun og framfærslubætur Lífeyrissjóða og tryggingarstofnunar með sömu vísitölu.  Og einnig verður að setja þak á verðtryggingu langtímalána eins og húsnæðislána. Svona lagfæringar gætu örugglega náðst í gegn því debatið um verðtrygginguna snýst um allt annað en hagfræði, það snýst um hornstein efnahagsstefnunnar og menn grafa ekki undan sjálfum sér eins og allir vita.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 21.10.2010 kl. 16:37

2 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Talandi um verðtryggingu, þá hækkaði virðisaukaskattur hér á Spáni um 1% fyrir skömmu, ég fór í bankann minn og spurði eftir hvort innistæðan mín hefði ekki hækkað líka um 1%.

Spánski bankinn skildi ekkert hvað ég var að meina, botnuðu bara ekkert í að ég taldi mig eiga rétt á verðtryggingu innistæðu minnar, sennilega er ástæðan að þeir eru ekki sleipir í ensku.

ps. heimsmarkaðsverð á olíu var líka að hækka þannig að bensínlíterinn hérna hefur hækkað töluvert, verð sennilega að fara aftur í bankan og reyna að tala smá vit í hausinn á bankanum . . .

Axel Pétur Axelsson, 21.10.2010 kl. 21:59

3 Smámynd: Jón Á Grétarsson

Flottur pistill.

Athyglisvert hvernig Gylfi er að verja aðra en skjólstæðinga sína.

Jón Á Grétarsson, 21.10.2010 kl. 21:59

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Góður pistill hjá þér Eygó.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 21.10.2010 kl. 23:37

5 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Þetta kemur heim og saman við það sem Sigrún Elsa Smáradóttir sagði í maí 2009:

,,Mér finnst það lýsa skýrum vilja að strax í Október á síðasta ári, þegar ljóst var í hvað stefndi setti Félagsmálaráðuneytið af stað starfshóp undir forystu, sjálfs forseta Alþýðusambands Íslands, Gylfa Arnbjörnssonar, til að móta tillögur að aðgerðum til að bregðast við skuldavanda heimilanna. En undir hans forystu fæddist greiðslujöfnunarleiðin, sú leið að gefa fólki kost á að borga minna núna, safna meiri skuldum og lengja í lánum. Ég mætti Gylfa Arnbjörnssyni á opnum fundi hjá Samfylkingunni í Reykjavík þar sem við tókumst á um niðurstöðu nefndarinnar, sem ég taldi þá og tel enn, á engan hátt fullnægjandi. Þar sló forseti ASÍ allar hugmyndir um almennar aðgerðir til leiðréttingar á vísitölu eða til skiptingar á tjóninu, út af borðinu."

http://www.heimilin.is/varnarthing/about/vidburdir/328-raeea-sigrunar-elsu-smaradottur-a-austurvelli-23-mai-2009

Þórður Björn Sigurðsson, 22.10.2010 kl. 01:01

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Satt og rétt. Málið snýst annars vegar um að bjarga heimilum frá sundrungu sem kosta mun fjármagnseigendur að tekjur þærra lækka, eða láta heimilin fara fjandans til svo að fjármagnseigendur geti að minnsta kosti tímabundið haldið áfram að hækka tekjurnar.

Það sem getur flækt málið er að haldið er upp áróðri um að þessir fjármagnseigendur séu ósköp venjulegt skuldlaust fólk.

Hrannar Baldursson, 22.10.2010 kl. 07:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband